01. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Einar Stefánsson heiðraður fyrir augnrannsóknir

                                                   

Einar Stefánsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á augndeild Landspítala, tók á dögunum við Peter Watson verðlaunum sem veitt fyrir framúrskarandi vísindaframlag á sviði rannsókna í augnlækningum. Einar tók við verðlaununum í Cambridge en margir af fremstu vísindamönnum heims á sviði augnlækninga hafa hlotið þessi verðlaun.

Einar er einnig í hópi afkastamestu frumkvöðla Háskóla Íslands og hefur drjúgan part starfsævinnar unnið að rannsóknum á lífeðlisfræði augna og augnsjúkdóma og er mjög kunnur á alþjóðavettvangi fyrir þau störf sín. Hann er meðhöfundur að ríflega 200 greinum í ritrýndum vísindatímaritum og höfundur um 400 ritverka og útdrátta um augnlækningafræði.

Viðburðurinn þar sem verðlaunin voru afhent kallast The Cambridge Ophthalmological Symposium og hefur hann verið haldinn árlega í röska hálfa öld. Á hverju ári er þeim vísindamanni sem skarar hvað helst fram úr á sviði augnrannsókna boðið að stjórna viðburðinum og flytja erindi um eigin rannsóknir. Einar Stefánsson var fundarstjóri að þessu sinni og flutti hann erindi um súrefnisbúskap sjónhimnu og glerhlaups augans og hvernig hann hefur áhrif á sjúkdóma og meðferð þeirra.  

Hið virta breska vísindatímarit EYE mun gefa út sérstakt hefti eftir áramótin sem verður helgað ráðstefnunni í Cambridge og mun Einar skrifa ritstjórnargrein auk vísindagreinar í blaðið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica