04. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um læknisfræðilega siðfræði

Í tengslum við aðalfund Alþjóðasamtaka lækna (WMA) í Reykjavík í haust verður haldin þriggja daga alþjóðleg ráðstefna um læknisfræðilega siðfræði. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu og hefst á hádegi þriðjudaginn 2. október og lýkur fimmtudaginn 4. október síðdegis.

                  

Til umfjöllunar verða margvísleg siðfræðileg málefni sem snúa að læknum í vinnu og rannsóknum. Má nefna umfjöllun um alþjóðasiðareglur lækna sem koma meðal annars fram í nútíma Hippókratesar-eiðnum með áorðnum breytingum eins og þau birtast í Genfarheiti lækna, en síðustu breytingar voru samþykktar fyrir ári og birtist íslensk þýðing í janúarhefti Læknablaðsins.  Ítarlegri siðfræðiviðmið er að finna í yfirlýsingu sem heitir einfaldlega „Alþjóðasiðareglur lækna“ (International Code of Medical Ethics). Þessar reglur verða senn endurskoðaðar af hálfu WMA og fer upphafsumræðan fram á ráðstefnunni.

Best þekkta yfirlýsing WMA er kennd við Helsinki og fjallar um siðfræðileg viðmið við rannsóknir með þátttöku manna, hvort sem er sjúklinga eða heilbrigðra. Hún er endurskoðuð á 5-10 ára fresti og er sú síðasta frá 2013 og tók þrjú ár að ljúka henni. Það eru alltaf einhver álitamál, svo sem hvernig nota megi lyfleysu og hver sé ábyrgð rannsakenda í því samfélagi sem rannsóknin tekur til og það þarf því töluverðar umræður til að komast að endanlegri niðurstöðu. Endurskoðun þessarar yfirlýsingar er því alltaf umfangsmikil og er með aðkomu margra. Senn fer að koma að næstu endurskoðun.

Siðfræði erfðarannsókna verður að sjálfsögðu til umræðu og einnig má nefna álitamál er snúa að notkun mjög dýrrar meðferðar og enn annað málefni er hvernig staðið er að fósturgreiningum og hvert þær leiða. Með vaxandi tækni má ekki aðeins greina sjúkdóma heldur einnig ýmis einkenni í fóstrum sem getur svo leitt til þess að þungun verður stöðvuð. Þetta er mikið álitamál og tekur Norræna siðfræðinefndin það til umræðu á tveimur málþingum sem eru hluti af ráðstefnunni.

Þátttaka er frá öllum heimshornum en innan WMA eru núna 115 félög frá jafn mörgum löndum. Vonast er til að læknar frá um helmingi félaganna mæti. Skráningargjald telst hóflegt miðað við alþjóðlegar ráðstefnur, eða kr. 69.000. Búið er að opna fyrir skráningu og móttöku ágripa á síðunni icelandtravel.artegis.com/event/wma2018 og þar er að finna frekari upplýsingar. Síðan er uppfærð reglulega með nýjum upplýsingum.

Þetta er í fyrsta sinn sem aðalfundur WMA er haldinn hér á landi en Læknafélag Íslands var þó meðal 27 stofnfélaga árið 1947 og má lesa frásögn af þeim fundi í desemberhefti Læknablaðsins það ár. Auðvelt er að nálgast þá frásögn á síðunni timarit.is Venjan er sú að hafa einn dag fyrir umræður af þessu tagi en nú er sú nýbreytni að auka þann tíma. Þetta er tilraunaverkefni og mun WMA ákveða í kjölfarið hvort þetta verður endurtekið. Þótt ráðstefnan sé haldin í náinni samvinnu við WMA ber Læknafélag Íslands fjárhagslega ábyrgð og er meðal annars af þeim sökum mikilvægt að sem flestir skrái sig.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica