09. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Háhitasvæði og krabbamein: Svar við umfjöllun Helga Tómassonar

Helgi Tómasson prófessor í hagrannsóknum og tölfræði gagnrýnir1grein okkar um nýgengi krabbameina íbúa á háhitasvæðum, sem birtist 2012 í Environmental Health.2 Það er mikilvægt að taka fram, sem Helgi gerir ekki, að rannsóknir okkar til þessa dags á tengslum búsetu á háhita-, hitaveitusvæðum og hættunnar á krabbameinum eða dánarmeinum vegna krabbameina eru nú orðnar þrjár og í þeim öllum notuð Cox-aðhvarfsgreining.2-4Greinarnar eru birtar í þremur ritrýndum tímaritum og við höfum auk þessa verið meðhöfundar að nýlegri grein þar sem við notuðum gögn af bráðamóttöku Landspítalans og beittum Cox-aðhvarfsgreiningu.5 Hvorki ritrýnar eða ritstjórar sem komu að þessum greinum2-5 hafa gert athugasemdir við notkun okkar á Cox-aðhvarfsgreiningunni.

Helgi nefnir ýmiss skondin dæmi um dellufylgni (spurious correlation), meðal annars um fylgni milli dánartíðni og markaðshlutdeildar Ensku biskupakirkjunnar í brúðkaupum.6 Við höfum áður útskýrt að þetta hugtak eigi ekki við um greinar okkar vegna þess að: 1) við erum ekki að kanna fylgni (correlation) handahófskennt, og 2) rannsóknartilgáta okkar um hugsanleg tengsl búsetu á háhitasvæði og krabbameinshættu er ekki ný og órökstudd, heldur hafa aðrir rannsakendur spurt hennar fyrr og reynt að svara henni á undan okkur.7 Helgi nefnir að í dæminu um Biskupakirkjuna sé um að ræða tímaraðað mynstur sem hann fullyrðir að eigi samsvörun í grein okkar2 þar sem tíðni krabbameinanna sé raðað. Þetta er lítt skiljanleg fullyrðing um atburði í áhorfsrannsókn sem byggir á krabbameinsskrá.

Helgi segir að við gefum í skyn að vísbendingar séu um að jarðhiti sé áhættuþáttur fyrir ákveðin krabbamein.1 Í þessari fullyrðingu leggur Helgi okkur orð í munn, við ályktum að aukin tíðni krabbameina á háhitasvæðunum miðað við það sem gerist á samanburðarsvæðunum þurfi frekari rannsókna við, sem beinast skuli að efna- og eðlisfræðilegum þáttum sem nefndir hafa verið í fyrri rannsóknum.2

Helgi talar í löngu máli um nauðsyn þess að taka tillit til fjölþáttaprófunar (multiple testing, multiple comparison problems). Í faraldsfræðilegum rannsóknum með hækkað áhættuhlutfall vegna allra krabbameina kallar það á að reiknuð séu áhættuhlutföll einstakra krabbameina í útsetta hópnum, og að efniviðurinn sé brotinn upp í smærri einingar eftir kyni og aldri. Þetta gerðum við í umræddri rannsókn til upplýsinga, eins og segir í greininni.2Fyrir nokkur krabbameinin eru áhættuhlutföllin há og ef öryggismörkin innihéldu ekki einn og tilfellin voru færri en fimm voru gerðar auknar kröfur um reikninga á öryggismörkum með stígvélahanka-aðferð (bootstrap method).2 Við ákváðum að leiðrétta ekki fyrir fjölþáttaprófun í rannsókninni og greininni,2 enda ríkir ekki um það almennt samkomulag eða hefð, en einn ritrýnir greinarinnar óskaði eftir að minnst væri á slíkt, og í svari okkar til ritrýnis og ritstjóra gerðum við breytingar á texta greinarinnar, með vísan til fyrri umræðna um að leiðrétting vegna fjölþáttaprófunar væri ekki þörf.8 Þetta er allt skýrt út og hægt að lesa í umræðukafla greinarinnar,2 og er líka hægt að kynna sér í for-birtingar sögu (pre-publication history) greinarinnar í opnum aðgangi blaðsins (ehjournal.net/content/11/1/73).

Ályktanir í læknisfræði/faraldsfræði, til dæmis þegar verið er að meta gamla læknismeðferð miðað við nýja, lyfleysu (placebo) miðað við virkt lyf, og þegar verið er að meta hugsanleg heilsufarsáhrif hjá þeim sem útsettir eru fyrir umhverfisþáttum eða aðstæðum miðað við þá sem ekki eru útsettir, byggja á samanburði og þar er notuð tölfræði til að reikna líkur. Hjá Helga er ekki að sjá samanburðinn, né tölfræðilegt mat á honum.

Það er von okkar að þessi síðkomna gagnrýni1 á rannsókn sem birtist fyrir þremur árum2villi lesendum ekki sýn. Grunsemdir um að búseta á jarðhita/eldfjallasvæðum tengist krabbameinshættu vöknuðu fyrir áratugum síðan. Við höfum í þremur birtum rannsóknum2-4 skilgreint sveitarfélög í manntalinu frá árinu 1981 eftir jarðhitavirkni og notkun á heitu vatni sem útsett svæði og borið þau saman við tvö samanburðarsvæði sem eru með minni jarðhitavirkni og/eða yngri hitaveitur og fundið, með áratuga eftirfylgni (follow-up) í Krabbameinsskrá og Dánarmeinaskrá, að nýgengi krabbameina og dánartíðni vegna krabbameina er hærri á háhita-, og hitaveitusvæðunum en á samanburðarsvæðunum. Við teljum að rannsóknir okkar gefi tilefni til frekari rannsókna á þessu efni.

 

Heimildir

  1. Tómasson H. Háhitasvæði og krabbamein: Misskilin tölfræði. Læknablaðið 2015; 101: 426-8.
  2. Kristbjornsdottir A, Rafnsson V. Incidence of cancer among residents of high temperature geothermal areas in Iceland: A census based study 1981 to 2010. Environ Health 2012; 11: 73-85.
  3. Kristbjornsdottir A, Rafnsson V. Cancer incidence among population utilizing geothermal hot water: A census-based cohort study. Int J Cancer 2013; 133: 2944-52.
  4. Kristbjornsdottir A, Rafnsson V. Cancer mortality and other causes of death in users of geothermal hot water. Acta Oncol 2015; 54: 115-23.
  5. Gunnarsdottir AS, Kristbjornsdottir A, Gudmundsdottir R, Gunnarsdottir OS, Rafnsson V. Suvival of patients with alcohol use disorders discharged from an emergency department: a population-based cohort study. BMJ Open 2014; 4:e006327.
  6. Yule GU. Why do we sometimes get nonsense-correlations between time-series?  — A study in sampling and the nature of time-series. J Royal Stat Soci 1926; 89:1-63.
  7. Rafnsson V, Kristbjörnsdottir A. Háhitasvæði og krabbamein: Svar við umfjöllun Helga Sigurðssonar og Ólafs G. Flóvenz. Læknablaðið 2015; 101: 328-30.
  8. Rothman KJ. No adjustment are needed for multiple comparison. Epidemiol 1990; 1: 43-6.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica