Fylgirit 113 - sérnámslæknaþing 2023

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna 2023 - Ávarp

Kæru sérnámslæknar í lyflækningum og aðrir vísindamenn og gestir ráðstefnunnar.

Verið öll velkomin á Rannsóknarráðstefnu sérnámslækna í lyflækningum 2023

 

Þetta er uppskeruhátíð okkar lækna sem valið hafa að sérmennta sig í lyflækningum á Landspítala. Á ráðstefnunni njótum við þess að hlýða á kynningar á vísindaverkefnum þeirra lækna sem einnig hafa valið að stunda vísindavinnu samtímis klíníska náminu. Sum þeirra sem kynna verkefni sín hér í dag eru samhliða klínísku sérnámi í doktorsnámi við læknadeild Háskóla Íslands. Hér er því um metnaðarfulla vísindavinnu að ræða, sumir komnir skemmra og aðrir lengra á veg. Það er líka einstaklega gaman að sjá hvernig verkefnin þróast milli ára.

Þessi árlegi viðburður sem Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum er, hefur nú markað sér áratuga sögu og er orðinn mikilvægur viðburður í sérnámi lyflækna á Íslandi en hefði aldrei orðið það sem hann er í dag án stuðnings þeirra styrktaraðila sem hafa stutt við ráðstefnuna og er þar fyrst að nefna Vistor hf og nú einnig Novo Nordisk á Íslandi.

Ráðstefnan gefur ungum vísindamönnum mikilvægt tækifæri á að kynna rannsóknir sínar og fá mikilvægar spurningar og umræður frá reyndum vísindamönnum lyflæknisfræðinnar sem og öðrum fræðigreinum. Virtir íslenskir vísindamenn hafa áralangt tekið þátt í ráðstefnunni af áhuga og alhug og gefið mikilvægar uppbyggilegar athugasemdir til unga vísindafólksins. Umræðurnar eru því í senn uppbyggilegar og hvetjandi. Leiðbeinendur verkefnanna geta því í senn verið afar stoltir af vísindavinnunni sem kynnt er og samtímis fengið mikilvæga uppbyggilega gagnrýni til framdráttar verkefnunum.

Margir stíga sín fyrstu spor til kynningar á sínum rannsóknum á formlegan hátt á Rannsóknarráðstefnu sérnámslækna í lyflækningum. Ráðstefnan hefur því mikið kennslugildi þar sem kynningin fer fram með tilheyrandi tímamörkum og skipulagðri framsetningu. Árið 2023 voru öll ágrip ráðstefnunnar í fyrsta sinn birt í vefriti sem fylgirit við Læknablaðið. Þessu er nú áframhaldið sem við erum einstaklega stolt af. Ágripin verða þannig stærri hluti af ferilskrá hvers sérnámslæknis og byggingarsteinn inn i framtíðina.

Í gegn um tíðina hafa tengsl Landspítala við mikilvægar vísindastofnanir, s.s. Hjartavernd, Íslensk erfðagreining, Háskóli íslands og erlendar háskólastofnanir verið mikilvægir samvinnuaðilar í vísindaverkefnunum sem hefur aukið mikilvægi verkefnanna og aukið tengsl Landspítala út á við. Enn eitt atriðið sem undirstrikar mikilvægi vísindavinnu okkar ungu lækna.

Leiðbeinendum verkefnanna, sem skila fórnfúsri vinnu í gegn um hvert verkefni eiga miklar þakkir skildar fyrir jákvæðar móttökur þegar til þeirra er leitað varðandi vísindaverkefni. Það er von okkar allra að aukið fé til vísindarannsókna geti áframhaldandi eflt vísindavinnu Landspítala til framtíðar. Vísindavinna kostar m.a. tíma sem þarf að styrkja með auknu fjármagni. Sjúkrahús án vísindarannsókna er ekki háskólasjúkrahús.

Kæru sérnámslæknar til hamingju með daginn, við erum einstaklega stolt af ykkur.

Gleðilega hátíð!

Með vísindakveðju,

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor

umsjónarlæknir rannsóknarráðstefnu og vísindaverkefna

sérnámslækna í lyflækningum

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica