09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Persónulegar minningar úr ófyrir­sjáanlegum heimi - Davíð Á. Gunnarsson hefur skrifað um störf sín á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og erindi Íslands inn á þann völl

                                                                    

 

Getur verkfræðingur stjórnað heilbrigðismálum heimsins? Við þessari spurningu er eflaust til „eitt og annað loðið svar“ svo vitnað sé til stórskálda. En hún brann um langt skeið heitt á Davíð Á. Gunnarssyni verkfræðingi sem mestan sinn starfsaldur vann að heilbrigðismálum sem ráðuneytisstjóri. Á árunum 1996-2007 reyndi sérstaklega á þetta því þá starfaði hann fyrir Íslands hönd í forystusveit Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Þeim kafla í lífi hans lauk með því að hann fór í framboð til framkvæmdastjóra – en tapaði.           

                                                  

                                    
 Davíð ásamt Gro Harlem Brundtland og Jóni Kristjánssyni fyrrum heilbrigðisráðherra. Gro var á þessum tíma forstjóri WHO.

 

                  
    Davíð ásamt tveimur vopnabræðrum úr forstjóraslagnum, Ingimar Einarsson til vinstri og Kristinn Árnason sendiherra.

 

Því er verið að rifja þetta upp hér að stéttarfélag Davíðs, Verkfræðingafélag Íslands, gaf ekki alls fyrir löngu út bókina Alþjóðaheilbrigðismál Ísland til áhrifa. Þar rekur Davíð feril sinn í starfi fyrir WHO og lýsir persónulegri reynslu sinni af því að vera í fremstu víglínu í heilbrigðismálum heimsins. Þetta eru fyrst og fremst persónulegar minningar hans en þeim sem vilja sökkva sér í samþykktir og hefðbundnar sögulegar heimildir um WHO er vísað á heimasíðu stofnunarinnar.

 

Læknir eða verkfræðingur?

Davíð rekur sögu WHO í stórum dráttum frá stofnun árið 1946 og þar svarar hann ofannefndri spurningu á eftirfarandi hátt:

„Á upphafsárum WHO hefði verið óhugsandi að verkfræðingur yrði valinn í stjórn stofnunarinnar. Þegar ég var kosinn í stjórnina, tæpum sextíu árum síðar, þótti það ekkert sérstakt. Mér er sagt að þegar ég var kosinn stjórnarformaður hafi einstaka augabrúnir lyfst. Ef maður skoðar listann yfir formenn stjórnar WHO sýnist mér að þeir hafi nær allir verið læknar fram að þeim tíma. Þegar íslenska ríkisstjórnin bauð mig fram sem forstjóra kvað við annan tón. Þá notuðu aðrir frambjóðendur það óspart gegn mér í áróðursskyni að ég væri verkfræðingur en ekki læknir. Ýmsar þjóðir töldu þó að það væri mikill fengur í því að fá einstakling með verkfræði- og rekstrarþekkingu sem forstjóra. Því miður sátu fulltrúar þessara þjóða ekki í stjórninni og gátu því ekki greitt atkvæði.“

Hann lýsir í framhaldinu helstu málum sem fjallað var um á þeim tíma sem hann starfaði innan stofnunarinnar, fyrst á Evrópuskrifstofunni í Kaupmannahöfn en síðan á aðalskrifstofunni í Genf. Í þessum köflum er að finna mikinn fróðleik um heilbrigðismál heimsins á þessum tíma, það er frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og framan af þessari. Einnig ræðir hann af hreinskilni um það hvert erindi Ísland á inn á þennan vettvang.

 

Hvað varð um forsetann?

Það er hins vegar kaflinn um framboðið til framkvæmdastjóra stofnunarinnar sem er oftar en ekki hreinn skemmtilestur og gefur sjaldgæfa innsýn í það hvernig kaupin ganga á eyrinni í efstu lögum alþjóðlegrar samvinnu.

Sumarið 2006 fór að mestu í að kanna jarðveginn fyrir framboð en frestur til að leggja það fram rann út í byrjun september. Íslensk stjórnvöld tóku um það ákvörðun að standa að baki framboðinu, þó með þeim fyrirvara að það mætti helst ekki kosta neitt að ráði. Starfsmenn heilbrigðis- og utanríkisráðuneyta stóðu þétt að baki Davíð en gátu ekki alltaf beitt sér vegna kostnaðarsjónarmiða. Sumir frambjóðendur annarra ríkja ferðuðust um heiminn í einkaflugvélum og heimsóttu öll ríkin 34 sem áttu fulltrúa í stjórn WHO og höfðu þar með atkvæðisrétt. Davíð og hans aðstoðarfólk varð að nýta tilfallandi alþjóðafundi til að hitta fólk.

Svo gerðust stundum undarlegir atburðir. Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um haustið var Ólafur Ragnar Grímsson forseti á sama tíma og Davíð og bauðst til að styðja hann í hvívetna. „Ég ræddi þetta við embættismenn í utanríkisráðuneytinu og kom á óvart hversu viðkvæmt málið var. Ástandið var einfaldlega þannig á þessum tíma að að ég vildi ekki halda því til streitu að forsetinn kæmi með mér inn í SÞ bygginguna. Mér fannst þetta fúlt. Miðað við það sem ég frétti síðar hefði þetta áreiðanlega getað skipt máli,“ segir Davíð en fékk aldrei neina viðhlítandi skýringu á þessari viðkvæmni.

 

Karlremba og salernisferð

Það var ekki heiglum hent að hitta þá sem réðu atkvæðum hvers þessara 34 ríkja sem fóru með atkvæðisréttinn. Það var engin regla á því hver réð mestu, hvort það væri þjóðhöfðinginn, forsætisráðherrann, heilbrigðisráðherrann eða utanríkisráðherrann. Oft reyndust þessir valdamenn hafa hver sína skoðun á því hvort rétt væri að styðja Íslendinginn eða ekki. Frá þessu voru Norðurlöndin engin undantekning. Til dæmis ákvað nýskipaður sænskur heilbrigðisráðherra að styðja vinkonu sína sem var fulltrúi Spánar en þær höfðu farið í margar fjallgöngur saman um hálendi Spánar.

Á einhverjum tímapunkti bauð formaður rússnesku sendinefndarinnar á Evrópufundi WHO Davíð í kaffi og hann mætti þar ásamt Siv Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra. Sá rússneski tilkynnti að ríkisstjórn sín hefði ákveðið að styðja Davíð í kjörinu og væri reiðubúin til að taka þátt í kosningabaráttu hans með ýmsum hætti. „Hann bætti jafnframt við að Rússar hefðu meiri trú á stórum þéttholda körlum en lágvöxnum konum. Ég var reiðubúinn að grípa í Siv ef hún hefði farið að segja það sem hún hugsaði. Siv lét eins og hún hefði ekki heyrt þetta og notaði réttu orðin í stað þess að móðgast.“ Þarna vísaði sá rússneski til helsta mótframbjóðanda Davíðs, Margaret Chan fulltrúa Kína. Ekkert varð hins vegar úr stuðningi Rússa því hann var dreginn til baka áður en til kosninganna kom.

Á fundi sem Davíð sótti í Addis Ababa í Eþíópíu voru margir ráðherrar frá Afríkuríkjum saman komnir. Davíð var búinn að leita lengi að ráðherra frá Líberíu en rakst loks á hann á salerninu þar sem þeir pissuðu hlið við hlið. „Í framhaldinu áttum við fínt samtal þar sem hann tók erindi mínu mjög vel.“

 

Hagsmunir togast á

Að sjálfsögðu spilaði stórveldapólitíkin inn í þessa kosningabaráttu enda hefur því verið haldið fram að raunveruleg úrslit ráðist í valdahlutföllum stundarinnar milli ríkjanna fimm sem eiga fastafulltrúa í Öryggisráði SÞ, Bandaríkjanna, Rússlands, Englands, Frakklands og Kína. Það var Kína sem sigraði í þetta sinn en Davíð huggaði sig við að hafa fengið jafnmörg atkvæði í fyrstu umferð kjörsins og fulltrúi Frakka, átta talsins.

Það er óhætt að mæla með þessari bók Davíðs Á. Gunnarssonar fyrir þá sem vilja fræðast um æðstu stjórnskipan heilbrigðismála í veröldinni. Hann lýsir ágætlega hvaða hagsmunir það eru sem takast á í forystu WHO, ekki bara pólitískir á milli ríkja heldur ekki síður þeim sem framleiðendur og seljendur lyfja og lækningatækja telja sig þurfa að verja. Og yfir þessu öllu vofa herir þjóðanna sem telja sig eiga sitt að verja. Eða af hverju skyldi landlæknir Bandaríkjanna alltaf vera hershöfðingi, surgeon general?




Þetta vefsvæði byggir á Eplica