10. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Vilja vita hver veitti vonda ráðgjöf vegna samningabrota

                                          
                                          Ljóst er að héraðsdómur í máli sérfræðilækna gegn Sjúkratryggingum
                                          Íslands hristi upp í kerfinu.

Dómur Héraðsdóms í máli Ölmu Gunnarsdóttur og Sjúkratrygginga Íslands er varnarsigur um atvinnuréttindi lækna og réttindi landsmanna til heilbrigðisþjónustu. Hann er kennslustund fyrir heilbrigðisráðuneytið og stofnanir þess. Þetta segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. Læknasamfélaginu hafi verið misboðið.

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi 19. september síðastliðinn úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna umsókn Ölmu Gunnarsdóttur um aðild að rammasamningi sérfræðilækna við ríkið. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að áfrýja ekki dómnum og hefur boðið ársframlengingu á samningnum sem annars rennur út um áramót. Hún boðar samráð við sérfræðilækna um kerfisbreytingar.

Reynir segir umhugsunarvert hvers vegna þrír heilbrigðisráðherrar hafi fengið svona slaka ráðgjöf og anað út í lögleysu. „Við hljótum að spyrja hver hafi ráðið þar för. Er þetta komið úr heilbrigðisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu eða frá öðrum ráðgefandi aðilum eins og til dæmis Embætti landlæknis? Því verður að svara,“ segir hann.

Alma var ein af 8 sérgreinalæknum sem ákváðu að höfða mál. Gísli Guðni Hall, hæstaréttarlögmaður og verjandi hópsins, segir að skoða þurfi aðstöðu hvers og eins sérfræðilæknis með tilliti til réttar á skaðabótum. Skaðinn kunni að vera mismikill.

„Aðstæður þessara lækna eru mismunandi, sumir búa ytra, aðrir hér heima. Svo héldu sumir áfram að starfa á spítölum erlendis en Alma til að mynda hafði ákveðið að flytja heim,“ segir hann og telur líklegt að allir geti sýnt fram á tjón.

GAG



Þetta vefsvæði byggir á Eplica