Umræða fréttir
  • Tómas Helgason
  • Mynd 2

Ný kennslubók í geðlæknisfræði

Í ágúst síðastliðnum var haldið hér í Reykjavík 27. norræna geðlæknaþingið. Þátttaka var mikil og þingið þótti takast mjög vel. Einn var þó ljóður á, allt þinghaldið fór fram á ensku, raunar eins og næstsíðasta þing sem haldið var í Kaupmannahöfn árið 2000. Vegna skyldleika, sameiginlegs menningararfs og svipaðrar menntunar er norræn samvinna mikilvæg fyrir Norðurlöndin öll og nauðsynlegt að við getum rætt saman á norrænum tungum, sem eru flestum tamari og auðveldari en enska. Sú enska sem menn reyna að tala á svona fundum verður oftast það sem kallað hefur verið "the bad language of science", sem notendur skilja varla sjálfir, hvað þá aðrir.

Tveimur vikum eftir að þinginu lauk barst mér í hendur ný útgáfa af norskri kennslubók um geðlæknisfræði eftir Malt, Retterstöl og Dahl (1). Þessi bók hefði eiginlega átt að vera skyldulesning fyrir alla þátttakendur svo þess að færa umræðuna yfir á norrænt mál og til að þeir væru með yfirlit um hvað væri ferskast í fræðunum. Því miður gat það ekki orðið þar eð bókin kom ekki út fyrr en rétt um svipað leyti og þingið var haldið. Hún gefur mér hins vegar kærkomið tækifæri til minna íslenska læknanema og lækna, sérstaklega geðlækna og heimilislækna, á nauðsyn þess að læra og lesa skanínavísk mál og nota þau í samskiptum við kollega frá hinum Norðurlöndunum.

Bókin gerir nýjustu stefnum og straumum í geðlæknisfræði nokkurn veginn jafnhátt undir höfði og minnir þannig rækilega á nauðsyn þess að menn kunni nokkuð fyrir sér í margs konar meðferðartækni. Bókin skiptist í þrjá meginhluta, 1) sögu ásamt fræðilegum bakgrunni, 2) klínískan hluta um einstaka sjúkdóma og raskanir og 3) almennan meðferðarhluta og umfjöllun um ýmis sérsvið geðlæknisfræðinnar. Í fyrsta hluta bókarinnar er almennur inngangur og stuttur kafli um sögu sérgreinarinnar. Síðan er fjallað ítarlega um þann grunn sem greinin stendur á í vefrænu, geðrænu og félagslegu tilliti, sem læknar verða að kunna nokkur skil á til þess að gera lesendum bókina og fræðin aðgengilegri. Fjallað er um gagnreynda geðlæknisfræði, viðtal, geðskoðanir, rannsóknaaðferðir og sérstaklega um taugalíffræðilegar rannsóknir.

Í hinum meira klíníska hluta bókarinnar er fjallað um geðsjúkdóma bæði með hliðsjón af klassískum evrópskum viðmiðum og í tengslum við nýtísku greiningarkerfi, ICD 10 og DSM IV. Minnt er á að klassísk skipting í nevrósur og psýkósur er enn gagnleg þrátt fyrir að greiningarkerfin noti ekki þessi hugtök beint. Ástæða er til að benda heimilislæknum sérstaklega á kaflana um lyndis- og kvíðaraskanir, en í þeim eru greiningarskilmerkjum og meðferð gerð mjög góð skil bæði í texta og með skemum. Sem dæmi má nefna skema um forsendur þess að verjandi sé að beita samtalsmeðferð eingöngu við þunglyndisraskanir. Sérstakir kaflar eru um aðlögunar- og áfallaraskanir, átraskanir, sál-vefræn einkenni og raskanir, og geðraskanir í tengslum við aðra sjúkdóma. Síðarnefndu tveir kaflarnir eru mjög gagnlegir fyrir alla lækna sem vilja hafa heildrænt viðhorf til greiningar og meðferðar sjúklinga sinna. Kaflarnir fjalla um áhrif tilfinninga og geðshræringa á líkamleg einkenni og hvernig líkamlegir sjúkdómar og raskanir geta valdið geðrænum einkennum. Þeir eru þörf áminning til allra sérfræðinga um að þeir eru fyrst og fremst læknar sem þurfa að skoða einstaklinginn sem heild og sem hluta af fjölskyldu eða starfshópi án þess að einblína á einhverjar efnafræðilegar eða mólekúl-bíólógískar rannsóknaniðurstöður. Áfengis- og eiturlyfjamisnotkun eru gerð ítarleg skil og lögð áhersla á að sjúklingar með slíkar raskanir hafa oftar en ekki aðra geðsjúkdóma jafnframt. Í þessum hluta bókarinnar er að sjálfsögðu ítarlegur kafli um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir og forvarnir gegn þeim.

Í þriðja hluta bókarinnar eru kaflar um mikilvæg sérsvið, svo sem um geðraskanir þroskaheftra og öldrunargeðlækningar.

Síðustu 150 síðurnar eru að mestu um meðferðarform sem notuð eru í geðlækningum sem að nokkru er búið fjalla um áður í tengslum við einstaka sjúkdóma. Þarna er og stuttur kafli um réttargeðlækningar, en í honum er rætt um ýmis siðfræðileg vandamál sem nauðsynlegt er að allir læknar kunni skil á. Bókinni lýkur á kafla um bráðameðferð geðraskana utan sjúkrahúsa og meðferð þar til sjúklingurinn kemst á sjúkrahús, ef á þarf að halda.

Í heild er bókin vel uppsett, mjög læsileg með tilvitnunum í grunnheimildir og ábendingum um ítarefni, m.a. á netinu. Helsti galli bókarinnar er að hún er yfir 900 blaðsíður, en erfitt er að gera stórri sérgrein læknisfræðinnar skil í mikið styttra máli.



1. Malt UF, Retterstöl N, Dahl AA. Lærebok i psykiatri. Oslo: Gyldendal akademisk; 2003. - ISBN 82-05-28070-3. - 942 blaðsíður. - Verð: 745 nkr.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica