09. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Menntunin er mikilvægust. Viðtal við þrjá fyrrum formenn LÍ

Þeirri hugmynd skaut upp þegar væntanlegt 90 ára afmæli Læknafélagsins bar á góma í fyrravor að gaman væri að fá þrjá fyrrverandi formenn félagsins til að spjalla og rifja upp starfið í þágu félagsins. Þorvaldur Veigar Guðmundsson, Tómas Árni Jónasson og Sverrir Bergmann tóku allir vel í hugmyndina en það reyndist ekki einfalt að finna tíma þar sem allir þrír voru á lausu. Það kom í ljós að þrátt fyrir virðulegan aldur eru þeir sífellt á ferð og flugi bæði heima og erlendis, frískir og skarpir, og Sverrir stundar enn lækningar á stofu sinni í Domus Medica.

Þorvaldur, Tómas og Sverrir slá á létta strengi.

Allir hafa þeir gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum á starfsferli sínum sem ekki verða tíunduð hér utan hvenær þeir gegndu stjórnar- og formennskustörfum fyrir Læknafélag Íslands.

Tómas Árni var formaður Læknafélags Íslands árin 1975-1979, Þorvaldur Veigar tók við af honum og var formaður til ársins 1985 og Sverrir tók sæti í stjórn Læknafélagsins 1984 og gegndi formennsku árin 1991-1997. Samanlagður stjórnar- og formennskutími þeirra þriggja spannar því vel á þriðja áratug og gott betur ef farið væri nánar í saumana á öllum störfum þeirra í þágu félagsins í gegnum tíðina.

Launamál lækna hafa verið í brennidepli á þessu sumri og því ekki að furða að umræðan snúist í fyrstu um launamál. Þeir rifja upp launadeilu frá árinu 1981 þar sem allir starfandi sérfræðingar á Landspítala og Borgarspítala sögðu upp starfi sínu. „Við höfðum engan verkfallsrétt og þetta var eina leiðin í stöðunni. Fjármálaráðherra, Ragnar Arnalds, neitaði að tala við okkur í fyrstu en gaf sig á endanum en þá vildi hann ekki ræða neinar breytingar á grunntöxtum. Við samþykktum það en ekki voru allir sáttir í okkar hópi,“ segir Þorvaldur sem var formaður á þessum tíma. „Félagið kolfelldi síðan samning sem var lagður fyrir og þá þurfti að fara aftur að borðinu og á endanum hafðist þetta í gegn. Það náðist nú sitthvað fram en margir voru ekki sáttir.“

„Þetta er sennilega síðasta alvarlega launadeilan sem læknar hafa staðið í við ríkið þar til núna,“ bætir Sverrir við. „Það er nú líka meira en að segja það að fara út í aðgerðir,“ segir Þorvaldur.

Sverrir Bergmann, taugalæknir, formaður LÍ 1991-1997.

 

Launa- og kjaramál

„Árið 1991 stóðum við einnig í kjarabaráttu við ríkið,“ segir Sverrir. „Okkur var legið á hálsi fyrir að rjúfa þjóðarsáttina með kröfum okkar en það var ekki rétt. Í þeim samningum náðist mikilvægur áfangi í lífeyrismálum lækna með hækkun grunnlauna.“

Sverrir rifjar upp skýrslu sem ríkisendurskoðun gerði á launamálum lækna árin 1996-97 í heilbrigðisráðherratíð Sighvatar Björgvinssonar.

„Niðurstaða þeirrar skýrslu var einfaldlega sú að við læknar værum aldrei í vinnunni. Við værum á fullum launum á stofnunum en værum í rauninni að vinna útí bæ og helst á mörgum stöðum í einu. Þetta var mjög heitt mál og Sighvatur hafði sig mjög í frammi um þetta. Þetta hafði þau áhrif að ráðningarsamningum lækna við ríkisspítalana var breytt en þá breyttust launin líka og í framhaldi af þessu verður ákveðin launaþróun sem í rauninni hefur ekki verið ágreiningur um síðan.“

„Fyrr en núna,“ skýtur Tómas inn í.

Þegar litið er yfir aðalfundargerðir Læknafélags Íslands frá liðnum árum og áratugum er ljóst að læknar hafa ávallt verið vel vakandi um heilbrigðismál þjóðarinnar í víðasta skilningi. Spurning er hins vegar hvort læknar og samtök þeirra hafi náð athygli ráðamanna og þjóðarinnar í þeim málum sem helst hafa brunnið á.

„Það hafa orðið svo miklar breytingar á þjóðfélaginu að læknar eru ekki lengur eina stéttin sem hefur haldgóða þekkingu á heilbrigðismálum. Það eru fjölmargir aðrir sem hafa menntun og þekkingu á þeim sviðum. Áður fyrr var sennilega hlustað meira á okkur læknana einfaldlega af þessum ástæðum,“ segir Þorvaldur Veigar.

Þeir eru sammála um að áður hafi meira verið hlustað á einstaklinga í röðum lækna og ákveðnir menn hafi haft talsverð persónuleg áhrif. „Ég gæti nefnt 4-5 menn sem höfðu slík áhrif á síðustu öld. Þeir nutu virðingar og höfðu áhrif langt út fyrir okkar raðir. Vissulega getum við læknar notið virðingar í dag en það er einkenni á sérfræðingaþjóðfélaginu að sífellt fleiri hafa skoðanir á öllum hlutum. Hver og einn hefur minni áhrif fyrir vikið,“ segir Tómas.

Tómas Jónasson, meltingarlæknir, formaður LÍ 1975-1979.

„Vissulega lítur maður yfir farinn veg og spyr sig hvort maður hafi haft einhver áhrif eða ekki. Allar tillögurnar og ályktanirnar sem gerðar hafa verið, hverju hafa þær skilað? Til að meta það þyrfti að fara í mjög nákvæma skoðun. Skipulag, gæðaeftirlit, ráðstöfun fjármuna til heilbrigðismála og fjölmargt fleira er meðal þess sem samtök lækna hafa tjáð sig um. Sumt hefur náð fram að ganga og annað ekki eins og gengur,“ segir Sverrir.

„Það voru gerðar mjög ítarlegar ályktanir og lagðar fyrir ráðuneytið, ár eftir ár,“ segir Tómas. „Ég hygg að það hafi alltaf verið litið á það sem frá okkur kom.“

„Við vildum að ráðuneytisstjóri heilbrigðis-ráðuneytisins væri læknir. Páll Sigurðsson var læknir en eftir að hann lét af störfum hefur ekki verið læknir í þessari stöðu. Við vildum líka að læknar stjórnuðu heilbrigðisstofnunum. Ef ekki einir, þá í samstarfi við aðra í efsta þrepi. Við hvöttum lækna til að mennta sig í stjórnun. Við vildum efla áhrif lækna innan kerfisins og töldum okkur geta gert eins vel og jafnvel betur en aðrir í krafti þekkingar okkar.“

Þorvaldur Veigar Guðmundsson, meinafræðingur, formaður LÍ 1979-1985.

 

Fræðslustofnun lækna

Þeir eru sammála um að þetta hafi ekki gengið eftir eins og ítrustu vonir stóðu til þó vissulega séu læknar í stjórnunarstöðum innan sjúkrahúskerfisins. „Yfirlæknar deilda og sérgreina hafa það líka nokkuð í hendi sér hverju þeir vilja ráða og ég man dæmi þess að þeir hafi látið öðrum eftir að taka ákvarðanir um rekstur deilda af því þeir voru bara uppteknari af öðru,“ segir Þorvaldur. „Þannig töpuðu þeir smám saman völdum. Ég talaði talsvert mikið fyrir því á sínum tíma að innan læknadeildarinnar ætti að taka upp nám í stjórnun og uppbyggingu sjúkrahúsa og heilbrigðiskerfisins. Það var ekkert hlustað á það. Ég talaði líka fyrir því í Félagi yfirlækna að það stæði fyrir námskeiði í stjórnun. Það varð ekkert úr því.“

„Þetta er veikleiki í menntun lækna en hjúkrunarfræðingarnir voru framsýnni og lærðu stjórnun. Læknar hafa sopið seyðið af því.“

„Það er gríðarlega mikilvægt að læknar séu í forystu um þróun heilbrigðismála og að rödd þeirra heyrist vel á hverjum tíma. Það er mikilvægt fyrir samtök lækna að vera vakandi fyrir breytingum og laga sig að þeim þegar það á við en standa á móti ef svo ber undir,“ segir Tómas.

„Ef ég ætti að nefna eitthvað sem ég teldi mikilvægast til framtíðar þá er það að gæðum menntunar íslenskra lækna sé ávallt fylgt til hins ítrasta og en ég vildi gjarnan sjá meiri áherslu á stjórnun og skipulag heilbrigðismála innan grunnnámsins. Það er kannski ekki það sem ungir læknar hafa mestan áhuga á en það er mikilvægt að leggja grunninn strax því þá verður auðveldara að tileinka sér þessa hluti þegar að þeim kemur í starfsferli læknisins,“ segir Sverrir.

„Þessu er ég alveg sammála,“ segir Þorvaldur Veigar og Tómas kinkar kolli.

„Ég tók að mér formennsku í félaginu árið 1975 og þá var aðalmálið uppbygging heilsugæslunnar á landsbyggðinni. Það fór mikill tími og orka í þau mál. Áður en ég varð formaður hafði ég starfað fyrir félagið í fræðslunefnd og hafði mikla ánægju af því starfi. Formennskan snerist mikið um fundahöld og langvinnt pex um alls kyns mál og sem formaður lenti maður oft í því hlutverki að sætta menn og ólík sjónarmið. Þetta var frekar leiðinlegt ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ segir Tómas.

Þorvaldur og Sverrir taka undir þetta. „Það fór mikill tími í alls kyns þannig mál bæði innan félagsins og utan þess.“

Þegar þeir eru spurðir um hvað þeir telji mikilvægast í starfi Læknafélags Íslands á undanförnum áratugum þá nefna þeir allir menntun og fræðslumál. „Þetta er auðvitað mál sem læknar hafa borið fyrir brjósti alveg frá stofnun félagsins og erfitt að setja fingurinn á ártal sem skipti sköpum,“ segir Sverrir. „Þetta er kefli sem maður tekur við og ber áfram til næstu kynslóðar.“

„Það var mikilvægur áfangi árið 1966 þegar náðist inn í kjarasamninga ákvæði um endurmenntun og námsferðir,“ segir Þorvaldur.

„Fræðslustofnun lækna og árlegir Læknadagar eru einnig glæsilegur vitnisburður um þetta,“ segir Sverrir en Fræðslustofnun lækna var stofnuð haustið 1997 en hluti af stofnfé hennar voru fjármunir Sjálfseignarstofnunar Domus Medica sem lögð var niður í árslok 1996.

„Bygging og rekstur Domus Medica er mikilvægur hluti af sögu Læknafélagsins á 7. og 8. áratug síðustu aldar,“ segir Þovaldur en um það má lesa í í sérstöku aukablaði Læknablaðsins sem út kom 1983 (20.6. 1983. 6. tbl).

„Það hafa orðið gríðarlegar framfarir í framhaldsmenntun lækna og nú er svo komið að í ýmsum greinum geta læknar tekið hluta framhaldsnámsins hér heima. Það er mikill kostur en það er jafnframt mikilvægt að ljúka náminu með námsdvöl eða kynningu erlendis til að öðlast víðara sjónarhorn á læknisfræðina,“ segir Tómas.

„Íslensk læknisfræði hefur notið þess hversu víða sérfræðingar okkar hafa menntað sig,“ segir Þorvaldur. „Þetta er einkenni á íslenskri læknisfræði sem styrkir heilbrigðiskerfið okkar.“





 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica