06. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur. Áhyggjur af frumvarpi um greiðsluþátttöku

Læknafélag Reykjavíkur hélt sinn árlega aðalfund þann 24. maí. Arna Guðmundsdóttir formaður setti fundinn og flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2015. Sjálfkjörið var í öll embætti stjórnar sem kjósa þurfti í og gáfu allir stjórnarmenn kost á sér til endurkjörs. Kjöri þeirra var fagnað með lófataki.

Allnokkrar umræður urðu á fundinum um frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga og upptöku tilvísanakerfis til sérfræðinga. Sagði Arna í tölu sinni að yrði frumvarpið að lögum væri komin lagaheimild til að taka upp tilvísanakerfi á alla sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Voru fundarmenn ekki ánægðir með það. Einnig kom fram að greiðsluþátttaka sjúklinga til vissra hópa sérfræðinga myndi hækka verulega. Var á það bent að þetta kæmi til dæmis sérlega illa niður á öryrkjum sem sækja þurfa geðlæknisþjónustu.

Þá urðu snarpar umræður um nýbirtan pistil Birgis Jakobssonar landlæknis á heimasíðu embættisins þar sem hann leggur fram tillögur að breytingum á heilbrigðiskerfinu í 5 liðum. Þótti fundarmönnum tillögurnar lýsa vanþekkingu á íslenska heilbrigðiskerfinu og að spjótum væri að ósekju beint að sérfræðingum í hlutastöðum á Landspítala.

Í lok fundarins var samþykkt ályktun þar sem viðraðar eru áhyggjur Læknafélags Reykjavíkur af fyrrnefndu frumvarpi heilbrigðisráðherra.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica