6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Við verðum að stíga fram og segja frá, segir Aðalbjörg Björgvinsdóttir kvensjúkdómalæknir

„Ég hefði að óreyndu ekki trúað að ekki væri á okkur hlustað. Ekki trúað að yfirvöld vildu ekki heyra um þá annmarka sem við teljum á því að greina leghálssýnin í Danmörku,“ segir Aðalbjörg Björgvinsdóttir, formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, við Læknablaðið

Aðalbjörg Björgvinsdóttir, formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, segir það valda bæði vonbrigðum með yfirvöld og skapa vantraust á vinnubrögð þeirra að þau telji sig ekki þurfa að hlusta á félagið. Mynd/gag

„Við sendum ráðherra bréf í desember og aftur ásamt Félagi íslenskra rannsóknarlækna í janúar. Sendum opið bréf til hennar í lok mars. Við fáum engin viðbrögð frá henni,“ segir Aðalbjörg Björgvinsdóttir formaður þann 21. maí.

Félagið hafi einnig leitað til landlæknis og óskað eftir fundi og benti Alma D. Möller landlæknir þeim á í bréfi í janúar að embættið væri eftirlitsaðili og að fundur með landlækni væri því ekki nægilega skilvirkur. Hún myndi koma áhyggjum félagsins til verkefnahóps sem starfi á vegum heilbrigðisráðuneytis „og kanna hvort forsvarsmenn hans þiggi ykkar góða boð um aðstoð við að leysa þau vandamál sem þið sjáið.“

Heilbrigðisráðuneytið bendir á að ráðherra hafi fundað í mars með Læknafélagi Íslands til þess að ræða málið. „[Þ]að var ákveðið í stað þess að funda með fagfélögum ýmissa sérgreina.“

Aðalbjörg lýsir því að þar sem Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna hafi árangurslaust reynt að ná fundi með heilbrigðisráðherra hafi það ekki séð annan kost en að tjá sig í fjölmiðlum til að benda á vandann við að senda leghálssýni til Danmerkur. „Þetta veldur vonbrigðum með yfirvöld og hefur skapað vantraust á vinnubrögðum þeirra.“

Greint var frá því þann 10. maí að Haraldur Briem, fyrrum sóttvarnalæknir, hafi fallist á beiðni heilbrigðisráðherra um að vinna óháða skýrslu til Alþingis sem óskað var eftir í febrúar. Meðal þess sem Alþingismenn vilja vita er hvaða forsendur liggja að baki ákvörðuninni um að semja við erlenda rannsóknarstofu um að sinna greiningu á sýnum. Þeir spyrja meðal annars um aðgengi sérfræðinga að sýnunum, kostnað og áhrif breytinganna á öryggi skimunar.

Læknablaðið hefur fengið upplýsingar um verðið sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins greiðir danska Amager- og Hvidovre-sjúkrahúsinu. Sjá á fréttasíðu hér í blaðinu. Óskar Reykdalsson forstjóri greinir þar frá því að hann bíði ákvörðunar ráðherra um hvort greiningin verði færð á Landspítala. Greint var frá því 21. maí að það væri eindregin niðurstaða landlæknis að Landspítali geti vel sinnt svokölluðum HPV-veirugreiningum.

Aðalbjörg hefur áhyggjur af mistök-um í ferlinu. Hún lýsir því hvernig kvensjúk-dóma-læknum er gert að flokka sýnin í 7 mismunandi plastpoka eftir því hvaða beiðni eigi að setja inn í danska kerfið á sameiningastöð krabbameinsskimana. „Og ef ég vil að eitthvað sérstakt sé gert, set ég miða í pokann,“ segir hún. Ferlið sé ennþá afar ófaglegt og ekki konum í hag.

„Við höfum engin tök á að fylgja sýnunum eftir. Ef vafamál koma upp getum við ekki haft samband við rannsóknarstofuna því við höfum ekki aðgang að númerinu sem rannsóknarstofan hefur fyrir sjúklinginn,“ segir Aðalbjörg og lýsir því hvernig unnið hafi verið markvisst í gegnum árin að því að fækka milliliðum og þannig möguleikum á mannlegum mistökum við greiningarferli á lífsýnum. Nýja fyrirkomulagið sé í öfuga átt.

„Við sjáum ekki strax allar afleiðingar af því hve hroðvirknislega var ráðist í breytingarnar,“ segir hún. „Og þetta er ekki ennþá tilbúið, ekki ennþá klárt,“ segir hún.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica