12. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild. Félagi kveður. Páll Ásmundsson

Vigfús Magnússon fæddist í Reykjavík 3. júní 1933. Eftir stúdentspróf frá MR vorið 1953 hóf hann nám í læknadeild HÍ og varð cand. med. í febrúar 1961. Hann fór til Víkur í Mýrdal haustið 1962 til að ljúka héraðsskyldu en ílentist þar sem héraðslæknir í nærfellt 20 ár. Eftir Víkurdvölina var hann um skeið heilsugæslulæknir á Seltjarnarnesi en fór síðan í sérnám í geðlækningum við geðdeild Landspítalans og fékk sérfræðingsleyfi í geðlækningum 1989. Hann starfaði á áfengisskor geðdeildar Landspítala uns hann hóf störf hjá Tryggingastofnun 1991. Hann var skipaður aðstoðartryggingayfirlæknir 1995 og sinnti því starfi þar til hann hætti fyrir aldurs sakir.

Vigfús var ötull ferðamaður og naut þess að ferðast um óbyggðir landsins. Hann varð bráðkvaddur á leið í Nýjadal 21. september síðastliðinn.

Vigfús var virkur félagi Öldungadeildar LÍ og er hans saknað í okkar hópi. Svo vildi til að birting pistils hans í þessu tölublaði var ákveðin skömmu fyrir fráfall hans.

P.Á.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica