aprílblaðið
04. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargreinar
Líknarmeðferð, þekking og viðhorf meðal almennings á Íslandi. Jón Eyjólfur Jónsson
Á Íslandi og víða í veröldinni umhverfis okkur er vaxandi þungi í umræðunni um það að einstaklingur eigi að geta ákveðið eigið dánardægur, að uppfylltum vissum skilyrðum og oftast er krafist aðkomu, eða að minnsta kosti ábyrgðar læknis. Hér er því margþætt siðferðis,- og siðfræðilegt viðfangsefni. Það er því fengur í könnun á þekkingu almennings á þeim hugtökum sem falla undir þessi mál.
Kjarasamningur lækna frá sjónarhóli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Nanna S. Kristinsdóttir
Það reyndist tímafrekt verkefni að varpa launum lækna yfir í nýja launatöflu. Ungir sérfræðingar fá hlutfallslega mesta launahækkun og þar ræður mestu um hraðari ávinnslu starfsaldurs. Vörpun eldri lækna reyndist meiri áskorun og augljóst að starfsbundnir þættir stofnunarinnar þyrftu að hæfa flestum læknum. Var þar litið til þátta sem ráða miklu um aðgengi að heilsugæslustöðvum og samfellu í þjónustu við skjólstæðinga í anda heimilislækninga.
Fræðigreinar
Rannsókn. Þekking á líknarmeðferð og viðhorf til lífsloka meðal almennings á Íslandi
Á Íslandi er þekkingu almennings á líknarmeðferð ábótavant en hugtakið sjálft er vel þekkt enda hefur sérhæfð líknarþjónusta verið starfrækt á landinu í 35 ár. Það er þó þörf á að bæta þekkingu og efla vitund almennings um tilgang og eðli líknarmeðferðar. Þær aðferðir sem notaðar eru í líknarmeðferð geta bætt líðan og lífsgæði.
Rannsókn. Svipgerðir og faraldsfræði framheilabilunar á Íslandi
Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi og nýgengi framheilabilunar á Íslandi síðastliðna áratugi og að afla frekari upplýsinga um lýðfræði, klínísk einkenni og greiningaraðferðir ásamt því að bera saman svipgerðir sjúkdómsins. Vegna eðlis framheilabilunar verður að teljast líklegt að nánast allir sjúklingar sem greinst hafa með framheilabilun hafi komið í greiningarferli á minnismóttöku Landspítalans eða séu þar í eftirliti á einhverjum tíma. Undirmarkmið var að kanna lyfjanotkun einstaklinga með framheilabilun við sjúkdómsgreiningu.
Sjúkratilfelli. Öndunarbilun vegna COVID-19 lungnabólgu meðhöndluð með lungnadælu(VV-ECMO) – tvö sjúkratilfelli
Hér er lýst tveimur tilfellum áður hraustra karlmanna á miðjum aldri sem veiktust heiftarlega af COVID-19 lungnabólgu. Báðir fengu í kjölfarið alvarlega öndunarbilun þar sem hefðbundin meðferð í öndunarvél dugði ekki til. Var því gripið til meðferðar með lungnadælu og náðu sjúklingarnir fullri heilsu.