Umræða fréttir
  • Mynd 1
  • Mynd 2

Tjáningarfrelsi óánægðra lækna

Það var eins og öll stjórnvöld legðust á eitt til að tryggja líflegar umræður á ráðstefnu sem LÍ og Bandalag háskólamanna efndu til 20. nóvember síðastliðinn. Umræðuefnið var tjáningarfrelsi og faglegt sjálfstæði háskólamanna og þegar nýbúið var að dagsetja ráðstefnuna lagði ríkisstjórnin fram frumvarp um breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem skerða mun mjög rétt þeirra gagnvart uppsögnum. Eins og þetta væri ekki nóg bættu stjórnendur Landspítala um betur og sögðu Sigurði Björnssyni upp stöðu yfirlæknis lyflækninga krabbameina, að því er virðist fyrir það eitt að vilja láta reyna á það fyrir dómstólum hvort stefna Landspítalans og framkvæmd hennar standist samkvæmt lögum landsins.

Þrátt fyrir þetta var ráðstefnan ekki ýkja fjölmenn, hverju sem um var að kenna. Hins vegar voru umræðurnar bæði fjörugar og upplýsandi. Eftir setningarræðu Sigurbjörns Sveinssonar formanns LÍ (sem birt er hér í blaðinu) flutti Einar Páll Tamimi lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík fróðlegt yfirlit um tjáningarfrelsi þeirra sem starfa hjá hinu opinbera; Jón Ásgeir Sigurðsson formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins fjallaði um fjölmiðla og tjáningarfrelsið á RÚV; Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga greindi frá stöðu heilbrigðisstarfsmanna inni á stofnunum og Sigurður Guðmundsson landlæknir og varaformaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana lýsti hlutunum frá sjónarhóli stjórnenda.

Eftir kaffið stjórnaði Kristrún Heimisdóttir pallborðsumræðum en í þeim tóku þátt Ína Björg Hjálmarsdóttir formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga, Magnús Jónsson veðurstofustjóri, Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður, Hafdís Ólafsdóttir forstöðumaður nefndasviðs alþingis og Gísli Tryggvason framkvæmdastjóri BHM.



Að jafna réttin niður á við

Umræðurnar snerust að talsverðu leyti um áðurnefnt lagafrumvarp sem allir ræðumenn voru sammála um að væri mikil afturför í mannréttindamálum. Magnús Jónsson veðurstofustjóri upplýsti að það væri ekki pantað af forstöðumönnum ríkisstofnana þó vissulega þættu þeim gildandi reglur um uppsagnir heldur þunglamalegar. Hann tók hins vegar undir með öðrum fundarmönnum í því að frumvarpið gengi allt of langt, með því væri réttur starfsmanna til andmæla og til að krefjast rökstuðnings fyrir uppsögn afnuminn.

Einar Páll Tamimi vísaði til þeirra ummæla ráðherra að með frumvarpinu væri verið að jafna rétt þeirra sem störfuðu á almennum og opinberum vinnumarkaði. Einar sagði það ekki til siðs þegar jafna ætti rétt manna að jafna niður á við, það er að skerða rétt þeirra sem hafa betri stöðu. Það væri hins vegar ætlunin nú að færa réttarstöðu opinberra starfsmanna niður í það horf sem ríkir á almennum vinnumarkaði en þar væri ástandið "ömurlegt" eins og hann orðaði það. Kvaðst hann efast um að réttleysið sem þar ríkti stæðist mannréttindasáttmála Evrópu. Frumvarpið væri því einstæð atlaga að tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna.



Við hvern er trúnaðurinn?

Samspil tjáningarfrelsis og trúnaðar var mönnum hugleikið. Elsa lýsti stöðunni eins og hún er á Landspítala þar sem mörg stjórnunarlög eru á milli hins óbreytta læknis eða hjúkrunarfræðings og þeirra sem geta tekið stórar ákvarðanir um starfsemi spítalans. Þetta væri svifaseint kerfi og þess vegna væri ekkert undarlegt við að fólk nýtti sér þær leiðir sem til eru framhjá kerfinu, svo sem að leita til fjölmiðla með mál sem á því brenna. Þá vaknar spurningin um það við hvern menn eiga að halda trúnað. Er það við stofnunina og stjórnendur hennar eða eru menn bundnir trúnaði við eigandann, almenning í landinu?

Þessi spurning snýr ekkert síður að embættismönnum sem oft standa frammi fyrir því að stjórnmálamenn taka ákvarðanir sem orka tvímælis. Bryndís nefndi dæmi af svonefndu Tamílamáli í Danmörku þar sem ráðherra vísaði nokkrum flóttamönnum úr landi án þess að þeir gætu nýtt sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til upplýsinga og andmæla. Þar var ekki nóg með að ráðherrann hrökklaðist frá (og felldi raunar ríkisstjórnina) heldur var ráðuneytisstjóranum og fleiri háttsettum embættismönnum refsað fyrir að benda ráðherranum ekki á að hann væri að brjóta lög á fólkinu og fyrir að benda fólkinu ekki á hver réttur þeirra væri.

Í máli Bryndísar kom einnig fram að evrópskir dómar hefðu breyst á tíunda áratugnum frá því að vernda rétt ríkisins til þess að halda hlutum leyndum fyrir almenningi yfir í að tryggja rétt manna til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri við almenning.

Fundarmenn veltu einnig fyrir sér hvernig farið væri að því að takmarka tjáningarfrelsi háskólamanna og komust að því að sjaldnast væri það gert með beinum hætti. Hins vegar væru óbeinar hömlur á tjáningarfrelsinu fjölbreyttar og útbreiddar. Kunnu margir deili á slíku, allt frá því að mönnum væri látið skiljast að tiltekin sjónarmið væru ekki heppileg fyrir starfsframann yfir í það að menn beittu áhrifum sínum innan fjölmiðla til að koma í veg fyrir að starfsmenn komi sjónarmiðum sínum á framfæri við almenning.



Óánægjan kemur ekki á óvart

Hér er ekki rúm til þess að gera ráðstefnunni tæmandi skil en efni hennar mun eflaust síast inn í skrif undirritaðs á næstunni. Hins vegar kom það ekki á óvart eftir þessa ráðstefnu að fá í hendur skýrslu frá Vinnueftirliti ríkisins um vinnu og vinnuumhverfi lækna á Landspítalanum en það sem upp úr stendur í henni er að tveir af hverjum þremur læknum eru óánægðir með stjórn spítalans.

Skýrslan byggist á rannsókn sem gerð var með því að leggja spurningar fyrir alla lækna Landspítalans. Þótt skýrsluhöfundar bendi á að slæleg þátttaka unglækna dragi nokkuð úr gildi könnunarinnar þá er margt í niðurstöðum þeirra sem vert er að staldra við. Skýrslan staðfestir það sem flestir vita: læknar vinna langan vinnudag og karla lengri en konur. Sumir vinna meira en aðrir og þannig vinnur fjórðungur lækna meira en 60 stundir á viku að jafnaði fyrir utan vaktir. Vinnuálag er mikið og það er "fremur undantekning en regla að læknar LSH taki sér eðlilega matartíma", eins og segir í skýrslunni.

Margir læknar kvarta yfir lélegri vinnuaðstöðu, bæði til að sinna sjúklingum og ekki síður skrifstofustörfum. Einnig er kvartað yfir því að skipulag starfsins sé ekki nægilega gott og að upplýsingaflæðið frá stjórninni sé tregt. En þrátt fyrir vonda stjórn, mikið vinnuálag og lélega vinnuaðstöðu eru flestir læknar spítalans ánægðir í starfi og telja sig ráða vel við þau verkefni sem því fylgja. Þeir telja sig almennt eiga gott samstarf við aðrar starfsstéttir innan spítalans og segja að þar ríki góður starfsandi. Þó töldu sjö af hverjum tíu læknum "tvískiptingu stjórnunar í lækningar og hjúkrun ekki vera til góðs fyrir sjúklinga". Átta af hverjum tíu töldu þátt lækna í stjórn spítalans ekki nógu mikinn.

Skýrsluhöfundum kom á óvart "hve sjálfræði í starfi er takmarkað að mati sérfræðinga og aðstoðarlækna og hluta yfirmanna". Niðurstaða þeirra er sú að þessi útbreidda óánægja meðal lækna sé áhyggjuefni "þar sem verulegur hluti starfsmanna mælir ekki með LSH sem vinnustað og er ekki tilbúinn til að leggja á sig vinnu aukalega vegna vinnustaðarins ... Því má telja eitt af brýnustu verkefnum stjórnenda LSH að glæða áhuga lækna á vinnustaðnum enn frekar og hrinda úr vör aðgerðum til þess að bæta vinnuumhverfið og það með líðan starfsfólksins."

Skýrsla Vinnueftirlitsins er allnokkur að vöxtum og hana má finna á heimasíðu LÍ á slóðinni www. lis.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=170

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica