06. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Þrír nýir doktorar í læknisfræði frá HÍ

                                   
                                    Ingibjörg Harðardóttir, Sigurður Páll Pálsson, Oddur Ingimarsson og
                                    Dan Siskind búin að koma verkefni dagsins í höfn. Mynd Kristinn Ingvarsson.


ODDUR INGIMARSSON
varði doktorsritgerð sína við læknadeild Háskóla Íslands 10. apríl. Ritgerðin heitir: Aukaverkanir geðrofslyfja – gögn og gildi til að varða bestu leiðir til notkunar clozapine í geðklofa sem svarar illa meðferð.

Andmælendur voru Dan Siskind, dósent við University of Queensland, og Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir réttar- og öryggisgeðlækninga við geðsvið Landspítala.

Leiðbeinandi var Engilbert Sigurðsson, prófessor og í doktorsnefnd sátu Halldóra Jónsdóttir, Hreinn Stefánsson, Magnús Haraldsson og James H. MacCabe.

Ágrip af rannsókn

Um 20-30% geðklofasjúklinga svara ekki meðferð með geðrofslyfjum og eru sagðir með meðferðarþráan geðklofa. Eina meðferðin sem hefur sannað sig sem gagnreynd meðferð hjá þeim hópi er geðrofslyfið clozapín. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa notkun clozapíns á Íslandi og aukaverkunum sem tengjast lyfinu: kyrningafæð, sykursýki 2 og blóðfituröskun. Síðast en ekki síst að þróa frekar gagnreynda og gildismiðaða meðferð og sameiginlega ákvarðanatöku í langtímameðferð meðferðarþrás geðklofa.

Gerð var textaleit í sjúkraskrám sjúklinga sem höfðu samþykkt þátttöku í rannsókn á erfðabreytileika og geðrofssjúkdómum að orðum sem tengjast clozapínnotkun og helstu aukaverkunum.

Doktorsefnið

Oddur Ingimarsson (1978) lauk embættisprófi í læknisfræði árið 2005 og MS prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þremur árum síðar. Hann lauk sérnámi í geðlækningum árið 2015 og starfar sem geðlæknir á Landspítala.


                                       
                                       Engilbert Sigurðsson, Pálmi V. Jónsson, Guðný Stella og Joakim Alfredsson.
                                       Kristinn Ingvarsson tók myndina af hinum glænýja doktor með
                                       andmælendum og deildarforseta.


GUÐNÝ STELLA GUÐNADÓTTIR
varði doktorsritgerð sína við læknadeild Háskóla Íslands 20. apríl. Ritgerðin heitir: Þegar slembirannsóknum sleppir. Áhrif fjölveikinda, aldurs og kyns á meðferð kransæðasjúkdóma.

Andmælendur voru Joakim Alfredsson, dósent við Háskólann í Linköping, og Pálmi V. Jónsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

 Umsjónarkennari var Karl Andersen prófessor og leiðbeinandi Þórarinn Guðnason hjartalæknir. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Inga Sigurrós Þráinsdóttir hjartalæknir, Bo Lagerqvist yfirlæknir við sjúkrahúsið í Uppsölum og Stefan K. James prófessor.

Ágrip af rannsókn
Konur, fjölveikir aldraðir og aðrir minnihlutahópar með kransæðasjúkdóma bera oft skarðan hlut frá borði við framkvæmd slembirannsókna. Á Íslandi var sjaldnar þrætt í gegnum úlnliðsslagæð en í Svíþjóð og fylgikvillar eftir kransæðavíkkanir voru algengari hér á landi árið 2007. Konur með brátt kransæðaheilkenni höfðu tvöfaldar líkur á fylgikvillum eftir kransæðavíkkanir miðað við karla. Konur með þrengingu í einni kransæð fóru síður í kransæðavíkkun en karlar. Í hópnum með þrengingar í þremur kransæðum og/eða í höfuðstofni, fóru konur oftar í kransæðavíkkun en var sjaldnar vísað í opna kransæðaaðgerð.

Doktorsefnið
Guðný Stella Guðnadóttir (1979) lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2005, sérnámi í lyflækningum 2014 og sérnámi í öldrunarlækningum árið 2016. Frá árinu 2011 hefur hún starfað við háskólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð.       

                                                     

                                        
                        
Agnar Bjarnason varðist fimlega andmælendum sínum. Myndina tók Gunnar Sverrisson.

                           

AGNAR BJARNASON
varði doktorsritgerð sína við læknadeild Háskóla Íslands 9. maí. Ritgerðin heitir: Orsakavaldar, áhættuþættir og afdrif fullorðinna með lungnabólgu.

Andmælendur voru David Murdoch, deildarforseti og prófessor við læknadeild Háskólans í Otago á Nýja Sjálandi og Gunnar Guðmundsson, prófessor og sérfræðingur í lyflækningum og lungnalækningum á Landspítala. 

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Magnús Gottfreðsson prófessor og auk hans sátu í doktorsnefnd Karl G. Kristinsson prófessor, Arthúr Löve prófessor, Ólafur Baldursson og Lars  Magnus Andersson.

Ágrip af rannsókn

Markmiðið var að skoða lungnabólgu sem leiðir til sjúkrahúsinnlagnar í Reykjavík, bæði almennt og í tengslum við heimsfaraldur inflúensu. Einnig að bera PCR-rannsóknir á munnkokssýnum saman við aðrar greiningaraðferðir og skoða gagnsemi hugtaksins sjúkrahústengd lungnabólga við íslenskar aðstæður. Öllum fullorðnum sem þurftu innlögn vegna lungnabólgu frá desember 2008 til nóvember 2009 var boðið að taka þátt og víðtæk leit gerð að meinvöldum. Hluta lungnabólguinnlagna í Reykjavík (37%) mátti flokka sem sjúkrahústengda lungnabólgu sem tengdist breyttu mynstri orsakavalda. Dánartíðni var hærri í þessum hópi, 10% miðað við 1% í samfélagslungnabólgu. Engar fjölónæmar bakteríur greindust og gátu því ekki skýrt þennan mun.

Doktorsefnið

Agnar Bjarnason (1978) lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og var kandídat og sérnámslæknir á Landspítala til 2010. Eftir framhaldsnám á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg lauk hann sérnámi í lyflækningum 2012 og smitsjúkdómalækningum 2014. Agnar starfar við smitsjúkdómadeild Landspítala.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica