Umræða fréttir
  • Mynd 1
  • Mynd 2

Fagleg mál heimilislækna í brennidepli

Um miðjan október var haldinn aðalfundur í Félagi íslenskra heimilislækna. Þar urðu þau tíðindi að Þórir B. Kolbeinsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs eftir fjögur ár á stóli formanns. Í hans stað var kjörin Elínborg Bárðardóttir. Læknablaðið hitti að máli nýkjörinn formann stærsta sérgreinafélags íslenskra lækna þar sem hún starfar í einni af nýjustu heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins við Efstaleiti.

Elínborg var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum og kom heim árið 1997. Fyrstu þrjú árin starfaði hún á Ísafirði en frá 2000 hefur hún starfað í Efstaleitinu. Hún er ekki alveg ný í félagsstörfunum því hún hefur verið ritari stjórnar LR undanfarin ár. Fyrsta spurningin var hvernig stemmningin hefði verið á aðalfundinum.

"Það má segja að þetta hafi verið skemmtilegasti aðalfundur félagsins í mörg ár vegna þess að það var nánast ekkert talað um kjaramál! Við samþykktum ályktun til að fylgja eftir viljayfirlýsingu ráðherra frá því í fyrra en eftir það hófust líflegar umræður um fagið og framtíðina. Þar er af ýmsu að taka og það sem bar einna hæst var aukin áhersla sem lögð hefur verið á framhaldsnám heimilislækna hér á landi. Það er að komast í mjög gott horf og það er ekki síst kennslustjóra framhaldsnámsins, Ölmu Eir Svavarsdóttur, að þakka. Hún hefur drifið í því að bæta skipulag kennslunnar, námsstöðunum hefur fjölgað upp í níu og áhugi læknanema og unglækna á þessu námi aukist."

Framhaldsnám og gæðamál

Daginn eftir að viðtalið var tekið var Elínborg að fara á fund uppi í Borgarfirði þar sem allir þeir sem koma nærri kennslu og áhuga hafa á kennslumálum í heimilislæknisfræði ætluðu að hittast en þeir eru dreifðir um landið. Kennslan fer nefnilega ekki einungis fram á höfuðborgarsvæðinu heldur í heilsugæslunni víða um land. Elínborg sagði að þetta væri fyrsti fundurinn af þessari tegund en þeir eru algengir erlendis og nefnast "faculty development" á ensku. Þar var ætlunin að ræða ýmsar hliðar námsins, svo sem skipulag námsins í læknadeild, framhaldsnámið og nám í dreifbýli. Hlutverk leiðbeinandans í starfsþjálfun lækna, hvernig best væri að meta nemendur, balint-fundi sem eru eins konar sjálfshjálparfundir og í hverju fagmennska væri fólgin.

- Það er greinilegt að heilsugæslan verður í vaxandi mæli vettvangur kennslu.

"Já, það varð veruleg breyting fyrir nokkrum árum þegar sett var í reglugerð að læknar á kandídatsári skyldu verja að minnsta kosti þremur mánuðum í heilsugæslunni. Þetta setur okkur í meira kennarahlutverk og veitir okkur tækifæri til að kynnast unga fólkinu sem er að koma inn í stéttina og því að kynnast okkur. Ég held að óhætt sé að slá því föstu að þetta hafi aukið áhuga unga fólksins á heimilislækningum.

Annað sem töluvert hefur verið á dagskrá félagsins eru gæðamál. Félagið hefur raunar unnið mikið að þeim í gegnum tíðina. Í því sambandi hefur verið rætt að hafa sérstakan gæðadag á vegum félagsins, jafnvel í samvinnu við Heilsugæsluna í Reykjavík sem hefur haft gæðamál á stefnuskrá sinni án þess að mikið hafi gerst. Við viljum gjarnan ýta á eftir því að gæðamálum verði gert hærra undir höfði.

Reyndar hafa ýmis gæðaverkefni verið í gangi, bæði hér hjá okkur, í Kópavogi, og víðar. Það sem vantar er að við tölum meira saman um gæðamál, skiptumst á þekkingu og reynslu, segjum hvert öðru hvað við erum að gera og hvað virkar. Sem betur fer hefur orðið breyting á vinnuskipulagi okkar þannig að við höfum meiri tíma til að sinna gæðaþróun."



Breyttar áherslur

"Fræðslumál heimilislækna hafa að nokkru leyti verið í skugga kjaramálanna síðustu árin. Við þurfum að sinna betur innri líðan heimilislækna og í því sambandi hefur verið ákveðið að fræðslunefnd standi fyrir málstofum um efni eins og ímynd heimilislæknisins, öryggi hans, samskipti og verkaskiptingu milli stofnana heilbrigðisþjónustunnar, netpóst og heimasíðu, ný rekstrarform og kennslu og gæðaþróun. Þetta er nauðsynlegt að ræða svo við getum áttað okkur betur á því hvað við viljum.

Félagið hefur lengi verið mjög virkt í fræðslu- og símenntunarmálum heimilislækna. Það átti frumkvæði að því að koma á prófessorsstöðu í heimilislækningum við Háskóla Íslands 1991og greiddi hluta af henni. Það vann að marklýsingu fyrir framhaldsnám í heimilislækningum sem gefin var út 1995. Við eigum líka skráningarkerfi fyrir símenntun. En eins og ég sagði hefur félagið verið mjög upptekið af kjaramálunum en nú ætlum við að breyta um áherslur. Það ríkir meiri bjartsýni nú meðal heimilislækna en verið hefur í mörg ár."

- En það hefur ýmislegt verið að gerast í kjaramálunum. Þið voruð til dæmis að fara undan kjaranefnd og endurheimta samningsréttinn. Hvernig er staðan í kjaramálunum?

"Það ríkir almenn ánægja með að við skulum loksins vera komin með sambærileg laun og sérfræðingar á sjúkrahúsum en það komst í gegn fyrir rúmu ári. Það á hins vegar enn eftir að taka á réttindum okkar. Við erum enn innan girðingar og getum bara unnið á einum vinnustað, það er innan heilsugæslunnar. Kerfi lækna utan heilsugæslunnar hefur verið lokað í 15 ár og enginn komist inn í það. Yngstu læknarnir sem starfa sjálfstætt eru komnir á sextugsaldur. Samt hefur ríkt miklu meiri friður um það kerfi en heilsugæsluna og það segir sína sögu."



Sjálfsagður valkostur

Viljayfirlýsingu ráðherra frá því fyrir réttu ári ber oft á góma í máli heimilislækna enda telja þeir hana skipta sköpum um framtíð greinarinnar. Um hana er fjallað sérstaklega hér í opnunni en ég spurði Elínborgu hvaða augum heimilislæknar litu baráttuna fyrir því að fá ráðherra til að standa við orð sín.

"Við lítum ekki á þessa baráttu fyrir leyfi til að starfa sjálfstætt sem baráttu fyrir hærri launum. Slík þjónusta á ekki að vera dýrari en sú sem veitt er á heilsugæslustöðvunum. Þetta á að vera valkostur fyrir heimilislækna því það hentar ekki öllum að vinna í kerfi eins og heilsugæslunni. Innan stéttarinnar ber töluvert á útbruna og menn hafa verið að skipta yfir í aðrar sérgreinar. Menn gefast upp og hluti af ástæðunni fyrir því er að þeim finnst þeir vera bundnir á bás.

Reynsla kollega okkar á Norðurlöndum sýnir að menn þrífast betur þar sem þeir hafa val um það hvernig þeir haga vinnu sinni. Í Danmörku starfa heimilislæknar sjálfstætt, hafa sitt samlag og ráða hvernig þeir starfa, og þar er starfsánægjan mest. Í Noregi var tekið upp nýtt kerfi sem byggir á því að heimilislæknar geta valið hvernig þeir starfa og þar hefur starfsánægjan aukist. "

- Þið eruð sem sagt ekki að biðja um leyfi til að fara út og mjólka kerfið að vild?

"Nei, ef einhver er ólíklegur til þess þá er það heimilislæknirinn," sagði Elínborg Bárðardóttir formaður FÍH.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica