Desember blaðið
12. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargreinar
Amöbusýking í hornhimnu: Sjaldgæfur en sjónskerðandi augnsjúkdómur. Jóhannes Kári Kristinsson
Í þessu tölublaði Læknablaðsins kynna Sigurrós Jónsdóttir læknir og félagar afturskyggna rannsókn á nýgengi AK á Íslandi á tímabilinu 1996–2021. Níu tilfelli greindust á þessum tíma, sem samsvarar nýgengi upp á 1,1 á hverja milljón íbúa á ári.
Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2025 – jafnvægislist ónæmiskerfisins. Sólrún Melkorka Maggadóttir
Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 2025 hljóta þau Mary E. Brunkow, Fred Ramsdell og Shimon Sakaguchi fyrir byltingarkenndar uppgvötvanir sínar er lúta að ónæmisþoli í útvefjum. Rannsóknir þeirra, sem taka til nær þriggja áratuga, sýndu fram á virkni og starfsemi T-stýrifrumna (T regulatory cells) og leiddu til uppgvötvunar FOXP3 sem lykilumritunarþáttar þeirra frumna. Þannig þróuðust rannsóknir þeirra frá því að kanna sjálfsónæmi yfir í áhrifamestu uppgvötvanir innan ónæmisfræði á síðustu árum.
Fræðigreinar
Rannsókn. Amöbusýkingar í hornhimnu á Íslandi á árunum 1996-2021
Hornhimnusýking af völdum Acanthamoeba er sjaldgæfur sjúkdómur sem oftast er tengdur við linsunotkun. Töf á greiningu og meðferð, mögulegar samsýkingar og þol amöbunnar gegn lyfjameðferð geta valdið varanlegri sjónskerðingu. Markmið rannsóknarinnar var að meta nýgengi amöbusýkinga í hornhimnu á Íslandi síðastliðin 25 ár, greina helstu áhættuþætti og áskoranir í greiningu og meðferð, en ekki síst varpa ljósi á möguleg sóknarfæri.
Yfirlitsgrein. Nýjar áherslur í meðferð fótaóeirðar – dópamínvirk lyf á útleið
Algengustu orsakir fótaóeirðar eru ættlægni og járnskortur. Nýjar leiðbeiningar hafa verið birtar um meðhöndlun fótaóeirðar. Ný sýn er á notkun dópamínörva í fótaóeirð. Ekki er lengur mælt með notkun þessara lyfja. Ef nota þarf þessi lyf ber að stefna á lága skammta yfir takmarkaðan tíma og fræða sjúkling um mögulegar aukaverkanir við langtímanotkun (sérstaklega einkennamögnun). Mikilvægi járns hefur komið í meingerð og meðferð sjúkdómsins. Ef viðkomandi hefur ferritín í blóði undir 75 ng/mL er mælt með járnmeðferð um munn eða í æð til að hækka ferrritíngildið yfir 100 ng/mL. Ofannefndar leiðbeiningar hjá einstaklingum með fótaóeirð eru aðrar en hjá almennu þýði. Mælt er með notkun gabapentíns eða pregabalíns sem fyrstu meðferð ef járnbirgðir eru góðar. Í þessari grein verður farið yfir einkenni, orsakir og nýlegar leiðbeiningar um meðferð fótaóeirðar.
Tilfelli mánaðarins. Sameinandi greining – að sjá skóginn fyrir jólatrjám
Hér er lýst sjúkratilfelli 72ja ára konu með þekktan astma og endurteknar kinnholubólgur til margra ára, auk einkenna ertings í stórum loftvegum, hæsi og hósta. Hún hafði haft meðferð með langvirkandi beta-örvum og sterum í formi innúða. Sex mánuðum fyrir komu á sjúkrahús hafði hún versnandi einkenni astma, fengið ítrekaða kúra með sýklalyfjum og sterum. Hún hafði mikil eymsli framanvert á brjóstkassa við hósta.
