September blaðið
09. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargreinar
Botnlangabólga – uppáhaldsaðgerð skurðlæknisins. Örvar Arnarson
Skurðaðgerð vegna botnlangabólgu er algengasta bráðaskurðaðgerðin sem framkvæmd er í vestrænum heimi. Í dag er aðgerðin oftast gerð í gegnum kviðsjá, þar sem kviðarholið er fyllt af lofti og einungis gerð þrjú lítil göt í kviðinn. Þessi aðgerð er ein af fyrstu aðgerðunum sem sérnámslæknar framkvæma og keppast þeir gjarnan um að verða fyrstir á skurðstofuna.
Vonir og væntingar til nýs örorku- og endurhæfingarkerfis. Árdís Björk Ármannsdóttir
Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld og þjónustuaðila í nýju kerfi að fylgjast náið með áhrifum breytinganna, meta kosti þeirra og galla og fylgjast með heildarkostnaði. Hlusta á reynslu fagaðila og notenda og hafa hugrekki til að breyta því sem betur má fara. Þannig getur nýja kerfið orðið raunverulegt framfaraskref – og ekki bara vonir og væntingar á blaði. Við skulum ekki bara láta þetta reddast.
Fræðigreinar
Yfirlitsgrein. Botnlangabólga
Botnlangabólgu geta fylgt fylgikvillar á borð við rof og myndun graftarkýla og er því skjót greining mikilvæg. Nákvæm sögutaka og líkamsskoðun eru lykilþættir í greiningu en blóðrannsóknir og myndrannsóknir geta einnig veitt mikilvægar upplýsingar. Ýmis stigunarkerfi hafa verið þróuð til að aðstoða við greiningu botnlangabólgu. Meðferð botnlangabólgu felst fyrst og fremst í skurðaðgerð en einnig kemur til greina að meðhöndla botnlangabólgu eingöngu með sýklalyfjum.
Sjúkratilfelli. Ofhreyfingar í útlimum – óvanaleg birtingarmynd skammvinnrar blóðþurrðar í heila
Hér er lýst tilfelli 79 ára konu sem leitaði til læknis vegna ofhreyfinga í vinstri útlimum þar sem myndgreining sýndi alvarlega þrengingu (nær lokun) í hægri hálsslagæð og dreifð blóðþurrðarsvæði í samsvarandi heilahveli. Einkenni voru talin á grunni blóðflæðiskerðingar til heila, sem kom helst fram þegar konan stóð á fætur, og höfðu aukist með nýlega aukinni blóðþrýstingsmeðferð. Hún fór í hálsæðaraðgerð (carotid endarterectomy) og náði sér vel.