Umræða og fréttir
  • 2004-04-u07-fig1

Leikur Hagstofunnar að tölum

 
Í marshefti Læknablaðsins nefnir Hagstofan mismunandi flokkun útgjalda OECD til heilbrigðisþjónustu, svo sem COFOG og SNA flokka. Hvort Ísland eða aðrar þjóðir reyna að fylgja slíkum flokkunarkerfum skiptir ekki meginmáli ef ekki er staðið við vissar grundvallarreglur. Mörgum þjóðum hefur ekki tekist vel til varðandi þann þátt. Á Íslandi hafa stórar öldrunarstofnanir þar sem kostnaður við lækningar og hjúkrun nema ekki helmingi rekstrarkostnaðar verið flokkaðar sem heilbrigðisþjónusta að minnsta kosti að hluta en ekki sem félagsþjónusta eins og reglur herma. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar óháðra starfsmanna OECD sem dvöldust hér meira og minna í tvo mánuði fyrir nokkrum árum var þetta niðurstaðan og reyndum við þó að fara eftir COFOG flokkuninni. Niðurstaða þeirra var að lækka mætti kostnað við heilbrigðisþjónustu sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu um allt að 0,9%. Skýrslu þeirra hefur aldrei verið mótmælt af Hagstofunni. Benda má á að Danir gengu of langt í hina áttina og flokkuðu of margar heilbrigðisstofnanir undir félagsmál. Nú hafa þeir tekið sig á og flokka betur, en hlutfall útgjölda þeirra af vergri þjóðarframleiðslu hækkuðu úr 6,6-8,5% á þessum tíma. Hagstofan hefur ekki gætt þess að gefa út útgjaldatöflu með fyrirvara eins og þeim ber skylda til. Þess vegna verður upphlaup á alþingi og einstakir þingmenn, jafnvel háttsettir fjárveitingamenn alþingis, fara með himinskautum um óráðsíu og lélegan rekstur heilbrigðisþjónustu. Slíkt tal sæmir ekki alþingismönnum. Þetta hefur valdið niðurskurði og versnandi heilbrigðisþjónustu. Ég er sammála niðurstöðu forsætisráðherra sem birti í fjölmiðlum að Hagstofan hafi ekki nægilegar upplýsingar til þess að geta svarað með vissu hvaða lönd eru sambærileg við Ísland og hver ekki. Einnig má benda á niðurstöður hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem fellur að þeim skoðunum sem hér hafa verið settar fram. Niðurstaða starfsmanna OECD eru einu óháðu upplýsingarnar er birtar hafa verið og standast þar til þeim hefur verið hnekkt. En gott er að vita að Hagstofan lofar betri tíð í þessu máli. Áður en farið er út í eina stofnanamyndunina enn um þessi mál sýnist mér einsýnt að ráðuneyti, Hagstofa, TR og landlæknir myndi fastan starfshóp er haldi utan um útgjöld til heilbrigðisþjónustu.


Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica