07/08. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Heilbrigðisvottorð farmanna - læknar þurfa viðurkenningu til að gefa út vottorðin

Nokkrar breytingar hafa orðið á reglum um útgáfu heilbrigðisvottorða til farmanna á farþega- og kaupskipum og snýr breytingin að kröfum til lækna sem gefa út slík vottorð. Þurfa þeir frá og með 1. janúar næstkomandi að sækja um sérstaka viðurkenningu Samgöngustofu sem hefur umsjón með leyfisveitingum.

Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að læknar þurfi hér eftir að sækja um viðurkenningu til að gefa út heilbrigðisvottorð fyrir farmenn og kemur þetta til framkvæmda þann 1. janúar 2017.

Hér á landi eru gefin út alþjóðleg skipstjórnar- og vélstjórnarskírteini á grundvelli STCW-alþjóðasamþykktarinnar. Samþykktin snýr að menntun, þjálfun, skírteinum og vaktstöðum sjómanna. Ísland hefur verið aðili að samþykktinni frá árinu 1995. Í samþykktinni er kveðið á um samræmdar kröfur um hæfni skipstjóra, annarra yfirmanna og sjómanna sem gegna tilteknum stöðum um borð í kaupskipum. STCW-samþykktin tók allnokkrum breytingum árið 2010 með hinum svokölluðu Manila-breytingum. Með tilskipun Evrópusambandsins nr. 2008/106/EB er efni STCW-samþykktarinnar ásamt Manila-breytingunum tekið upp í sambandsrétt. Ísland er bundið af tilskipuninni á grundvelli EES-samningsins.

Breyting á heilbrigðiskröfum farmanna

Meðal þeirra krafna sem gerðar eru til þess að fá útgefið alþjóðlegt skírteini eru að farmaður uppfylli tilteknar heilbrigðiskröfur. Sérhver farmaður, sem er handhafi réttindaskírteinis eða hæfnisskírteinis og sem starfar á sjó skal vera handhafi gilds heilbrigðisvottorðs. Í því skyni hefur farmaður þurft að skila læknisvottorði ásamt umsókn um STCW-skírteini. Með Manila-breytingunum á samþykktinni urðu þær breytingar að slík læknisvottorð skyldu stafa frá læknum sem hlotið hefðu sérstaka viðurkenningu til að gefa út heilbrigðisvottorð farmanna. Þá skal gildistími heilbrigðisvottorðs vera að hámarki tvö ár.

Krafan um að læknar séu viðurkenndir kemur til framkvæmda 1. janúar 2017 og annast Samgöngustofa viðurkenningu lækna.

Við undirbúning hinnar nýju framkvæmdar hefur Samgöngustofa horft til ákvæða STCW-samþykktarinnar og leiðbeininga sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur gefið út í samráði við Alþjóðasiglingaröryggisstofnunarina (IMO) um viðurkennda lækna. Samgöngustofa hefur haft til hliðsjónar þá staðreynd að menntunarstig íslenskra lækna er tiltölulega hátt. Þannig hefur Samgöngustofa það að markmiði að gera læknum tiltölulega auðvelt að öðlast viðurkenningu. Ekki er gert ráð fyrir því að læknar sæki sérstakt námskeið. Hins vegar skulu læknar kynna sér og starfa samkvæmt reglum og viðmiðum sem um læknisskoðun sjófarenda gilda.

Gerð er krafa um að umsækjandi um viðurkenningu Samgöngustofu sé handhafi almenns lækningaleyfis samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og reglugerðum settum á grunni þeirra.

Umsækjandi skal kynna sér og skuldbinda sig til að starfa í samræmi við þau lög og reglur sem gilda um áhafnir skipa og um heilbrigðiskröfur sjómanna. Hann skal  jafnframt hafa kynnt sér leiðbeiningarefni Samgöngustofu um læknisskoðun sjófarenda.

Útgáfa læknisvottorða skal lúta sömu skilyrðum og útgáfa annarra skírteina samkvæmt ákvæðum STCW-samþykktarinnar, þar með talið skal útgáfan lúta ákvæðum gæðakerfis Samgöngustofu.

Í leiðbeiningarefni Samgöngustofu um störf viðurkenndra lækna er farið nánar yfir stjórnsýslu tengda viðurkenningu lækna og þeim reglum sem viðurkenndum læknum ber að starfa eftir. Er þar vísað í lög, reglur og alþjóðlegar leiðbeiningar eftir því sem við á.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica