11. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Líf og dauði á læknaráðstefnu í Hörpu

Alþjóðafélag lækna fundaði í fyrsta sinn á Íslandi

                                         
                                          Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra talaði á ráðstefnu
                                          Alþjóðalækna-félagsins. Mynd/gag

Svið læknisfræðinnar er stórt og flókið. Það vekur áleitnar spurningar um líf og dauða og það fjallar um margvíslega hugsun og viðkvæm málefni í samfélaginu okkar,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við setningu ráðstefnu Alþjóðalæknafélagsins sem haldin var dagana 2.-4. október síðastliðinn í Hörpu. Ráðstefnan var haldin samhliða aðalfundi Alþjóðafélagsins.

Norðurljósasalurinn var þétt setinn þegar ráðstefnan um læknisfræðilega siðfræði var sett. Samtökin hafa árlega hist á ráðstefnu allt frá 1946 og var hún nú í fyrsta sinn á Íslandi, á 100 ára afmæli Læknafélags Íslands. Félagið er meðal stofnenda samtakanna og var Jón Snædal, yfirlæknir öldrunarlækna á Landspítalanum, forseti ráðstefnunnar. Fyrir rúmum áratug gegndi hann stöðu forseta Alþjóðafélagsins.

Jón er ánægður með ráðstefnuna og segir í fyrsta sinn sem svo stór ráðstefna er samhliða aðalfundinum. „Algjör frumraun,“ segir hann. „Alltaf hefur verið einn dagur undir vísindahluta en við jukum það í tveggja og hálfs dags ráðstefnu, þar sem oftast nær voru tvær samhliða málstofur og að hluta til þrjár,“ lýsir hann. Uppröðunin hafi kallað á að læknafélög tækju með sér fleiri fulltrúa en þá sem sátu aðalfundinn.  

„Þannig fengu fleiri tækifæri til að sjá hvað alþjóðafélagið er að fást við og tala um og samtökin sjálf fengu hugmyndir frá öðrum en þeim sem venjulega koma. Ein málstofa var til að mynda opinn vinnufundur hjá nefnd sem fjallar um erfðalækningar og erfðafræði, þar sem margir komu og létu í ljós skoðanir sínar sem nefndin vinnur áfram með. Svo sýnist mér að á mörgum málstofum hafi komið fram sjónarmið sem hafi áhrif á vinnu samtakanna,“ segir Jón.

Hann var sérstaklega ánægður með staðsetninguna. „Það er ekkert slor að geta boðið upp á Hörpu og sýna að við höfum á að skipa mönnum og konum sem hafa margt frambærilegt fram að færa.“

Reynir Arngrímsson formaður Læknafélagsins setti ráðstefnuna. „Þáttur íslenskra vísindamanna vakti mikla athygli. Það er hlustað á fulltrúa Læknafélags Íslands inni í alþjóðafélögunum rétt eins og innan fastanefndar lækna hjá Evrópusambandinu. Það kom berlega í ljós á þessari ráðstefnu.“

Svandís sagði ráðstefnur sem þessa gefa okkur tækifæri til að læra hvert af öðru; „Við náum að tengjast og dýpka skilning okkar á siðferðilegum málum sem svo vonandi mun verða hluti af framþróun fræðanna, sem við erum öll þakklát fyrir.”



Þetta vefsvæði byggir á Eplica