11. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Aðlögunarmál almennra lækna

u11-fig2u11-fig1Við upphaf síðasta starfsárs Félags almennra lækna (FAL) haustið 2011 var lögð áhersla á að leita leiða til að bæta vinnuumhverfi og og vinnuskipulag almennra lækna. Almenn óánægja var í hópi almennra lækna, jafnt kandídata sem deildarlækna, sem kom skýrt fram í starfsumhverfiskönnun mannauðssviðs Landspítala frá 2010. Stöðugur niðurskurður hefur verið þar frá hruni og hefur það komið niður á starfsumhverfi og líðan starfsfólks. Mörgu má breyta til hins betra án mikils tilkostnaðar, eins og að gera gagnlegar upplýsingar aðgengilegar, skilgreina hlutverk almennra lækna og margt fleira. Eitt af því sem FAL lagði áherslu á var að koma á aðlögun fyrir almenna lækna, rétt eins og allar aðrar stéttir Landspítala fá. Almennt hefur ekki tíðkast að veita nýútskrifuðum kandídötum aðlögun við upphaf starfs. Á sumum sviðum hefur almennum læknum verið veitt aðlögun og þá aðallega með þeim hætti að þeir vinni einungis dagvinnu í upphafi en taki vaktir þegar þeir hafa öðlast reynslu á fyrstu vikunum.

FAL gerði óformlega könnun meðal samstarfsstétta á Landspítala varðandi aðlögun. Við það kom í ljós að allar stéttir aðrar en læknar fá launaða aðlögun í upphafi starfs, þar sem tilgangurinn er að kynnast verklagi stofnunarinnar og þeirrar starfseiningar sem viðkomandi vinnur á. Kostir slíkrar aðlögunar eru augljósir, hún tryggir samræmd og rétt vinnubrögð, eykur skilvirkni, eykur öryggi og starfsánægju nýrra starfsmanna og síðast en ekki síst eykur öryggi sjúklinga. Í 14. grein laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er skýrt að vinnuveitanda ber að tryggja viðunandi þjálfun og kennslu starfsmanna sinna.

FAL hóf samstarf við vísinda-, mennta- og nýsköpunarsvið Landspítala í vetur til að vinna að ofannefndum verkefnum. Ýmislegt hefur áunnist en margt er óklárað. Erfiðlega hefur gengið að fá samþykkta aðlögun fyrir almenna lækna með sama móti og aðrar stéttir fá á spítalanum. Vísað hefur verið í fjárskort og niðurskurð. Telja verður þó að fjármunir sem fara í aðlögun skili sér aftur í auknu öryggi og aukinni framleiðni starfsfólks.

Á sjúkrahúsum hérlendis er skipulagið frábrugðið því sem gerist erlendis. Nýútskrifaðir og óreyndir læknar vinna í samstarfi við reyndari deildarlækna og sérfræðinga. Almennir læknar flytjast oft til útlanda til framhaldsnáms fljótlega eftir útskrift, þar sem möguleiki á sérhæfingu hérlendis er ekki til staðar nema á örfáum sviðum. Því myndast stórt skarð milli hinna ungu og óreyndu annars vegar og sérfræðinganna hins vegar. Þetta eykur vinnuálag á alla og gerir tíma til kennslu knappan. Læknisstörfum fylgir mikil ábyrgð. Utan dagvinnutíma hafa kandídatar og deildarlæknar enn meiri ábyrgð og jafnvel stundum of mikla. Sérfræðingar treysta á almenna lækna og því er mikilvægt að hafa vel þjálfað og upplýst fólk „á gólfinu“.

Þegar litið er til ofangreindra röksemda mætti spyrja hvort Landspítali geti leyft sér að slá þessu á frest? Er forsvaranlegt að allar aðrar stéttir en almennir læknar fái aðlögun í starfi? Með öryggi sjúklinga að leiðarljósi – er þetta þá einhver spurning?

Löggjafinn er skýr, vilji almennra lækna er skýr, hver er stefna Landspítalans?



Þetta vefsvæði byggir á Eplica