09. tbl. 102. árg. 2016

Fræðigrein

Fæðuval og næring kvenna á meðgöngu með tilliti til líkamsþyngdar

Diet and nutrient intake of pregnant women in the capital area in Iceland

doi: 10.17992/lbl.2016.09.95

Ágrip

Tilgangur: Næringarástand fyrir og á meðgöngu getur haft áhrif á þroska, vöxt og heilsu barnsins til skemmri og lengri tíma. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka næringargildi fæðu hjá barnshafandi konum á höfuðborgarsvæðinu og að kanna hvort mataræði kvenna í kjörþyngd fyrir þungun væri frábrugðið því sem er hjá konum sem voru yfir kjörþyngd.

Efniviður/aðferðir: Þátttakendur voru konur á aldrinum 18-40 ára (n=183), sem höfðu búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Mataræði var kannað með fjögurra daga vigtaðri skráningu í 19.-24. viku meðgöngu (n=98 með líkamsþyngdarstuðull (LÞS) <25 kg/m2); n=46 með LÞS 25-29,9 kg/m2 og n=39 með LÞS ≥30 kg/m2).

Niðurstöður: Einungis 20% kvennanna náðu lágmarksviðmiðum trefjaneyslu sem eru 25 g á dag. Viðbættur sykur veitti að jafnaði 12% (SF ± 5%) af heildarorku fæðisins. Um fjórðungur kvennanna gæti hafa átt á hættu að fullnægja ekki þörf fyrir joð, D-vítamín og DHA (dókósahexensýru ). Ofneysla vítamína og steinefna (úr fæði og bætiefnum) sást ekki. Miðgildi neyslu á mjólk og mjólkurvörum (346 g/dag miðað við 258 g/dag, p<0,05), gos- og svaladrykkjum (200 g/dag miðað við 122 g/dag, p<0,05) og kartöfluflögum og poppi (13 g/dag miðað við 0 g/dag, p<0,05) var hærra meðal kvenna með LÞS ≥30 kg/m2 fyrir þungun heldur en kvenna sem voru í kjörþyngd fyrir þungun.

Ályktanir: Huga þarf betur að fæðuvali kvenna fyrir og á meðgöngu, ekki síst meðal kvenna yfir kjörþyngd. Hluti barnshafandi kvenna fullnægir ekki þörf fyrir næringarefni á borð við joð, D-vítamín og DHA, sem öll gegna lykilhlutverki við fósturþroska.

Inngangur

Rannsóknir síðastliðinna 20 ára, bæði meðal manna og dýra, benda til þess að umhverfi fósturs í móðurkviði geti haft umtalsverð áhrif á heilsu afkvæmisins allt fram á fullorðinsár.1 Næringarástand fyrir og á meðgöngu getur ekki aðeins haft áhrif á heilsu móðurinnar heldur einnig á þroska, vöxt og heilsu barnsins til skemmri og lengri tíma.2-4

Mataræði mismunandi samfélagshópa hefur verið rannsakað hérlendis undanfarin ár.5,6 Þekkingin hefur meðal annars nýst við stefnumótun í lýðheilsumálum. Mataræði barnshafandi kvenna hefur verið rannsakað þrisvar sinnum síðastliðin 15 ár.7-9 Tíðnispurningalisti var notaður til að kanna mataræði í öllum þessum rannsóknum. Þrátt fyrir að reynslan af notkun slíks spurningalista sé góð í stórum faraldsfræðilegum rannsóknum þar sem ætlunin er að flokka einstaklinga í hópa eftir fæðuvali og tengja við heilsufarsþætti10-13 hentar þessi aðferðafræði illa ef markmiðið er að magngreina neyslu matvæla og einstakra næringarefna. Nákvæmar upplýsingar um neyslu matvælategunda eru meðal annars mikilvægar við að meta hættu á of mikilli eða lítilli neyslu næringarefna miðað við ráðleggingar.14

Markmið rannsóknarinnar var að kanna fæðuval og næringargildi fæðu meðal barnshafandi kvenna á höfuðborgarsvæðinu, með áherslu á næringarefni sem er talið að geti tengst fósturþroska. Notuð var vigtuð skráning alls matar og drykkjar sem konurnar neyttu í fjóra samfellda daga, sem er ein nákvæmasta aðferð sem völ er á við könnun á mataræði einstaklinga.10 Undirmarkmið rannsóknarinnar var að kanna hvort mataræði kvenna í kjörþyngd fyrir meðgöngu væri frábrugðið mataræði kvenna sem voru of þungar eða of feitar fyrir meðgöngu.

Efniviður og aðferðir

Þátttakendur voru íslenskar konur á aldrinum 18-40 ára með búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Gagnanna var aflað í rannsókninni Göngum dálítið meira (GDM) sem fór fram á kvennadeild Landspítala í samstarfi við Rannsóknastofu í næringarfræði frá apríl 2012 fram í október 2013.15 Konum var boðin þátttaka í rannsókninni við 20 vikna ómskoðun á fósturgreiningadeild kvennadeildar Landspítala. Upphafleg þátttökuskilyrði voru auk búsetu og aldurs, reykleysi á meðgöngu, engin fjölskyldusaga um sykursýki eða meðgöngusykursýki, fyrsta til þriðja meðganga og líkamsþyngdarstuðull (LÞS) á bilinu 18,5-24,9 kg/m2 (kjörþyngd) eða LÞS 30-<40 kg/m2 (offita). Markmiðið var að skrá að minnsta kosti 100 konur í kjörþyngd og 100 konur með LÞS 30-<40 kg/m2 til þátttöku. Sex mánuðum eftir upphaf rannsóknar var ákveðið að bjóða til þátttöku konum sem flokkast í ofþyngd (LÞS 25-29,9 kg/m2), þar sem hægt gekk að skrá konur með LÞS 30-<40 kg/m2 sem fullnægðu skilyrðum um þátttöku. Í heildina var leitað eftir samþykki 273 kvenna, þar af neituðu 56 (kjörþyngd n=43; ofþyngd n=1; offita n=12) þátttöku, auk þess sem 34 konur skiluðu ekki matardagbókum. Því voru niðurstöður fyrir 183 konur (67%) sem unnt var að nota. Konurnar skrifuðu undir samþykkisyfirlýsingu vegna þátttöku í rannsókninni. Siðanefnd Landspítala samþykkti rannsóknaráætlunina (58/2011).

Allur matur og drykkur sem konurnar neyttu var vigtaður með ±1 g nákvæmni (PHILIPS HR 2385 vigt, Ungverjalandi) í fjóra daga samfellt á 19.-24. viku meðgöngu, annaðhvort frá miðvikudegi til laugardags eða frá laugardegi til þriðjudags. Neysla matar, drykkjar og allra fæðubótarefna var skráð í matardagbók jafnóðum. Konunum var úthlutað fæðuvigt og þær fengu bæði skriflegar og munnlegar leiðbeiningar varðandi útfyllingu matardagbóka. Til að auka nákvæmni í úrvinnslu var lögð rík áhersla á að skráðar væru upplýsingar um tegund matvæla sem neytt var (vörumerki) og eftir atvikum uppskriftir ef um heimalagaðan mat var að ræða.

Niðurstöður voru færðar inn í næringarútreikningaforritið ICEFOOD 2.0 sem hannað var fyrir Landskönnun á mataræði Íslendinga 2002 (útgáfa 1.0) og endurbætt fyrir Landskönnun á mataræði Íslendinga 2010-2011.5 ICEFOOD styðst annars vegar við íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla, ÍSGEM, og hins vegar gagnagrunn fyrrum Lýðheilsustöðvar (nú innan Embættis landlæknis) um samsetningu algengra rétta og skyndibita á íslenskum markaði. Tekið var tillit til rýrnunar næringarefna við eldun. Gagnagrunnurinn hefur að geyma 607 uppskriftir og rétti. Birtar eru niðurstöður um neyslu valinna fæðutegunda (í grömmum á dag (g/dag)), orku (sem kkal/dag), orkugefandi næringarefna (í g/dag og sem hlutfall af heildarorkuneyslu), auk neyslu vítamína og steinefna. Niðurstöðurnar voru bornar saman við ráðleggingar um fæðuval og ráðlagða dagskammta (RDS) næringarefna fyrir barnshafandi konur.14,16 RDS er skilgreindur sem það magn næringarefnis sem fullnægir þörf nánast allra í þýðinu (meðalþörf + tvö staðalfrávik). Eins voru niðurstöður bornar saman við áætlaða meðalþörf fyrir næringarefni, sem þó eru einungis til fyrir konur sem ekki eru barnshafandi.14 Ef einstaklingur neytir minna en sem nemur meðalþörf fyrir viðkomandi næringarefni má áætla að 50% líkur séu á að viðkomandi fullnægi ekki þörf sinni fyrir næringarefnið. Að auki voru niðurstöðurnar bornar saman við gildi sem sett hafa verið fram um efri mörk hættulausrar neyslu fyrir ákveðin næringarefni.14,16

Konurnar veittu upplýsingar um aldur, áætlaðan fæðingardag, hæð og líkamsþyngd fyrir meðgöngu, en voru vigtaðar við eða stuttu eftir komu í 20 vikna ómskoðunina (19.-24. viku meðgöngu). T-próf var notað til að kanna hugsanlegan mun á  normaldreifðum breytum á borð við neyslu næringarefna og þyngdaraukningu milli kvenna í kjörþyngd og offitu annars vegar og milli kjörþyngdar og ofþyngdar hins vegar. Neysla matvæla er sjaldnast normaldreifð og því var stuðst við Mann-Whitney U-próf þar sem við átti. Marktækni var skilgreind sem p<0,05.

Niðurstöður

Upplýsingar um aldur, hæð, líkamsþyngd og líkamsþyngdarstuðul fyrir meðgöngu, áætlaða meðgöngulengd, sem og líkamsþyngdarstuðul og heildarþyngdaraukningu má sjá í töflu I. Við 20. viku meðgöngu höfðu konur í kjörþyngd þyngst að jafnaði 1,5 kg meira en konur með LÞS ≥30 kg/m2 (p=0,04). Þyngdaraukning kvenna sem flokkuðust í ofþyngd fyrir þungun virtist einnig meiri heldur en kvenna með LÞS ≥30 kg/m2, en meiri dreifing (stærra SF) þyngdaraukningar í flokki of þungra kvenna leiddi til þess að munurinn var ekki tölfræðilega marktækur.

Heildarorka fæðunnar var að meðaltali 2149 kkal±447 kkal/dag (tafla II). Hvorki reyndist marktækur munur í orkuneyslu né hlutfallslegri skiptingu orkuefnanna milli kvenna sem voru í kjörþyngd fyrir þungun (2157±405 kkal/dag) og þeirra sem voru of þungar (2092±457 kkal/dag) eða flokkuðust sem of feitar (2195±533 kkal/dag) fyrir þungun. Ekki reyndist heldur munur á neyslu einstakra vítamína eða steinefna milli þyngdarhópa. Niðurstöður eru þar af leiðandi birtar sem meðaltöl og staðalfrávik fyrir allar konurnar saman, ásamt dreifingu neyslunnar (hundraðshlutar).

Í heildina var mataræði langstærsta hluta kvennanna innan ráðlegginga um hlutfall heildarorku hvað varðar prótein, heildarfitu og kolvetni. Hins vegar var hlutfall mettaðra fitusýra að meðaltali hærra (14% af heildarorku) heldur en mælt er með (tafla II). Neysla á dókósahexensýru (DHA) var að meðaltali 293 mg á dag. Þegar dreifing neyslunnar var skoðuð sást að einungis um 35% kvennanna náði markmiðum um neyslu ≥200 mg af DHA daglega.

Gæði kolvetna í fæði kvennanna töldust lítil, sem endurspeglaðist í lítilli trefjaneyslu (að meðaltali 2,1 g/MJ eða um það bil 18 g/dag) og mikilli neyslu á viðbættum sykri (12% af heildarorku) miðað við ráðleggingar (tafla II). Einungis 20% þátttakenda náði lágmarksviðmiðum trefjaneyslu (25 g/dag). Rúmlega 60% kvennanna neyttu meira en sem svarar 50 g af viðbættum sykri á dag, sem í praktískum tilgangi er notað sem viðmið um efri mörk neyslu á viðbættum sykri (samsvarar 10% af heildarorku miðað við 2000 hitaeininga fæði). Um 15% kvennanna borðaði að meðaltali meira en 100 g af viðbættum sykri á dag (sem samsvarar rúmlega einum desilítra).

Í töflu III má sjá heildarneyslu vítamína og steinefna sem fengust úr mat og bætiefnum. Meðalneysla vítamína og steinefna var almennt meiri en RDS fyrir viðkomandi næringarefni. Hins vegar gæti að minnsta kosti fjórðungur kvennanna átt á hættu að fullnægja ekki þörf sinni fyrir D-vítamín, joð og fólat (metið sem minni neysla en áætluð meðalþörf). Hætta á ofneyslu vítamína og steinefna (úr fæði og bætiefnum) virtist ekki vera til staðar í þýðinu.

Tafla IV sýnir meðalneyslu valinna fæðutegunda og matvæla úr mismunandi fæðuflokkum. Einungis fjórðungur náði markmiðum um neyslu sem svarar 200 g af ávöxtum á dag og 36% borðuðu minna en sem svarar einum ávexti á dag (100 g). Innan við 10% náði markmiðum um neyslu að minnsta kosti 200 g af grænmeti á dag og tæplega 40% neyttu sem svarar 100 g af grænmeti á dag að jafnaði. Neysla á baunum, ertum, hnetum og fræjum mældist mjög lág og aðeins lítill hluti virtist neyta þessara vara. Ef miðað er við að hver fiskmáltíð sé um það bil 150 g benda niðurstöðurnar til þess að konurnar hafi borðað fisk rúmlega einu sinni í viku að jafnaði (meðalneysla 29±29 g/dag), en ráðlagt er að fiskur sé á borðum að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku (sem samsvarar rúmlega 40 g/dag að jafnaði). Rúmlega fjórðungur drakk meira en sem nemur stóru glasi af gos- og svaladrykkjum daglega (300 ml).

Miðgildi neyslu á mjólk og mjólkurvörum (346 g/dag miðað við 258 g/dag, p<0,05), gos- og svaladrykkjum (200 g/dag miðað við 122 g/dag, p<0,05) og kartöfluflögum og poppi (13 g/dag miðað við 0 g/dag, p<0,05) var hærra meðal kvenna með LÞS ≥30 kg/m2 fyrir þungun heldur en kvenna sem voru í kjörþyngd fyrir þungun. Ekki reyndist marktækur munur á fæðuvali kvenna sem flokkuðust í ofþyngd miðað við konur í kjörþyngd.

Umræða

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að töluverð tækifæri ættu að vera til að bæta mataræði þungaðra kvenna og kvenna á barneignaraldri. Hluti barnshafandi kvenna virtist ekki fullnægja þörf fyrir næringarefni á borð við joð, D-vítamín og DHA, sem öll gegna lykilhlutverki við fósturþroska.17-20 Lítil gæði heildarmataræðis hér á landi eru í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna.21-22 Hins vegar virtist hætta á ofneyslu vítamína og steinefna ekki vera til staðar miðað við þá neyslu fæðu og fæðubótarefna sem skráð var í matardagbækurnar. Í rannsókninni reyndist almennt ekki vera mikill munur á mataræði kvenna sem voru í kjörþyngd og þeirra sem voru of feitar áður en þær urðu barnshafandi. Hins vegar benda niðurstöðurnar til þess að konur í kjörþyngd fyrir meðgöngu neyti ívið minna af óhollum fæðutegundum á borð við gos- og svaladrykki og snakk.

Áður birtar niðurstöður norsku MoBa (Norwegian Mother and Child Cohort Study; n∼87.000) og dönsku DNBC (Danish National Birth Cohort; n∼70.000) rannsóknanna benda til að fæðumynstur kvenna á meðgöngu, sem einkennist af ríflegri neyslu ávaxta og grænmetis, fisks og hollrar fitu en um leið minni neyslu á næringarsnauðum fæðutegundum, tengist minni líkum á meðgöngueitrun, fyrirburafæðingum og öðrum meðgöngukvillum.11-13,23,24 Fyrri greiningar gagna í rannsókn okkar sýndu að heilsusamlegt mataræði kvenna á meðgöngu tengist minni líkum á meðgöngusykursýki, eftir að leiðrétt hafði verið fyrir þáttum á borð við aldur, fjölda fyrri barna, þyngd fyrir meðgöngu, orkuinntöku á meðgöngu, vikulegri þyngdaraukningu og hreyfingu (OR: 0,36 95% CI: 0,14, 0,94).15  

Kenningar breska vísindamannsins David Barkers1 um að umhverfi fósturs í móðurkviði geti haft áhrif á vöxt, þroska og heilsu barns allt fram á fullorðinsár voru umdeildar framan af. Rannsóknir síðastliðinna áratuga hafa slegið á raddir um að það skipti ekki máli hvað kona borðar á meðgöngu og þær staðhæfingar heyrast vart lengur. Ný þekking á þó enn eftir að skila sér inn í klínískt starf, bæði hérlendis sem og erlendis. Í klínískum leiðbeiningum um meðgönguvernd heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu25 er að mjög takmörkuðu leyti fjallað um fæðuval. Barnshafandi konum er bent á bækling um mataræði á meðgöngu sem gefinn var út árið 200826 en þekking hefur aukist umtalsvert frá þessum tíma. Endurskoðun ráðlegginganna er aðkallandi. Einnig er vel þekkt að þyngd móður fyrir þungun, ásamt mikilli þyngdaraukningu á meðgöngu, tengist ýmsum kvillum á meðgöngu og aukinni tíðni ofþyngdar hjá barninu.27,28 Líkamsþyngdarstuðull er víða notaður til að meta þörf fyrir lífsstílsíhlutanir á meðgöngu, það er að segja aðgerðir sem fela í sér bætt mataræði og aukna hreyfingu sem geta skilað árangri sem er mælanlegur á formi minni þyngdaraukningar á meðgöngu.29,30 Hins vegar eru verndandi áhrif lífsstíls-íhlutana með tilliti til hættu á meðgöngusykursýki ekki eins skýr.31

Nýlega voru birtar niðurstöður úr einni stærstu íhlutunarrannsókn (n=1555) sem hefur verið framkvæmd meðal barnshafandi kvenna.32 Þær bentu ekki til að unnt væri að beita lífsstílsíhlutun til að minnka líkur á meðgöngusykursýki og þungburafæðingum. Hluti skýringarinnar gæti þó hafa legið í því að konur í rannsókninni, 32 líkt og í öðrum svipuðum rannsóknum á þessu sviði, 29 voru valdar inn til þátttöku á grundvelli þyngdar fyrir þungun, en ekki á grundvelli þess hvernig mataræði þeirra (eða hreyfing) var í upphafi meðgöngu. Gert var ráð fyrir að allar konur yfir kjörþyngd hefðu gagn af því að breyta mataræði sínu. Til að setja þetta í annað samhengi mætti líkja vali þátttakenda við að ný meðferð við háþrýstingi (til dæmis lyf) væri prófuð í hópi þar sem einungis helmingur þátttakenda væri með háþrýsting. Ein áhugaverðasta niðurstaða rannsóknar okkar, sem birt var á síðasta ári, var að konur yfir kjörþyngd sem borðuðu hollan mat reyndust ekki vera í meiri hættu á að fá meðgöngusykursýki heldur en konur í kjörþyngd.15 Þetta bendir til þess að nauðsynlegt geti verið að velja þungaðar konur inn í lífsstílsíhlutanir eftir niðurstöðum skimunar fyrir ófullnægjandi mataræði fremur en að gera ráð fyrir að allar konur sem eru yfir kjörþyngd séu í aukinni hættu.15

Mikilvægi fólats fyrir barnshafandi konur er vel þekkt og er hluti af klínískum leiðbeiningum um meðgönguvernd.25 Engu að síður benda niðurstöður rannsóknar okkar til þess að hluti kvenna fái ekki nægjanlegt fólat með fæðu og/eða bætiefnatöku. Minna en fjórðungur kvennanna fékk að minnsta kosti 500 µg af fólati/fólsýru úr mat og fæðubótarefnum á dag eins og ráðlagt er.14,16 Litla neyslu fólats úr fæði má rekja til lítillar neyslu á ávöxtum, grænmeti, hnetum, baunum, ertum og fræjum. Aukinn hlutur þessara fæðutegunda í fæði allra kvenna á barneignaaldri myndi stuðla að bættu almennu næringarástandi þeirra og gæti hugsanlega skilað sér í færri fylgikvillum á meðgöngu.10-13,23,24 Lítil neysla D-vítamíns meðal hluta kvennanna í rannsókninni kom ekki á óvart og er í samræmi við niðurstöður annarra íslenskra rannsókna á mataræði landsmanna.5-8

Ekki er minnst sérstaklega á DHA og joð í bæklingnum Matur og meðganga26 eða klínískum leiðbeiningum um meðgönguvernd.25 Þessi næringarefni gegna hlutverki við þroska miðtaugakerfisins og hefur lítil neysla þeirra á meðgöngu meðal annars verið tengd slakari útkomu á greindar- og þroskaprófum barna.17-19,33Þessi efni eiga það sameiginlegt að þau er að finna í töluverðu magni í fiski (DHA í feitum fiski en joð í mögrum fiski). Litla neyslu DHA og joðs meðal hluta kvenna í rannsókninni má rekja til lítillar fiskneyslu þeirra, sem þær betrumbæta ekki með notkun bætiefna á borð við lýsi (eða aðra fiskiolíu) eða ríflegri neyslu annarra matvæla sem innihalda joð. Mjólkurvörur eru góð uppspretta joðs í íslensku mataræði og benda fyrri rannsóknir til þess að barnshafandi konur sem ekki fylgja ráðleggingum um fiskneyslu (tvisvar sinnum í viku) og notkun mjólkurvara (tveir skammtar á dag) gætu verið í hættu á joðskorti.9

Styrkleiki rannsóknarinnar felst fyrst og fremst í mikilli nákvæmni við könnun á mataræði þátttakenda, þar sem tekið var tillit til mismunandi skammtastærða. Vanskráning á neyslu er þó þekkt vandamál meðal einstaklinga yfir kjörþyngd og ekki hægt að útiloka að neysla hafi verið að einhverju leyti vanskráð í rannsókninni.34 Hins vegar reyndist ekki marktækur munur á orkuneyslu kvenna eftir þyngd þeirra, auk þess sem konur sem voru í kjörþyngd fyrir meðgöngu höfðu þyngst meira við 20. viku meðgöngu heldur en konur sem töldust of feitar fyrir meðgöngu. Teljum við þetta endurspegla nokkuð góða skráningu gagna, þar sem orkuþörf kvenna sem eru yfir kjörþyngd er að öllu jöfnu meiri en kvenna í kjörþyngd og þær þyngjast þar af leiðandi minna við sömu orkuneyslu. Takmarkandi þáttur í rannsókninni var að konurnar voru allar búsettar á höfuðborgarsvæðinu. Við teljum samt að niðurstöðurnar megi yfirfæra á önnur svæði landsins þar sem niðurstöður Landskönnunar á mataræði 2010-2011 bentu til þess að ekki væri teljandi munur á mataræði kvenna á barneignaaldri í höfuðborginni og á landsbyggðinni.35 Eins er ekki hægt að útiloka að mataræði kvenna sem neituðu þátttöku í rannsókninni eða skiluðu ekki matardagbókum (alls 33%) hafi verið frábrugðið því sem hér var lýst.

Kallað er eftir markvissari skilaboðum til barnshafandi kvenna á Íslandi um hollustu fæðu og sérstöðu einstakra matvæla sem uppspretta mikilvægra næringarefna. Hluti barnshafandi kvenna í rannsókninni virðist ekki fá nóg af næringarefnum sem nauðsynleg eru fyrir eðlilegan vöxt og þroska fósturs. Aukin gæði heildarmataræðis barnshafandi kvenna á Íslandi gætu skilað sér í færri fylgikvillum á meðgöngu og í fæðingu, sem og bættri heilsu móður og barns til langs tíma.

Þakkir

Höfundar þakka fósturgreiningardeild Landspítalans við aðstoð við öflun þátttakenda. Einnig Hólmfríði Þorgeirsdóttur matvæla- og næringarfræðingi hjá Embætti landlæknis og Ólafi Reykdal matvælafræðingi hjá MATÍS ohf. fyrir samstarf um gagnagrunna og forrit. Ívari Guðmundssyni hjá Hugsjá er þökkuð aðstoð við næringarefnaútreikninga.

Rannsóknasjóður Háskóla Íslands og Vísindasjóður Landspítala styrktu rannsóknina.

Heimildir

1. Barker DJ. The origins of the developmental origins theory. J Intern Med 2007; 261: 412-7.
http://dx.doi.org/10.1111/j.1365-2796.2007.01809.x

PMid:17444880

 
2. Koletzko B, Brands B, Chourdakis M, Cramer S, Grote V, Hellmuth C, et al. The Power of Programming and the EarlyNutrition project: opportunities for health promotion by nutrition during the first thousand days of life and beyond. Ann Nutr Metab 2014; 64: 187-96.
http://dx.doi.org/10.1159/000365017

PMid:25300259


 
3. Netting MJ, Middleton PF, Makrides M. Does maternal diet during pregnancy and lactation affect outcomes in offspring? A systematic review of food-based approaches. Nutrition 2014; 30: 1225-41.
http://dx.doi.org/10.1016/j.nut.2014.02.015

PMid:25280403


 
4. Ramakrishnan U, Grant F, Goldenberg T, Zongrone A, Martorell R. Effect of women's nutrition before and during early pregnancy on maternal and infant outcomes: a systematic review. Paediatr Perinat Epidemiol 2012; 26: 285-301.
http://dx.doi.org/10.1111/j.1365-3016.2012.01281.x

PMid:22742616


 
5. Steingrímsdóttir L, Valgeirsdóttir H, Halldórsson ÞI, Gunnarsdóttir I, Gísladóttir E, Þorgeirsdóttir H, et al. Kannanir á mataræði og næringargildi fæðunnar á Íslandi. Læknablaðið 2014; 100: 659-64.

PMid:25519462


 
6. Gunnarsdóttir I, Helgadóttir H, Þórisdóttir B, Þórsdottir I. Landskönnun á mataræði sex ára barna 2011-2012. Læknablaðið 2013; 99: 17-23.

PMid:23341402


 
7. Olafsdottir AS, Skuladottir GV, Thorsdottir I, Hauksson A, Steingrimsdottir L. Maternal diet in early and late pregnancy in relation to weight gain. Int J Obes (Lond) 2006; 30: 492-9.
http://dx.doi.org/10.1038/sj.ijo.0803184

PMid:16331301


 
8. Thorsdottir I, Birgisdottir BE, Halldorsdottir S, Geirsson RT. Association of fish and fish liver oil intake in pregnancy with infant size at birth among women of normal weight before pregnancy in a fishing community. Am J Epidemiol 2004; 160: 460-5.
http://dx.doi.org/10.1093/aje/kwh239

PMid:15321843


 
9. Gunnarsdottir I, Gustavsdottir AG, Steingrimsdottir L, Maage A, Johannesson AJ, Thorsdottir I. Iodine status of pregnant women in a population changing from high to lower fish and milk consumption. Public Health Nutr 2013; 16: 325-9.
http://dx.doi.org/10.1017/S1368980012001358

PMid:22607718


 
10. Willett W. Nutritional Epidemiology, third edition. Oxford University Press, New York 2012.
http://dx.doi.org/10.1093/acprof:oso/9780199754038.001.0001

 
11. Englund-Ögge L, Brantsæter AL, Sengpiel V, Haugen M, Birgisdottir BE, Myhre R, et al. Maternal dietary patterns and preterm delivery: results from large prospective cohort study. BMJ 2014; 348:g1446.
http://dx.doi.org/10.1136/bmj.g1446

PMid:24609054


PMCid:PMC3942565


 
12. Brantsaeter AL, Haugen M, Samuelsen SO, Torjusen H, Trogstad L, Alexander J, et al. A dietary pattern characterized by high intake of vegetables, fruits, and vegetable oils is associated with reduced risk of preeclampsia in nulliparous pregnant Norwegian women. J Nutr 2009; 139: 1162-8.
http://dx.doi.org/10.3945/jn.109.104968

PMid:19369368


PMCid:PMC2682988


 
13. Knudsen VK, Orozova-Bekkevold IM, Mikkelsen TB, Wolff S, Olsen SF. Major dietary patterns in pregnancy and fetal growth. Eur J Clin Nutr 2008; 62:463-70.
http://dx.doi.org/10.1038/sj.ejcn.1602745

PMid:17392696


 
14. Nordic Nutrition Recommendations 2012. Integrating nutrition and physical activity. Nordic Council of Ministers 2014. norden.org/en/publications/publikationer/2014-002
 
15. Tryggvadottir EA, Medek H, Birgisdottir BE, Geirsson RT, Gunnarsdottir I. Association between healthy maternal dietary pattern and risk for gestational diabetes mellitus. Eur J Clin Nutr 2015 Sep 9.

PMid:26350393


 
16. Grundvöllur ráðlegginga um mataræði og ráðlagðir dagskammtar næringarefna. Embætti landlæknis, Reykjavík 2014.
 
17. Bath SC, Steer CD, Golding J, Emmett P, Rayman MP. Effect of inadequate iodine status in UK pregnant women on cognitive outcomes in their children: results from the Avon Longitudinal Study of Parents and Children (ALSPAC). Lancet 2013; 382: 331-7.
http://dx.doi.org/10.1016/S0140-6736(13)60436-5

 
18. Zhou SJ, Anderson AJ, Gibson RA, Makrides M. Effect of iodine supplementation in pregnancy on child development and other clinical outcomes: a systematic review of randomized controlled trials. Am J Clin Nutr 2013; 98: 1241-54.
http://dx.doi.org/10.3945/ajcn.113.065854

PMid:24025628


 
19. Hyppönen E, Cavadino A, Williams D, Fraser A, Vereczkey A, Fraser WD, et al. Vitamin D and pre-eclampsia: original data, systematic review and meta-analysis. Ann Nutr Metab 2013; 63:331-40.
http://dx.doi.org/10.1159/000358338

PMid:24603503


 
20. Keenan K, Hipwell AE. Modulation of prenatal stress via docosahexaenoic acid supplementation: implications for child mental health. Nutr Rev 2015; 73: 166-74.
http://dx.doi.org/10.1093/nutrit/nuu020

PMid:26024539


PMCid:PMC4542726


 
21. Rodríguez-Bernal CL, Ramón R, Quiles J, Murcia M, Navarrete-Mu-oz EM, Vioque J, Ballester F, Rebagliato M. Dietary intake in pregnant women in a Spanish Mediterranean area: as good as it is supposed to be? Public Health Nutr 2013; 16: 1379-89.
http://dx.doi.org/10.1017/S1368980012003643
http://dx.doi.org/10.1017/S1368980012005320

PMid:22877515


 
22. Haugen M, Brantsaeter AL, Alexander J, Meltzer HM. Dietary supplements contribute substantially to the total nutrient intake in pregnant Norwegian women. Ann Nutr Metab 2008; 52: 272-80.
http://dx.doi.org/10.1159/000146274

PMid:18645244


PMCid:PMC2813797


 
23. Haugen M, Meltzer HM, Brantsaeter AL, Mikkelsen T, Osterdal ML, Alexander J, et al. Mediterranean-type diet and risk of preterm birth among women in the Norwegian Mother and Child Cohort Study (MoBa): a prospective cohort study. Acta Obstet Gynecol Scand 2008; 87:319-24.
http://dx.doi.org/10.1080/00016340801899123

PMid:18307072


 
24. Meltzer HM, Brantsæter AL, Nilsen RM, Magnus P, Alexander J, Haugen M. Effect of dietary factors in pregnancy on risk of pregnancy complications: results from the Norwegian Mother and Child Cohort Study. Am J Clin Nutr 2011; 94 :1970S-1974S.
http://dx.doi.org/10.3945/ajcn.110.001248

PMid:21543541


PMCid:PMC3364075


 
25. Meðgönguvernd heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu. Klínískar leiðbeiningar. Landlæknisembættið og Heilsugæslan 2008.
 
26. Matur og meðganga. Fróðleikur fyrir konur á barneigna-aldri. Lýðheilsustöð, Heilsugæslan og Matvælastofnun 2008.
 
27. Cnattingius S, Villamor E, Johansson S, Edstedt Bonamy AK, Persson M, et al. Maternal obesity and risk of preterm delivery. JAMA 2013; 309: 2362-70.
http://dx.doi.org/10.1001/jama.2013.6295

PMid:23757084


 
28. Lau EY, Liu J, Archer E, McDonald SM, Liu J. Maternal weight gain in pregnancy and risk of obesity among offspring: a systematic review. J Obes 2014; 2014:524939.
http://dx.doi.org/10.1155/2014/524939

PMid:25371815


PMCid:PMC4202338


 
29. Muktabhant B, Lawrie TA, Lumbiganon P, Laopaiboon M. Diet or exercise, or both, for preventing excessive weight gain in pregnancy. Cochr Datab Syst Rev 2015; 6:CD007145.
http://dx.doi.org/10.1002/14651858.cd007145.pub3

 
30. O'Brien CM, Grivell RM, Dodd JM. Systematic review of antenatal dietary and lifestyle interventions in women with a normal body mass index. Acta Obstet Gynecol Scand. 2015 doi: 10.1111/aogs.12829.
http://dx.doi.org/10.1111/aogs.12829

 
31. Bain E1, Crane M, Tieu J, Han S, Crowther CA, Middleton P. Diet and exercise interventions for preventing gestational diabetes mellitus. Cochr Datab Syst Rev 2015; 4:CD010443.

PMid:25864059


 
32. Poston L, Bell R, Croker H, Flynn AC, Godfrey KM, Goff L, et al. UPBEAT Trial Consortium. Effect of a behavioural intervention in obese pregnant women (the UPBEAT study): a multicentre, randomised controlled trial. Lancet Diabetes Endocrinol 2015; 3: 767-77.
http://dx.doi.org/10.1016/S2213-8587(15)00227-2

 
33. Koletzko B1, Cetin I, Brenna JT. Dietary fat intakes for pregnant and lactating women. Br J Nutr 2007; 98:873-7.

PMid:17688705


 
34. Olafsdottir AS, Thorsdottir I, Gunnarsdottir I, Thorgeirsdottir H, Steingrimsdottir L. Comparison of women's diet assessed by FFQs and 24-hour recalls with and without underreporters: associations with biomarkers. Ann Nutr Metab 2006;50:450-60.
http://dx.doi.org/10.1159/000094781

PMid:16877864


 
35. Guðjónsdóttir H, Halldórsson ÞI, Gunnarsdóttir I, Þórsdóttir I, Þorgeirsdóttir H, Steingrímsdóttir L. Áhrif búsetu og menntunar á mataræði og líkamsþyngdarstuðul kvenna og karla. Læknablaðið 2015; 101: 11-16.

PMid:25682775




Þetta vefsvæði byggir á Eplica