04. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Ljóðakvöld Læknafélagsins, 14 skáld í hópi lækna lásu ljóð sín

 

                                
                                Formaður Læknafélags Íslands, Reynir Arngrímsson, í pontu að bjóða
                                gesti velkomna í óbundnu máli áður en ljóðadagskráin hófst.
                

Afmælisnefnd LÍ ákvað í tilefni 100 ára afmælis félagsins að fagna því með lúðraþyt og söng allt árið. Eitt atriði á dagskrá var að opna skáldæð kolleganna og sjá hverju skolaði fram.

Í marsbyrjun var stóri salurinn í Hlíðasmára 8 tilbúinn eftir gagngerar breytingar, stækkun og nýtt hljóðkerfi. Af þessu tilefni var ákveðið að vígja salinn með fögrum orðum og úr varð ljóðakvöld LÍ. Félagið kallaði eftir skáldskap frá kollegunum og Ferdinand Jónsson geðlæknir í London, sem gefið hefur út tvær ljóðabækur, hélt utan um dagskrána og lagði á ráðin um þennan gjörning. Þegar upp var staðið stigu 13 læknar/skáld á stokk og fluttu frumsamið efni: ljóð, hefðbundin og óhefðbundin, örsögur og brot úr viðameiri verkum.

Læknafélagið bauð upp á vínglas í upphafi kvölds, og kaffi og konfekt í hléinu. Salur var skreyttur með kertum og upplesturinn fór fram fyrir miðjum sal  – sem sagt allt til að búa til notalega umgjörð, og Gerður Gröndal stýrði samkomunni. Á annað hundrað gestir mættu þetta föstudagskvöld og nutu orðkynngi og hugarflugs þessara góðu penna úr læknastétt, sem lásu einsog þrautþjálfaðir englar og fipaðist hvergi, enda var þeim vel og lengi fagnað í lok dagskrárinnar. Haft var á orði að skúffur kolleganna væru hvergi nærri tæmdar, og það væru næg skáld og skúffur til halda annað svona kvöld að ári. Þau sem komu fram á ljóðakvöldinu brugðust öll mjög vel við beiðni Læknablaðsins um að fá að birta brot af uppskeru kvöldsins. –VS

                                 
                                 Hópurinn feginn þegar upplesturinn var að baki: efri röð frá vinstri:
                                 Guðrún Hreinsdóttir, Stefán Sigurkarlsson, Valgerður Þorsteinsdóttir,
                                 Eiríkur Jónsson, Ari Jóhannesson,
Hlynur Grímsson, Gerður Gröndal,
                                 Ferdinand Jónsson. Fremri röð frá vinstri: Magnús Skúlason, Valgarður
                                 Egilsson, Auðólfur Gunnarsson, Brynjólfur Ingvarsson,
Guðrún Ingibjörg
                                 Þorgeirsdóttir og Ögmundur Bjarnason.

Ferdinand Jónsson

Á Þjórsárbökkum

 

áður en

stelkurinn

vaknar

meðan grasið

glitrar

af dögg

þar sem fljótið

breiðir úr sér

um hjartað

streymir

friður

 

fjöllin

tær

í norðri

ósnertir

jöklar

júlínætur

angan

af sumri

Íslands

 

dagrenning blá

úr djúpi hugans

yfir daga mína

yfir dauðann

inn

í morguninn

Úr ljóðabókinni Innsævi

 

Stefán Sigurkarlsson

Hann

 

Hann lést sviplega fyrir aldur fram

og enginn flutti beinin heim

en þegar hvessa tekur, eftir miðnætti á vorin

syngur stundum yfir þúfunni

lítill fugl.

 

Ögmundur Bjarnason

Þessar raddir

„Eitthvað nýtt! Meira af meistaralegu sullumbulli síbernskunnar“
- Hermann Stefánsson/Sigfús Daðason

 

Þessar raddir: okkur öllum að góðu kunnar.

Einatt og aftur biðja þær um meira

af meistaralegu sullumbulli síbernskunnar.

 

Og hví ekki það? Annmarkar orðræðunnar

eru ofljósir. Við þurfum ekki nema heyra

þessar raddir: okkur öllum að góðu kunnar

 

til að skiljast að senn eru þær allar runnar

á enda (og orðnar að undirstöðugeira

í meistaralegu sullumbulli síbernskunnar)

 

en velsældarár fortakslausrar fyrirhyggjunnar

feginsamlega afstaðin. Og einmitt þá keyra

þessar raddir: okkur öllum að góðu kunnar

 

að sönnu um bak þvert - og þunnar

og þykkar alhæfingar votta það og fleira

úr meistaralegu sullumbulli síbernskunnar

 

hve bilið á milli hugvitsins og heimskunnar

er hryggilega mjótt. Ljáum því eyra

þessum röddum: okkur öllum að góðu kunnar

af meistaralegu sullumbulli síbernskunnar.

 

Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir

 

Þú brosir og enn bíðurðu svars. En hvernig get ég skýrt þér frá skugganum, sem aldrei átti að fá að skyggja á bros þitt? Frá því sem aldrei var en verður þó alltaf, því ævilöng augnablik geymast vel í snarköldum faðmi tímans. Hverjar þær sálir sem átt hafa augnablik, þurfa ekki á eilífðinni að halda. Því það eru augnablikin sem mynda eilífðina. Þau raða sér upp í glitrandi þúsundum, öxl við öxl, þar til úr verður tónlistin bak orðunum, ljósið bak augum þínum, eilífðin.

Minningarnar sofnuðu ofan á brjóstkassa mínum á meðan við þögðum. Sváfu þar svo létt, líkt og fuglar á vatni, risu og hnigu með hverjum andardrætti – en nú rumskar ein þeirra. Það er sú sem sofið hafði næst hjarta mér, sú allra fallegasta, léttasta. Hún hafði sofið með annan vænginn breiddan yfir kolsvört augun og hana hafði dreymt.

Sannarlega hafði hana dreymt.

Nú baðar hún út vængjunum, hefur sig til flugs, flögrar til þín, yfir himininn sem enn sefur á milli okkar. Sest á hægri öxl þína, kúrir sig ofan í hálsakotið þitt og nartar í eyra þitt. Hún er blíðmælt og falleg til augnanna, er hún hvíslar:

„Manstu? Manstu? Manstu kvöldið, manstu nóttina, manstu morguninn, manstu daginn? Manstu, þá er tíminn hvarf þér sjónum og allt var kvæði, kvæði er hvein og söng sem ýlfrandi stormur í æðum þér? Manstu?“

Og ég sé að þú kinkar kolli, hægt, varlega. Hvernig gætirðu gleymt, þegar minningin hvíslar í eyra þitt, svangur smáfugl um vetur, og ber undursamleg augnablik vel falin undir hverri fjöður. Þú manst.

Brot úr sögunni Þú þegir svo fallega

 

Valgarður Egilsson

Vörn fyrir Snorra

 

Víst má vitran lasta

vildi hann trauður dauða.

Halir huga ragan

herða og bregða sverði.

Skáld þótt skyldi forðum

skorta vígshug, hvort er,

spyrjum, hent það hverjum

heigli að rita Eglu?

 

Bróðurkveðja

 

Hestur þinn þræðir horfna fjallaslóð

hamar þinn dynur líkt og fyrr á tíðum

hefillinn fágar; þinn hugur orð í ljóð

En hafið bíður þess að ljúki smíðum

 

Huldufar úr sævi ber í sýn

– syngur í hamri undir höggum stríðum –

erindi þess er brýnt: og beint í vör

er báti stefnt með orðsending til þín

 

Þar liggur haf og hylur mönnum svör

– eyfirsk birtan með undarlegum tónum –

Þú leggur frá þér hamar, hefur för

hiklaust gengur veginn niðrað sjónum

 

akkerið híft – og huldufarið lætur

í ljósaskiptum út

til hafs – og nætur

(Á útfarardegi Áskels Egilssonar 9. 9. 2002.  Áskell var sjómaður, skipasmiður og ljóðsmiður.)

 

Guðrún Hreinsdóttir

Stjörnur

 

Ég stari upp í stjörnubjartan geim

á stjörnurnar sem yfir okkur vaka.

Á Karlsvagninn sem kannski sendir þeim,

nú kærleikann sem myrkrið virðist þjaka.

Úr bókinni Dútl

 

Ari Jóhannesson

Fésbók

 

Við sprunguna milli lífs og dauða

sneri ég við og hljóp

  gegnum hvískrið á biðstofunni

  fótastapp yfirsjónanna

  afhjúpanir sneiðmyndanna

  andvörp öndunarvélanna

  tíðasöng dagálanna

  feilslög líkamsklukkunnar

  jónagöng kvíðans

 

  fyrirlestra loddara

  hungurárin sjö

 

sneri við og hljóp

og mætti sjálfum mér

með bók í stað andlits

 

Magnús Skúlason

Haustkvöld

 

Haustkvöld að vori

um hug mér fer

hljóður blær

ylur þess er var

 

leikur að draumi

lifnar aftur við

ekkert svar

bærist en rótt

 

andvarinn kær

í hverju spori

mýkir gömul sár

hljótt færir nóttin

 

fjarlægðirnar nær

löngu liðin ár

lifna við og vakna

minningar og myndir

 

og höndin á ný

hlýja sem ég sakna

haustkvöld að vori

um hug mér fer

 

Brynjólfur Ingvarsson

Jón ríki

 

Faðir vor. Móðir jörð. Góða guð. Þið sem eruð allt um kring, á himni, hafi og landi. Helgist ykkar nöfn. Til komi Jón ríki. Hann er svo tilkomumikill. Það er eitthvað annað en fjarskyldur ættingi hans og nafni Jón harðibóndi°.

(°Jón þessi er talinn hafa farið til Vesturheims eftir Öskjugos, en snúið aftur, sumir segja því miður.)

Verði sá vilji að síðustu, sem tryggir öllum jarðarbúum jafna skiptingu lífsgæða.

Gef oss öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og sveigjanleg starfslok með öllu daglega brauðinu, eins og margoft er búið að lofa okkur.

Fyrirgef oss breyskum vorar skuldir og meinvillur. Svo skulum við reyna að fyrirgefa öðrum, hugsanlega jafnvel barnaníðingum.

Eigi leiða stjórnmálamenn í freistni, heldur frelsa þá frá öllu illu.

Því ykkar er mátturinn, jafnvel þó að dýrðin sé í stórmörkuðunum hjá Jóni ríka og hans líkum um þessar mundir.

En vonandi ekki að eilífu. Amen.

Brynki á Snös

 

Auðólfur Gunnarsson

Guð

 

Loks þegar vorið vaknar,

veit ég, að hann er til.

Guð, sem gaf öllu lífið,

en gerði það hættuspil.

 

Fuglarnir fara að verpa,

fæðast þá lömbin smá.

Gróðurinn tekur að grænka,

allt glaðnar um land og sjá.

 

En handan við höf og granda

býr haustið með kulda og byl.

Allt á sitt upphaf og enda.

Af hverju erum við til?

 

Hlynur Grímsson

Pabbi var fæddur í hrörlegasta torfbæ sveitarinnar. Hann þreyttist aldrei á því að tala um það. Svo kom í kjölfarið alltaf ræðan um hvernig hann hefði einn síns liðs ræst fram mýrar örreytisjarðarinnar sem hann fæddist á þannig að mýrarnar breyttust allar saman í bleika akra og slegin tún. Einmitt. „Í þá daga urðu menn ríkir á að spara!  Spara!“ þrumaði hann yfirleitt yfir sjálfum sér öll gamlárskvöld þar sem hann stóð einn um miðnættið við stofugluggann og horfði yfir allar landareignirnar sínar í sveitinni. 

Rétt áður en hann lagðist banaleguna bað hann mig að keyra sig að rústunum. Við þögðum báðir á leiðinni þangað. Veðrið var gott, sól og hnúkaþeyr eins og sá verður hvassastur. Við stigum út úr bílnum. Hann neitaði að nota hækjuna og datt þess vegna tvisvar á leiðinni niður brekkuna. Núorðið er ekkert eftir af gamla bænum nema misdjúp för í svörðinn hér og þar.

„Ég fæddist í sigurkufli,“ sagði hann ákveðinn, „mamma sagði það“, um leið og hann kraup niður til að snerta eina torfuna yfir því sem kannski einhvern tímann gæti hafa verið baðstofan. Þurr moldin rauk upp með vindinum. Svo stóð hann snöggt á fætur, gekk þvert yfir bæjarhólinn og settist niður í brekkuna á móti. Hann var móður, og örugglega með verki. Einstaka drifhvítt ský þaut framhjá. Hann byrjaði að tala um veikindin. Ég var búinn að heyra það allt hundrað sinnum áður þessa síðustu daga og nennti alls ekki að hlusta. Hann talaði um hve sár hann væri vegna þess hve greiningin drógst, læknamafían hefði hent honum á milli sín eins og tilraunadýri á fínu einkastofunum sínum fyrir sunnan, þetta hefði allt saman kostað hann of fjár sem hefði svo verið fullkomlega til einskis þegar í ljós að þetta var krabbi. Reiðastur var hann þó út í krabbameinslækninn; unga konu sem hafði sagt honum að sjúkdómurinn væri í öllum þessum líffærum þegar enginn hinna læknanna hafði haldið því fram áður og að öll meðferð gæti reynst honum tvíeggjað sverð og svo hafði stelpan ofaníkaupið ekkert til málanna að leggja nema spyrja hann sjálfan hvað hann vildi? „Hvað ég vildi! Hugsaðu þér! Og þetta á að heita læknir og …“ Sársaukapílan greip hann í miðri setningu. Kjálkarnir læstust saman, en að öðru leyti var lítið á honum að sjá. Ég sá það samt. Hann greip andann eitt augnablik á lofti, ég tók eftir því líka, en það var bara augnablik og ekki meira og svo hélt hann ræðunni áfram og ætlaði að láta þetta allt saman fara lengra og meira að segja miklu lengra og hann væri þegar byrjaður að skrifa öll bréfin og ég var löngu hættur að nenna að hlusta á þetta. Vindurinn tók öll orðin og þeytti þeim niður dalinn og áfram yfir fjallgarðinn. Þau voru farin.

Klukkustund leið, kannski meira. Hann bað mig að styðja sig aftur upp í bíl. Ég varð að hjálpa honum að spenna beltið. Við vorum svo komnir hálfa leiðina heim þegar hann benti niður að einum kargamóanum: „Anna systir datt af hestinum sínum einmitt þarna. 14 ára. Hún var löngu dáin þegar að var komið. Hún var flutt heim á bæ til okkar á kerru sem nágranni lánaði. Það var búið að breiða óhreinan segldúk yfir hana. Fæturnir stóðu samt niður úr. Þeir stóðu niður úr. Dingluðu þarna eins og hráviði. Helvítin höfðu ekki einu sinni haft fyrir þvi að koma henni almennilega fyrir á pallinum!“

Eitt augnablik hélt ég að hann ætlaði að fara að gráta, en það varð auðvitað ekkert úr því frekar en venjulega.

Úr óbirtu handriti að ljóða- og prósabók.

 

Eiríkur Jónsson

Nýr dagur

 

Ég gekk út í morguninn. Var að ljúka fimmtíu ára dagsverki sem læknir. Þetta var síðasti dagurinn á stofunni. Mér var dálítið þungt í huga. Hafði áttað mig á því fyrir löngu að ég hafði meira út úr læknisheimsóknunum en sjúklingarnir. Vildi helst ekki hætta. Hafði ekki tekið nýja sjúklinga í mörg ár og þeir sem komu voru orðnir aldavinir mínir. Það var í raun ekkert að þeim. Þeir komu til að spjalla, úthella þakklæti sínu og greiða fyrir viðvikið. Ég sagði þeim að hafa ekki áhyggjur og þeir undruðust innsæi mitt. Einkennilegt hvað þakklæti sjúklinga virðist oft í öfugu hlutfalli við framlag læknisins. Ég átti erfitt með að hugsa mér daglegt líf eftir að þessu lyki nú í dag. Var orðinn háður stöðugri endurgjöf og þessari einkennilegu vináttu. Það var grínast, meðal kolleganna, um hinn fjörgamla lækni sem deyr -fyrir framan sjúklinginn. Hvenær verður eftir því tekið?  

Á stofunni stend ég við gluggann baðaður í morgunsólinni. Á veggnum fyrir aftan mig birtist skuggamynd mín. Hugsaði þá til -varúðarorða sem ég hafði haft yfir læknanemum fyrir löngu. -„Hvernig þekkið þið sjúkling sem kemur til ykkar og er afturgenginn?“ Einhver nefndi slæma lykt eða að sjúklingurinn væri kaldur viðkomu. „Nei, hann varpar hvorki skugga né spegilmynd og hefur enga þyngd þegar hann stígur á viktina,“ taldi ég rétta svarið. „Athugið þetta, svo lítið beri á, áður en þið gerið nokkuð annað.“ „Hvernig þekkið þið álf sem kemur til ykkar?“ Ekkert svar. „Jú hann hefur ekkert miðsnes. Hefur eina stóra nös.“ „En hvernig þekkið þið þá sjúkling sem kemur til ykkar og er framliðinn?“ Þögn. „Þið dokið við og kallið ekki á sjúklinginn fyrr en móttökuritarinn segir: „Það er kominn til þín sjúklingur.“ Líkurnar á því að bæði þú og ritarinn séuð skyggn eru hverfandi!

Þar sem ég horfi út um gluggann og sé daginn koma hugsa ég um liðna tíð með eftirsjá. Starfið hefur verið gefandi á svo marga lund. Þegar ég sný mér við tek ég eftir því að skugginn á veggnum er horfinn.

Torshavn, júlí 2017

 

Valgerður Þorsteinsdóttir

Læknaraunarímur

 

Ég fór í læknadeild, hélt að það væri lífsstíllinn.

Virðing, velgengni, vildi umvefja sjúklinginn. 

Fyrstu árin las í spað allar bækurnar, 

eins og páfagaukur lærði allar glósurnar. 

Seinni árin ég fór inn á spítalann, 

sýndi metnað og heillaði kennarann. 

Ég ætlaði að verða svo öflug og ofurklár

en ég hætti við það eftir nokkur ár. 

 

Því til að ná í læknalífinu jafnvægi, 

þurfti að koma til dugnaður, heragi. 

En einnig virtist að ég þyrfti að skipta um eiginmann 

svo ég gæti þénað og unnið miklu meira en hann. 

Svo var þetta vesen með börnin mín

en þau fóru bara í pössun til ömmu sín. 

 

Í læknadeild er dregin upp ímyndin

sem er svona ef ég má vera hreinskilin:

Læknar eru óbrjótandi eðalfólk

með bein í nefinu og óbilandi þrótt

sem vinna 100% og svo helling meir

við kvörtum ekki, sýnum dugnað, heyr heyr!

Í eftirmiðdaginn stundum jóga og hreyfingu, 

syngjum í kór og eldum bara hollustu. 

Á kvöldin er nauðsyn að sitja heima og rannsaka

annars mun enginn vilja ráða þig til útlanda. 

Og ef þú vilt verða eins og ég eða hann

ertu allan tímann með vaktsímann!

 

Ég ætlaði að verða svo öflug og ofurklár 

en ég hætti við það eftir nokkur ár. 

Ég verð víst aldrei lækni lík

ég ætla bara að starfa sem slík. 

Því annars held ég að ég verði

miðaldra í meðferð í Hveragerði.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica