12. tbl. 90. árg. 2004

Fræðigrein

Tengsl atvinnuleysis og nýgengis örorku á Íslandi 1992-2003

Relationship between rate of unemployment and incidence of disability pension in Iceland 1992-2003

Læknablaðið 2004; 90: 833-6

Ágrip

Tilgangur: Að kanna áhrif atvinnuleysis og gildistöku örorkumatsstaðals á fjölda öryrkja á Íslandi með því að skoða breytingar á nýgengi örorku og umfangi atvinnuleysis ár frá ári á tímabilinu frá 1992 til 2003.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru upplýsingar um kyn, aldur og örorkustig þeirra sem metnir voru í fyrsta sinn til örorku vegna lífeyristrygginga á Íslandi ár hvert á tímabilinu 1992 til 2003 og upplýsingar um fjölda Íslendinga á aldrinum 16-66 ára á sama tíma til að reikna nýgengi örorku. Niðurstöðurnar voru bornar saman við upplýsingar um umfang atvinnuleysis hér á landi.

Niðurstöður: Nýgengi örorku var tiltölulega hátt á árunum 1992 til 1995, var lægra á árunum 1996 til 2002 og hækkaði síðan verulega á árinu 2003. Sterk fylgni er hjá báðum kynjum á milli nýgengis örorku og umfangs atvinnuleysis á landinu á því tímabili sem rannsóknin nær til. Nokkur aukning varð á nýgengi örorku hjá konum frá 1999 til 2000, sem féll í tíma saman við gildistöku nýs örorkumatsstaðals í september 1999, en á sama tíma varð hins vegar sambærileg aukning á atvinnuleysi.

Ályktun: Ekki verður fullyrt að gildistaka örorku­matsstaðals haustið 1999 hafi orðið til þess að auka nýgengi örorku. Fjölgun öryrkja á Íslandi undanfarið hefur sterk tölfræðileg tengsl við breytingar á vinnu­markaði, einkum aukið atvinnuleysi og aukið álag á vinnustað.

Inngangur

Veruleg fjölgun varð á öryrkjum á Íslandi á milli áranna 1996 og 2002 og voru megin skýringarnar taldar vera gildistaka örorkumatsstaðals árið 1999 og breyttar aðstæður á vinnumarkaði með auknum kröfum um vinnuafköst og auknu atvinnuleysi (1). Þarna var skoðað algengi örorku á tveimur tímapunktum, 1. desember árin 1996 og 2002. Atvinnuleysi jókst í upphafi og við lok tímabilsins (2, 3) og aðferðinni við að meta örorku var breytt á miðju tímabilinu. Tilgangur núverandi rannsóknar er að skoða vægi hvors þáttar fyrir sig nánar. Er það gert með því að skoða breytingar á nýgengi örorku og umfangi atvinnuleysis ár frá ári á tímabilinu frá 1992 til 2003.

Örorka vegna lífeyristrygginga er metin á grundvelli laga um almannatryggingar (4). Hærra stig örorku (að minnsta kosti 75% örorka) er metið þeim sem eru á aldrinum 16 til 66 ára og hafa verulega og langvarandi skerðingu á starfsgetu, en lægra örorkustigið (örorka að minnsta kosti 50% en lægri en 75%) er metið þeim sem hafa minna skerta starfsgetu eða verða fyrir umtalsverðum aukakostnaði vegna örorku sinnar. Fyrir 1. september 1999 var hærra örorkustigið metið á grundvelli læknisfræðilegra, fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna (5), en eftir það einungis á læknisfræðilegum forsendum, að jafnaði samkvæmt örorkumatsstaðli (1, 6-9).

Efniviður og aðferðir

Unnar voru úr gögnum Tryggingastofnunar ríkisins upplýsingar um kyn, aldur og örorkustig þeirra sem metnir voru í fyrsta sinn til örorku vegna lífeyristrygginga á Íslandi ár hvert á tímabilinu 1992 til 2003. Aflað var upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda Íslendinga á aldrinum 16-66 ára á sama tíma (2). Þessar upplýsingar voru notaðar til að reikna nýgengi örorku á Íslandi. Einnig var aflað upplýsinga frá Hagstofu og Vinnumálastofnun um umfang atvinnuleysis á Íslandi á árunum 1992 til 2003 (2, 3). Við tölfræðilega úrvinnslu var reiknaður fylgnistuðull Pearsons (10).

Í þeim gögnum sem unnið var með voru hvorki nöfn né kennitölur viðkomandi einstaklinga.

Niðurstöður

Mynd 1 sýnir nýgengi örorku ár hvert hjá konum og körlum á Íslandi á tímabilinu frá 1992 til 2003. Þar sést að nýgengi örorku í heild (bæði örorkustigin samanlögð) var hjá báðum kynjum tiltölulega hátt á árunum 1992 til 1995, það var lægra á árunum 1996 til 2002 og hækkaði síðan verulega á árinu 2003. Hliðstæðar breytingar sjást hvað varðar hærra örorkustigið eitt sér, nema þar sést óvenju mikil hækkun frá 1999 til 2000 hjá konum. Nýgengi lægra örorkustigsins lækkar smám saman hjá körlum fram til ársins 2001, en hækkar lítillega frá 2002 til 2003. Hjá konum lækkar nýgengi lægra örorkustigsins ár frá ári til ársins 2002, en lækkunin er

mest áberandi frá 1998 til 2000. Nýgengi lægra örorkustigsins hækkar síðan nokkuð frá 2002 til 2003.

Mynd 2 sýnir tengsl atvinnuleysis og nýgengis örorku á Íslandi fyrir árin 1992 til 2003. Sambandið er afar sterkt. Pearson fylgni fyrir konur er 0,77 og fyrir karla er hún 0,80, sem telst mjög mikið í félagsvísindalegum rannsóknum. Ef fyrst er litið á samband þessara þátta hjá konum kemur í ljós að umtalsverð aukning varð á nýgengi örorku í heild (bæði örorkustigin samanlögð) í kjölfar mikillar aukningar atvinnuleysis á árunum 1992-95. Síðan lækkaði atvinnuleysisstigið og nýgengi örorku fylgdi nokkuð fast á eftir. Árið 2000, fyrsta árið eftir að nýr örorkustaðall var tekinn í notkun, hækkaði nýgengið hjá konum aðeins en það er þó samfara aukningu atvinnuleysis meðal kvenna það árið. Loks tóku bæði atvinnuleysisstigið og nýgengi örorku stórt stökk árið 2003. Nýgengið varð þá heldur hærra en hæst varð á árinu 1995, þó atvinnuleysið árið 2003 hafi ekki náð alveg samsvarandi hæð og áður. Hjá körlum er sambandið einnig mjög náið utan þess fráviks að nýgengisstigið fór ekki jafn langt niður og atvinnuleysisstigið á árunum 1997-2001. Atvinnuleysið jókst svo stórlega á árunum 2002 og 2003 og nýgengi örorku tók stórt stökk í kjölfarið, árið 2003.

Á heildina litið eru tvær stórar sveiflur í aukningu nýgengis örorku á tímabilinu (1992-1995 og 2003) og báðar tengjast verulegri aukningu atvinnuleysis. Aðrar breytingar frá ári til árs falla nokkuð í skuggann af þessum meginbreytingum og hlýtur hið nána samband nýgengis örorku við þróun atvinnuleysis að vekja athygli.

Aldursdreifing þeirra sem metnir voru í fyrsta sinn til örorku breyttist lítið hjá báðum kynjum á tímabilinu frá 1992 til 2000. Eins og sést á mynd 3 varð hins vegar aukning á örorku hjá konum á aldrinum 21-35 ára 2003, hún minnkaði hjá konum eldri en 50 ára til 2002 en jókst svo aftur stórlega árið 2003. Hjá 16-20 ára varð frekar lítil aukning en hjá 36 til 50 ára konum varð talsverð aukning árið 2003. Nýgengi örorku hjá körlum tók stökk í aldurshópum 36-50 ára og 51-66 ára á árinu 2003. Í eldri hópnum kom það í kjölfar lækkunar sem hafði orðið frá 2000-2002, eins og hjá konum. Breyting nýgengis var frekar lítil í yngstu aldurshópum karla, þó nokkurrar aukningar hafi gætt þar á seinni hluta tímabilsins.

