02. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Ég um Mig frá Mér til Mín

Leynigesturinn við setningu Læknadaganna var enginn annar en hinn fjölfróði og fágaði menningarviti Frímann Gunnarsson en samkvæmt kynningu var honum ætlað að rýna í helstu persónueinkenni lækna. Frímann kom sér þó aldrei almennilega að efninu enda uppteknastur af sjálfum sér og fannst greinilega veruleg upphefð að félagsskapnum. Hann kvaðst sjálfur vera læknir í eðli sínu, þar sem margir hefðu notið góðs af skörpu innsæi hans og hlýlegri nærveru. Í lok erindis síns um allt og ekkert kallaði hann þrjá nafntogaða lækna upp á svið til sín og bauð þeim að setja lokahnykkinn á nokkrar ljóðlínur sem hann hafði samið fyrr um daginn. Var gerður góður rómur að framlagi læknanna þó Frímanni þætti eigið framlag markverðara. Óttar Guðmundsson átti þó bestu innkomuna þegar hann kvað dís drauma sinna minna mest á Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Varð Frímanni sjálfum orðfall eitt augnablik áður en hann náði að jafna sig og þurrka þessa óþægilegu mynd út úr hugskoti sínu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica