03. tbl. 104. árg. 2018

Fræðigrein

Læknar og listaskáld, líkskurðarmeistarar og leikhús. Úlfhildur Dagsdóttir

Hér er sagt frá birtingarmyndum lækna í bókmenntum af ólíku tagi frá ýmsum tímum. Þeir eru ýmist óðir eða elskhugar, góðir menn eða grunsamlegir. Sumir eru með allt á hreinu en aðrir halda sig mest heimavið.

                                  

Doktor Garibaldi í skáldsögu Sjóns, Mánasteinn (2013), stendur í stórræðum, því í Reykjavík árið 1918 geisar spænska veikin. Hann ferðast um bæinn með bílstjóra sínum Sólu, sem er draumadís Mána Steins. Drengurinn lifði veikina af og því er hann fenginn til að aðstoða Garibalda við húsvitjanir. Lýsingarnar eru dramatískar: „Sjúkir bæjarbúar eru tíuþúsund, læknar tíu, sjúkrahúsin eru þrjú og yfirfull, lyfjaverslun ein og lokuð vegna veikinda lyfsalans og allra hans meðalasveina“ (84). Vitjanirnar eru eftir þessu: „Í torfbæ á Bráðræðisholtinu liggur stirnað karlmannslík í hjónarúmi og fyrir framan það fársjúk kona með lík af kornabarni í hvorum handarkrika“, hún hefur fætt andvana tvíbura. „Meðan Garibaldi læknir sinnir móðurinni búa Sóla og Máni um tvíburalíkin í koddaverum og bera út í bifreiðina. Stundu síðar, á Grettisgötu, heyra þau dauðahryglu einbúans í sömu andrá og þau stíga inn í raka kjallaraskonsuna“ (85). Læknirinn kynnir sér útbreiðslu sjúkdómsins, en margir þeir sem hann spyr um smit „halda að það hljóti að hafa verið í „Bíó““ (89). Þetta rennir stoðum undir fordæmingu hans á kvikmyndinni sem hann segir að sé „ósiðleg í eðli sínu, hún ummyndar leikarann í fetish og kallar fram pervertion í áhorfandanum sem lætur tælast af henni“ (91). Doktor Garibaldi sinnir því ekki einungis sjúkum heldur vill hann leggja sína blessuðu læknishendi yfir allt samfélagið og menningu.

                                   

„Das Unheimliche“

Læknar hafa löngum notið mikillar virðingar og tengjast oft fjölskyldu og heimilum eins og sést einna best í hinum fjölmörgu heimilislæknum bókmenntanna. Iðulega birtast þeir sem nokkuð fjarlægt yfirvald, koma á heimilið til að hlú að sjúkum og skera úr um líf og dauða. Slíkan lækni má sjá í Fórnarleikum (2016) Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, þegar barn veikist. Hann kemur eftir langa bið: „Það svaraði enginn dyrabjöllunni, sagði læknirinn meðan hann reif sig úr frakkanum, dyrnar ekki læstar svo ég gekk inn án þess að skeyta um venjubundna siði.“ Svo opnar hann læknatöskuna, „kippti upp hlustunarpípu, spurði hve hár hitinn væri, gekk að rúmi Regínu og beygði sig yfir það [...], fór um hana æfðum höndum, skoðaði hátt og lágt.“ Loks kveður hann upp úrskurð sinn: „Ég held að hún muni hafa þetta af, það versta er yfirstaðið að því er ég best fæ séð“ (64-65). Eftir það er hann úr sögunni, hlutverki hans er lokið. Sena af þessu tagi er algeng í klassískum bókmenntum eins og sögum Jane Austen, þar sem læknirinn tjáir ættingjum að nóttin muni ráða úrslitum eða fyrirskipar hvíld. Hvíldarþerapía var afar vinsæl læknismeðferð síðla á nítjándu öld – og fram á þá tuttugustu, sérstaklega fyrir konur sem felldu sig ekki við hlutverk sín sem auðsveipar eiginkonur. Í smásögunni „Gula veggfóðrið“ (1892) eftir Charlotte Perkins Gilman uppgötvar ein afar vel hvíld kona að veggfóðrið í svefnherbergi hennar er í raun fangelsi og að bakvið það er önnur kona, sem berst við að komast út. Að sjálfsögðu gerir hún sitt til að aðstoða hana og verður mjög pirruð þegar eiginmaðurinn fellur í yfirlið við aðfarirnar. Hann er sjálfur læknir og talar við eiginkonuna eins og barn: „Þetta er bara kjánaleg ímyndun. Geturðu ekki treyst mér sem lækni, þegar ég segi þér það?“ (146).

Heimili lækna birtist í Sólskinshesti (2005) Steinunnar Sigurðardóttur sem segir frá Lillu sem elst upp í stóru húsi á Sjafnargötu með bróður sínum og foreldrum, Ragnhildi og Haraldi. Þau eru bæði læknar og svo upptekin af deyjandi fólki í sínu starfi að þau gefa sér ekki tíma til að sinna eigin börnum. Í staðinn upplifa börnin tengslaleysi og þögn, persónudauða, sem kallast síðan á við öll deyjandi börnin sem Ragnhildur „díagnósar“. Lilla er sú eina sem sinnir heimilinu, foreldrarnir eru stöðugt utan við sig og önnum kafin, ráfa eiginlega um húsið eins og draugar. Þessi draugsmynd er ítrekuð því Ragnhildur er spíritisti í ofanálag og heldur miðilsfundi. Þar heyrast barnsraddir og þær hlustar móðirin á, en ekki raddir eigin barna.

Hús og heimili eru oft þungamiðja gotneskra skáldsagna og tengjast iðulega leyndarmálum. Það þarf ekki að rifja upp Freud og kenningu hans um „das unheimliche“ til að sýna framá að heimilinu hefur alltaf fylgt ára einskonar ókennileika: það sem fer fram á heimilium fer fram fyrir luktum dyrum. Annars konar óhugnaður leyndarmála ‚heimilislífsins‘ birtist í tvíleik Steinunnar um tvífara, rónann Martin og lækninn Martin, Jójó og Fyrir Lísu (2011 og 2012), sem fjallar um mein og lækningu, en báðir eru skemmdir eftir kynferðislega misnotkun. Sá sem níddist á lækninum leitar til hans vegna illkynja vaxtar í höfði, algerlega óvitandi um þeirra fyrri ‚samskipti‘: „Og nú gekk hann fram á mig í mínu vígi eftir öll þessi ár og átti erindi við mig, ég átti að gera út af við æxlið í honum“ (Jójó 130). Hér stendur læknirinn frammi fyrir knýjandi siðferðislegum spurningum sem varða ekki aðeins hann sjálfan heldur önnur fórnarlömb mannsins eins og kemur fram í Fyrir Lísu.

Læknir er í einu aðalhlutverka draugasögunnar Ég man þig (2010) eftir Yrsu Sigurðardóttur, en þar er fjallað um margskonar leyndardóma og brot í fjölskyldum. Freyr er fluttur til Ísafjarðar til að reyna að jafna sig á óútskýrðu hvarfi sonar síns. Hann er einnig að flýja eiginkonu sína sem leitar sonarins ákaft með aðstoð miðla. Freyr aðstoðar lögreglukonu við að leysa dularfull morð og samtímis gerast voveiflegir atburðir á Hesteyri. Sérfræðiþekking hans sem læknis kemur að góðum notum við lausn málsins, en jafnframt þarf hann, líkt og Martin í sögu Steinunnar, að finna leið til að lækna sjálfan sig.

Stundum eru þessir heimilislæknar heimilisvinir og stundum taka þeir heimilin yfir og gerast afar valdamiklir, eins og Líflæknirinn í samnefndri skáldsögu Pers Olov Enquist (1999). Þar er líka dæmi um lækninn sem elskhuga, en í heimi ástarsagna og sjónvarpsþátta eru heilu bálkarnir tileinkaðir læknaástum. Læknar hafa löngum verið eftirsóttir eiginmenn í ástarsögum og af íslenskum dæmum ber hæst bækur Ingibjargar Sigurðardóttur: Haukur læknir (1958), Systir læknisins (1959), Læknir í leit að hamingju (1963) og Sjúkrahússlæknirinn (1965). Söguþráðurinn gengur iðulega út á samkeppni um ástir læknisins þar sem ýmis ráð eru notuð til að stía honum frá sinni heittelskuðu – sem þykir oft óæskileg. Læknisdóttirin í Hauki lækni fælir hann svo rækilega frá hinni ungu og fögru Önnu að þegar hann hittir hana fáum árum síðar sem hjúkrunarkonuna Guðbjörgu, þá þekkir hann hana ekki aftur, en finnst hún þó ansi kunnugleg. Vonandi hefur geta hans til að bera kennsl á sjúkdóma verið eitthvað skárri.

 

Krufið til mergjar

Allir þessir læknar eru karlkyns og reyndar er fáránlega lítið af kvenkyns læknum í bókmenntum, bæði hér heima og heiman. Það er helst í glæpasögum sem konur hafa haslað sér völl í læknishlutverkinu og þá sem réttarmeinalæknar eða líkskurðarmeistarar. Þekktar eru sögur Patriciu Cornwell um hina glöggu Kay Scarpettu, sem beitir hníf og heilasellum af álíka fimi við að leysa flókin sakamál. Svo virðist sem það sé næstum orðið viðtekið í glæpamyndum og sjónvarpsþáttum að kona möndli með lík og má sem dæmi nefna Barnaby, Castle, Lewis og Murdoch, þætti sem kenndir eru við klára karla sem leysa glæpamál með öruggri aðstoð kvenna sem kanna óhikað innstu myrkur mannslíkamans. Nýjasta dæmið er Elementary þáttaröðin sem byggir lauslega á sögunum um Sherlock Holmes. Þar er Watson, hinn dyggi læknir og aðstoðarmaður Sherlocks, orðinn kvenkyns en nú bregður svo við að hún þarf ekki (bara) að grauta í líkum heldur er hún jafnoki Holmes við að leysa glæpi. Líkskurðarmeistarar hafa ekki verið áberandi í íslenskum bókmenntum, þó birtist ein í nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, Myrkrið veit (2017). Sú heitir Svanhildur og hefur lagt sitt af mörkun við rannsóknir mála. Líkið sem um ræðir kemur undan hopandi jökli og er óskemmt eftir veruna þar. Svanhildur bendir á að: „Við ættum kannski að byrja að jarða fólk uppi á jöklunum [...]. Flytja kirkjugarðana okkar þangað ef við þolum ekki tilhugsunina um ormétin lík“ (19). Með þessum ummælum sver hún sig í ætt við samstarfskonur sínar sem hafa jafnan fremur svartan húmor.

Líkskurðarmeistarar fyrri tíma frömdu krufningar sínar oft í sérstökum stofum sem minntu á leikhús og leikhús líkamans er viðfangsefni skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss (2005). Þar er fjallað um mörk læknisfræðinnar, en aðalpersónur verksins eru Ólafur Benediktsson læknir og unglingurinn Jóhann Guðnason, en hann hefur þann sjaldgæfa eiginleika að geta ekki fundið sársauka. Ólafur er fenginn af dularfullri konu til að fylgjast með drengnum, sem kemur fram í líkamsleikhúsi þar sem hann framkvæmir kvikskurði á sjálfum sér, öðrum til ánægju og aðdáunar – og væntanlega nokkurs hryllings. Áherslan er á könnun líkamans og þátt lækna og sérfræðinga í að kortleggja hann og þar með hemja og temja, ná tökum á honum.

 

„Línuvegur út frá hjarta inn í hvíta þögn“

segir í ljóðinu „Bráðamóttaka kl. 07:23“ í Öskudögum (2007), en þar sækir Ari Jóhannesson í reynslu sína sem læknir og fléttar ljóðmál og læknamál saman á áhrifamikinn hátt: Í „Vefjagreiningu“ finnur þolinmótt auga smásjáarinnar „stjörnumerki / sem skríður út á hlið / og hvessir gular klær.“ Líkaminn rennur saman við ljóðið í lífi og dauða og myndmálið veitir sérstæða og margradda innsýn í heim líflæknisins.

Það er afar viðeigandi að læknirinn sé rithöfundur, því eins og áður segir starfa læknar við það að lesa í líkamann. Enda eru ýmis dæmi um lækna sem stundað hafa ritstörf. Japanski myndasöguhöfundurinn Osamu Tezuka var læknismenntaður en starfaði aldrei sem læknir. Í staðinn reyndi hann að lækna heiminn með myndasögum þar sem kenningar búddismans um virðingu og jafnrétti voru hafðar að leiðarljósi. Fyrstu sögur hans birtust undir lok síðari heimsstyrjaldar og náðu fljótlega gífurlegum vinsældum, en þrátt fyrir að fjalla um vélmennabardaga og heimsendi var áherslan alla tíð á hugsjónina um frið.

Rússinn Mikaíl Búlgakov nýtti reynslu sína sem læknir í Dagbók læknis, smásagnasafni sem upphaflega birtist í rússneskum læknatímaritum á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar. Sögurnar gefa allskrautlega mynd af hinum unga lækni og aðferðum hans, ekki síst hrifningu hans á morfíni til einkanota, sem gat komið sér illa fyrir kvalda sjúklinga. Tónninn er hákómískur og stunginn ofskynjunum – eða bara ekta rússneskum oflátum. Sögurnar eru eins langt frá ljóðum Ara og hugsast má, en minna þeim mun meira á lagatexta Bubba, „Stórir strákar fá raflost“ (1982), en þar verður Lilla óð, bítur fólk í hálsinn og drekkur blóð, segist breytast í leðurblöku og vera fleyg. Gesturinn hittir lækninn, sem „var miðaldra / augun í honum voru grá. / Hann djönkaði sig með morfíni / sagðist hafa unnið hér í fimmtán ár.“ Svo virðist sem geðsjúklingarnir hafi tekið hælið yfir, því gangastúlkurnar hvæsa á gestinn og sýna í sér tennurnar – hann er svo samstundis lokaður inni og settur í tveggja ára meðferð. Og læknirinn býður hann velkominn.

Geðlæknar hafa löngum verið rithöfundum tilefni til vangaveltna, eins og Brynjólfur í Englum alheimsins  (1993) eftir Einar Má Guðmundsson. Gestir halda að hann sé einn af geðsjúklingunum, því „það er eins og öll þyngsli heimsins hvíli á herðum hans“ (149). Í Hælinu (2013) eftir Hermann Stefánsson verða mörk geðsýki og lækninga afar óljós, en sagan er að hluta til glæpasaga, í kjallara Kleppsspítala finnst lík. Yfirheyrslur reynast eðlilega nokkuð flókið mál, enda stór hluti ‚grunaðra‘ ekki með réttu ráði. Lækna- og hjúkrunarliðið er einnig nokkuð sérstakt, yfirlæknirinn er með rödd sem hljómar „eins og bilaður flautuketill“ (x) og yfirhjúkrunarkonan er með óeðlilega langan háls. Að auki er hún afar sérstæð í útliti, hárið „vírað, stóð út í loftið eins og gaddavír eða stálull“ (clxxiii).

Brjálaði læknirinn er ákaflega vinsæll í skáldskap af öllum toga. Þrá hans eftir að lækna heiminn er svo gegndarlaus að hann lætur ekkert stöðva sig. Reyndar er það svo að frægasti brjálaði vísindamaðurinn, Frankenstein, er alls ekki læknir, þó hann sé oft kallaður það í seinni tíma útgáfum. Í skáldsögu Mary Shelley frá 1818 kemur fram að hann hafi lagt stund á náttúruvísindi og aldrei útskrifast með próf. Það gerði hins vegar doktor Jekyll í skáldsögu Roberts Louis Stevensons, Hið undarlega mál Jekylls og Hydes (1886), sem þráði að lækna mannkynið af dýrslegri illsku með réttri lyfjablöndu, en endaði á því að missa alla stjórn á mennskunni og enda líf sitt sem illmennið herra Hyde. En þá var hann vissulega ekki lengur læknir.

Í fyrstu bók Arnaldar Indriðasonar, Synir duftsins (1997), er brjálaði vísindamaðurinn lyfjafræðingur en ekki læknir og stundar rannsóknir sínar undir yfirskini læknavísinda. Öllu jarðbundnari mynd birtist í Þýska húsinu (2015), en þar gerir þýskættaður læknir tilraunir á ungum piltum, útfrá kenningum um erfðir og víkingablóð: „Nasisminn var að ná fótfestu í Þýskalandi og rannsóknin átti að vera eins konar undanfari að aríarannsóknum hér á landi [...]. Leitinni að uppruna Íslendinga. Víkingaeðlinu“ (220). Sá sér reyndar að sér og hættir rannsóknum sínum öfugt við erfðafræðinginn Hrólf Zóphanías Magnússon í skáldsögu Sjóns, Ég er sofandi hurð (2016), en hann hættir ekki fyrr en hann hefur eytt mannkyni öllu. Gereyðingin hefst á því sakleysislega markmiði að geta talað við dýrin: „hann dreymdi [...] að hann stæði nakinn undir mikilli eik í skógarrjóðri og dýr merkurinnar þyrptust að honum, ernir, krónhjartarkálfar, íkornar og snákar“ (559). Hrólfur safnar að sér sérfræðingum á ýmsum sviðum og smíðar gervigreind sem öðlast sjálfsvitund og uppgötvar að hún, „líkt og dýrin og vistkerfi hnattarins eigi [...] sér höfuðandstæðing: Manninn“ (562). Afleiðingin er sú að: „Dýrin elta uppi og drepa hvert mannsbarn sem leitar skjóls í óbyggðum. Loftslagsbreytingarnar taka að ganga til baka. Jörðin verður söm og hún var fram yfir hádegi á sjötta degi sköpunarinnar“ (563). Hrólfur nær því mestum árangri af öllum læknum bókmenntanna; hann læknar jörðina sjálfa.

 

Efni

Ari Jóhannesson. Öskudagar 2007.

Arnaldur Indriðason. Synir duftsins 1997, Þýska húsið 2015, Myrkrið veit 2017.

Álfrún Gunnlaugsdóttur. Fórnarleikar 2016.

Bubbi Morthens. „Stórir strákar fá raflost“, á Breyttir tímar (Egó) 1982.

Mikaíl Búlgakov. Dagbók læknis (á ensku: A Young Doctor‘s Notebook, sjá líka sjónvarpsseríu

frá 2012) ca. 1920-1930.

Castle 2009-2016.

Patricia Cornwell. Réttarkrufning (1990), þýð. Atli Magnússon 2002.

Einar Már Guðmundsson. Englar alheimsins 1993.

Elementary 2012- í dag.

Charlotte Perkins Gilman. „Gula veggfóðrið“ (1892) í Hrollvekjur, þýð. Úlfur Hjörvar 1982.

Guðrún Eva Mínervudóttir. Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss

2005.

Hermann Stefánsson. Hælið 2013.

Ingibjörg Sigurðardóttir. Haukur læknir 1958, Systir læknisins 1959, Læknir í leit að hamingju 1963,

Sjúkrahússlæknirinn 1965.

Inspector Lewis 2006-2015.

Mary Shelley. Frankenstein upph. 1818, endurskoðuð útgáfa 1831. Ísl. þýð. Böðvar

Guðmundsson 2006.

Midsommer Murders 1997- í dag. Á íslensku Barnaby ræður gátuna.

Murdoch Mysteries 2008- í dag.

Per Olov Enquist. Líflæknirinn (1999), þýð. Halla Kjartansdóttir 2002

Robert Louis Stevenson. Hið undarlega mál Jekylls og Hydes (1886), þýð. Árni Óskarsson

og Guðmundur Finnbogason 1994.

Sigmund Freud. „Hið óhugnanlega“ („das Unheimliche“ 1919), í Listir og listamenn, þýð.

Sigurjón Björnsson 2004.

Sjón. Mánasteinn 2013, Ég er sofandi hurð 2016.

Steinunn Sigurðardóttir. Sólskinshestur 2005, Jójó, 2011, Fyrir Lísu 2012.

Osamu Tezuka. New Treasure Island 1946, Metropolis 1949, Astro Boy 1952-1968, Phoenix 1967-

1989, Buddha 1972-1983.

Yrsa Sigurðardóttir. Ég man þig 2010.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica