12. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

„Í samræmi við hugmyndafræði nýs svæðisskipulags“ segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar um Landspítalalóðina og nágrenni

„Hugmyndafræðin sem birtist í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur, sem byggist á þéttingu byggðarinnar, lifandi borgarumhverfi, auknum hlut almenningssamgangna og að beina skyldri atvinnustarfsemi í ákveðna klasa innan svæðisins, rímar vel við staðsetningu nýs Landspítala við Hringbraut,“ segir Ásdís Hlökk og bætir því við að alltaf séu til staðar valkostir í allri skipulagsvinnu.


„Það er að mínu mati úrelt hugsun í skipulagsmálum að setja stórar stofnanir niður á jaðri
byggðar þar sem þær eru fyrst og fremst aðgengilegar með einkabíl. Það er hugmyndafræði
sem flest samfélög hafa horfið frá í skipulagsmálum og leysir í rauninni engan vanda, en
viðheldur því ástandi sem verið er að reyna að breyta í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins,“
segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar.


„Spítalastarfsemi er í eðli sínu þannig að hún er plássfrek og varðar marga; hún þarf að vera aðgengileg fyrir stóran hóp starfsmanna og mikinn fjölda skjólstæðinga. Þar sem um háskólasjúkrahús er að ræða vegur einnig þungt nálægð og samspil við aðra kennslu- og vísindastarfsemi sem tengist spítalanum, menntun heilbrigðisstarfsfólks og rannsóknir á heilbrigðissviði.“

Í nýjasta aðalskipulagi Reykjavíkur sem nær til ársins 2030 segir um Vatnsmýrarsvæðið: „Annar grundvallarþáttur í atvinnuþróun borgarinnar felst í að til verði klasi menntunar, rannsókna, vísinda og heilbrigðisþjónustu á Vatnsmýrarsvæðinu.” Uppbygging nýs Landspítala á Hringbrautarlóðinni er í samræmi við þetta skipulagssjónarmið og er í rauninni þungamiðja hugmyndarinnar.

„Það er líka mikilvægt að huga að nánari útfærslu byggðarinnar, ekki síst þegar byggt er að gróinni byggð eins og á við um Landspítala við Hringbraut. Það hefur að mínu mati orðið mikil framför í útfærslu fyrirhugaðrar byggðar á þessu svæði burtséð frá því hvaða starfsemi á að fara þar fram. Nánari útfærsla byggðar skiptir alltaf miklu máli, þar sem byggðin mótar umgjörð  um okkar daglega líf. Það er kjarni allrar skipulagsvinnu í þéttbýli. Núverandi skipulagstillögur við Hringbraut falla mun betur að þeirri byggð og starfsemi sem fyrir er í nágrenninu en eldri skipulagstillögur gerðu,“ segir Ásdís Hlökk sem lýsir hlutverki Skipulagsstofnunar sem ráðgefandi samstarfsaðila við sveitarfélögin sem í hlut eiga hverju sinni.

„Skipulagsmálin eru fyrst og fremst á ábyrgð sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en skipulagið er engu að síður háð staðfestingu og eftirliti Skipulagsstofnunar fyrir hönd ríkisins. Ef við skoðum myndina frá hinu stóra til hins smáa þá gengur þetta þannig fyrir sig að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu móta svæðisskipulag í sameiningu og síðan gerir hvert og eitt þeirra aðalskipulag fyrir sig og enn ítarlegra deiliskipulag fyrir tiltekin svæði og uppbyggingarreiti.”


„Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er skyldri atvinnustarfsemi beint í ákveðna klasa
innan svæðisins.“

Þétting byggðar og auknar almenningssamgöngur

Í nýju svæðisskipulagi sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samþykktu fyrr á þessu ári kveður við nokkuð nýjan tón frá eldra skipulagi.

„Nýja svæðisskipulagið horfir yfir farinn veg og hvernig byggðin á höfuðborgarsvæðinu hefur þróast en nú er stillt upp valkostum og spurt hvort við viljum halda áfram að þenja byggðina út eða hvort við viljum halda okkur innan þeirra byggðarmarka sem nú eru til staðar. Eða ætlum við að fara bil beggja? Þessir valkostir eru greindir í þaula með tilliti til byggðarinnar og einnig samgangna. Í samgöngum lýtur þetta ekki síst að áætluðum kostnaði við uppbyggingu innviða til þess að anna þeirri umferð sem spáð er á næstu áratugum. Niðurstaða þessarar vinnu var afdráttarlaus hvað það varðar að marka byggðinni skýr mörk og beina vexti hennar innávið og þétta núverandi byggð. Þetta þýðir að á næstu árum og áratugum erum við að horfa til svæða innan höfuðborgarsvæðisins sem eru auð eða vannýtt, eða tími kominn á endurnýjun bygginga eða svæða þar sem nú er starfsemi sem af einhverjum ástæðum er talin mega víkja.“

Hér er kannski komið að kjarna hinnar nýju hugsunar í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins sem um langan aldur setti einkabílinn í algjöran forgang og þróun byggðarinnar á síðasta fjórðungi 20. aldar tók fyrst og fremst mið af sem helsta ferðamáta íbúanna. „Tilgangur þessarar áherslubreytingar er auðvitað margþættur en er þó ekki síst sá að gefa íbúunum val um ólíka ferðamáta: almenningssamgöngur, hjólreiðar og göngu, auk einkabílsins. Í nýja svæðisskipulaginu er að finna mikilvægar áherslubreytingar sem við höfum ekki séð hérlendis fyrr með jafn afgerandi hætti.“

Áherslubreytingarnar felast ekki hvað síst í því að draga úr notkun einkabíla og leggja aukna áherslu á almenningssamgöngur en með þéttingu byggðarinnar og styttingu vegalengda sem íbúar þurfa að fara til vinnu eða sækja verslun og þjónustu verður raunhæfara að nýta aðra ferðamáta en einkabílinn. „Þetta kallar sannarlega á breytingar í skipulagi almenningssamgangna, gera þær aðgengilegri og ferðir tíðari, sérstaklega á annatímum. Það er einfalt reikningsdæmi að eftir því sem fleiri nota almenningssamgöngur fækkar bílum á götunum og þörfin fyrir aukin umferðarmannvirki eykst því ekki jafnhratt og íbúafjöldi. Í áætlununum sem ná fram til ársins 2040 er gert ráð fyrir að hlutfall einkabíla í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu minnki úr 75% í 58% og þó það sé kannski ekki sláandi minnkun er það verulegt miðað við þá stöðugu aukningu sem átt hefur sér stað frá því um 1980 til dagsins í dag.“



Í nýjasta aðalskipulagi Reykjavíkur sem nær til ársins 2030 segir um Vatnsmýrarsvæðið:
„Annar grundvallarþáttur í atvinnuþróun borgarinnar felst í að til verði klasi menntunar,
rannsókna, vísinda og heilbrigðisþjónustu á Vatnsmýrarsvæðinu.”  

Hugmyndafræði sem horfið er frá

Sett hafa verið spurningarmerki við nægilega gott aðgengi að nýjum Landspítala við Hringbraut og að betra væri að byggja hann annars staðar þar sem aðgengi væri betra.

„Ef svæðis- og aðalskipulag fyrir næstu áratugi væri byggt á sömu hugmyndafræði og eldra skipulag, væri þetta að mínu mati réttmætari gagnrýni. En með breyttum áætlunum um þróun byggðarinnar og samsetningu umferðar eru þetta í rauninni óþarfa áhyggjur að miklu leyti. Það er að mínu mati úrelt hugsun í skipulagsmálum að setja stórar stofnanir niður á jaðri byggðar þar sem þær eru fyrst og fremst aðgengilegar með einkabíl. Það er hugmyndafræði sem flest samfélög hafa horfið frá í skipulagsmálum og leysir í rauninni engan vanda, en viðheldur því ástandi sem verið er að reyna að breyta í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins. Að nokkru leyti virðist gagnrýnin á staðsetningu nýs Landspítala við Hringbraut byggð á því að gagnrýnendur þekkja ekki nægilega vel þær skipulagshugmyndir sem unnið er eftir á höfuðborgarsvæðinu. Umferð til og frá Vatnsmýrarsvæðinu hefur verið rannsökuð um árabil og vandlega skoðað á hvaða tímum álagið er mest og hvernig megi stýra umferðinni þannig að hún gangi sem jafnast fyrir sig. Það er hægt að gera á ýmsan annan hátt en að bæta við akreinum. Og umferðartölurnar gefa ekki tilefni til að fara í miklar fjárfestingar í gatnakerfinu vegna fyrsta áfanga Landspítalans. En það er engu að síður ljóst að á næstu árum munu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þurfa að fara í stórar fjárfestingar í samgöngumálum. En þær verða með aukinni áherslu á almenningssamgöngur og einnig á möguleika íbúanna til að hjóla eða ganga.“


Vorið 2007 var efnt til alþjóðlegrar samkeppni um framtíðarskipulag Vatnsmýrarsvæðisins
án flugvallarins og bárust 136 tillögur. Úrslitin voru birt í febrúar 2008 með veglegri sýningu
og útgáfu bókar með kynningu á öllum tillögum. Myndin sýnir verðlaunatillöguna frá
arkitektastofu Graeme Massie í Edinborg.

Breytt borgarmenning kallar á breyttar áherslur

Gert er ráð fyrir að á næstu 25 árum muni íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um 70.000. „Til að mæta þessari fjölgun þurfum við að hafa húsnæði, atvinnu, verslun og þjónustu og samgöngur í lagi. Ef við héldum sama striki og var síðustu 25 árin myndi einkabílum fjölga jafnmikið. Það hefur verið ákveðið að stefna frekar að því að auka valkosti í ferðamátum innan svæðsins. Þetta er grundvallarstefnubreyting í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins en um leið sambærileg stefna og við sjáum í svipuðum borgum í löndunum í kringum okkur. Það samrýmist ekki best þessum hugmyndum að staðsetja Landspítalann úti á jaðrinum.“


Verðlaunatillagan gerði ráð fyrir skemmtibátahöfn í Nauthólsvík og hér má sjá hugsýn
arkitektanna um sumarstemmningu á bryggjusvæðinu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica