05. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Ákveðið að leggja 25 milljónir í Lækningaminjasafn

Á aðalfundi Læknafélags Reykjavíkur var samþykkt að félagið legði allt að 25 milljónir króna til byggingar lækningaminjasafns í Nesi við Seltjörn. Í samþykkt fundarins er kveðið svo á að upphæðin verði aldrei hærri en sú upphæð sem Læknafélag Íslands kann að leggja fram í sama skyni. Framlagið er háð því skilyrði að Seltjarnarnesbær gangist fyrir uppbyggingu og rekstri lækningaminjasafnsins með þátttöku ríkissjóðs lögum samkvæmt.

Á fundinum urðu líflegar umræður um þessa tillögu en að lokum var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Talsverður tími fundarins fór í lagabreytingartillögur og kynnti Ólafur Þór Ævarsson tillögur lagabreytinganefndar. Voru allar tillögur samþykktar samhljóða þó nokkrar umræður yrðu um orðalag einstakra greina og í stöku tilfellum voru gerðar lagfæringar samkvæmt því áður en breytingin var endanlega samþykkt.

Við stjórnarkjör var farið eftir nýju lögunum og stjórnarmönnum fækkað úr tólf í níu. Úr stjórn gengu þrír og þrír nýir meðstjórnendur voru kjörnir: Þorbjörn Jónsson, Halla Skúladóttir og Elínborg Guðmundsdóttir.

Í afmælisnefnd félagsins vegna 100 ára afmælis LR 2009 voru kosin Ólafur Þór Ævarsson formaður, Óskar Einarsson, Gestur Þorgeirsson, Högni Óskarsson, Magni Jónsson, Halla Skúladóttir, Friðný Jóhannsdóttir, Elínborg Guðmundsdóttir, Hildur Svavarsdóttir og Anna K. Jóhannsdóttir.

Þá var tilkynnt að Þorkell Bjarnason rönt-genlæknir hefði verið valinn heiðursfélagi LR og verður honum afhent viðurkenningarskjal á árshátíð LR 2008.

Fundargerð og ályktanir má sjá á heimasíðu LR, www.lis.is

Ólafur Þór Ævarsson í pontu á aðalfundi LR.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica