05. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Í hvað fer árgjaldið mitt? Björn Gunnarsson

Einstöku sinnum þegar Læknafélag Íslands ber á góma í samtölum við kollega fæ ég að heyra þau sjónarmið að árgjöld til félagsins séu nokkuð há miðað við önnur félög. Þá láta menn einnig þá skoðun í ljós að forréttindi ýmiss konar séu lítil ef miðað er við önnur stéttarfélög. Því er ekki úr vegi að fjalla eilítið um það hvað félagsmenn LÍ greiða og í hvað sú upphæð fer.

Árgjöld til Læknafélags Íslands eru nú kr. 94.500 og er upphæðin ákveðin á aðalfundi félagsins. Undanþegnir félagsgjaldi eru meðlimir LÍ erlendis sem og læknar eldri en 70 ára. Á árinu 2015 greiddu rúmlega 1100 félagsmenn gjald til félagsins; nokkrir læknar greiða ekki fullt árgjald af ýmsum ástæðum. Hluti árgjaldsins, „tíundin“, rennur til svæðafélags eða aðildarfélags.  

Félagsgjöld annarra stéttarfélaga eru mjög mismunandi og stundum erfitt að sjá hvað í þeim felst. Hjúkrunarfræðingar greiða til dæmis tæplega 60.000 krónur á ári í félagsgjöld og félagsmenn BHM greiða hlutfall af launum sínum í árgjald til síns stéttarfélags, ýmist ákveðið prósentuhlutfall af heildarlaunum eða dagvinnulaunum. BSRB-félagar greiða líka hlutfall launa sinna í stéttarfélagsgjald. Sum stéttarfélög greiða styrki af ýmsu tagi til félagsmanna og nokkrir læknar hafa eðlilega spurt hvers vegna Læknafélagið úthluti ekki slíkum styrkjum. Samanburður á stéttarfélagsgjöldum og réttindum í hinum ýmsu félögum er hins vegar ekki alltaf eins einfaldur og hann sýnist vera. Sumar þessara styrkveitinga hafa líka reynst mörgum stéttarfélögunum erfiður ljár í þúfu og einhver félög hafa hreinlega gefist upp á slíku styrkjafyrirkomulagi eða að minnsta kosti reynt að einfalda það. Ekki má heldur gleyma því að skatt þarf að greiða af öllum slíkum styrkjum nema mögulega líkamsræktarstyrkjum. Einnig er vert að benda á það að upphæð árgjaldsins nú er í raun lítil prósenta af heildarlaunum lækna.

Rétt er að Læknafélagið hefur ekki farið út í það að greiða styrki til augnaðgerða, gleraugnakaupa, tannviðgerða eða líkamsræktar. Við eigum hins vegar öflugan fjölskyldu og styrktarsjóð  – FOSL, sem er félagsmönnum góður bakhjarl ef eitthvað bjátar á. Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn hefur undanfarin ár greitt út myndarlegan fæðingastyrk sem nú er 520.000 kr. krónur fyrir barn. Hálfur styrkur er greiddur aukalega ef báðir foreldrar eru læknar. Sjóðurinn greiðir einnig styrki til útfara sem og styrki til félagsmanna sem orðið hafa fyrir tekjumissi vegna veikinda eða annarra áfalla. Tekjur FOSL eru hins vegar ekki af félagsgjöldum heldur koma í sjóðinn fjárframlög frá ríkinu sem nema 0,41% af heildartekjum sjóðsfélaga. Sjálfstætt starfandi læknar greiða sömuleiðis 0,41% af reiknuðu endurgjaldi í fjölskyldu- og styrktarsjóðinn.

Um orlofssjóðinn gildir að framlög félagsmanna í sjóðinn koma ekki frá félagsgjöldum heldur greiðir ríkisvaldið 0,25% af heildarlaunum hvers félagsmanns í orlofssjóð. Um þetta er samið í kjarasamningum líkt og á við um önnur stéttarfélög. Sama gildir um framlög til námsferða og endurmenntunar og ákvæði um endurmenntun má finna í kafla 8 í kjarasamningum lækna. Árgjöld félagsmanna renna ekki til reksturs Fræðslustofnunar lækna eða Læknadaga. Auðvitað ber Læknafélagið einhvern kostnað af okkar metnaðarfullu Læknadögum en þeir standa þó undir sér að mestu leyti.

En í hvað fer þá árgjaldið? Áðurnefndir 1100 félagsmenn LÍ greiddu á árinu 2015 um 100 milljónir í félagsgjöld. Um 65% af félagsgjöldum fóru í laun og launatengd gjöld vegna skrifstofu félagsins. Stöðugildi eru 7,4; formaður, framkvæmdastjóri, lögfræðingur auk  annars starfsfólks skrifstofu og Læknablaðsins. Hluti félagsgjalda fer í erlend samskipti læknafélagsins. Samstarf við norrænu læknasamtökin er okkur mikilvægt og læknasamtökin eru meðlimir í Alþjóðasamtökum lækna (WMA), Evrópusamtökum lækna (CPME) og  Evrópsku sérfræðilæknasamtökunum (UEMS). Kostnaði við þessi samskipti er hins vegar mjög í hóf stillt.

Læknasamtökin gefa út Læknablaðið sem nú hefur komið út óslitið í meira en 100 ár. Blaðið nýtur virðingar og hefur meðal annars náð þeim áfanga að vera í Index medicus. Um 18% af árgjöldum Læknafélagsins renna til Læknablaðsins. Sú umræða hefur oft komið upp hvort ekki eigi að gefa blaðið eingöngu út rafrænt en ritstjórn blaðsins hefur ekki talið slíkt vera raunhæft Það myndi kosta læknafélagið 15-20 milljónir aukalega á ári að hætta að gefa blaðið út á prenti þar sem auglýsingar hafa skilað mun meiri tekjum en sem nemur prentun og dreifingarkostnaði.

Síðast en ekki síst má nefna að drjúgur hluti tíma framkvæmdastjóra og lögfræðings Læknafélaganna fer í samtöl af ýmsu tagi vegna kjaramála og mættu kollegar vera betur að sér í þeim málum en raun ber vitni. Það er í raun ótrúlegt  hversu mörg mál lækna lenda sem prófmál, til dæmis hjá félagsdómi, vegna þess að þau eru talin fordæmisgefandi. Allt þetta kostar fé, jafnvel þótt málin vinnist. Útlagður kostnaður Læknafélagsins á árinu 2015 vegna lögfræðikostnaðar var rúmlega 8 milljónir króna.       

Að mínum dómi er árgjald félagsmanna LÍ ekki miklu hærra en í öðrum félögum. Ekki má gleyma því að Læknafélag Íslands er í rauninni fámennt stéttarfélag með öfluga starfsemi sem óhjákvæmilega kostar sitt að reka.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica