Ágrip erinda

Ágrip erinda

E-01

Sitjandafæðingar á kvennadeild Landspítala 2006-2012

Sigrún Tinna Gunnarsdóttir1, Þóra Steingrímsdóttir1,2

1Kvennadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

sigrun.tinna@gmail.com

Inngangur: Nýgengi fullburða einbura í sitjandastöðu er um 3% allra fæðinga. Lengi hefur verið umdeilt hver sé öruggasti fæðingarmátinn fyrir barn í sitjandastöðu. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða afdrif þeirra barna sem fæddust úr sitjandastöðu á kvennadeild Landspítala 2006-2012 og bera saman fyrirhugaða leggangafæðingu og fyrirhugaðan valkeisaraskurð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarhópurinn samanstóð af öllum konum sem gengu með einbura í sitjandastöðu eftir 36 vikna meðgöngu á Landspítala á tímabilinu. Upplýsingum var safnað úr mæðraskrám og sjúkrarskrárkerfinu Sögu. Hópurinn var flokkaður eftir fyrirhuguðum fæðingarmáta, um leggöng (37 tilfelli) eða með valkeisara (348 tilfelli).

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur og hæð móður, meðgöngulengd og fæðingarþyngd (p>0,05). Apgar við 1 mínútu var marktækt lægri í leggangahópnum með meðaltal 5,83 borið saman við 8,01  keisarahópnum (p<0,05). Apgar við 5 mínútur var einnig marktækt lægri í leggangahópnum með meðaltal 8,39 borið saman við 9,39 í keisarahópnum (p<0,05). Marktækt fleiri börn höfðu Apgar undir 7 við 5 mínútur í leggangahópnum en ekkert barn í hópnum varð fyrir varanlegum skaða af völdum súrefnisþurrðar. Enginn munur var á hópunum hvað varðar eftirlit og innlagnir á vökudeild.

Ályktanir. Börnum í sitjandastöfðu vegnaði betur ef fyrirhuguð var fæðing með valkeisara en ef fæðing var fyrirhuguð um leggöng. Ef fæðing var fyrirhuguð um leggöng vegnaði þeim börnum þó einnig vel og þurftu ekki meira eftirlit eða meðferð. Frekari rannsókna er þörf til þess að skera úr um hvaða fæðingarmáti er öruggastur við sitjandastöðu.


E-02

Fistill milli garnar og þvagblöðru á Landspítala á árunum 1999-2014

Ásdís Egilsdóttir1, Hildur Ólafsdóttir2, Jórunn Atladóttir1, Páll Helgi Möller1

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

asdisegils@gmail.com

Inngangur: Fistill milli garnar og þvagblöðru verður oftast til vegna bólgusjúkdóma eða æxlisvaxtar. Greining getur verið erfið og oft er hún byggð á einkennum sjúklings. Meðferð er annaðhvort skurðaðgerð eða stuðningsmeðferð. Lítið er vitað um gang sjúkdómsins á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að fá yfirlit yfir einkenni, orsök, greiningaraðferðir og meðferð sjúklinga með fistil milli garnar og þvagblöðru.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra þeirra sem greindust með fistil milli garnar og þvagblöðru á Landspítala 1999-2014. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskýrslum.

Niðurstöður: Fjöldi sjúklinga var 51, 30 karlar og 21 kona. Meðalaldur var 66 ár. Algengustu einkennin voru loftmiga (68,6%), þvagfærasýking (51,0%) og saur í þvagi (21,6%). Helstu orsakir voru sarpabólga (diverticulitis) (64,7%), skurðaðgerð (11,8%) og krabbamein (9,8%). Algengustu greiningaraðferðir voru tölvusneiðmynd (56,9%), blöðruspeglun (52,9%) og ristilspeglun (33,3%). Flestir (n=40) sjúklingar voru meðhöndlaðir með skurðaðgerð og 11 með stuðningsmeðferð. Flestir sjúklingar fóru í brottnám þess garnahluta sem myndaði fistilinn og var brottnám bugðuristils þar langalgengast. Í 29 tilfellum var gerð samgötun á ristli í frumaðgerð en 4 fengu stóma. Sex sjúklingar fengu stóma án brottnáms. Fylgikvillar aðgerðar voru skurðsárssýking (n=2), leki á garnasamtengingu (n=2) og blæðing í kviðarhol (n=1).

Ályktanir: Fistill milli garnar og þvagblöðru er ekki algengt ástand. Flestir sjúklinganna höfðu loftmigu, þvagfærasýkingu og saur í þvagi sem eru meinkennandi einkenni. Tölvusneiðmynd er ráðandi við greiningu. Meirihluti sjúklinganna gekkst undir í skurðaðgerð þar sem brottnám á bugðuristli með endurtengingu í frumaðgerð var algengast. Niðurstöðum rannsóknarinnar ber saman við niðurstöður erlendis.

 

E-03

Ástæður valkeisaraskurða og nýgengi öndunarörðugleika hjá börnum sem fæddust með valkeisaraskurði á Landspítala árin 2000-2014

Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir1, Hildur Harðardóttir1,2, Margrét Sigurðardóttir3, Þórður Þórkelsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2kvennadeild, 3slysa- og bráðamóttöku Landspítala,  4Barnaspítala Hringsins,

johanna105@gmail.com

Inngangur: Börn sem fæðast með valkeisaraskurði eru líklegri til að fá öndunarörðugleika eftir fæðingu en börn sem fæðast um leggöng við sömu meðgöngulengd. Áhættan er í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Því er mælt með að valkeisaraskurðir séu gerðir eftir að 39 vikna meðgöngu er náð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna nýgengi valkeisaraskurða  fyrir 39 vikna meðgöngu, ástæður þeirra, hversu mörgum hefði verið hægt að fresta þar til 39 vikna meðgöngu væri náð og kanna nýgengi öndunarörðugleika hjá börnunum.

Efniviður og aðferðir: Upplýsinga var aflað úr mæðraskrám kvenna sem gengust undir valkeisaraskurð á kvennadeild Landspítala árin 2000 til 2014 eftir ≥37 vikna meðgöngu, og úr sjúkraskrám barna þeirra sem fengu öndunarörðugleika fljótlega eftir fæðingu. Fjölburar voru útilokaðir úr rannsókninni.

Niðurstöður: Á tímabilinu fæddust 2721 börn með valkeisaraskurði á Landspítala. Af þeim fengu 89 (3,3%) öndunarörðugleika. Nýgengi var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd; 9,8% við 37 vikna meðgöngu, 4,8% við 38 vikna meðgöngu, 2,7% við 39 vikna meðgöngu og 2,5% við 40-42 vikna meðgöngu. Nýgengi öndunarörðugleika eftir 37-38 vikna meðgöngu var marktækt hærri en eftir 39-42 vikna meðgöngu (5,9% og 2,7%; p=0,0001). Aðgerðir sem framkvæmdar voru við 37-38 vikna meðgöngu voru 609. Af þessum valkeisaraskurðum hefði mögulega mátt fresta 401 (65,8%) aðgerðum til 39 vikna meðgöngu eða 14,7% (401/2721).

Ályktanir: Nýgengi öndunarörðugleika hjá nýburum, sem fæðast með VKS, er í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Mikilvægt er að bíða með aðgerð þar til 39 vikna meðgöngu er náð, ef þess er nokkur kostur, til að draga úr líkum á öndunarörðugleikum hjá börnunum.

 

 
E-04

Aðgerðir vegna krabbameins í ristli og endaþarmi á Sjúkrahúsi Akureyrar 2010-2015. Hlutfall aðgerða vegna ristilstíflu

Helgi Þór Leifsson1, Haraldur Hauksson1, Sigurður Albertsson1, Shree Datye1, Tryggvi Björn Stefánsson1,2

1Skurðlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, 2skurðsviði Landspítala

hl1009@sak.is

Inngangur: Krabbamein í ristli sem veldur stíflu er oft langt gengið  og aðgerð erfiðari og áhættumeiri en ella. Á SAk virtist árið 2015 ristilstífla vegna ristilkrabbameins vera óvenju algeng. Tilgangur rannsóknar var að athuga hlutfall bráða- eða hálfbráðaaðgerða af þessum völdum síðustu fimm árin, helstu fylgikvilla, enduraðgerðir og dauðsföll í legu eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk. Leitað var að ristils- og endaþarmsaðgerðum á SAk á árunum 2010-2015. Skoðaðar voru sérstaklega aðgerðir vegna krabbameina í ristli og endaþarmi með tilliti til ofangreindra atriða og athugað hve oft þurfti að beita bráðaaðgerð vegna ristilstíflu.

Niðurstöður: Af 118 aðgerðum sem gerðar voru á tímabilinu á ristli og endaþarmi voru 64 aðgerðir vegna krabbameins. Af þessum 64 aðgerðum voru 14 (22%) vegna ristilstíflu, en árið 2015 voru þær 6 af 11 (55%). Miðgildi aldurs hópanna voru 69 ár við valaðgerðir og 72 ár við bráðaaðgerðir. Miðgildi legudaga eftir aðgerð var 11 dagar (bil: 4-80); 10 dagar (bil: 4-29)  við valaðgerð og 13 dagar (bil: 6-80) eftir aðgerðir vegna stíflu. Fylgikvillar greindust  hjá 25 sjúklingum (39%). Enduraðgerðir tengdar skurðsvæði í sömu legu þurfti hjá 8 (13%). Engin dauðsföll voru eftir aðgerð.

Ályktun: Árangur af aðgerðum á SAk vegna endaþarms- og ristilkrabbameins á tímabilinu reyndist sambærilegur við erlendar rannsóknir. Óvenju hátt hlutfall af ristilstíflum síðasta árið endurspeglar ekki allt tímabilið en veldur þó áhyggjum og styður að skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini gæti minnkað hættu á ristilstíflu í skimunarþýði.



E-05

Fistlar milli garna og legganga á Landspítala 1999-2014

Hafdís Sif Svavarsdóttir1, Jórunn Atladóttir1, Páll Helgi Möller1,3

1Skurðlækningarsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands.

hafdissh@landspitali.is

Inngangur: Garna-legganga fistill er afbrigðilegt ástand þar sem samgangur þakinn flöguþekjuvef myndast á milli meltingarvegar og legganga. Fyrirbærið hefur lítið verið rannsakað og oft er seinkun á greiningu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna klíníska birtingarmynd, hvaða rannsóknir eru líklegastar til að gefa greininguna og hvaða meðferðum er helst beitt við meðhöndlun, en slík rannsókn hefur ekki verið framkvæmd áður á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Gerð var aftursýn lýsandi rannsókn sem tók til áranna 1999-2014. Allir sjúklingar með greiningu um garna-legganga fistil á Landspítala voru fundnir með greiningarkóðum í Sögukerfi.

Niðurstöður: Á tímabilinu 1999-2014 fengu 46 sjúklingar greininguna garna-legganga fistill. Meðalaldur sjúklinga við greiningu var 57 ár. Algengustu einkenni voru hægðir frá leggöngum (56,5%), verkir (34,7%), óeðlileg útferð (26,1%), loft frá leggöngum( 21,7%) og endurteknar þvagfærasýkingar (17,4%). Í 50% tilvika voru fistlarnir ristil-legganga fistlar, 46% voru endaþarms-legganga fistlar og 4% voru smágirnis-legganga fistlar. Helstu rannsóknir til greiningar voru kvenskoðun (45,7%), tölvusneiðmyndataka (47,8%), skuggaefnisinnhelling (41,3%) og ristilspeglun (28,2%). Rannsóknirnar sem oftast staðfestu greiningu voru innhelling skuggaefnis (28,2%) og kvenskoðun (28,2%). Algengustu orsakir voru sarpbólga ( 37,0%), afleiðing aðgerðar (21,7%), áverki við fæðingu (17,4%) og krabbamein (17,4%). Sjúklingar gengust að meðaltali undir 1,9 rannsóknir þar til rétt greining fékkst. Meðferðarúrræði voru: brottnám á görn ( 21,7%), hjáveitandi stóma (63,0%), staðbundin viðgerð á fistli (19,6%) og stuðningsmeðferð (10,9%). Meðal-legutími eftir aðgerð voru 13,7 dagar.

Ályktanir: Ristil-legganga fistlar voru algengasta tegund garna-legganga fistla og sarpbólga algengasta orsökin. Algengustu einkenni voru hægðir frá leggöngum, verkir og óeðlileg útferð. Líklegast var að kvenskoðun eða innhelling skuggaefnis gæfi greiningu og algengast var að meðhöndla sjúkdóminn með hjáveitandi stóma. Samanborið við erlendar rannsóknir er greining með kvenskoðun óvenju algeng á Landspítala.

 

E-06

GIST á Íslandi 2004-2015

Hildur Þóra Ólafsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Guðjón Birgisson3, Páll Helgi Möller1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðlækningadeild Landspítala

htho4@hi.is

Inngangur:GIST (Gastrointestinal stromal tumor) eru sjaldgæf æxli en eru þó á meðal algengustu sarkmeina í meltingarvegi og eru upprunnin í gangráðsfrumum meltingarvegarins (interstitial cells of Cajal (ICC)). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna aldur, kynjadreifingu, stigun og árangur meðferðar hér á landi og bera saman við aðrar rannsóknir.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn þar sem sjúklingar greindir 2004-2013 voru fundnir með SNOMED-greiningakóðum. Safnað var klínískum og meinafræðilegum upplýsingum úr rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.

Niðurstöður: Alls greindust 28 einstaklingar, 16 konur og 12 karlar þar sem miðgildi aldurs var 67 ár (bil: 40-86). Nýgengi var 0,9/100.000/ári. Algengasta staðsetningin var í maga (n=20) en næstalgengasta í smágirni (n=7). Allir gengust undir aðgerð þar sem meðalstærð æxlis var 6,2 cm og reyndust öll c-kit jákvæð. Flest æxlin (n=22) höfðu lágan fjölda kjarnadeilinga, 5 háan en í einu tilfelli var fjöldinn ekki þekktur. Spólufrumur einkenndu 21 æxli, þekjulíkar frumur eitt en báðar frumutegundir fundust í 6 tilfellum. Í 18 tilfellum var sár í slímhúð og drep hjá 8. Flest æxlin voru á stigi II (n=11), tvö á stigi I, 6 á stigi III og 9 á stigi IV. Hjá þremur voru skurðbrúnir ekki án æxlisvaxtar og var lyfjameðferð beitt í þeim tilfellum. Fimm einstaklingar fengu viðbótarlyfjameðferð. Fimm einstaklingar fengu endurkomu æxlis, að meðaltali 22 mánuðum (bil: 4-48) eftir aðgerð og voru allir á stigi IV. Heildarlifun eftir 5 ár var 79% en miðgildi lifunar var 26 mánuðir (bil: 6-142).

Ályktanir: Nýgengi GIST, árangur skurðaðgerða og lifun er sambærileg við aðrar rannsóknir.



E-07

Snemmkominn árangur hlutabrjóstauppbygginga samhliða fleygskurði á Landspítala 2008-2014

Edda Pálsdóttir1, Kristján Skúli Ásgeirsson1, Sigrún Helga Lund2

1Skurðsviði Landspítala, 2heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

eddapalsd@gmail.com

Inngangur: Í völdum tilfellum getur hlutabrjóstauppbygging samfara fleygskurði verið valkostur í meðferð. Þetta á við þegar hefðbundinn fleygskurður er ekki talinn fýsilegur kostur eða aðgerðin gerð í stað brjóstnáms. Þessar tegundir aðgerða hafa verið gerðar á Landspítalanum frá 2008 en umfang og árangur þeirra ekki verið rannsakað áður.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn tilfella-viðmiðarannsókn á öllum konum sem gengust undir fleygskurð á Landspítala 2008-2014. Gerð var fjölþátta aðhvarfsgreining við samanburð á ákveðnum útkomum milli hópanna. Spurningalisti var sendur til að meta ánægju með upplýsingagjöf fyrir aðgerð og útlitslega útkomu.

Niðurstöður: 750 konur gengust undir fleygskurð á tímabilinu, 665 í hefðbundinn fleygskurð (viðmiðunarhópur) en 85 í hlutabrjóstauppbyggingu (tilfellahópur). Þó að meðalstærð æxla og meðalþyngd brjóstasýna væri marktækt meiri í tilfellahópnum (2,4 cm sbr. 1,7 cm p<0.001 og 182 g sbr. 63 g, p<0.001), var engin marktækur munur á tíðni æxlisvaxtar í skurðbrúnum (OR 0,8, 95%-ÖB: 0,3-1,6), tíðni fylgikvilla (OR 1,2, 95%-ÖB: 0,5-2,4), tíðni enduraðgerða (OR 0,9, 95%-ÖB: 0,4-1,6) eða tíma fram að fyrstu eftirmeðferð (OR 1,2, 95%-ÖB: 0,5-2,4). 96% og 90% kvenna í tilfellahópi sögðust ,,mjög sammála“eða ,,að mestu leyti sammála“ þegar þær voru spurðar annars vegar hvort þær væru sáttar við útlitslega útkomu brjóstaaðgerðarinnar og hins vegar út í ánægju með upplýsingagjöf fyrir aðgerð, borið saman við 89% og 74% í viðmiðunarhóp.

Ályktanir: Þótt hlutabrjóstauppbygging samhliða fleygskurði sé umfangsmeiri aðgerð og tæknilega meira krefjandi en hefðbundinn fleygskurður þá er hún öruggur aðgerðakostur í völdum tilfellum. Konur sem gengist hafa undir hlutabrjóstauppbyggingu samhliða fleygskurði eru ánægðar með upplýsingagjöf fyrir aðgerð og útlitslega útkomu.

 

E-08

Krabbamein í reðri á Íslandi 1989-2014. Nýgengi og lífshorfur

Sindri Ellertsson Csillag 1, Rafn Hilmarsson2, Guðmundur Geirsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2þvagfæraskurðdeild Landspítala

sindri.csillag@gmail.com

Inngangur: Krabbamein í reðri er sjaldgæfur en alvarlegur sjúkdómur sem hefur aldrei verið rannsakaður skipulega á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna nýgengi, meðferðir og lífshorfur karla sem greindust með ífarandi krabbamein í reðri á tímabilinu 1989-2014.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra karla sem greindust með ífarandi krabbamein í reðri. Upplýsingar um greiningu fengust frá Krabbameinsskrá Íslands og upplýsingar um sjúklinga úr sjúkraskrárkerfum LSH og FSA auk Dánarmeinaskrár Landlæknisembættisins.

Niðurstöður: Alls greindist 61 karl með ífarandi krabbamein í reðri á tímabilinu. Meðaleftirfylgni var 57 mánuðir. Meðalaldur við greiningu var 67,9 ár og árlegt aldursstaðlað nýgengi að meðaltali 1,12/100.000.  Nýgengið breyttist ekki marktækt á rannsóknartímanum (p=0,30). 58 (95%) sjúklingar voru með flöguþekjukrabbamein en meinafræðileg æxlisstig frumæxla voru: T1 (69%), T2 (24%), T3 (5%) og TX (2%). Alls voru 6 (10%) sjúklingar með eitlajákvæðan sjúkdóm við greiningu og einn hafði fjarmeinvörp (2%). Læknandi skurðaðgerð á frumæxlum var beitt í 56 (97%) tilfella og hjá 4 (67%) sjúklingum sem höfðu jákvæða eitla við greiningu. Fyrirbyggjandi eitlabrottnámi eða sýnatöku var tvisvar beitt. Af þeim 51 sem höfðu klínískt neikvæða eitla við greiningu fengu 6 endurkomu í eitla en 2 sjúklingar fengu fjarmeinvörp án þess að hafa greinst með jákvæða eitla. Fimm ára sjúkdómssértæk lifun var 76%. Eitlajákvæður sjúkdómur við greiningu var sjálfstæður forspárþáttur sjúkdómssértækrar lifunar (p<0,05).

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að nýgengi og lífshorfur sjúklinga með krabbamein í reðri á Íslandi hafa verið stöðug síðastliðin 26 ár og eru sambærileg því sem gerist í nágrannalöndunum. Rannsóknin staðfestir einnig að meinvörp í náraeitlum eru mikilvægasti forspárþáttur lifunar.


 

E-09

Samanburður á notkun tveggja lyfjaforma mísóprostóls til framköllunar fæðingar

Eva Jónasdóttir¹, Hildur Harðardóttir¹,², Anna Sigríður Vernharðsdóttir¹, Birna Gerður Jónsdóttir¹

¹Kvennadeild Landspítala, ²læknadeild Háskóla Íslands

evajonas@landspitali.is

Inngangur: Fæðing er framkölluð hjá um fjórðungi allra fæðandi kvenna. Til þess er prostaglandínið mísóprostól í töfluformi (Cytotec®) notað á Kvennadeild Landspítala, gefið um leggöng/undir tungu, en ekki er skráð ábending til þeirra nota. Erfitt er að stýra verkuninni eða afturkalla virkni lyfsins og oförvun og fósturstreita eru alvarlegar skammtaháðar aukaverkanir. Tilgangurinn var að kanna verkun nýs lyfjaforms mísóprostóls, Misodel® (M), sem er forðalyf skráð til notkunar við framköllun fæðingar og bera það saman við Cytotec® (C). M er gefið um leggöng og seytir 7 mcg/klst og hægt er að fjarlægja það ef þörf krefur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til kvenna sem komu til framköllunar fæðingar á 8 vikna tímabili 2015. Frábending var ör á legi, fleirburar og alvarlegir sjúkdómar móður eða barns. Alls fengu 54 konur M og var lyfið fjarlægt þegar konan var komin í fæðingu eða ef fylgikivllar komu upp en þó aldrei síðar en eftir 24 klst. Samanburðarhópur samanstóð af 47 konum sem fengu C, 25 mcg töflubrot í hylki, gefið um leggöng, á fjögurra tíma fresti, allt að 5 sinnum.

Niðurstöður: Meðaltímalengd að fæðingu með M var 18 klst og 41 mín en 17 klst og 52 mín með C. Oförvun varð hjá 50% kvennanna sem fengu M en 8,5% þeirra sem fengu C. Hjá konum sem fengu M þurftu 30% að fá meðferð vegna oförvunar með terbutalíni en 2,1% þeirra sem fengu C. Fósturköfnun (naflastrengsslagæðarblóð með pH <7.05) varð hjá 10% barna þegar móðir fékk  M en 5,3% barna í C hópi. Fæðing varð með bráðakeisaraskurði  hjá 11% í hópi M en 15% í hópi C. Áhaldafæðing (sogklukka/töng) var framkvæmd hjá 20% í hópi M en 4,3% í hópi C.

Ályktanir: Tímalengd fæðingar og tíðni keisaraskurða var sambærileg með M og C. Oförvun og fósturköfnun varð oftar þegar M var notað. Kostir M eru að lyfið er skráð til notkunar við framköllun fæðinga en gallar eru há tíðni oförvunar auk þess sem lyfið er dýrara en C.

 

E-10

Jákvætt Coombs-próf hjá nýburum; orsakir og afleiðingar

Þórdís Kristinsdóttir1, Sveinn Kjartansson2, Hildur Harðardóttir3, Þorbjörn Jónsson4, Anna Margrét Halldórsdóttir4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins, 3kvennadeild Landspítala, 4Blóðbankinn

th59@hi.is

Inngangur: Coombs-próf greinir mótefni bundin rauðum blóðkornum. Blóðflokkamisræmi móður og fósturs getur valdið mótefnamyndun hjá móður gegn mótefnisvökum á rauðkornum barns. Fari þessi mótefni yfir fylgju geta þau valdið eyðingu rauðkorna fósturs/barns. Markmið rannsóknarinnar var að athuga fjölda jákvæðra Coombs-prófa hjá nýburum á Íslandi á tímbilinu 2005-2012, orsakir þeirra, afleiðingar og meðferð.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að nýburum með jákvætt Coombs-próf á árunum 2005-2012 í tölvukerfi Blóðbankans. Skráðar voru upplýsingar um meðal annars tímasetningu Coombs-prófs, blóðflokk og blóðgjafir barns og móður. Úr mæðraskrá fengust upplýsingar um fæðingu barns, ljósameðferð og fleira. Úr Sögukerfi Landspítala voru fengnar frekari upplýsingar um meðferð og afdrif barna.

Niðurstöður: Á árunum 2005-2012 greindust 383 nýburar með jákvætt Coombs-próf á Landspítala. Í 73,6% tilvika var orsök jákvæðs prófs ABO blóðflokkamisræmi milli móður og barns, hjá 20,4% önnur rauðkornamótefni frá móður, hjá 3,9% hvort tveggja, en í 2,1% tilfella var orsök óljós. Mæður 48,0% nýbura voru RhD jákvæðar og 51,4% RhD neikvæðar, en hjá tveimur mæðrum var blóðflokkur óþekktur. Alls fengu 179 (47,6%) börn meðferð, 167 (93,3%) þeirra fengu ljósameðferð eingöngu, 3 (1,7%) ljós og blóðgjöf, 7 (3,9%) ljós og blóðskipti, eitt barn fékk allt þrennt og annað eingöngu blóðgjöf. Hjá fimm af þeim nýburum sem þurftu blóðskipti var orsökin Rhesus mótefni en ABO blóðflokkamisræmi hjá þremur.

Ályktanir: Jákvætt Coombs-próf hjá nýburum stafaði í flestum tilvikum af ABO-blóðflokkamisræmi á milli móður og barns. Tæplega helmingur barna þarfnaðist meðferðar en langoftast nægði ljósameðferð. Í einstaka tilfellum þörfnuðust börn blóðgjafar og í alvarlegustu tilfellunum blóðskiptameðferð.'

 

E-11

Meðgöngusykursýki á Íslandi

Margrét Helga Ívarsdóttir¹, Ómar S. Gunnarsson¹, Arna Guðmundsdóttir², Hildur Harðardóttir¹,³

¹Læknadeild Háskóla Íslands, ²lyflækningadeild, ³kvennadeild Landspítala

hhard@landspitali.is

Inngangur: Í þessari rannsókn var algengi meðgöngusykursýki (MGS) á Landspítala skoðað frá 1. mars 2012 – 1. mars 2014, í kjölfar breytinga á klínískum leiðbeiningum um greiningu og skimun fyrir MGS, með lægri blóðsykurgildum en áður. Einnig voru skoðaðir sjúkdómar mæðra með MGS og barna þeirra.

Efniviður og aðferðir: Í rannsóknarhópnum voru allar konur með MGS sem fæddu einbura á Landspítala á rannsóknartímabilinu (n=345). Fyrir hverja konu með MGS voru valin tvö viðmið, þ.e. konur án MGS en að öðru leyti með sömu bakgrunnsbreytur (n=612). Lýsandi tölfræði var notuð til að bera saman hópana.

Niðurstöður: MGS greindist hjá 345 af 6631 (5,2%) meðganga. Insúlínmeðferð þurftu 117 (33,9%) konur en hjá 228 (66,1%) dugði mataræðisbreyting og hreyfing. Konur með MGS voru marktækt þyngri við fyrstu mæðraskoðun en konur án MGS (88,2 kg sbr. 76,3; p<0,0001). Konur með MGS voru líklegri til að vera með langvinnan háþrýsting (7,8% sbr. 2%; p=0,00001) og vanvirkan skjaldkirtil (5,5% og 2,1%, p=0,005), en voru ekki líklegri en samanburðarhópur til að fá meðgönguháþrýsting eða meðgöngueitrun. Nýburar kvenna með MGS voru líklegri til að vera þungburar (7,3% sbr. 3,6%; p=0,012), þurfa skammtímaeftirlit á vökudeild (17,4% sbr. 11,1%; p=0,0061), fá nýburagulu (6,7% sbr. 3,3%; p=0,015) og blóðsykurfall (3,48% sbr. 0,16%; p=0,00002). Fyrirburafæðing (< 37 vikur) var algengari (7,5% sbr. 2,9%; p=0,0011). Ekki var marktækur munur á tíðni axlarklemmu (p=0,2) og viðbeinsbrota (p=0,85).

Ályktanir: Algengi MGS jókst úr 4,4% í 5,2% á rannsóknartímabilinu. Konur með MGS eru þyngri, líklegri til að vera með háþrýsting fyrir þungun og fæðing er oftar framkölluð en hjá konum í samanburðarhópi. Börn MGS kvenna eru líklegri til að vera þungburar, fá gulu og/eða blóðsykurfall en börn kvenna í samanburðarhópi.

 

E-12

Huglæg stýring gervifóta með vöðvarafboðsnemum og  gervigreind

Þorvaldur Ingvarsson1,4, Magnús Oddsson, Guðbjörg K. Ludvigsdóttir2,3, Jóna S. Sigurðardóttir, Kristleifur Kristjánsson

1Bæklunardeild SAk, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3endurhæfingardeild Landspítala, 4Þróunardeild Össurar

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort hægt væri að nota vöðvarafboðsnema til að stjórna gervifótum með huganum. Vöðvarafboðsnemum (IMES®) frá  Alfred Mann Foundation (AMF), Santa Clarita, Kaliforníu, var komið fyrir í tveimur aflimuðum einstaklingum.

Efniviður og aðferðir: Fínnálarvöðvarit var tekið til að kanna hvort viðkomandi gæti stjórnað samdrætti vöðvaresta huglægt.Báðir sjúklingarnir reyndust geta virkjað viðkomandi vöðvarestar. Með lítilli aðgerð var tveimur IMES®  nemum  komið fyrir  í vöðvarestum tvíhöfða og  fjórhöfða lærvöðva, m. tibialis anterior og gastrocnemius. Aðgerðin  var framkvæmd  í staðdeyfingu og slævingu. Réttur vöðvi var fundinn, lagður stuttur skurður (5-10 mm),  og í gegnum hann settur 25 cm  hólkur. Síðan  var nemanum komið fyrir í stefnu vöðvaþráða. Fjórum vikum eftir aðgerð hófust prófanir á virkni og notagildi nemanna til hugrænnar stýringar gervifóta.

Niðurstöður: Í ljós kom að hægt er stýra réttu um ökkla á gervigreindarökkla (Proprio®) á  hugrænan hátt bæði við viljastýrðar og  ómeðvitaðar hreyfingar. Ökklinn reyndist aðlagast fyrr og hraðar að undirlagi. Hægt er að færa rök fyrir því að vöðvastýring gervigreindarganglima geti fækkað áföllum sem þeim að sjúklingur hrasi og að stöðugleiki við gang á ósléttu undirlagi aukist. Jákvæð sálræn áhrif þess að viðkomandi einstaklingar gátu tengst huglægt sínum gervifótum komu á óvart.

Ályktun: Innsetning IMES® nema er lítil aðgerð og þoldist vel. Nú tveimur árum eftir aðgerð eru nemarnir virkir og hafa ekki færst úr stað. Svo virðist að innsetning vöðvanema geti verið valkostur til hugrænnar stjórnunar gervifóta í framtíðinni. Með þessu skrefi erum við nær því að  tengja stoðtæki mannshuganum.

 

E-13

Bráður nýrnaskaði í kjölfar kviðarholsaðgerða: algengi, áhættuþættir og horfur

Þórir Einarsson Long1, Daði Helgason1, Sólveig Helgadóttir2, Runólfur Pálsson1,2, Tómas Guðbjartsson1,2, Gísli H. Sigurðsson1,3, Ólafur S. Indriðason2, Martin Ingi Sigurðsson4

1Læknadeild Háskóla Íslands, lyflækningasviði, 2skurðlækningasviði, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 4Svæfinga- og gjörgæsludeild Brigham and Women's sjúkrahúsinu í Boston

thorirein@gmail.com

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna algengi, áhættuþætti og dánartíðni vegna bráðs nýrnaskaða í kjölfar kviðarholsaðgerða á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Allir einstaklingar sem gengust undir kviðarholsaðgerð, opna eða með aðstoð kviðsjár, (þvagfæra- og æðaaðgerðir undanskildar) á árunum 2007-2014 á Landspítala. Kreatínínmælingar sjúklinga fyrir og eftir aðgerð voru notaðar til að greina og stiga bráðan nýrnaskaða samkvæmt KDIGO skilmerkjunum. Áhættuþættir bráðs nýrnaskaða voru metnir með fjölþátta aðhvarfsgreiningu og 30-daga dánartíðni borin saman við paraðan viðmiðunarhóp sem fundinn var með áhættuskori (propensity score).

Niðurstöður: Alls voru framkvæmdar 11.552 kviðarholsaðgerðir á 10.022 sjúklingum á rannsóknartímanum. Í 3.902 tilfella (33,8%) var kreatínín mælt bæði fyrir og eftir aðgerð og af þeim fengu 264 (6,8%) bráðan nýrnaskaða; nánar tiltekið 172 (4,4%), 49 (1,3%) og 43 (1,1%) á KDIGO-stigum 1, 2 og 3. Algengi bráðs nýrnaskaða meðal þeirra 3.902 einstaklinga þar sem kreatínínmælingar lágu fyrir var 67,7/1000 aðgerðir/ári (99%-öryggisbil (ÕB): 57,7-78,6). Líkur á bráðum nýrnaskaða jukust með hærra hjartaáhættuskori (Revised Cardiac Risk Index) og ASA (American Society of Anesthesiology) áhættuflokkun. Í fjölþátta aðhvarfsgreiningu reyndust karlkyn (áhættuhlutfall (ÁH)=1,47, 99%-ÕB, 1,02-2,13), háþrýstingur (ÁH=1,75, 99%-ÕB: 1,10-2,74), undirliggjandi langvinnur nýrnasjúkdómur (ÁH=1,68, 99%-ÕB: 1,12-2,50), ASA flokkur IV (ÁH=9,48, 99%-ÕB: 3.66-29.2) eða ASA flokkur V (ÁH=21,4, 99%-ÕB: 5,28-93,6) og enduraðgerð (ÁH=4,30, 99%-ÕB: 2,36-7,70) auka hættu á bráðum nýrnaskaða. Sjúklingar með bráðan nýrnaskaða höfðu hærri 30-daga dánartíðni (18,2%) samanborið við paraðan viðmiðunarhóp (5,3%, p<0,001).

Ályktanir: Bráður nýrnaskaði er alvarlegur fylgikvilli kviðarholsaðgerða. Auk háþrýstings, enduraðgerðar og langvinns nýrnasjúkdóms virðist ASA flokkun vera sjálfstæður áhættuþáttur fyrir BNS eftir kviðarholsaðgerð. Sjúklingar með bráðan nýrnaskaða hafa marktækt hærri 30-daga dánartíðni, jafnvel eftir að leiðrétt er fyrir öðrum sjúklinga- og aðgerðartengdum áhættuþáttum.

 

E-14

Sjúklingar með höfuðáverka á gjörgæslu Landspítala. Lýðgrunduð rannsókn á nýgengi, orsökum og langtímahorfum - frumniðurstöður

Guðrún María Jónsdóttir1, Bryndís Snorradóttir1, Sigurbergur Kárason 1,2, Ingvar Hákon Ólafsson3, Kristbjörn Reynisson4, Sigrún Helga Lund5, Brynjólfur Mogensen6, Kristinn Sigvaldason1

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3heila- og taugaskurðdeild, 4myndgreiningadeild Landspítala, 5Miðstöð í lýðuheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 6Rannsóknastofa Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum

gudmarjo@gmail.com

Inngangur: Höfuðáverkar eru alvarlegt lýðheilsuvandamál. Alvarleiki höfuðáverka er metinn eftir meðvitundarástandi einstaklinga við komu á sjúkrahús og stýrir sú stigun greiningaraðferðum og meðferð. Þekkt tengsl eru á milli meðvitundarástands í upphafi áverka og langtímahorfa.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæsludeild Landspítala vegna höfuðáverka 1998-2013. Gögnum var safnað um orsakir, ástand við komu, aldur, kyn, legutíma og daga í öndunarvél, meðferð sem beitt var og APACHE II stig. Niðurstöður tölvusneiðmynda samkvæmt Marshall-stigun, áverkaskor og afdrif voru könnuð fyrir alla sjúklinga.

Niðurstöður: Alls lögðust 583 sjúklingar inn á gjörgæslu vegna höfuðáverka, 39 einstaklingar/ári að meðaltali (bil: 27-52). Nýgengi höfuðáverka þar sem þurfti gjörgæsluinnlögn lækkaði á rannsóknartímabilinu úr 14/100.000 íbúa/ári í 12/100.000 íbúa/ári. Meirihluti sjúklinga voru karlar (72%) og meðalaldur 41±24 ár. Á seinni hluta tímabilsins sást aukning í innlögnum eldra fólks. Einnig fjölgaði sjúklingum sem voru undir áhrifum áfengis, eða úr 22,2% í 39,7% (p<0,01). 41,5% einstaklinganna voru með alvarlegan höfuðáverka (GCS 3-8) og algengasta orsök áverka var fall (48,9%). Tíðni höfuðáverka eftir fall jókst úr 43% á fyrri hluta rannsóknartímabilsins í 53% á síðari hluta tímabilsins. Næst algengasta ástæða höfuðáverka voru umferðarslys en þeim fækkaði á tímabilinu úr 35% í 31%. Heildardánartíðnin var 18,2% en lifunin var betri meðal yngri einstaklinga.

Ályktanir: Í samanburði við eldri rannsóknir sést lækkun í nýgengi höfuðáverka vegna umferðarslysa, hugsanlega vegna betri vega, öruggari bíla og markvissari forvarna. Hins vegar er aukning í tíðni höfuðáverka hjá eldra fólki eftir fall á jafnsléttu og er það áhyggjuefni.



E-15

Endurlífganir eftir hjartastopp vegna hjartasjúkdóma utan spítala á höfuðborgarsvæðinu 2008-2014

Guðrún G. Björnsdóttir1, Hrönn Ólafsdóttir2, Hjalti Már Björnsson1, Bergur Stefánsson1, Brynjar Þór Friðriksson4, Gestur Þorgeirsson3, Brynjólfur Mogensen1,5

1Bráðalækningadeild, 2bæklunarskurðdeild, 3hjartadeild Landspítala, 4Slökkviliði höfuðborgarsvæðins, 5læknadeild Háskóla Íslands

ggbjornsdottir@gmail.com

Inngangur: Á höfuðborgarsvæðinu hefur árangur endurlífgana vegna hjartastoppa utan spítala verið rannsakaður frá 1976. Lengi sinnti neyðarbíll með lækni útköllum vegna hjartastoppa en frá 2008 hefur útköllum alfarið verið sinnt af bráðatæknum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem einnig tóku við skráningu. Meðal framfara í meðferð á tímabilinu er að sjálfvirk stuðtæki hafa víða verið tekin í notkun og á Landspítala eru oftar gerðar hjartaþræðingar en áður eftir hjartastopp. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka lifun eftir hjartastopp utan spítala á tímabilinu og bera saman við fyrri tímabil.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar fengust frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðsins um útköll þar sem reynd var endurlífgun eða andlát varð á tímabilinu. Gögn voru skráð samkvæmt Utstein staðli. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrárkerfi Landspítala, endurlífgunargrunni Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins, úr krufningarskýrslum og dánarvottorðum frá Landlækni.

Niðurstöður: Upplýsingar fengust um 636 útköll vegna andláta og hjartastoppa fullorðinna. Endurlífgun var reynd í 71% tilfella. Alls voru 270 endurlífganir reyndar við líklegum eða staðfestum hjartasjúkdómi og var það rannsóknarþýðið. Meðalaldur var 69,9 ár og voru karlar í meirihluta (78%). Meðalútkallstími var rúmar 7 mínútur. Lifandi á sjúkrahús komust 39% sjúklinga og útskrifuðust 22% allra. Átta voru með vægan heilaskaða (13%). Ef vitni var að endurlífgun, grunnendurlífgun beitt og fyrsti taktur var stuðanlegur, var lifun 41%.

Ályktanir: Útkallstími var um mínútu lengri en í síðustu rannsókn 2004-2007 en ekki var marktækur munur á lifun milli tímabilanna. Endurlífgun var reynd í færri útköllum en fyrir skipulagsbreytingar en á sama tíma fór hjartastoppum fækkandi. Fáir sem lifa af endurlífgun hér á landi reynast með heilaskaða. Lifunin er góð miðað við sambærilegar rannsóknir erlendis.

 

E-16

Snemmkomið heilablóðfall eftir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi 2001-2012

Rut Skúladóttir1, Tómas A. Axelsson1, Hera Jóhannesdóttir1 , Haukur Hjaltason2,3, Arnar Geirsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3taugadeild Landspítala

Inngangur: Heilablóðfall er alvarlegur fylgikvilli opinna hjartaaðgerða sem getur skert lifun og lífsgæði sjúklinga. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni og áhættuþætti heilablóðfalls eftir kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi ásamt afdrifum sjúklinga sem fá slíkan fylgikvilla.

Efniviður og aðferð:Afturskyggn rannsókn á 1622 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2012. Sjúklingunum var skipt í tvo hópa; 23 sjúklinga sem fengu heilablóðfall eftir aðgerð og viðmiðunarhóp (n=1599). Skilgreiningin var heilablóðfall með varanlegum einkennum sem ekki gengu til baka innan 24 klst og komu fram innan 30 daga frá aðgerð eða í sömu sjúkrahúslegu. Hóparnir voru bornir saman m.t.t. fylgikvilla, dánartíðni innan 30 daga og heildarlifunar (Kaplan-Meier). Áhættuþættir heilablóðfalls voru metnir með einbreytu- og lógistískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Heildartíðni heilablóðfalls var 1,4%, sambærileg fyrir aðgerðir á hjarta- og lungnavél (1,4%, 18/1243) og á sláandi hjarta (1,3%, 5/379) (p=0,85). Sjúklingar með heilablóðfall voru 4,8 árum eldri og með hærra EuroSCORE (7,6 sbr. 4,6, p<0,001) en áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma voru sambærilegir í hópunum. Aðrir alvarlegir fylgikvillar voru algengari hjá sjúklingum með heilablóðfall (p<0,002), sérstaklega fjöllíffærabilun (26% sbr. 3%, p<0,001).  Þeir sjúklingar lágu 7 dögum lengur á gjörgæslu og 11 dögum lengur á sjúkrahúsi (p<0,001). Dánartíðni innan 30 daga í  hópunum var 13% og 3% (p=0,001). Fimm ára heildarlifun var  73% og 90%  (p=0,004, log-rank próf). Sjálfstæðir forspárþættir heilablóðfalls voru hár aldur og EuroSCORE.

Ályktanir: Tíðni heilablóðfalls eftir hjartaaðgerð á Íslandi er lág (1,4%) og í samræmi við stærri erlendar rannsóknir. Eldri sjúklingar með hátt EuroSCORE eru í aukinni áhættu á heilablóðfalli, dánarhlutfall þeirra innan 30 daga er hærra, tíðni annarra fylgikvilla hærri, legutími lengri og langtímalifun skert.

 

E-17

Notkun og rekjanleiki 'neyðarblóðs' í blóðskápum Landspítala á árunum 2013-2015

Anna Margrét Halldórsdóttir, Björn Harðarson, Guðrún Svansdóttir, Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen

Blóðbankinn

annamha@landspitali.is

Inngangur: Staðsetning neyðarblóðs nálægt sjúklingamóttökum og skurðstofum kemur í veg fyrir óþarfa tafir á blóðinngjöf. Á Landspítala geyma þrír blóðskápar neyðarblóð; nálægt skurðstofum á Hringbraut, Kvennadeild og Rannsóknardeild í Fossvogi. Neyðarblóð Blóðbankans er ávallt O RhD- (negatíft) rauðkornaþykkni. Þar sem einungis 8,4% íslensku þjóðarinnar eru í O RhD- blóðflokki er nauðsynlegt að O RhD- blóð sé aðeins notað í neyð.

Efniðviður og aðferðir:Afturskyggn leit var gerð í ProSang tölvukerfi Blóðbankans og gagna aflað um notkun O RhD- eininga í blóðskápum Landspítala á árunum 2013-2015. Upplýsinga var leitað um blóðflokk, aldur og kyn blóðþega. Talin voru tilvik þar sem upplýsingar um rekjanleika neyðarblóðs vantaði, það er hvaða sjúklingar fengu neyðarblóðseiningar.

Niðurstöður: Árin 2013-2015 voru 488 O RhD- neyðarblóðseiningar úr blóðskápum Landspítala notaðar fyrir sjúklinga, eða að meðaltali 163 ein. á ári. Í 95 tilvikum (19%) skorti rekjanleika en upplýsingar fengust um afdrif 393 O RhD- neyðarblóðseininga sem voru sannanlega gefnar sjúklingum. Þar af voru 319 rauðkornaeiningar (81%) gefnar sjúklingum með RhD+ blóðflokk. Af 393 neyðarblóðseiningum var 231 eining gefin karlmönnum en 93 einingar gefnar kvenkyns sjúklingum eldri en 50 ára, eða samtals 324 (82%) einingar. Aðeins 19 O RhD- neyðarblóðseiningar (5%) voru gefnar RhD- konum yngri en 50 ára.

Ályktanir: Rekjanleika neyðarblóðs á Landspítala reyndist ábótavant. Meirihluti O RhD- neyðarblóðseininga var gefinn sjúklingum sem uppfylla skilyrði þess að fá O RhD+ neyðarblóð. Mikill minnihluti eininga var gefinn RhD- konum á barneignaraldri. Tilefni er til þess að meta hvort bæta skuli við O RhD+ neyðarblóðseiningum í blóðskápa Landspítala til viðbótar við ORhD- blóð.

 

E-18

Komur erlendra ferðamanna á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2001-2014

Guðbjörg Pálsdóttir1,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2,3, Brynjólfur Mogensen1,2,4

1Flæðisviði Landspítala,  2Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3hjúkrunarfræðideild, 4læknadeild Háskóla Íslands

guggap@lsh.is

Inngangur: Erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað rúmlega þrefalt frá 2001 og fór fjöldinn yfir milljón árið 2014. Rannsóknir erlendis hafa gefið vísbendingar um að viðbrögð á ferðamannastöðum geti haft langtímaáhrif á ferðamenn sem lenda í slysum eða veikindum. Lítið er vitað um hvers vegna og hversu mikið erlendir ferðamenn þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda á Íslandi. Markmiðið var að kanna komur erlendra ferðamanna vegna veikinda og slysa á bráðamóttöku Landspítala, sjúkdómsgreiningar, innlagnarhlutfall og meðferð í þeim tilgangi að bæta forvarnir og sértæka heilbrigðisþjónustu ferðamanna.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem leituðu á Bráðamóttöku Landspítala 2001-2014 sem höfðu svokallaða gervikennitölu eða erlent heimilisfang, að undanskildum konum í fæðingu. Gerð var afturskyggn gagnaöflun úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: 14.288 féllu undir inntökuskilyrðin á tímabilinu. Flestir komu eftir 2009 (58%). Karlar voru 7905 (55%) og konur 6398 (45%). Meðalaldur var 42 ár en algengasta aldursbilið 21-30 ár. Flestar ástæður fyrir komu voru afleiðingar slysa (50%), því næst vegna sjúkdóma (46%). Algengustu greiningar vegna slysa voru opið sár á höfði, tognun á ökkla og brot á fótlegg/ökkla. Algengustu ástæður innlagna voru brot á fótlegg/ökkla, kviðarhols- og grindarholsverkir, lærbrot, slag og lungnabólga. Innlagnarhlutfall vegna slysa var 46% en veikinda 50% og meðallegutími fjórir dagar.

Ályktanir: Rannsóknin gefur vísbendingar um helstu ástæður fyrir þjónustuþörf og álagstíma í heilbrigðisþjónustu tengda erlendum ferðamönnum. Möguleiki væri á að nýta niðurstöðurnar við þróun þjónustu út frá sérhæfðum þörfum erlendra ferðamanna og markvissra forvarna út frá greiningu á aðstæðum slysa og veikinda.

 

E-19

Langtímaárangur skurðaðgerða við sjálfsprottnu loftbrjósti á Íslandi 1991-2015

Tinna Harper Arnardóttir1,2, Guðrún Fönn Tómasdóttir1, Arnar Geirsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

tinna.harper@gmail.com

Inngangur: Sjálfsprottið loftbrjóst getur greinst endurtekið og þarf þá oft að grípa til skurðaðgerðar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni og langtímaárangur þessara aðgerða hér á landi með áherslu á fylgikvilla og tíðni enduraðgerða vegna endurtekins loftbrjósts.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 362 sjúklingum (meðalaldur 29,4 ár, 77,8% karlar) sem gengust undir 431 aðgerð við sjálfsprottnu loftbrjósti á Íslandi 1991-2015. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám og m.a. skráð tegund aðgerðar, 30 daga dánartíðni og hvort greinst hefði endurtekið loftbrjóst sem krafðist enduraðgerðar. Meðaleftirlitstími var 153 mánuðir og miðast eftirlit við 1. mars 2016.

Niðurstöður: Að meðaltali voru framkvæmdar 17±6,3 aðgerðir á ári og sveiflaðist tíðnin frá 8 til 31 aðgerðar á ári. Meðalaðgerðartími var 60 mínútur og voru algengustu ábendingarnar annað (38,5%) og fyrsta loftbrjóst (30,3%). Í 99,1% tilfella var gerður fleygskurður, en í 56,9% tilfella var bætt við fleiðruertingu og hjá 13,1% hlutabrottnámi á brjóstholsfleiðru. Hlutfall aðgerða með brjóstholssjá (VATS) jókst úr 67% fyrstu 5 árin í 97% þau síðustu. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru viðvarandi loftleki (11,8%) og endurtekið loftbrjóst (9,0%). Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð. Alls þurftu 27 einstaklingar enduraðgerð vegna loftbrjósts (6,3%), þar af einn með þekktan lungnasjúkdóm, og var tíðnin hærri eftir brjóstholsspeglun en eftir brjóstholsskurð (8,0% sbr. 3,4%, p<0,01). Tímalengd frá aðgerð að endurteknu loftbrjósti var að miðgildi 4 mánuðir (bil: 0-47).

Ályktanir: Árangur skurðaðgerða við sjálfsprottnu loftbrjósti er góður á Íslandi. Þó er endurtekið loftbrjóst vandamál, en líkt og erlendis er tíðni endurtekins loftbrjósts tvöfalt hærri eftir brjóstholsspeglun en opna skurðaðgerð.

 

E-20

Er kynjabundinn munur á afdrifum sjúklinga sem greinast með bráða ósæðarflysjun á Íslandi?

Inga Hlíf Melvinsdóttir1, Sigrún Helga Lund2, Bjarni A. Agnarsson3, Tómas Guðbjartsson4, Arnar Geirsson4

1Hjarta og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í meinafræði, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

ingahlifm@gmail.com

Inngangur: Bráð ósæðarflysjun er lífshættulegur sjúkdómur þar sem skjót greining getur skipt sköpum varðandi lifun og tíðni alvarlegra fylgikvilla. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni er hærri hjá konum en körlum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna kynjabundin afdrif þessara sjúklinga hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga sem greindir voru með bráða ósæðarflysjun á Íslandi 1992-2013. Upplýsingar um fyrra heilsufar, áhættuþætti og einkenni voru skráðar úr sjúkraskrám en einnig var farið yfir krufningaskýrslur sjúklinga sem ekki náðu lifandi á sjúkrahús. Aldursstaðlað nýgengi var reiknað út frá gögnum Hagstofu Íslands, lifun reiknuð með aðferð Kaplan-Meier og Cox-fjölbreytugreining notuð til að meta forspárþætti lifunar.

Niðurstöður: Af 153 sjúklingum voru konur 59 talsins (38,6%). Nýgengi ósæðarflysjunar hélst svipað fyrir bæði kyn á rannsóknartímabilinu (p=0,92). Konur voru 8 árum eldri en karlar (p<0,001) en ekki sást munur á kynjahlutfalli þeirra sem létust utan sjúkrahúss, náðu lifandi á sjúkrahús eða voru teknir til aðgerðar. Hins vegar voru martækt fleiri konur með meðvitundarskerðingu (p=0,03) við komu á sjúkrahús. Kvenkyn reyndist sjálfstæður forspárþáttur hærri dánartíðni innan 24 tíma og 30 daga. Konur höfðu einnig marktækt lakari 30 daga lifun en karlar (29 sbr. 28%, p=0,05) en dvöldu skemur á gjörgæslu (4,3 sbr. 7,6 dagar, p=0,05). Fimm ára lifun beggja kynja var hins vegar sambærileg, eða í kringum 39,6%.

Ályktanir: Konur hafa verri 30 daga lifun eftir bráða ósæðarflysjun en karlar, sem er í takt við erlendar rannsóknir. Langtímalifun beggja kynja er hins vegar sambærileg.

 

E-21

Dánartíðni eftir alvarlega æðaáverka á Íslandi 2000-2011 - fyrstu niðurstöður

Bergrós K. Jóhannesdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2, Brynjólfur Mogensen1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3bráðasviði, Landspítala

bergroskj@gmail.com

Inngangur: Áverkar eftir slys og ofbeldi eru algeng dánarorsök, ekki síst eftir áverka á stóræðar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða í fyrsta skipti hjá heilli þjóð einstaklinga sem komust lifandi á sjúkrahús og þá sem létust vegna æðaáverka fyrir komu.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar með alvarlega stóræðaáverka á Íslandi 2000-2011. Leitað var í rafrænum gagnagrunnum stærri sjúkrahúsa og farið yfir krufningaskýrslur. Skráð var tegund áverka, meðferð, legutími, magn blóðhlutagjafa, afdrif og reiknað ISS-áverkaskor. Bornir voru saman einstaklingar sem náðu lifandi á sjúkrahús og þeir sem létust áður.

Niðurstöður: Alls hlutu 100 einstaklingar 154 æðaáverka; í 79 tilfellum eftir slys, 14 voru sjálfskaðar og 7 morðtilraunir/morð. Alls létust 64 fyrir innlögn en 36 náðu lifandi á sjúkrahús. Ekki var munur á meðalaldri (43 ár) eða hlutfalli karla (82%) í hópunum tveimur. Sljóir áverkar voru algengari hjá þeim sem létust fyrir innlögn (89% sbr. 72%, p=0,032). Æðaáverkar í brjóstholi voru 2/3 af áverkum þeirra sem létust en tæplega 1/3 áverka þeirra sem náðu lifandi á sjúkrahús. Meðallegutími var 28 dagar, en 37 sbr. 5 dagar hjá sjúklingum með sljóa og ífarandi áverka (p=0,004). ISS-áverkaskor síðarnefndu sjúklinganna var einnig hærra (34 sbr. 15, p=0,007). Opin aðgerð var gerð á 28 sjúklingum en 5 fengu stoðnet í æðaþræðingu.

Ályktanir: Alvarlegustu stóræðaáverkar eru á brjóstholshluta ósæðar og langoftast vegna sljórra áverka. Tveir af hverjum þremur sjúklingum ná ekki lifandi á sjúkrahús. Rúmlega fimmtungur lifir ekki af meðferð á sjúkrahúsi, sem oftast felst í opinni skurðaðgerð eða ísetningu stoðnets í æðaþræðingu.


E-22

Endurinnlagnir eftir skurðaðgerðir vegna lungnakrabbameins - frumniðurstöður

Björn Friðriksson1, Guðrún N. Óskarsdóttir2, Hannes Halldórsson1, Hrönn Harðardóttir1,3, Arnar Geirsson2, Steinn Jónsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3lungnadeild Landspítala

bmf3@hi.is

Inngangur: Bráðar endurinnlagnir eftir skurðaðgerðir vegna lungnakrabbameins hafa ekki verið rannsakaðar áður hér á landi. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða endurinnlagnir, forspárþætti þeirra og dánartíðni þessa sjúklingahóps.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir aðgerð vegna lungnakrabbameins á Íslandi árunum 1991-2014. Endurinnlögn var skilgreind sem bráðainnlögn á sjúkrahús innan 90 daga frá útskriftardegi. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að meta forspárþætti innlagnar innan 30 og 90 daga en einnig dánartíðni innan 90 daga og 6 mánaða.

Niðurstöður: Á ofangreindu tímabili fór 641 einstaklingur í 670 aðgerðir og útskrifaðist af spítalanum í kjölfarið; 570 fóru í blaðnám, 81 í lungnabrottnám og 82 í fleyg/geiraskurð. Tíðni endurinnlagna eftir 30 og 90 daga var 9,7% og 16,4%. Flestar endurinnlagnir (59%) voru innan 30 daga frá útskrift, og voru oftast vegna fylgikvilla tengdum aðgerðinni (63%). Áhættuþættir endurinnlagnar innan 30 daga voru saga um lungnateppu (HL 1,98, 95%-ÕB: 1,09-3,55) og minniháttar fylgikvilli í legu (HL 3,3, 95%-ÕB:1,9-6,1). Stig lungnakrabbameins (HL 1,43, 95%-ÕB: 1,22-1,70), meiriháttar fylgikvilli í legu (HL 5,40, 95%-ÕB:2,11-13,26), endurinnlögn innan 30 daga (HL 3,66, 95%-ÕB: 1,71-7,53) og ASA-skor (HL 1,66, 95%-ÕB: 1,03 - 2,70) voru sjálfstæðir forspárþættir dauða innan 6 mánaða.

Ályktanir: Endurinnlagnir eru algengar eftir skurðaðgerðir vegna lungnakrabbameins, eða 10% á fyrsta mánuði eftir aðgerð. Flestar endurinnlagnir má rekja til fylgikvilla eftir aðgerð sem oft tengjast undirliggjandi lungna- eða hjartasjúkdómum. Aukið eftirlit að útskrift lokinni gæti fækkað endurinnlögnum hjá þessum sjúklingahópi.



E-23

Stigun lungnakrabbameins með miðmætisspeglun á Íslandi 2003-2012

Jónína Ingólfsdóttir1, Þóra Sif Ólafsdóttir1, Hrönn Harðardóttir2,3, Steinn Jónsson2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2lungnadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

jonina.ingolfsdottir@gmail.com

Inngangur: Miðmætisspeglun er talin kjörrannsókn til að meta útbreiðslu lungnakrabbameins í eitla efra og fremra miðmætis, enda þótt rannóknaraðferðir eins og jáeindaskönnun og berkju-/vélindaómspeglun hafi fækkað þessum aðgerðum undanfarin ár. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur miðmætisspeglunar á Íslandi og meta neikvætt forspárgildi við greiningu miðmætiseitilmeinvarpa lungnakrabbameins.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar (n=125, meðalaldur 66 ár, 49% karlar) með lungnakrabbamein sem ekki var af smáfrumugerð sem gengust undir miðmætisspeglun á Landspítala 2003-2012. Farið var yfir sjúkraskrár, reiknað út 30 daga dánarhlutfall og farið yfir vefjasvör. Neikvætt forspárgildi miðmætisspeglunar var reiknað hjá 66 sjúklingum sem í kjölfarið gengust undir brjóstholsskurðaðgerð með lækningu að markmiði.

Niðurstöður: Miðmætisspeglunum fjölgaði úr 2 árið 2003 í 24 árið 2012 (p<0,001). Meðal aðgerðartími var 31 mínúta og 64% sjúklinga útskrifuðust innan sólarhrings frá aðgerð. Að meðaltali voru tekin sýni úr 2,9 miðmætiseitlum (bil: 1-5). Hjá 42 sjúklingum (34%) fundust meinvörp í að minnsta kosti einum eitli, en hjá hinum eitilvefur eða ósérhæfðar vefjabreytingar. Í þremur tilfellum (2%) fékkst ekki vefjasýni úr eitlum. Alls fengu 5% sjúklinga einhvern fylgikvilla í eða eftir aðgerð og voru þeir helstu hæsi (2,4%), skurðsýking (0,8%) og lungnabólga (0,8%). Neikvætt forspárgildi miðmætisspeglana reyndist 91,9%, en 5/66 sjúklingar reyndust hafa meinvörp í miðmætiseitlum (N2-eitlastöð) við aðgerð sem ekki höfðu greinst við miðmætisspeglun. Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð.

Ályktanir: Árangur miðmætisspeglana er mjög góður hérlendis sem endurspeglast í lágri tíðni fylgikvilla og 0% 30 daga dánartíðni. Neikvætt forspárgildi er í samræmi við erlendar rannsóknir.

 

E-24

Hitameðferð á grunna bláæðakerfi ganglima

Guðmundur Daníelsson1, Helga Magnúsdóttir2

1Æðaskurðdeild Landspítala, 2Domus Medica

gudmundd@landspitali.is

Inngangur: Meðferð á sjúkdómum í bláæðakerfi ganglima hefur tekið miklum breytingum á síðustu 20 árum. Aðgerð sem áður var gerð í svæfingu og krafðist innlagnar er nú gerð með innæðaaðgerð í staðdeyfingu og algengt er að sjúklingar komist til vinnu daginn eftir. Gerð var rannsókn á upplifun sjúklinga af aðgerð, verkjalyfjanotkun og hversu lengi þeir hafi verið frá vinnu eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: 142 sjúklingum, sem meðhöndlaðir höfðu verið með með leisigeislun vegna bakflæðis í innanlærisbláæð (v. saphena magna) eða aftanleggsbláæð (v. saphena parva) var fylgt eftir eina viku og 6 mánuðum frá aðerð. Eftir viku var spurt um upplifun af aðgerð, verkjalyfjanotkun og hvenær þeir hefðu aftur farið til vinnu. Eftir 6 mánuði var gerð ómskoðun og æðin, sem meðhöndluð var, skoðuð og ánægja sjúklings með árangur aðgerðarinnar metin.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 142 aðgerðir á jafnmörgum sjúklingum. Meðalaldur var 51 ár (bil: 17-82). Konur voru í meirihluta (69%). 97,2% sjúklinga voru mjög sáttir eða sáttir með aðgerðina (heildarupplifun). Verkjalyfjanotkun eftir aðgerð var almennt lítil en 88% notuðu verkjalyf aðgerðardag eða höfðu ekki notað verkjalyf. Meirihluti sjúklinga voru komnir til vinnu á fyrsta til þriðja degi eftir aðgerð. Meðhöndluð æð var ekki sjáanleg eða illgreinanleg með ómskoðun hjá þeim 123 sem mættu í 6 mánaða skoðun. Hjá einum sjúklingi var innanlærisbláæðin enn til staðar með bakflæði.

Ályktun: Hitameðferð á grunna bláæðakerfi ganglima í staðdeyfingu þolist vel og sjúklingar eru almennt ánægðir með árangur aðgerðar hálfu ári síðar. Notkun verkjalyfja eftir aðgerð er lítil og sjúklingar eru komnir fljótt aftur til vinnu.

 

E-25

Tengsl líkamshæðar við útbreiðslu kransæðasjúkdóms

Eyþór Björnsson1, Guðmundur Þorgeirsson1,2, Þórarinn Guðnason2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild Landspítala

eythor.bjoernsson@gmail.com

Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt að lægri líkamshæð tengist auknum líkum á kransæðasjúkdómi. Ekki er vitað með vissu hvort hæð hafi fylgni við útbreiðslu sjúkdómsins, sem endurspeglar magn æðakölkunar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samband hæðar og útbreiðslu kransæðasjúkdóms.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið samanstóð af 11278 einstaklingum (7706 körlum og 3572 konum) sem gengust undir kransæðaþræðingu á Íslandi frá 2007 til 2015. Upplýsingar um niðurstöður kransæðaþræðingar, hæð og hefðbundna áhættuþætti voru sóttar í gagnagrunninn SCAAR (Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry). Útbreiðsla kransæðasjúkdóms var metin sem fjöldi kransæða með marktæk þrengsl (að lágmarki 50%). Áhrif hæðar voru metin fyrir lækkun um eitt staðalfrávik (6,5 cm hjá körlum og 5,8 cm hjá konum) og var leiðrétt fyrir aldri og öðrum hefðbundnum áhættuþáttum.

Niðurstöður: Lægri líkamshæð tengdist auknum líkum á marktækum kransæðaþrengslum (í einhverri kransæð) bæði hjá körlum (gagnlíkindahlutfall, OR) = 1,35; 95%-ÖB: 1,26-1,45) og konum (OR = 1,15; 95%-ÖB: 1,03-1,28). Fjöldi kransæða með marktæk þrengsl jókst með lægri líkamshæð bæði hjá körlum (β = 0,13; 95%-ÖB: 0,10-0,17; p=2,4 × 10-16) og konum (β= 0,060; 95%-ÖB: 0,011-0,11; p=0,016). Þegar skoðaðir voru einstaklingar með marktæk kransæðaþrengsl, var sambandið tölfræðilega marktækt hjá körlum (β = 0,045; 95%-ÖB: 0,016-0,074; p=0,0027) en ekki konum (p=0,68).

Ályktun: Þessar niðurstöður sýna að lægri líkamshæð hefur fylgni við aukna útbreiðslu kransæðasjúkdóms í fjölmennu úrtaki einstaklinga sem gengust undir kransæðaþræðingu. Sambandið virðist sterkara meðal karla en kvenna en orsök þessa kynjamunar er óþekkt.



E-26

Orku- og próteinjafnvægi fullorðinna sjúklinga á gjörgæsludeildum Landspítala.

Hrönn Birgisdóttir1, Kristinn Sigvaldason1, Ingibjörg Gunnarsdóttir2, Thor Aspelund3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir4

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2Næringastofu Landspítala, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 4hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

hronnb@simnet.is

Inngangur: Hæfileg orku- og próteingjöf gjörgæslusjúklinga getur leitt til færri fylgikvilla eins og lægri sýkingatíðni, betri heilsutengdra lífsgæða, styttri legutíma og lægri dánartíðni. Fyrri rannsóknir benda til að gjörgæslusjúklingar fái ekki nægilega orku og prótein til að fullnægja þörf. Orkuþörf gjörgæslusjúklinga er talin vera á bilinu 20-25 kkal/kg/dag og próteinþörf 1,2 g/kg/dag (miða skal við kjörþyngd). Markmið rannsóknarinnar var að meta orku- og próteingjöf til sjúklinga á gjörgæsludeildum Landspítalan og bera saman við áætlaða þörf.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn og var gögnum safnað á þremur tímabilum, í 6 mánuði alls árin 2014-15. Skoðaðir voru allir fullorðnir sjúklingar 18 ára og eldri sem lágu lengur en 48 klst á gjörgæsludeildum og voru ekki á lífslokameðferð. Skráð var orku- og próteingjöf fyrir hvern sólarhring sem sjúklingur lá á gjörgæsludeild auk bakgrunnsþátta. Gögn voru greind með lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Heildarfjöldi sjúklinga í rannsókninni var 163 og lágu þeir í samtals 1462 legudaga (bil: 2-42). Meðallegutími var 8 dagar. Meðalaldur var 64 ár, karlar voru 61%. Lyflækningum tilheyrðu 53% og 47% skurðlækningum. Meðal APACHE-II stig voru 20. Meðallíkamsþyngdarstuðull var 28 kg/m2. Hlutfall þeirra sem þurfti öndunarvélameðferð var 72% og meðalöndunarvélatími þeirra var 136 klst. Sondunæringu fengu 50% sjúklinga en 75% fékk næringu um munn á einhverjum tímapunkti. Meðalorkugjöf til sjúklinga var 526 hitaeiningar/dag eða 44 % af daglegri orkuþörf. Meðalpróteingjöf var 11,5 g/dag eða 16% af próteinþörf.

Ályktanir: Bæði orku og próteingjöf sjúklinga í rannsókninni voru undir viðmiðunarmörkum. Léleg skráning á próteinum hjá sjúklingum sem nærast um munn gæti skýrt próteinjafnvægið að hluta.

 

E-27

Æðastíflubrottnám úr hálsslagæðum á Íslandi 2010-2015

Andri Snær Ólafsson1, Guðmundur Daníelsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2æðaskurðlækningadeild Landspítala

aso18@hi.is

Inngangur: Æðastíflubrottnám úr hálsslagæð (carotis endarterectomy) er gerð til að fyrirbyggja heilablóðfall hjá sjúklingum með einkennagefandi þrengingu í hálsslagæð. Ávinningur aðgerðar er mestur ef hún er gerð skömmu eftir fyrstu einkenni, en í dag  eru sjaldan gerðar aðgerðir á sjúklingum sem greinast með þrengingu án einkenna. Markmið þessarar rannsóknar var að meta árangur þessarar aðgerðar hér á landi, mældan í tíðni fylgikvilla og lifun.

Efniviður og aðferðir: Leitað var í gagnagrunni Landspítala að æðastíflubrottnámsaðgerðum á hálsslagæðum á árunum 2010-2015, og voru gögnin skoðuð með tilliti til ábendingar fyrir aðgerð, kyns, aldurs, áhættuþátta æðasjúkdóma og fylgikvilla aðgerðar.

Niðurstöður: Á árunum 2010-2015 voru framkvæmdar 107 æðastíflubrottnámsaðgerðir á hálsslagæð vegna þrengsla, eða að meðaltali 17,8 aðgerðir á ári. Sjötíu og ein (66,4%) aðgerð var gerð á körlum en 36 (33,6%) á konum. Meðalaldur sjúklinga var 69,8 ár. Einkennagefandi þrenging var ábending aðgerðar hjá 92 (86,0%) sjúklingum, en 15 (14,0%) voru einkennalausir. Enginn lést innan þrjátíu daga frá aðgerð en tveir sjúklingar fengu ný einkenni sem bentu til heilablóðfalls. Tíðni alvarlegra fylgikvilla var því 1,9% á þessu tímabili.

Ályktanir: Aðgerðum vegna þrengsla í hálsslagæð hefur fækkað á síðustu árum, þar sem nú eru gerðar færri aðgerðir en áður hjá sjúklingum sem eru án einkenna. Tíðni fylgikvilla var sambærileg og í fyrri íslenskum rannsóknum. Langtímalifun eftir aðgerð var góð.

 

E-28

Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist þrefalt á síðustu áratugum

Ástríður Pétursdóttir1, Björn Már Friðriksson1, Jóhanna M. Sigurðardóttir2, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson4, Tómas Guðbjartsson5

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðdeild Västerås-sjúkrahússins í Svíþjóð, 3rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði, 4lungnadeild og, 5hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

astridurp@gmail.com

Inngangur: Krabbalíkisæxli(carcinoids) í lungum eru sjaldgæf tegund æxla sem oftast eru bundin við lungu en geta meinvarpast. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna nýgengi og árangur meðferðar þessara æxla í vel skilgreindu þýði á 60 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum krabbalíkisæxlum í lungum á Íslandi 1955-2015. Vefjasýni voru endurskoðuð og æxlin stiguð skv. 7. útgáfu TNM-stigakerfisins. Lífshorfur voru reiknaðar með aðferð Kaplan-Meier og var meðaleftirfylgd 15,3 ár.

Niðurstöður: 96 sjúklingar(meðalaldur 54 ár, bil:16-86) greindust á tímabilinu, þar af 65 konur. Árlegt aldursstaðlað nýgengi jókst úr 0,18/100.000 tímabilið 1955-1964 í 0,75 2005-2015. Þriðjungur sjúklinga greindist án einkenna síðari þrjá áratugina en 17% þá fyrri (p<0,01). Hinir höfðu flestir hósta eða brjóstverki og 3 krabbalíkisheilkenni. Meðalstærð æxlanna var 2,6cm (bil:0,4-7,0) og 74 (84%) sjúklingar höfðu dæmigerða (typical) vefjagerð en 14 (16%) ódæmigerða. Átta sjúklingar fóru ekki í aðgerð og voru 4 með útbreiddan sjúkdóm (stig IV), þar af 2 með dæmigerða vefjagerð. Hinir 80 sjúklingarnir gengust undir skurðaðgerð, oftast blaðnám(81%), lést enginn þeirra innan 30 daga frá aðgerð. Af skurðsjúklingum greindust 52 (65%) á stigi IA, 15 (19%) á stigi IB, 9 (11%) á stigi IIA. Þrír (4%) höfðu meinvörp í miðmætiseitlum (stig IIIA), allir með dæmigerða vefjagerð. Við eftirlit höfðu 5 sjúklingar (6%) látist úr sjúkdómnum. Fimm ára lífshorfur alls hópsins voru 87% og 92% fyrir sjúklinga með dæmigerða vefjagerð.

Ályktanir: Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist rúmlega þrefalt á Íslandi síðustu 6 áratugina, aðallega vegna aukningar í tilviljanagreiningum. Sjúklingar með dæmigerða vefjagerð geta greinst með útbreiddan sjúkdóm en langflestir hafa sjúkdóm bundinn við lungað og lífshorfur þeirra eru mjög góðar.

 

E-29

Fyrirburafæðingar á Norðurlöndum á árunum 1997-2011

Kristín María Guðjónsdóttir1, Ragnheiður I. Bjarnadóttir1, Birna B. Másdóttir1, E. Løkkegaard2, S. Rasmussen2, T. Bergholt3, S. Albrechtsen4, K. Klungsøyr5, F.E.I. Skjeldestad6, M.C Fagerberg7, K. Källén8, K.Gottvall8, A.M. Tapper8, A.M. Pyykönen9, M. Gissler10, Alexander Smárason11

1Kvennadeild Landspítala, 2Nordsjællands hospital, Danmörki, 3Fertilitetsklinikken, Rigshospitalet Danmörku, 4Haukeland University Hospital, Bergen, Noregi, 5Norwegian Institute of Public Health, Bergen, Noregi, 6Institute of Community Medicine, UiT The Arctic University of Norway, Tromsø, Noregi, 7Ystad Hospital, Ystad, Svíþjóð, 8The Swedish National Board on Health and Welfare, Stokkhólmi, Svíþjóð, 9Helsinki University Central hospital, Finnlandi, 10THL National Institute for Health and Welfare, Information Department, Helsinki, Finlandi 11Fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri, Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri

kristin.gudjons@gmail.com

Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa tíðni fyrirburafæðinga (<37 vikur meðgöngu) á Norðurlöndunum á árunum 1997-2011, breytingum á tíðni þeirra ásamt hlutfalli keisaraskurða við fæðingar fyrirbura sem flokkast í Robson hópa 6-10.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn, byggð á upplýsingum úr fæðingaskrám Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur. Hlutföll fyrirburafæðinga og tíðni keisaraskurða var reiknuð fyrir hvert land og hvern Robson hóp (6-10).

Niðurstöður: Tíðni fyrirburafæðinga var að meðaltali 5,6% og hélst stöðug yfir tímabil rannsóknarinnar. Hæsta tíðnin 6,3% var í Noregi og lægsta tíðnin 5,1% á Íslandi. Fyrirburafæðingar skiptust í Robson-hópa þannig að 5,0% voru í hópi 6 (frumbyrja með einbura í sitjandi stöðu) 4,6% í hópi 7 (fjölbyrja með einbura í sitjandi stöðu), 14,2% í hópi 8 (fjölburafæðing), 0,9% í hópi 9 (þverlega) og 72,3% voru í hópi 10 (einburi í höfuðstöðu). Hæsta tíðni fjölburafæðinga var í Danmörku og lægsta hlutfall sitjandafæðinga var í Finnlandi. Aðeins 0,3% af öllum fæðingum voru við 22-27(+6) vikna meðgöngulengd. Tíðni keisaraskurða í hópi 10 var um 30% í öllum löndunum við upphaf rannsóknar og jókst tíðnin í Danmörku upp í 33,3% en lækkaði á Íslandi niður í 27,3%. Keisaratíðni fyrirburafæðinga í hópum 6, 7 og 8 voru 76,1%, 72,1% og 52,9%. Hlutföllin voru hæst í Danmörku og Svíþjóð.

Ályktun: Hlutfall fyrirburafæðinga (5,6%) hélst óbreytt yfir rannsóknartímann og litlar breytingar voru á hlutfallinu milli landa. Af öllum fyrirburafæðingum voru 72% þeirra í Robson hópi 10 og hlutfall keisarafæðinga þar var 30% að meðaltali.

 

E-30

Árangur magahjáveituaðgerða á Íslandi árin 2001-2015

Rósamunda Þórarinsdóttir1, Vilhjálmur Pálmason1, Björn Geir Leifsson2, Hjörtur G. Gíslason2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðsviði Landspítala

rth56@hi.is

Inngangur: Magahjáveituaðgerðir með holsjártækni hafa verið framkvæmdar á Landspítala frá árinu 2001. Aðgerðirnar eru mikilvægur meðferðarmöguleiki fyrir sjúklinga með sjúklega offitu. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna langtímaárangur slíkra aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Framskyggn rannsókn er tók til 772 sjúklinga sem gengust undir magahjáveituaðgerð á Landspítala árin 2001-2015. Upplýsingum var aflað úr framvirkum gagnagrunni offituaðgerða sem er hluti af sjúkraskrárkerfi Landspítala. Fullnægjandi þyngdartap var skilgreint sem annað hvort rúmlega helmingstap á yfirþyngd (%EBMIL) eða líkamsþyngdarstuðull (BMI) undir 33 kg/m2.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 40,5 ár og 80% voru konur. Meðalþyngd sjúklinga var 126,6±20,1 kg og líkamsþyngdarstuðull var 44,0±5,8 kg/m2að meðaltali. %EBMIL var 80% eða 56,9+14,7 eftir 1,5 ár, 70% eða 49,6±

14,6 kg eftir 5 ár og 64% eða 48,4±14,4 kg eftir 10-13 ár. 84,4% sjúklinga náðu fullnægjandi þyngdartapi með meðaleftirfylgnitímann 7,4 ár eftir aðgerð. Sjúklingar voru að meðaltali með 2,8 fylgisjúkdóma offitu fyrir aðgerð. 71,2% sjúklinga með sykursýki af tegund tvö fyrir aðgerð fóru í fullt sjúkdómshlé eftir aðgerð. Rúmlega þriðjungur af sjúklingum með háþrýsting eða blóðfituraskanir urðu lyfjalausir eftir aðgerð. Snemmkomna fylgikvilla fengu 37 (4,8%) sjúklingar og fór helmingur þeirra í bráðaaðgerð. Síðkomna fylgikvilla eftir aðgerð fékk fjórðungur sjúklinga (n=174).

Ályktun: Magahjáveituaðgerð hjálpar meirihluta sjúklinga að ná tilætluðu þyngdartapi. Samhliða því hlýtur meirihluti sjúklinga bót á fylgisjúkdómum offitu. Snemmkomnir fylgikvillar voru fátíðir en um fjórðungur sjúklinga fengu síðkomna fylgikvilla sem krefjast oft nýrrar aðgerðar. Sjúklingar sem fara í magahjáveituaðgerð þurfa á ævilöngu eftirliti með næringarástandi að halda.

 

E-31

Þorskroðsígræði til viðgerða á heilabasti í kindum - blinduð samanburðarrannsókn

Einar Teitur Björnsson1, Ingvar Hákon Ólafsson1,7, Hilmar Kjartansson2,6,7, Sigurbergur Kárason3,7, Eggert Gunnarsson5, Einar Jörundsson5, Helgi Jóhann Ísaksson4, Guðmundur Fertram Sigurjónsson6

1Heila- og taugaskurðlækningadeild, 2bráðadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4meinafræðideild Landspítala, 5Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 6Kerecis limited, 7læknadeild Háskóla Íslands

einarteitur@gmail.com

Inngangur: Ýmis efni hafa verið rannsökuð til viðgerða á heilabasti. Efnin hafa reynst misvel og enn er umdeilt hvert þeirra sé best. Rannsóknir á dýravef sem viðgerðarefni hafa undanfarin ár aukist. Við kynnum niðurstöður samanburðartilraunar nýs þorskroðsígræðis, Kerecis Omega3 Dura™ (KO3D), og Duragen Plus® (DP) sem er unnið úr sinum nauta. Þorskroðsígræðið hefur reynst mjög vel sem húðígræði í mönnum.

Efniviður og aðferðir: Í svæfingu var 1x2cm gat gert í heilabast beggja vegna á höfði 24 kinda í fjórum hópum. Öðrum megin var gatinu lokað með KO3D og hinum megin með DP og nothæfni efnanna skráð. Blinduð krufning og vefjafræðiskoðun fóru fram eftir 2, 6, 12 og 20 vikur.

Niðurstöður: Engin brottfallseinkenni eða aukaverkanir sáust hjá dýrunum. Nothæfni efnanna var álitin sambærileg. KO3D reyndist stífara sem aftur á móti gefur möguleika á saumahaldi. Við krufningu sáust hvorki merki leka heila- og mænuvökva né sýkingar. Umfang innankúpusamvaxta, bólgu, samþætting ígræða og heilabasts, myndun heilabasts, gróandi beinflipa og skoðun heilahvela var svipuð. Vefjafræðiskoðun sýndi að bólgufrumuíferð var örlítið meiri þorskroðsmegin eftir tvær vikur en minnkaði svo til muna og hraðari endurnýjun vefs sást við 6 vikur miðað við DP. Tilhneiging til bólgu vegna framandi efnis var einnig örlítið meiri þorskroðsmegin við tvær vikur en hvarf svo. Við 12 og 20 vikur höfðu bæði ígræðin breyst í heilabast með eðlilegu útliti. Engin bólga eða drep sáust í heilaberki.

Ályktun: KO3D virðist öruggt til heilabastsviðgerða og jafn árangursríkt og eitt fullkomnasta kollagenígræði sem til er. Skoðun klínískrar rannsóknar á mönnum stendur til í framhaldi af þessari rannsókn.

 

E-32

Horfur sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins hafa batnað á Íslandi

Hannes Halldórsson1, Ástríður Pétursdóttir1, Björn Már Friðriksson1, Guðrún Nína Óskarsdóttir2, Steinn Jónsson1,3, Magnús Karl Magnússon1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2 hjarta- og lungnaskurðdeild, 3lungnadeild Landspítala

hannes29@gmail.com

Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að skoða árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini hjá heilli þjóð á 24 ára tímabili með sérstaka áherslu á lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir aðgerð á lungnakrabbameini á Íslandi 1991-2014. Lífshorfur voru reiknaðar með aðferð Kaplan-Meier og fjölbreytugreining Cox var notuð til að ákvarða forspárþætti lifunar og hvort lifun hefði breyst á fjögurra ára tímabilum. Útreikningar á lifun miðuðust við 31. desember 2014 og var meðaleftirfylgni 31 mánuður.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 693 aðgerðir á 655 einstaklingum; 523 blaðnám (76%), 84 lungnabrottnám (12%) og 86 fleyg- eða geiraskurðir (12%). Kirtilfrumukrabbamein (59%) og flöguþekjukrabbamein (28%) voru algengustu vefjagerðirnar. Hlutfall sjúklinga á stigi I og II jókst úr 74% í 87% frá fyrsta til síðasta tímabils (p=0,01) en hlutfall tilviljanagreininga (33%) hélst óbreytt (p=0,80). Eins árs lifun jókst úr 69% 1991-1994 í 92% 2011-2014 og þriggja ára lifun úr 44% 1991-1994 í 73% 2011-2014 (p<0.001). Sjálfstæðir forspárþættir verri lifunar voru hærra stig (ÁH=1,39), aldur (ÁH=1,03) og saga um kransæðasjúkdóm (ÁH=1,25). Aðgerð á síðari hluta tímabilsins (2003-2014) hafði betri horfur og var ávinningurinn mestur á tímabilinu 2011-2014 (ÁH=0,48, 95%-ÕB: 0,30-0,76; p=0,0016), jafnvel þótt leiðrétt væri fyrir þáttum eins og stigun og hækkandi aldri.

Ályktanir: Horfur sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins hér á landi hafa batnað á síðustu árum. Þessi þróun er ekki vegna hærra hlutfalls sjúklinga með staðbundinn sjúkdóm, heldur er liklegra að bætt stigun fyrir aðgerð (miðmætisspeglun, berkjuómspeglun, jáeindaskanni) og viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum skýri bættar horfur.

 

E-33

Afdrif sjúklinga eftir kviðarholsskurðaðgerðir á Landspítala. Framskyggn klínísk rannsókn

Elva Dögg Brynjarsdóttir1,2,5, Erna Sigmundsdóttir3, Páll Helgi Möller4, 5, Gísli Heimir Sigurðsson3, 5

1Lyflækningasviði Landspítala, 2lyflækningasviði SAk, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4skurðlækningadeild Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands

elvadoggb@gmail.com

Inngangur: Fylgikvillar eru algengir hjá sjúklingum sem undirgangast stærri skurðaðgerðir á sjúkrahúsum og 30 daga dánartíðni er allt að 4%. Takmarkaðar upplýsingar eru til um langtímahorfur sjúklinga sem undirgangast kviðarholsaðgerðir.

Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa meðferð, fylgikvillum og dánartíðni hjá inniliggjandi sjúklingum sem undirgangast kviðarholsaðgerðir. 

Efniviður og aðferðir: Í þessari framsýnu rannsókn voru þáttakendur allir fullorðnir inniliggjandi sjúklingar sem undirgengust kviðarholsskurðaðgerðir á Landspítala á tímabilinu 01.01.2014 – 31.01.2015. Eftirfylgd var 12 mánuðir. Upplýsingum var safnað um áhættuþætti, skurðaðgerðir, legutíma, fylgikvilla, gjörgæsluinnlagnir og dánartíðni.

Niðurstöður: Af 1121 þáttakendum  fengust fullnægjandi gögn um 1.115 (99,5%), 493 karla og 622 konur. Meðalaldur var 54 ár (18-95) og 856 (76%) voru með ASA skor I eða II. Algengustu undirliggjandi sjúkdómar voru háþrýstingur (34%), krabbamein (18%), hjartasjúkdómar (21%), langvinnir lungnasjúkdómar (11%) og sykursýki (8%). Meðalaðgerðartími var 92 mínútur (11-488). Meðal legutími á sjúkrahúsi var 6 dagar (1-150), endurinnlagnir 86 (7,7%) og bráðaaðgerðir 537 (48%). Algengastar voru aðgerðir á ristli og endaþarmi (24%), gallblöðru (22%), botnlanga (18%), kviðsliti (9%) og smáþörmum (6%). Helstu fylgikvillar voru þvagfærasýking (4,7%), sýking í skurðsári (3,5%), lungnabólga (2,7%), sýklasótt (2,4%), hjartsláttaróregla (2,3%) og bráður nýrnaskaði (2,3%). Samtals voru 148 (13%) sjúklingar lagðir inn á gjörgæsludeild, helmingur eftir valaðgerð og helmingur bráðainnlagnir. Algengustu ástæður bráðainnlagna á gjörgæsludeild voru bráðir kviðverkir (30%) og sýklasóttarlost (14%). Dánartíðni eftir 30 daga var 1,7% og 5,7% eftir eitt ár.

Ályktun: Helmingur kviðarholsskurðaðgerða á Landspítala er bráðaaðgerðir og eru fylgikvillar algengir en dánartíðni eftir 30 daga og eitt ár er þó tiltölulega lág miðað við erlendar rannsóknir.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica