09. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Enskir læknanemar heimsækja Ísland 1810. Páll Ásmundsson

Sumarið 1810 ferðuðust þrír breskir ferðalangar um Ísland í rannsóknaskyni og voru ýmist nafntogaðir þá þegar eða öðluðust frægð síðar. Fararstjóri var skoski baróninn Sir George Steuart Mackensie (1780-1848). Ferðafélagar hans, ensku vinirnir Henry Holland og Richard Bright, stunduðu læknisnám við Edinborgarháskóla. Með þeim var í för sem túlkur og fylgdarmaður, Íslendingurinn Ólafur Loftsson.  

Þeir félagar komu til landsins  7. maí og sneru heimleiðis 19. ágúst. Þeir höfðu þá ferðast vítt um suðvestanvert landið allt frá Snæfellsnesi austur í Fljótshlíð.

Lítum nú betur á hverjir þessir ferðalangar voru og hver framtíð beið þeirra.


Reykjavík

Sir George Steuart Mackenzie of Could (1780-1848) nam náttúrufræði, einkum steinafræði, og var kjörinn meðlimur hins þekkta vísindafélags The Royal Society bæði í London og Edinborg. Tvítugur sýndi hann fram á að demantar væru kolefni með því að brenna demanta móður sinnar til ösku.

Eftir Íslandsförina jók Mackenzie frama sinn. Bók hans Travels in the island of Iceland: during the summer of the year 1810 kom út 1811 og var gefin út fjórum sinnum á ensku og þýdd á þýsku og hollensku. Hann jók þekkingu í jarðfræði, var fyrstur til þess að telja að hrafntinna verði til við eldgos. Þá vakti steinasafn hans frá Íslandi aðdáun þekktra fræðimanna.  


Henry Holland

Henry Holland (1788 –1873) var læknissonur, fæddur í Knutsford í Cheshire. Hann var náskyldur Charles Darwin. Henry vingaðist við Richard Bright er þeir stunduðu nám í unitaraskóla í Bristol. Holland hóf nám í læknisfræði 1808 við Edinborgarháskóla sem þá var talinn einn besti skóli í Evrópu. Hann lauk þaðan námi 1811. Lokaritgerð hans var kafli sá er hann skrifaði um sjúkdóma á Íslandi í bók Mackensies.

Holland skrifaði dagbók í Íslandsferðinni og gaf hana út sjálfur.

Henry Holland telst ekki afreksmaður á sviði læknavísinda en var þó í góðu áliti sem læknir og hafði ríkan hæfileika til að umgangast fólk og vinna traust þess og vináttu. Í vinahópi hans var fjöldi þekktra manna. Hann varð líflæknir margra fyrirmanna, þar á meðal Viktoríu drottningar og Alberts prins.

Henry hafði mikið yndi af ferðalögum og fór víða um heim og færði dagbækur um allar ferðir sínar.

Henry var hlýtt til Íslands og minnist þess víða í endurminningum sínum Recollection of past life.

Holland kom aftur til Íslands í stutta heimsókn árið 1871, tveimur árum áður en hann dó og hlaut góðar viðtökur. Í endurminningunum gleðst hann yfir þeim framförum sem hér hafa orðið á sex áratugum.


Richard Bright

Richard Bright Jr. (1789 –1858) var sonur  athafnamanns í Bristol. Hann hóf nám í læknisfræði við Edinborgarháskóla 1808. Eftir Íslandsferðina var hann tvö ár í starfsnámi á Guy's Hospital í London en sneri aftur til Edinborgar og lauk þar námi 1813. Eftir framhaldsnám í Berlín og Vín og störf á Fever Hospital í London hóf Bright störf á Guy's Hospital árið 1820 og tengdist honum út starfsævina.

Meðal þekktra lækna er störfuðu við Guy's samtímis Bright má nefna Thomas Addison (1793-1860) og Thomas Hodgkin (1798 -1866).

Á Guy's var lögð áhersla á tengingu sjúkdómseinkenna við meinafræðilegar breytingar sem má telja grunn nútíma sjúkdómsgreiningar.

Í fyrsta hefti Reports of Medical Cases árið 1837 tengir Bright bjúgsöfnun og hvítumigu við breytingar í nýrum og aðgreinir slík tilfelli frá bjúg vegna hjarta- eða lifrarsjúkdóma. Bright var hér ósértækt að lýsa nýrnabólgu. Sjúkdómurinn gekk lengi undir nafninu Bright's disease. Nú fellur fjöldi skilgreindra sjúkdóma undir þennan hatt. Vegna þessarar uppgötvunar hefur Bright gjarnan borið heiðursnafnbótina faðir nýrnalækninga.

Þegar Bright lést var hann heimsþekktur sem kennari í meinalíffræði og lyflækningum.   

Ólafur Loftsson var fæddur 1783 í Fljótshlíð. Hann nam í Hólavallaskóla í Reykjavík og hóf síðan læknisnám hjá Tómasi Klog landlækni. Að ráði hans sigldi Ólafur utan til frekara náms. Hann komst þó ekki lengra en til Suðureyja þar sem skipið var hertekið. Hann ílentist þar og fékkst við lækningar á eyjunum og síðar á meginlandinu. Þar rakst Mackensie á Ólaf, gerðist velgerðarmaður hans og kom honum til frekara náms í Edinborg. Það lá því beint við að taka hann með til Íslands.

Ólafur reyndist þeim félögum ekki eins vel og skyldi og mislíkaði þeim margt í fari hans. Hann varð eftir á Íslandi en fór utan til Englands tveimur árum seinna. Síðast er vitað til hans 1815 sem aðstoðarskipslæknis á amerísku herskipi.

Hann hefur verið léttur á kostunum því hann skildi eftir 6 lausaleiksbörn á Íslandi.  


Eyjafjallajökull frá Hlíðarenda

Hér á eftir er að mestu stuðst við bók Henrys Holland Dagbók í Íslandsferð 1810 sem út kom hjá Almenna bókafélaginu 1960 í ágætri þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. Í fyrrnefndri bók Mackensies er ferðasagan að talsverðu leyti byggð á Dagbók Hollands.  

Undirbúningur og upphaf ferðar  

Þeir vinirnir Bright og Holland fréttu af fyrirætlunum Mackensies og buðu sig fram til þátttöku í ferðinni.

Áður en lagt var af stað skiptu ferðafélagarnir með sér verkum.   

Auk fararstjórnar var það hlutverk Mackensies að safna jarðfræðigögnum auk upplýsinga um landbúnað og aðra atvinnuhætti Íslendinga. Bright átti að safna gögnum um grasafræði og dýrafræði Íslands. Holland skyldi afla gagna um sögu landsins, bókmenntir, trúmál, stjórnarfar og heilsufar landsmanna.

Þeir félagar hófu ferðina í Leith og sigldu fyrst til Stromness í Orkneyjum. Þar biðu þeir skipsins Elbu er flutti þá til Reykjavíkur.

Siglingin frá Orkneyjum tók 9 daga í misgóðum byr og komu þeir til Reykjavíkur 7. maí.
 

Reykjavík

Þeir félagar komu helst til snemma til að ferðast um landið. Þannig gekk illa að útvega ferðafæra hesta og urðu þeir að bíða í Reykjavík í tvær vikur áður en þeir gætu lagt í fyrstu ferð sína. Samtals dvöldust þeir meira en þriðjung dvalartímans í Reykjavík.

Þeir koma hingað  ári eftir að Jörundur var hér og bærinn býr enn að afleiðingum þess ævintýris. Trampe greifi er farinn brott sem fangi og hús hans stendur autt. Mackensie hafði vingast við hann bréflega og bauðst þeim að búa í húsi hans sem enn stendur við Austurstræti og var þá eitt besta hús bæjarins.

Reykjavík líst þeim frekar ömurleg, húsin flest hreysi. Jafnvel fyrirmenn búa lélega.

Það er vel tekið við þeim og þeim boðið til ýmissa helstu manna, svo sem Frydenbergs landfógeta, Krogs landlæknis í Nesi, Geirs Vídalíns biskups og Ólafs Stephensens í Viðey sem býður þeim í eina af sínum frægu stórveislum. Þeir færa landlækni kúabóluhrúður en vegna skorts á því munu bólusetningar þá hafa verið aflagðar. Holland vingast sérlega við Geir „góða“ biskup og þeir eiga margar góðar samræður á latínu.

Þeim er boðið á dansleiki undir ömurlegum hljóðfæraslætti.

Gullbringusýsla

Fyrsta ferð þeirra var um Reykjanes og tók 13 daga. Þeir fóru frá Reykjavík 21. maí fótgangandi en með fimm hesta undir klyfjum.

Þeir gistu fyrstu tvær næturnar í Hafnarfirði á heimili Bjarna Sívertsen í góðu yfirlæti. Annan daginn skruppu þeir að Bessastöðum að hlýða á próf skólapilta. Þótti þeim aðbúnaður þar slæmur. Á þriðja degi halda þeir áleiðis til Krýsuvíkur með kaldri tjaldgistingu við Kaldá á leiðinni. Í Krýsuvík gistu þeir í kirkjunni en það gerðu þeir allvíða þar sem þeim bauð við húsakynnum á bæjum sem Holland líkir við moldvörpu- eða kanínubú. Þeir skoða af áhuga brennisteinshveri við Krýsuvík enda var brennisteinn á þeim tíma dýrmætt efni til púðurgerðar.

Þeir halda síðan vestur með ströndinni til Grindavíkur og virða í leiðinni fyrir sér sjóbúðalíf og fiskverkun. Hætt er við að fara út á Reykjanes vegna óveðurs og haldið til Keflavíkur þar sem þeim var vel tekið af Jacobæusi kaupmanni og voru þar veðurtepptir í fjórar nætur. Á leið þaðan varð Holland viðskila við félagana og lenti í hremmingum í úfnu hrauni.

Borgarfjörður og Snæfellsnes

Ferðalangarnir höfðu ætlað sér að fara norður í land, allt til Mývatns en hættu við það sökum tímaskorts. Varð úr að halda vestur á Snæfellsnes og skoða í leiðinni byggðir Borgarfjarðar.

Eftir 12 daga dvöl í Reykjavík var lagt af stað og var leiðangurinn nú kominn með 10 hesta og tvo fylgdarmenn auk Ólafs.

Þremenningarnir fóru fyrst með bát upp á Kjalarnes en fylgdarmenn og hestar fóru landleið. Gist var fyrst í kirkju í Brautarholti en síðan í myndarbæ að Hálsi í Kjós.

Þeir voru ferjaðir frá Hvítanesi yfir að Saurbæ og gistu þar í kirkju hjá séra Jóni O. Hjaltalín föður Jóns landlæknis.

Næst var haldið að Innrahólmi en þeir áttu heimboð til Magnúsar Stephensens og tók hann og fjölskylda hans vel á móti þeim, veitti vel og skemmti með hljóðfæraleik. Holland var ekki hrifinn af Magnúsi en Mackensie líkaði hann betur. Magnús fylgdi þeim síðan að Hvanneyri með viðkomu að Leirá þar sem prentsmiðjan í Leirárgörðum var skoðuð. Stefán Stephensen amtmaður, bróðir Magnúsar bjó að Hvanneyri og var þeim þar tekið af rausn.

Næsti náttstaður þeirra var Svignaskarð en þaðan liggur leið þeirra um Skarðsheiði vestari, með fjöllum, yfir hraun og mýrarfláka út sunnanvert Snæfellsnes allt að Búðum. Gist er í kirkjum. Verstu farartálmarnir eru mýrarnar þar sem „hvert fótmál var stigið í skjálfandi ótta“ og hestarnir lágu hvað eftir annað á kviði í keldunum.

Á Búðum og Stapa eru verslunarstaðir og er þeim rausnarlega tekið. Náttúrufegurð staðanna hrífur þá, einkum ströndin við Stapa og bergmyndanir þar.

Þeir höfðu vonast til að komast á jökulinn frá Stapa en ekki viðraði svo þeir drifu sig til Ólafsvíkur. Þar tók við þeim Holger Clausen kaupmaður og kona hans Valgerður sem þá var talin fegurst kvenna á Íslandi, enda segist Holland ekki hafa séð aðra fegurri í ferðinni.

Frá Ólafsvík gengu þeir á Snæfellsjökul, Bright, Holland og Ólafur Loftsson ásamt tveimur fylgdarmönnum sem aldrei höfðu á jökulinn komið. Þeir komust á einn af þremur tindum á toppnum en þurftu að feta sig eftir mjórri snjóbrú yfir djúpa sprungu og „hef aldrei í slíkan háska komist“ segir Henry í dagbók sinni.

Frá Ólafsvík var haldið til Grundarfjarðar um hrikalega slóð í Búlandshöfða. Þeir koma þar steinasafni sínu í skip til Reykjavíkur. Þegar til Stykkishólms kemur kynnast þeir Oddi Hjaltalín lækni, syni Saurbæjarprestsins.   

Oddur fylgdi þeim að Drápuhlíðarfjalli en þaðan var för haldið áfram inn Skógaströnd með gistingu á Narfeyri og í Snóksdal. Síðan var farið yfir Bröttubrekku og gist að Hvammi í Norðurárdal.

Næsta dag fylgdi Hvammsbóndi þeim að Síðumúla en þar hittu þeir sýslumann sem varð þeim samferða yfir Hvítá að Hvanneyri. Margir gistu að Hvanneyri þá nótt og þótti Englendingunum nóg um hvernig konum og körlum var hrúgað saman í herbergi.

Daginn eftir fóru Mackensie og Holland að Reykholti og skoðuðu hveri þar í grenndinni. Þótti þeim mest koma til Deildartunguhvers.

Daginn eftir var farið að Innrahólmi. Reið Stefán amtmaður á leið og gaf Mackensie frábæran reiðhest sinn að skilnaði.

Að Innrahólmi var þeim vel tekið en um kvöldið var þeim síðan róið til Reykjavíkur og höfðu þá verið mánuð í burtu.
 

Austur yfir Fjall

Eftir vikudvöl í Reykjavík þar sem fátt bar til tíðinda nema hvað yfir stóð aðalkauptíðin í höfuðstaðnum, voru ferðalangarnir búnir til ferðar um Suðurland. Í för með þeim að Geysi slógust nokkrir kunningjar þeirra.

Fyrst var haldið til Þingvalla. Holland lýsir Almannagjá og aftökustöðum en er annars fremur fámáll um staðinn og sögu hans. Hann segir kirkjuna þá næsthrörlegustu er þeir gistu á ferðum sínum.

Þeir halda síðan í Skálholt sem Holland finnst fegursta bæjarstæði sem hann leit á Íslandi. Þótt biskupsstóllinn væri fluttur til Reykjavíkur stóð þó kirkjan þar enn og þar var sofið.

Frá Skálholti er farið að Geysi og dvalið þar í tvær nætur. Geysir gýs nokkrum sinnum fyrir þá og „Nýi Geysir“ sem sennilega er Strokkur gýs einnig hressilega rétt við tjaldskör þeirra.

Næst var haldið áleiðis að Heklu, ferjað yfir Hvítá og Þjórsá. Gist er á tveimur stöðum áður en komið er í Næfurholt 1. ágúst.

Frá Næfurholti er farið í tvær dagsferðir. Hin fyrri er inn á Dómadal og hugsanlega allt inn í Hrafntinnuhraun þar sem þeir sannfærast um að hrafntinna sé til orðin við eldgos. Sú ferð tók nærri sólarhring. Daginn eftir ganga þeir á Heklu. Holland segir í endurminningum sínum að hann sé sennilega eini maðurinn í heimi sem hafi staðið á tindi Heklu, Vesúvíusar og Etnu.

Frá Næfurholti er farið að Hlíðarenda stystu leið en þar áttu þeir heimboð hjá Vigfúsi Thorarensen sýslumanni. Héðan er mikilfenglegt útsýni. Skemmtileg er lýsing Hollands af samskiptum við drukkinn prest og messuhaldi hans.

Þeim félögum bárust nú boð um að þeir yrðu að hraða sér til Reykjavíkur til að ná fari með skipinu Flora. Þeir hættu því við frekara ferðalag austur á bóginn og fóru frá Hlíðarenda að Odda og gistu þar en riðu þaðan alla leið til Reykjavíkur með stuttri viðkomu á Eyrarbakka.

Flora fór þó ekki fyrr en hálfum mánuði seinna. Var þeim haldið kveðjusamsæti og mættu þar allir fyrirmenn, enskir jafnt sem danskir og íslenskir.

Þeir félagar komust heilir heim þrátt fyrir erfiða siglingu og mikla sjóveiki.
 

Sjúkdómar Íslendinga

Hér skal drepið á nokkur atriði úr ritgerð Henrys Hollands um sjúkdóma á Íslandi en hana er að finna sem viðauka við ferðasöguna í bók Mackensies.

Hann byrjar á að ræða strjálbýlið og erfiðleika við að halda uppi heilbrigðisþjónustu. Auk landlæknis séu 5 læknar dreifðir um landið. Hver og einn þeirra þjóni stóru landsvæði og gegni nær óyfir-stíganlegu hlutverki. Í landinu séu þrjú sjúkrahús er öll annist holdsveika. Þau séu fjármögnuð með því að hver fiskibátur á landinu gefi einn hlut veiði einn dag á ári, þó aldrei færri en fimm fiska. Hann ræðir um skyrbjúg vegna lítils grænmetisáts. Hann talar um holdsveiki sem lengi hafi verið landlæg og engin  úrræði að gagni önnur en einangrun sjúklinga.

Þá ræðir hann um bólusótt sem herjað hafi með löngum millibilum og þar af leiðandi miklu mannfalli. Hann fjallar um faraldurinn 1707 er banaði meira en fjórðungi landsmanna. Hann nefnir kúabóluefni sem þeir gáfu og kom bólusetningum aftur af stað. Loks ræðir hann ginklofavandamálið í Vestmannaeyjum og skín í gegn það ráðaleysi sem menn búa við meðan engin skýring fæst á því.

 

Heimildir

1. Holland H. Dagbók í Íslandsferð 1810. Almenna Bókafélagið, Reykjavík 1960.
 
2. Mackensie GS. Travels in the island of Iceland, during the summer of the year MDCCCX. Edinburgh 1811.  
 
3. Holland H. Recollections of past life. D. Appleton and Company, New York 1872.

PMCid:PMC2296555

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica