03. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Nýjar leiðbeiningar um greiningu og meðferð sortuæxla

Nýjar leiðbeiningar um greiningu og meðferð sortumeina liggja nú fyrir og eru það læknarnir Gunnar Bjarni Ragnarsson krabbameinslæknir, Þórir S. Njálsson lýtalæknir og Elísabet Reykdal húðlæknir á Landspítala sem hafa unnið þær í samstarfi við Embætti landlæknis og aðra sérfræðinga í húð-, lýta- og krabbameinslækningum.

                                  
                                  „Þetta er sjúkdómur sem á að vera hægt að lækna á frumstigi og það er
                                   mjög mikilvægt að greina hann rétt í upphafi og hafa skýrar leiðbeiningar
                                   um hvað eigi að gera næst,“ segja þau Elísabet Reykdal húðlæknir,
                                   Þórir S. Njálsson lýtalæknir og Gunnar Bjarni Ragnarsson krabbameinslæknir.
                       

Í samtali við Læknablaðið segja höfundarnir að tilgangur leiðbeininganna sé að samræma nálgun allra lækna að greiningu, meðferð og eftirliti. „Þeim er ætlað að vera læknum til leiðbeiningar um að greina sortumein á réttan hátt strax í upphafi og koma því síðan í farveg til meðferðar hjá sérfræðingum,“ segir Þórir.

Elísabet bætir því við að sortuæxli séu að greinast hjá mörgum og mismunandi læknum og að samræmt verklag sé mjög mikilvægt.

„Þetta er sjúkdómur sem á að vera hægt að lækna á frumstigi og það er mjög mikilvægt að greina hann rétt í upphafi og hafa skýrar leiðbeiningar um hvað eigi að gera næst. Eitt af því mikilvægasta er að öll skurðmeðferð sortumeina á að fara fram á lýtalækningadeild Landspítalans. Það er til að tryggja rétta meðferð og uppvinnslu meinsins, til dæmis getur varðeitlataka sem er mjög mikilvæg í mörgum tilvikum, einungis farið fram á Landspítalanum,“ segir Gunnar Bjarni.

„Ef lækni grunar að um sortumein sé að ræða mælum við með því að taka breytinguna í heild sinni, en ekki hluta hennar. Eftir að svar meinafræðideildar liggur fyrir er metið á lýtalækningadeild hversu mikið þarf að fjarlægja í kringum æxlið og hvort varðeitlataka sé nauðsynleg eða ekki,“ segir Elísabet. Einnig vilja þau koma því að aldrei skuli fjarlægja eða eyða húðbreytingum án greiningar með fullnægjandi vefjasýni eða fyrri greiningar sérmenntaðs læknis með húðsjá (dermatoscope) eða sambærilegri aðferð.

Í leiðbeiningunum er einnig ráðlagt hvernig eftirliti skuli háttað þegar búið er að greina og meðhöndla meinið. „Það hefur verið kallað eftir samræmdu verklagi um eftirlit með sjúklingum,“ segir Gunnar Bjarni og bætir því við að þetta séu fyrst og fremst leiðbeiningar um samræmt verklag. „Alþjóðlegar klínískar meðferðarleiðbeiningar liggja í rauninni fyrir en hér er um íslenskar verklagsreglur að ræða sem eiga að auðvelda læknum í dagsins önn að greina meinið rétt og koma sjúklingnum síðan áfram í viðeigandi meðferð.“

„Það eru stöðugar framfarir og nýjungar að koma fram í krabbameinslækningum og með þessum verklagsreglum er reynt að tryggja að þeir sem greinast með sortumein fái bestu mögulegu meðferð,“ segir Elísabet.

„Okkur sem fáumst við krabbameinslækningar var orðið ljóst að þörf væri fyrir leiðbeiningar af þessu tagi. Það hefur líka verið kallað eftir þeim frá læknum sem vilja hafa skýrt verklag til að tryggja rétta greiningu og meðferð. Rétt greining á frumstigi er forsenda þess að hægt að sé að komast fyrir meinið,“ segir Gunnar Bjarni að lokum.

www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item33875/Kliniskar-leidbeiningar-um-sortuaexli-i-hud--leidbeiningar-um-greiningu--medferd-og-eftirfylgni



Þetta vefsvæði byggir á Eplica