Fyrir höfunda

Leiðbeiningar fyrir höfunda fræðilegs efnis

í gildi frá 1. janúar 2023

Efnisyfirlit

 

Inngangur

Læknablaðið er alþjóðlegt vísindarit sem birtir vísindagreinar og annað fræðiefni sem nýst getur íslenskum læknum í starfi. Hér eru leiðbeiningar til að auðvelda höfundum vinnu við ritun, frágang og innsendingu handrita í Læknablaðið.

Ef frekari upplýsinga er þörf má hafa samband við ritstjórnarfulltrúa Læknablaðsins á skrifstofu blaðsins og senda tölvupóst á netfangið ritstjorn@lis.is

Um Læknablaðið

Læknablaðið er fræðirit sem birtir vísinda og yfirlitsgreinar og annað efni sem byggir á rannsóknum innan læknisfræði eða skyldra greina.

Fræðilegt efni Læknablaðsins er skráð í alþjóðlegum vísindagagnagrunnum, Medline (frá 2005), Science Citation Index (frá 2009) og Scopus (frá 2009). Blaðið fylgir reglum Vancouverhópsins um frágang, uppbyggingu og efnistök alþjóðlegra læknatímarita, International Committee for Medical Journal Editors, icmje.org, og alþjóðlegum siðareglum ritstjóra læknatímarita (Committee on Publication Ethics, COPE).

Greinar í Læknablaðinu eru birtar á íslensku og eiga að vekja áhuga lækna og skipta máli fyrir þróun læknisfræði og heilbrigðisþjónustu hér á landi. Jafnframt er horft til þess hvort efnið eigi erindi við aðra lesendur blaðsins, svo sem háskólanema í heilbrigðisvísindum og íslenskan almenning. Fræðigreinar blaðsins geta byggst á eigin athugunum og rannsóknum höfunda eða verið yfirlitsgreinar. Almennt er gerð sú krafa að efnið hafi ekki birst í öðrum vísindaritum. Á þessu eru einstaka undantekningar, til dæmis ef efni erlendrar greinar er talið eiga brýnt erindi við lesendahóp Læknablaðsins eða ef talið er mikilvægt að greinin birtist á íslensku af öðrum ástæðum. Tvíbirting greinar er háð leyfi ritstjórnar Læknablaðsins og verður að liggja fyrir skriflegt samþykki frá ritstjóra blaðsins sem birti greinina fyrst.

Læknablaðið birtir ekki klínískar leiðbeiningar.

Taka skal fram á áberandi stað að um tvíbirtingu sé að ræða og að tilskilin leyfi fyrir henni liggi fyrir.

Málfar og birting fræðigreina á ensku

Greinar í blaðinu eru á íslensku en hverri grein fylgir ágrip á ensku. Í netútgáfu blaðsins eru töflur og myndir jafnframt birtar á ensku. Ritstjórn getur í völdum tilvikum ákveðið að birta grein á ensku í netútgáfu blaðsins, og birtist greinin þá ávallt á íslensku í prentútgáfu blaðsins. Ákveður ritstjórn þá hvort þýðingin og yfirlestur hennar er kostuð af Læknablaðinu eða höfundum.

Mikilvægt er að greinar séu á góðri íslensku og verður að íslenska öll erlend orð og heiti verði því við komið. Hægt er að nálgast Íðorðasafn lækna í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar á heimasíðu stofnunarinnar: ismal.hi.is/ob/uppl/laekn.html. Sé íslenska heitið ekki vel þekkt er alþjóðlega heitið sett í sviga strax í ágripi, komi heitið fyrir þar, og aftur þegar það kemur fyrir í fyrsta skipti í megintexta. Ef ekki er til gott íslenskt heiti er alþjóðaheitið notað og skrifað með skáletri (latneskt eða enskt). Hugtök sem ekki verða íslenskuð með góðu móti er best að skilgreina í stuttu máli og er alþjóðaheitið sett í sviga aftan við skilgreininguna.

Skammstafanir eru ekki notaðar í megintexta og skal skrifa til dæmis í stað t.d. Undantekningar eru viðurkenndar fræðilegar skammstafanir, til dæmis á sjúkdómaheitum (til dæmis MS-sjúkdómur) eða meðferð. Er þá óstytt heiti látið standa á undan skammstöfun þegar hún er notuð í fyrsta sinn í textanum, til dæmis positive endexpiratory pressure (PEEP). Stundum getur útskýring á skammstöfunum þó verið óþörf, til dæmis DNA, RNA og svo framvegis.

Tölur undir 10 eru skrifaðar með bókstöfum í megintexta þegar rætt er um fjölda. Þegar setning byrjar á tölugildi eru tölur þó alltaf skrifaðar með bókstöfum. Tugabrot eru rituð með kommu í  íslenskum texta (0,4 og 10,3), töflum og myndum, en í ensku ágripi, töflum og myndum eru tugabrot rituð með punkti (0.4 og 10.3). Á eftir mælieiningu kemur bil, til dæmis 12 cm, 13 kg/m2.

Lyfjaheiti ber að rita samkvæmt samheitum eins og gert er í Sérlyfjaskrá, til dæmis atenólól, amíódarón og svo framvegis.

Hver kafli greinar skal byrja á nýrri síðu og töflur og myndir standi aftast í handritinu. Myndir skal einnig senda í fullri upplausn sem sérstök jpg-skjöl (sjá síðar).

Hvernig er fræðigrein send til Læknablaðsins?

Hér fyrir neðan er aðgangur að handritakerfi frá ScholarOne. Mörg læknablöð og vísindarit nota þetta kerfi og það skapar faglegri grundvöll fyrir höfunda og ritrýna, og ekki síst fyrir ritstjórn og starfsfólk.

Aðgangur: https://mc.manuscriptcentral.com/laeknabladid

Með fræðigrein þarf að fylgja:

a.         Bréf til ritstjórnar.

b.         Tvö handrit að grein með töflum og myndum, annað með höfundanöfnum, hitt án þeirra.

c.         Höfundayfirlýsing þar sem allir höfundar staðfesta hlutdeild sína í efninu, að efni greinarinnar hafi ekki birst annars staðar og að þeir afsali sér birtingarrétti að texta og myndefni til Læknablaðsins.

d.         Yfirlýsing um hagsmunatengsl höfunda við efni greinarinnar.

e.         Staðfesting á því að tilskilin leyfi séu til staðar fyrir rannsókninni frá vísindasiðanefnd og hlutaðeigandi sjúkrastofnunum eða annarra siðanefnda í viðeigandi tilfellum. Fyrir sjúkratilfelli þarf skriflegt leyfi sjúklings eða forsjármanns fyrir birtingu efnisins.


Bréf til ritstjórnar

Í bréfinu skal koma fram titill greinarinnar og nöfn höfunda. Æskilegt er að greina í stuttu máli frá tilurð rannsóknarinnar, niðurstöðum og sérstöðu, borið saman við aðrar greinar sem birst hafa um efnið. Skýra þarf fyrir ritstjórn af hverju þessi grein á erindi í Læknablaðið. Tilgreina þarf leyfi til rannsókna með númerum, til dæmis frá vísindasiðanefnd (sjá síðar). Einnig er æskilegt að fram komi hvort leitað hafi verið aðstoðar tölfræðings og hvort sérfræðingur í ensku hafi lesið yfir enskt ágrip, töflu og myndatexta. Stundum kjósa höfundar að nefna aðila sem koma til greina sem ritrýnar eða óska eftir að verði ekki valdir sem ritrýnar vegna til dæmis mögulegra hagsmunaárekstra og skal þá  gera það í bréfi til ritstjórnar, helst með netfangi viðkomandi aðila. Þessar upplýsingar er einnig hægt að gefa á ScholarOne. Aðalábyrgðarmaður greinar í ritstjórn tekur ákvörðun um hvort hann nýtir slíkar uppástungur eða ekki. Undir bréf til ritstjórnar skrifar yfirleitt sá höfundur sem annast bréfaskipti við blaðið.

Höfundayfirlýsing

Mikilvægt er að höfundayfirlýsing fylgi með handriti greinar þegar það er sent til blaðsins. Eyðublaðið má finna á heimasíðu Læknablaðsins. Einfaldast er að skanna eyðublaðið með undirskriftum höfunda og senda til blaðsins með tölvupósti, en einnig má senda það í pósti til ritstjórnar.

Mikilvægt er að allir höfundar skrifi undir höfundayfirlýsinguna og staðfesti um leið að þeir hafi tekið þátt í gerð rannsóknarinnar/greinarinnar og á hvaða hátt, til dæmis aflað gagna, skrifað handrit, unnið úr gögnum og svo framvegis. Almennt gildir sú regla að allir höfundar hafi tekið það mikinn þátt í gerð vísindagreinar að þeir geti borið ábyrgð á öllu efni hennar og rætt það opinberlega. Höfundar að grein ættu því einungis að vera þeir sem lagt hafa mikið af mörkum til greinarinnar, það er grunnhugmynd, hönnun og skipulagningu rannsóknar eða túlkun og framsetningu niðurstaðna. Flestir höfundar hafa einnig safnað gögnum eða unnið rannsóknarvinnu, og tekið þátt í ritun uppkasts og lesið yfir handritið. Yfirmenn deildar eða rannsóknarstofu sem hafa ekki að öðru leyti komið að rannsóknarvinnunni, styrktaraðilar og þeir sem einungis hafa tekið lítinn þátt í rannsókninni, ættu ekki að teljast höfundar greinar. Þeim er hins vegar hægt að færa þakkir í lok handrits (sjá síðar).

Í höfundayfirlýsingu verða höfundar einnig að staðfesta að efni greinarinnar hafi ekki birst í öðru vísindariti og að þeir afsali sér birtingarrétti á efni greinarinnar (bæði texta og myndefni) til Læknablaðsins.

Eyðublað um hagsmunatengsl

Þetta eyðublað er hægt að nálgast á heimasíðu Læknablaðsins og verða allir höfundar að tiltaka hvort þeir hafi tengsl við fyrirtæki eða einstaklinga sem gætu haft áhrif á rannsóknina, annaðhvort framkvæmd hennar eða túlkun niðurstaðna. Í vafatilvikum er betra að tilgreina ákveðin hagsmunatengsl og er ritstjórn síðan látið eftir að meta hvort nefna þurfi þessi tengsl með greininni eða ekki. Dæmi um fjárhagsleg tengsl sem höfundar þurfa að tilgreina eru ferðastyrkir frá fyrirtækjum, laun fyrir fyrirlestra, greiðslur fyrir ráðgjöf eða einkaleyfi og er miðað við þrjú ár frá því handritið er sent til Læknablaðsins. Tekið er hart á því ef höfundar láta hjá líða að tilgreina hagsmunatengsl og getur þá komið til þess að að Læknablaðið birti sérstaka yfirlýsingu. Ef engin hagsmunatengsl eru til staðar þarf einnig að tiltaka það á eyðublaðinu.

Undir liðnum Þakkir (sjá síðar) er tilvalið að tilgreina þá sjóði og einstaklinga sem styrktu rannsóknina.

Leyfi

Í bréfi til ritstjórnar verður að koma fram hvort tilskilin leyfi til rannsóknarinnar liggi fyrir, til dæmis frá vísindasiðanefnd eða siðanefnd Landspítala, og yfirmanni eða lækningaforstjóra viðkomandi stofnunar þar sem rannsóknin var unnin. Í bréfi til ritstjórnar verður að tilgreina númer leyfa, en númerin eru ekki birt í blaðinu nema höfundar óski þess sérstaklega.

Þegar um íhlutandi rannsókn á sjúklingum er ræða, þar sem þurfti leyfi siðanefndar, eða þegar þörf er á upplýstu skriflegu samþykki sjúklings sem fjallað er um í sjúkratilfelli, þarf að senda slík leyfi (afrit) bréflega til ritstjórnar. Undirritað samþykki sjúklings þarf fyrir birtingu sjúkratilfella í Læknablaðinu. Ef sjúklingur er látinn eða ófær um að gefa upplýst samþykki, þarf að skýra slíkt í bréfi til ritstjórnar.

Óski höfundar eftir því að birta myndefni sem birst hefur í öðrum vísindaritum verður skriflegt leyfi viðkomandi tímarits fyrir birtingu í Læknablaðinu að liggja fyrir. Slíkt leyfi þarf einnig þótt höfundar beggja greina séu þeir sömu, enda tilheyrir birtingarréttur því blaði þar sem myndin birtist fyrst.

Efnisflokkar í Læknablaðinu

Fræðiefni í Læknablaðinu er birt í nokkrum efnisflokkum sem tilgreindir eru ásamt lengdartakmörkunum í meðfylgjandi töflu.


Leiðari

Yfirleitt eru tvær ritstjórnargreinar í hverju blaði. Þær eru oftast skrifaðar að beiðni ritstjórnar og tengjast efni blaðsins eða málum sem eru í deiglunni hverju sinni. Leiðarar eru birtir undir nafni höfunda og lýsa skoðunum þeirra fremur en ritstjórnar blaðsins, nema annað sé tekið fram. Ritstjórn getur valið að hafna leiðara eða farið þess á leit við höfund að leiðara sé breytt, líkt og á við um annað efni í blaðinu. Leiðarar verða að rúmast á einni síðu og eiga að vera um 650 orð. Lengd ræðst meðal annars af fjölda heimilda, en leyfðar eru allt að 5 heimildir og ekki er gert ráð fyrir myndefni. Fyrirsögn leiðarans þarf að vera lýsandi, ekki of löng (4-7 orð) og þarf að vera á íslensku og ensku þar sem efnið er sent til PubMed.

Vinnustaðar og háskólatengsla skal nú getið bæði á ensku og íslensku.

Mynd af höfundi, sem jpg og í fullum prentgæðum, þarf að senda með leiðaranum.

Vísindagrein

Hér er greint frá eigin athugunum og rannsóknum höfunda, helst rannsóknum sem eru líklegar til að hafa áhrif á greiningu eða meðferð sjúkdóma og sem hafa þýðingu fyrir læknisfræði og lýðheilsu á Íslandi.

Fyrst kemur sérstök titilsíða og skal byrja nýja kafla, til dæmis ágrip, inngang og niðurstöður, á nýrri síðu.

Á titilsíðu skal vera heiti greinar (hámark 15 orð), nöfn og starfsheiti/háskólagráða höfunda, deild og stofnun höfunda, og nafn deildar/stofnunar þar sem rannsóknin var unnin. Einnig þarf að koma fram nafn, aðsetur og netfang höfundar sem sér um bréfaskipti við Læknablaðið og svarar fyrir efni greinarinnar.

Fylgja skulu 4-6 lykilorð á ensku.

Vísindagrein samanstendur af eftirfarandi köflum

 • Ágrip
 • Inngangur
 • Efniviður og aðferðir
 • Niðurstöður
 • Umræða
 • Þakkir
 • Heimildir

Ágrip

Ágripi þarf að skila bæði á íslensku og ensku og skiptist í eftirfarandi kafla; inngang (introduction), efnivið og aðferðir (material and methods), niðurstöður (results) og ályktun (conclusion).

Enska ágripið á að vera efnislega samhljóða því íslenska en þarf þó ekki að vera bein þýðing. Enska ágripinu þarf að fylgja titill greinarinnar á ensku og starfsstöðvar á ensku. Mikilvægt er að vanda til enska titilsins og lykilorða, þar sem þau eru notuð við leit að greininni í leitarvélum eins og PubMed.

Inngangur

Í inngangi er greint frá forsendum rannsóknarinnar og ástæðum fyrir því að hún var gerð, gjarnan með tilvísun í helstu rannsóknir. Helstu rannsóknarspurningar eru kynntar fyrir lesandanum og hvað sé nýtt og einstakt við rannsóknina. Í lok inngangs á að koma skýrt fram hver sé megintilgangur rannsóknarinnar. Inngangur á ekki að vera yfirlitsgrein um efnið. Mikilvægt er að texti inngangs sé stuttur og hnitmiðaður og leiði lesandann beint að megintilgátu rannsóknar með rökvísum hætti.

Efniviður og aðferðir

Útskýrt er hvernig markmiðum rannsóknarinnar var náð. Hér kemur fram lýsing á efniviði rannsóknar, til dæmis sjúklingahópum eða tilraunadýrum. Einnig verður að koma fram hvort viðmiðunarhópur var til staðar og hvernig hann var skilgreindur. Lýsa ber aðferðum, tækjabúnaði (nafn framleiðanda og heimilisfang (borg, land í sviga)) og aðgerðum í nægilegum smáatriðum til að aðrir geti endurtekið rannsóknina. Aðeins þarf að vísa til heimilda um algengar og vel þekktar aðferðir en öðrum aðferðum sem ekki hafa verið birtar eða eru lítt kunnar er lýst stuttlega. Einnig verður að greina frá samheitum á öllum lyfjum og efnum sem notuð voru (sérlyfjaheita má geta innan sviga), skömmtum og hvernig þau voru gefin.

Lýsing á tölfræðiúrvinnslu gagna er mikilvægur hluti kaflans um efnivið og aðferðir. Gæta þarf þess að persónueinkenni sjúklinga komi hvergi fram. Lýst er helstu aðferðum sem notaðar voru við rannsóknina, þannig að lesandinn geti endurtekið útreikninga upp á eigin spýtur. Einnig þarf að geta tölvuforrita sem notuð voru við úrvinnslu gagna. Gæta skal nákvæmni eins og unnt er, án þess þó að tiltaka of marga aukastafi. Þegar við á er æskilegt að gefa upp mæliskekkju eða óvissumörk, til dæmis með staðalfráviki eða öryggismörkum (confidence interval). Í texta um tölfræði skal geta pgildis sem tölfræðilegt marktæki miðast við og rökstyðja val þess í stuttu máli ef þurfa þykir, til dæmis hvort leiðrétt hafi verið fyrir margþættum samanburði (multiple testing). Geta skal þess hvort gögn uppfylli forsendur þeirra tölfræðiprófa sem notuð eru.

Niðurstöður

Niðurstöðum er lýst í rökrænni röð í texta en jafnframt vísað í töflur og myndir, eigi það við. Áherslur beinast að helstu niðurstöðum rannsóknarinnar og reynt að forðast að tvítaka niðurstöður í texta sem lýst hefur verið í töflum eða myndum. Mikilvægt er að allar niðurstöður sem ræddar eru í umræðukafla komi fram í niðurstöðukafla.

Umræða

Í umræðu er mikilvægt að taka saman helstu niðurstöður rannsóknarinnar og bera þær saman við rannsóknir annarra með tilvísun í lykilheimildir. Umræða á að vera hnitmiðuð og fjalla um þýðingu rannsóknar höfunda. Hún á ekki að vera yfirlitsgrein um efnið. Mikilvægt er að fram komi hvað sé nýtt og mikilvægt í niðurstöðunum og hvaða lærdóm megi draga af þeim. Einnig er mikilvægt að nefna takmarkanir og styrkleika rannsóknarinnar. Fullyrðingar í texta verður að vera hægt að rökstyðja með vísun í niðurstöður rannsóknarinnar eða með tilvísun í aðrar rannsóknir. Sjálfsagt er að höfundar komi með ráðleggingar sem byggja á niðurstöðum rannsóknarinnar um greiningu vandamála og meðferð. Einnig er oft æskilegt að taka saman í lokin helstu niðurstöður og um leið benda á tækifæri til frekari rannsókna sem auka þekkingu á efninu eða tengjast frekari prófun rannsóknarspurningar.

Þakkir

Hérna er tilvalið að þakka samstarfsaðilum sem lagt hafa hönd á plóginn við framkvæmd og úrvinnslu rannsóknarinnar en uppfylla ekki þær kröfur sem Læknablaðið gerir til meðhöfunda (sjá að ofan). Oft eru það aðilar sem veitt hafa tæknilega aðstoð, aðstoðað við hluta gagnasöfnunar eða hjálpað til við tölfræðilega útreikninga. Ennfremur er rétt að þakka þeim sem veitt hafa aðgang að tækjabúnaði í þeirra umsjá og greitt götu höfunda, til dæmis yfirmanni deildar. Yfirleitt er ekki ástæða til að þakka aðkeypta aðstoð sem greitt er fyrir fullu verði. Loks er sjálfsagt að geta allra styrkveitinga til rannsóknarinnar og þakka fyrir þær. 

Sjúkratilfelli

Sjúkratilfelli eru fyrst og fremst vettvangur til að kynna fátíða sjúkdóma eða sjaldgæfa birtingarmynd sjúkdóma og meðferð við þeim. Mikilvægt er að tilfellið sé lærdómsríkt og hafi kennslugildi fyrir hinn almenna lækni fremur en þröngan hóp sérfræðinga. Æskilegt er að auðga kynninguna með myndefni, verði því við komið. Sjúkratilfellum er oftast skipt í þrjá kafla, a) ágrip, bæði á íslensku og ensku, b) stuttan inngang, c) tilfellið sjálft og c) umræðu. Í lýsingu á tilfellinu þarf að greina frá birtingarmynd og einkennum sjúklingsins, helstu atriðum í sögu og skoðun, niðurstöðum rannsókna og í hverju meðferðin fólst. Einnig er mikilvægt að nefna hvernig sjúklingnum reiddi af. Í umræðukaflanum þarf að útskýra af hverju þetta tiltekna tilfelli var valið til birtingar. Umræðuna þarf að tengja tilfellinu og draga fram sérstöðu þess með vísun í aðrar rannsóknir eða tilfelli. Koma þarf skýrt fram hvað hægt sé að læra af þessu tilfelli. Sjúkratilfelli mega ekki vera lengri en 2500 orð og ágripið skal ekki vera lengra en 100 orð. Hægt er að birta samtals 3 myndir og/eða töflur og vísa í allt að 15 heimildir. Sjúkratilfellum þurfa að fylgja 4-6 lykilorð á ensku.

Þörf er á upplýstu skriflegu samþykki sjúklings sem fjallað er um í sjúkratilfelli og skal senda slík leyfi (afrit) bréflega til ritstjórnar. Undirritað samþykki sjúklings þarf fyrir birtingu sjúkratilfella í Læknablaðinu. Ef sjúklingur er látinn eða ófær um að gefa upplýst samþykki, þarf að skýra slíkt í bréfi til ritstjórnar.

Tilfelli mánaðarins

Í tilfelli mánaðarins er leitast við að setja sjúkratilfelli upp sem eins konar myndagátu og er myndefni því haft í fyrirrúmi. Titillinn verður að vera opinn og má ekki gefa greininguna. Textinn er tvískiptur. Fyrri hlutinn er stutt lýsing (hámark 150 orð) á tilfellinu, helst með 2 myndum eða töflu með niðurstöðum rannsókna, og endar gjarnan á tillögu að sjúkdómsgreiningu og meðferð. Í síðari hlutanum eru rökstudd svör við spurningum sem varpað var fram í fyrri hlutanum. Þar kemur fram hver greiningin er og helstu mismunagreiningar. Síðan fylgir almenn fræðsla um sjúkdóminn. Sá texti verður að vera stuttur og  tengjast tilfellinu. Einnig er æskilegt að fram komi hvernig sjúklingnum reiddi af. Svarið má ekki vera lengra en 650 orð og leyfðar eru allt að 8 heimildir. Hægt er að óska eftir birtingu myndar með svartexta en þá verður að stytta textann þannig að öll umfjöllunin rúmist með góðu móti á einni síðu. Gefa þarf upp 4-6 lykilorð á ensku.

Þörf er á upplýstu skriflegu samþykki sjúklings sem fjallað er um í tilfelli mánaðarins og skal senda slík leyfi (afrit) bréflega til ritstjórnar. Undirritað samþykki sjúklings þarf fyrir birtingu sjúkratilfella í Læknablaðinu. Ef sjúklingur er látinn eða ófær um að gefa upplýst samþykki, þarf að skýra slíkt í bréfi til ritstjórnar.

Yfirlitsgreinar

Yfirlitsgreinar geta fjallað um margvísleg læknisfræðileg viðfangsefni en markmið höfunda ætti að vera að vekja áhuga lesandans á efninu og glæða skilning á því. Oft er um að ræða samantekt á ákveðnum sjúkdómi, sjúkdómaflokki eða meðferð. Textinn verður að byggja á ritrýndum heimildum og vera gagnreyndur (evidencebased). Mikilvægt er að höfundar geti þess hvernig þeir leituðu heimilda, til dæmis hvernig leitað var í rafrænum gagnagrunnum eins og PubMed og Web of Science.  Yfirlitsgreinar þurfa að höfða til breiðs lesendahóps og mikilvægt er að hagsmunatengsl hafi ekki áhrif á val á heimildum og túlkun þeirra. Æskilegt er að nota millifyrirsagnir og forðast langar setningar. Einnig er mælt með stuttri samantekt á því helsta sem höfundar vilja koma á framfæri í sérstakri málsgrein í lok greinarinnar. Yfirlitsgreinar mega vera allt að 4000 orð og ágripið að auki 200 orð. Heimildir mega vera allt að 50 og töflur og myndir alls 8 talsins. Hægt er að birta fleiri heimildir, töflur og myndir í netútgáfu blaðsins í samráði við ritstjórn.

Bréf til blaðsins

Blaðið er vettvangur fyrir lesendur blaðsins til að tjá sig um ákveðnar greinar eða annað efni sem birst hefur í blaðinu. Mikilvægt er að textinn sé skýr og höfundar komi sér beint að efninu, enda hámarkslengd 500 orð og fjórar heimildir. Ritstjórn tekur ákvörðun um birtingu bréfa sem send eru til blaðsins.

Dagur í lífi/Lipur penni

Þessir tveir pistlar eru hugsaðir á eina síðu, - það gera 500-600 orð hið mesta. Efnistök frjáls og óformleg. Mynd með af höfundi tekin í dagsins önn.

Heimildir

Heimildir eru tölusettar í þeirri röð sem þær koma fyrir í texta og er byggt á sömu framsetningu og í PubMed ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/  Greint er frá nöfnum allra höfunda (einnig íslenskra) samkvæmt enskri ritvenju og allir höfundar tilgreindir, nema ef höfundar eru fleiri en þrír, þá er bætt aftan við þriðja nafnið et al. Næst kemur titill greinar, nafn tímarits sem er oft stytt (sjá nlm.nih.gov), birtingarár, árgangur og blaðsíðutal. Tilvitnanir í bækur eru tilgreindar með höfundi, bókartitli, útgefanda, útgáfustað og útgáfuári. Sé vitnað til greina sem eru samþykktar til birtingar en hafa ekki birst á prenti eða netinu er það tilgreint með nafni tímarits og svo er skeytt við „In press” auk ártals aftast í sviga. Setja skal mánuð og ártal aftan við netsíðu.

Forðast ber tilvitnanir í ágrip, „óbirtar niðurstöður“ og „persónulegar upplýsingar“. Sé það gert skal tilgreina tímasetningar og nafn þess sem veitti upplýsingar og þess getið í texta og eingöngu þar.

Tilvitnanir í munnlegar upplýsingar eru ekki leyfðar.

Töflur og myndir

Myndefni er birt með skýringum á íslensku í prentútgáfu blaðsins. Sérstaklega þarf að gæta þess að persónuauðeinkenni sjúklinga komi hvergi fram á myndum, til dæmis röntgenmyndum.

Töflur

Töflur skulu númeraðar með rómverskum tölum (tafla I, II, IV), settar með 1,5 eða tvöföldu línubili og hver tafla á sér síðu í skjalinu sem geymir greinina. Vísa þarf til hverrar töflu í texta og mikilvægt er að töflutexti sé skýr. Mikilvægt er að töflutexti sé nægilega ítarlegur og lýsandi. Allar skammstafanir þarf að leysa upp og skýra á íslensku. Forðast ber að endurtaka í töflu niðurstöður sem þegar hafa verið nefndar í megintexta og þá aðeins helstu niðurstöður.

Töflur skal útbúa í word-forritunum með tab-merkjum milli talna, þá á blaðið auðvelt með að brjóta þær um.

Hér að neðan er dæmi um töflu.

f05-TX

Myndir

Mikilvægt er að velja myndir af kostgæfni og sýna aðeins helstu niðurstöður á myndrænan hátt. Myndir eru númeraðar með tölustöfum (mynd 1, 2, og svo framvegis) og vísa þarf í hverja mynd í texta. Hverri mynd þarf að fylgja auðskilinn myndatexti sem líkt og töflutexti þarf að vera nægilega ítarlegur og lýsandi. Útskýra þarf mælieiningar og tákn. Áður en til birtingar kemur er útlit mynda oftast lagfært af grafískum hönnuði Læknablaðsins. Æskilegt er að hafa myndir sem einfaldastar, til dæmis sleppa lituðum bakgrunni og bakgrunnsstrikum (grid lines) og forðast þrívídd. Einnig ber að forðast skæra liti, og línur þurfa að vera nægilega breiðar til að sjást.

Skila skal myndum í upprunalegu formi, ekki inni í wordskjali.

Höfundar verða að afla birtingarleyfa frá rétthöfum mynda sem þeir eiga ekki sjálfir og þarf að tiltaka það sérstaklega í myndatexta. Eins og fyrir töflur þarf bæði íslenskan myndatexta, auk merkinga.

Myndir skal senda í 300 pkt upplausn sem jpg, en ekki inni í wordskjali.

Myndir af sjúklingum skulu gerðar ópersónugreinanlegar. Skriflegt leyfi sjúklings þarf fyrir birtingu ljósmynda. 

Dæmi um myndanotkun:

05-figx

f05-figxx


Ferill greinar eftir að hún er send til
Læknablaðsins

Ritrýni og ákvörðun um birtingu 

Eftir að grein berst til Læknablaðsins er metið hvort hún mæti kröfum blaðsins um frágang, lengd og útlit. Geri hún það ekki, er hún send aftur til höfunda. Sé frágangur í samræmi við leiðbeiningar blaðsins, úthlutar ritstjóri henni til tveggja lækna í ritstjórn og ber annar þeirra meginábyrgð og velur ritrýna en hinn er til ráðgjafar gerist þess þörf. Ritstjórnarmenn eru valdir með tilliti til efnis greinar og þekkingar þeirra, um leið og reynt er að forðast hagsmuna og vinatengsl við höfunda. Sömu sjónarmið eru höfð að leiðarljósi við val á ritrýnum, en þeir eru alla jafna tveir til þrír fyrir fræðigreinar. Ritrýnar eru beðnir að skila verkefni sínu innan þriggja vikna. Nafnleyndar er gætt, þannig að ritrýnar sjá ekki hverjir eru höfundar efnis og höfundar vita ekki hverjir ritrýna handrit þeirra.

Ritrýni er oftast send til höfunda og þeim gefinn kostur á svara henni og hafa til þess einn mánuð. Þá skulu höfundar svara rýninni ítarlega, lið fyrir lið, og rökstyðja sín svör ef þeir eru ekki sammála ritrýninum. Þessa greinargerð þarf að senda blaðinu ásamt tveimur nýjum eintökum af handritinu í word-skjali: annað þeirra sé hreint, en í hinu eintaki merktar inn allar breytingar sem höfundar hafa gert. – Ritstjórn leggur þá mat á efnið að nýju og getur kallað til ritrýnana aftur til fara yfir efnið. Lokaákvörðun um birtingu tekur ritstjórnin.

Hafi endurbætt handrit ekki borist blaðinu aftur að mánuði liðnum túlkar ritstjórn það svo að höfundar hafi ekki lengur hug á birtingu greinarinnar í Læknablaðinu. Ákvörðun ritstjórnar um höfnun greinar er endanleg. Höfundar geta þó óskað eftir því með skýrum rökstuðningi að ritstjórn fjalli aftur um grein þeirra, finnist þeim ritrýnin beinlínis röng eða byggð á greinilegum misskilningi. Verður þá að fylgja með skrifleg röksemdafærsla höfunda.

Próförk og prentun

Miðað er við útgáfu blaðsins sem næst fyrsta degi hvers mánaðar og er blaðið sent í prentsmiðju í kringum 20. hvers mánaðar. Viku fyrr þarf allt efni frá höfundum að liggja fyrir.

Greinar eru lesnar og lagfærðar á öllum stigum hjá Læknablaðinu. Þegar höfundar fá fyrstu próförk af grein sinni eru þeir beðnir að lesa hana vandlega og yfirfara sérstaklega vel myndir og töflur, bæði innihald og staðsetningu á síðu. Höfundum gefst tími til að leiðrétta próförkina ef með þarf. Eftir að starfsfólk blaðsins hefur fært inn leiðréttingar fá höfundar aðra próförk til frekari skoðunar og samþykkis. Allt efni blaðsins er sent í prófarkalestur en lokapróförk les ritstjórnarfulltrúi.


Dæmi um frágang heimilda

 

Vísindagrein

 • Sigurðsson S. Um berklaveiki á Íslandi. Læknablaðið 1976; 62: 3-50.
 • Briez N, Piessen G, Bonnetain F, et al. Open versus laparoscopically-assisted oesophagectomy for cancer: a multicentre randomised controlled phase III trial - the MIRO trial. BMC Cancer 2011; 11: 310.

Bækur

 • Jónasson JG, Tryggvadóttir L (ritstj.). Krabbamein á Íslandi – Upplýsingar úr Krabbameinsskrá fyrir tímabilið 1957-2006. Krabbameinsfélagið, Reykjavík 2008.

Netið

 • hagstofa.is - janúar 2023.Þetta vefsvæði byggir á Eplica