Ef tillit er tekið til mismunandi stærðar aldurshópanna er ljóst að mesta fjölgun einstaklinga með örorkumat á árinu 2003 var hjá konum á aldrinum 26-35 ára og konum sem eru eldri en 51 árs, en hjá körlum fjölgaði mest einstaklingum sem eru 41-50 ára og svo 56-66 ára. Aukningar atvinnuleysis 2002-2003 gætti í öllum aldurshópum, en þó hlutfallslega mest í hópnum 20-34 ára, sem á sér samsvörun í aukningu nýgengis örorku hjá konum það árið, en ekki í sama mæli hjá körlum. Ef atvinnuástand hefur bein áhrif á nýgengi örorku þá má ætla að eldra fólk á vinnumarkaði sé viðkvæmara fyrir atvinnuleysi og auknu álagi vegna aukinna krafna.

Mynd 4 sýnir loks samband milli umfangs langtímaatvinnuleysis á Íslandi og nýgengis hærra örorku­stigsins (75%) á tímabilinu 2000 til 2003. Sambandið er mjög sterkt (Pearson r=0,85) og hin sérstaka aukn­ing á fólki í hærra örorkustiginu á árinu 2003 á sér samsvörun í verulegri aukningu þess fjölda fólks sem hefur verið atvinnulaust í sex mánuði eða lengur.

Umræða

Algengi örorku í heild (bæði örorkustigin samanlögð) á Íslandi hafði ekki aukist árið 1996 í samanburði við árið 1976 (11, 12). Frá 1996 til 2002 hafði algengi örorku hins vegar aukist. Líklegt þótti í fyrri rannsókn að þessa aukningu mætti einkum rekja til breyttra forsendna örorkumats með tilkomu örorku­matsstaðals og breyttra aðstæðna á vinnumarkaði (1). Í kjölfar gildistöku staðalsins 1. september 1999 fjölg­aði konum sem metnar voru til hærra örorkustigsins á árinu 2000, en ekki urðu aðrar marktækar breytingar á fjölda nýrra öryrkja (8, 9). Sú rannsókn náði aðeins fram til ársins 2000.

Í núverandi rannsókn eru skoðaðar breytingar á nýgengi örorku ár frá ári á tímabilinu 1992 til 2003. Nokkur aukning varð á nýgengi hærra örorkustigsins hjá konum frá 1999 til 2000. Þetta fellur í tíma saman við gildistöku örorkumatsstaðalsins í september 1999, en á sama tíma varð hins vegar sambærileg aukn­ing á atvinnuleysi hjá konum. Í því ljósi verður ekki fullyrt að gildistaka staðalsins hafi sem slík orðið til þess að auka nýgengi örorku. Breytt fyrirkomulag örorku­mats skýrir heldur ekki þær breytingar sem urðu að öðru leyti á nýgengi örorku á því tímabili sem núverandi rannsókn nær til. Sveiflur í atvinnuleysi eiga sér sterka samsvörun í breytingum á nýgengi örorku á tímabilinu. Nýgengi örorku var tiltölulega hátt á árunum 1993 til 1995 samhliða mikilli aukningu atvinnuleysis og þegar úr atvinnuleysi dró á næstu árum dró einnig úr nýgengi örorku. Hækkun nýgengis örorku meðal kvenna á árinu 2000, í kjölfar upptöku hins nýja örorkumatsstaðals, á sér einnig samsvörun í aukningu atvinnuleysis meðal kvenna það ár. Loks fylgist að mikil aukning á nýgengi örorku og bæði á atvinnuleysi almennt og langtímaatvinnuleysi hjá báð­um kynjum á árinu 2003.

Sérstaklega athyglisvert er hve sterk fylgni er milli mikillar aukningar atvinnuleysis, umfangs langtímaatvinnuleysis og nýgengis örorku á árinu 2003. Í könnun sem Gallup á Íslandi gerði í október árið 2003 meðal starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 25-65 ára var fólk spurt hvort vinnuálag þess hefði aukist eða minnkað á síðastliðnum 12 mánuðum (13). Það er einmitt tímabilið sem atvinnuleysi var að aukast. Um 44% sögðu að álag í vinnu hefði aukist hjá þeim á síðustu 12 mánuðum, 45% sögðu það hafa staðið í stað og tæp 11% sögðu það hafa minnkað. Það er því hátt í helmingur vinnandi fólks sem segir álag hafa aukist. Þetta ásamt auknu nýgengi örorku á sama tíma styður þá tilgátu að þeir sem veikari eru fyrir á vinnumarkaði geti frekar hafa orðið fyrir þrýstingi sem þeir ekki hafi staðist eða þá að þeir hafi einfaldlega misst vinnu sína og lent í heilsufarslegum erfiðleikum í kjölfarið.

Sterkt tölfræðilegt samband milli þróunar at­vinnu­leysis og nýgengis örorku sem hér hefur verið sýnt bendir til þess að um orsakatengsl geti verið að ræða. Þeir sem búa við skerta færni vegna heilsu­brests eru lík­legir til að hrökklast fyrr úr vinnu en aðrir þegar kreppir að á vinnumarkaði (5, 14, 15) og sækja þá um örorkubætur (15). Langvarandi atvinnuleysi getur auk þess valdið heilsubresti, svo sem þunglyndi og hjarta­sjúkdómum (15-19). Langvarandi atvinnuleysi rýr­ir augljóslega fjárhagslega og félagslega stöðu fólks (18). Jafnframt hefur hjá mörgum þjóðum ver­ið sýnt fram á að heilsufar versnar og dánartíðni eykst í kjölfar tímabila með miklu og langvarandi at­vinnu­leysi (18, 19). Langvarandi atvinnuleysi get­­ur meðal annars leitt til lakara heilsufars og auk­inn­ar dánartíðni með því að stuðla að breyttum lífs­hátt­um með aukinni neyslu áfengis, tóbaks og fitu og hreyfingarleysi. Atvinnuleysi getur valdið kvíða og þunglyndi og það og lakari fjárhagur af þess völd­um geta orðið til þess að draga úr að fólk nýti sér heil­brigðisþjónustu. Þá getur atvinnuleysi skaðað fé­lagslegt stuðningsnet fólks með því að rjúfa tengsl við starfsfélaga og sundra fjölskyldum (18). Loks er þess að geta að atvinnuleysi eykur efnahagslegan ójöfnuð í þjóðfélaginu. Markt bendir til að heilsuleysi og dán­ar­tíðni aukist með auknum ójöfnuði (20). Hvað hér býr á bak við er ekki með öllu ljóst, en leiða má að því líkum að sálfélagslegar ástæður séu mikilvægar engu síður en efnislegar og félagslegar aðstæður (21, 22).

Í Svíþjóð hefur vaxandi örorka meðal annars ver­ið tengd auknu atvinnuleysi (23). Í könnun á högum þeirra sem urðu öryrkjar á Íslandi árið 1997 reyndust 45% þátttakenda einhvern tíma hafa verið atvinnulausir, þar af 35% á undanförnum fimm árum (24). Í Svíþjóð hefur stór hluti öryrkja einnig verið atvinnulaus áður en sótt var um örorkubætur (15).

Þar sem hér er um athyglisverð tölfræðileg tengsl nýgengis örorku og atvinnuleysis að ræða telja höfundar ástæðu til að þessari rannsókn verði fylgt eftir með rannsókn sem greini ítarlega tengsl vinnu og örorku og byggi á sjálfstæðu úrtaki eða langtíma eftirfylgni (panel-hópi).

Vegna þess samspils atvinnuleysis og heilsufars sem hér hefur verið fjallað um er mjög mikilvægt að auka samvinnu vinnumálakerfis og heilbrigðiskerfis þegar atvinnuleysi ber að dyrum, annars vegar til þess að draga úr heilsubresti af völdum atvinnuleysis og hins vegar til að bæta stöðu fólks sem stendur höllum fæti á vinnumarkaði og auka líkur á að það haldi vinnu.

Heimildaskrá

1. Thorlacius S, Stefánsson SB. Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2002. Læknablaðið 2004; 90: 21-5.
2. Heimasíða Hagstofu Íslands: www.hagstofa.is
3. Heimasíða Vinnumálastofnunar: www.vinnumalastofnun.is
4. Lög um almannatryggingar nr. 117/1993 með síðari breytingum.
5. Thorlacius S, Stefánsson S, Ólafsson S. Umfang og einkenni örorku á Íslandi árið 1996. Læknablaðið 1998; 84: 629-35.
6. Baldursson H, Jóhannsson H. Nýr staðall fyrir örorkumat á Íslandi. Læknablaðið 1999; 85: 480-1.
7. Thorlacius S. Breytt fyrirkomulag örorkumats á Íslandi og starfræn endurhæfing á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Læknablaðið 1999; 85: 481-3.
8. Thorlacius S, Stefánsson S, Jóhannsson H. Örorkumat fyrir og eftir gildistöku örorkumatsstaðals. Læknablaðið 2001; 87: 721-3.
9. Thorlacius S, Stefansson S, Johannsson H. Incidence of disability pension in Iceland before and after introduction of the British functional capacity evaluation ?All work test?. Disability Medicine 2003; 3: 5-8.
10. Bland M. An Introduction to Medical Statistics. Oxford University Press, 1995.
11. Thorlacius S, Stefánsson S, Ólafsson S, Rafnsson V. Breytingar á algengi örorku á Íslandi 1976-1996. Læknablaðið 2001; 87: 205-9.
12. Thorlacius S, Stefánsson SB, Ólafsson S, Rafnsson V. Changes in the prevalence of disability pension in Iceland 1976-1996. Scand J Publ Health 2002; 30: 244-8.
13. Gallup á Íslandi (2003), Að kaupa sér tíma. Könnun fyrir Hið gullna jafnvægi, www.hgj.is
14. Ólafsson S. Íslenska leiðin. Almannatryggingar og velferð í fjölþjóðlegum samanburði. Reykjavík: Tryggingastofnun ríkisins ? Háskólaútgáfan, 1999.
15. Selander J, Marnetoft SU, Ekholm J, Bergroth A. Unemployment among the long-term sick. Eur J Phys Med Rehabil 1996; 6: 150-3.
16. Jónsdóttir GA, Ólafsson S. Atvinnulausir á Íslandi 1993. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 1993.
17. Marnetoft SU, Selander J, Bergroth A, Ekholm J. Unemployed long-term sicklisted people in rural Jämtland compared with circumstances in the city of Stockholm, Sweden. Work 1998; 10: 3-8.
18. Brenner MH. Final report to the European Commision Directorate General for Employment, Industrial Relations and Social Affairs. VC 2001/0224. The European Commision, Employment and Social Affairs, 2001.
19. Bellaby P, Bellaby F. Unemployment and ill healh: Local labour markets and ill health in Britain 1984-1991. Work, Employment & Society 1999; 13: 461-82.
20. Wilkinson RK. Income distribution and life expectancy. BMJ, 1992, 304: 165-8.
21. Lynch JW, Davey Smith G, Kaplan GA, House JS. Income inequality and mortality: importance to health of individual income, psychosocial environment, or material conditions. BMJ 2000; 320: 1200-4.
22. Marmot M, Wilkinson RG. Psychosocial and material pathways in relation between income and health: a response to Lynch et al. BMJ 2001; 322: 1233-6.
23. Lidwall U, Thoursie PS. Sjukfrånvaro och förtidspension ? en beskrivning och analys av utvecklingen under de senasta decennierne. Riksförsäkringsverket, Stokkhólmi, febrúar 2000.
24. Thorlacius S, Stefánsson SB, Jónsson FH, Ólafsson S. Social circumstances of recipients of disability pension in Iceland. Disability Medicine 2002; 2: 141-6.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica