09. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Læknafélag Akureyrar 80 ára

Læknafélag Akureyrar var stofnað árið 1934 á heimili Steingríms Matthíassonar læknis að Spítalavegi 9 og varð því 80 ára 2014. Að stofnun félagsins stóðu Steingrímur, Helgi Skúlason, Jón Steffensen, Árni Guðmundsson, Pétur Jónsson, Jón Geirsson og Valdemar Steffensen. Jónas Rafnar og Friðjón Jensson gengu í félagið 1935, Guðmundur Karl Pétursson 1937, Jóhann Þorkelsson 1937 og Stefán Guðnason, héraðslæknir á Dalvík 1939. Aðaltilgangur félagsskaparins var að ræða taxtamálið, mismunandi gjaldskrá héraðslækna og praktíserandi lækna í bænum, næturvörslu og „að læknar flyttu öðru hvoru á fundum félagsins erindi um læknisfræðileg efni og miðluðu þannig af reynslu sinni og þekkingu… og að vinna gegn þeirri einangrun, sem ætíð væri hætta á hjá þeim læknum sem störfuðu í fámenni“ eins og segir í fundargerð.

Félögum í Læknafélagi Akureyrar fjölgaði hægt næstu ár og áratugi, voru samtals 14 árið 1963, er undirritaður kynntist fyrst þessum félagsskap; sex spítalalæknar, þrír bæjarlæknar, tveir á Kristnesi, tveir héraðslæknar og einn augnlæknir. Ólafsfjarðarlæknir var ekki með, hann hefði þurft að fara sjóveg, því hvorki Múlavegur né Múlagöng voru komin. Ekki heldur Grenivíkurlæknir, sem var að vísu í bílvegasambandi, en vetrarferðir voru langar, strangar og mjög háðar færð og veðri

Síðan fjölgaði hraðar, einkum eftir 1970 og félagar voru orðnir 64 um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Eftir það hefur fjölgunin orðið hægari, einkum á þessari öld.


                                    

 

Fyrstu 60 árin

Það var gæfa félagsins og hvalreki fyrir söguritunina að á 60 ára afmælinu 1994 rakti Ólafur Sigurðsson yfirlæknir lyflækningadeildar FSA sögu félagsins frá stofnun 1934 og með þeim ágætum að ekki verður um bætt. Er því látið nægja hér að vísa í Læknablaðið 81. árgang fylgirit nr 28, júlí 1995, þar sem myndarlega er minnst tímamótanna frá ýmsum sjónarmiðum. Ólafur nefnir þrjá heiðursfélaga, Helga Skúlason, Jónas Rafnar og Jón Steffensen. Síðan hafa aðrir þrír bæst við, Þóroddur Jónasson 1994, Ólafur Sigurðsson 1994 og Inga Björnsdóttir 2005. Atvik urðu til þess að ég kynntist þessu vel gerða afreksfólki nokkuð náið og veit að öll áttu þau heiðurinn skilið þó að ævisöguritun bíði, en ég held að það meiði engan né móðgi þó að ég telji Þórodd og Ólaf hafa skarað fram úr hinum.

 

Síðustu 20 ár

Undanfarna tvo áratugi hefur starfsemi Læknafélags Akureyrar fyrst og fremst snúist um kjaramál, fjölbreytta fræðslu, útgáfustarf (til dæmis Vox medicorum 1993-2007) og uppbyggingu Gudmanns Minde, fyrsta sjúkrahússins á Akureyri í Aðalstræti 14. Verður nú reynt að gera þessum atriðum nokkur skil.

Fræðslufundir hafa verið fjöldamargir á hverjum vetri þar til nú allra síðustu árin. Yrði of langt mál að rekja þá sögu alla í smáatriðum, en hins vegar er rétt af ýmsum ástæðum að taka haustþingin út úr og gefa yfirlit yfir þann merkilega þátt fræðslustarfsins. Þau byrjuðu reyndar með vorþingum að Möðruvöllum í raungreinahúsi Menntaskólans á Akureyri fimm ár í röð; 1983 Málþing um bráða slysameðferð, 1984 Málþing um innkirtlafræði, 1985 Málþing um samskipti lækna, 1986 Málþing um öðruvísi lækningar og 1987 Málþing um kransæðasjúkdóma.

Eftir þetta voru haustþing árlegur viðburður, næstu 6 skiptin samfleytt á sama stað, síðan ýmist þar eða annars staðar í fáein ár og loks að Hólum MA síðustu 18 árin og þá jafnframt í samstarfi við Norðausturlandsdeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þetta urðu fljótt vel sóttar samkomur með langt að komnum fyrirlesurum og vaxandi aðsókn bæði heimamanna og frá nágrannabyggðum.

 

Gudmanns Minde

Upphafið að endurgerð fyrstu spítalabyggingarinnar á Akureyri, Gudmanns Minde, má rekja til ársins 1992. Á almennum fundi í Læknafélagi Akureyrar á hótel KEA 1992 „gat hann (Halldór Halldórsson formaður) þess að Læknafélag Íslands hefði hug á því að kaupa hús það er hýsti fyrsta sjúkrahús á Akureyri, Gudmanns Minde. Hugmyndir eru um að nýta húsið sem orlofshús og/eða læknaminjasafn.

Næst gerist það á stjórnarfundi Læknafélags Akureyrar á Heilsugæslustöðinni á Akureyri 1993, að „formaður (Pétur Pétursson) hefur framsögu um að læknasamtökunum hafi verið boðið til kaups húsið Aðalstræti 14, Gudmanns Minde af eiganda þess Eiði Baldvinssyni, en í því húsi var fyrsti spítalinn á Akureyri 1873 – 1901. Læknafélag Íslands hefur vísað málinu frá sér, og sýnt er að Læknafélag Akureyrar hefur ekki bolmagn til húsakaupa. Stjórn LAk ákveður því að kanna hvort FSA gæti haft forgöngu um kaup á þessu húsi, og er stjórn FSA skrifað bréf þess efnis.

Grípum niður í bréf stjórnarformanns til FSA frá 1993, sjá bls. 422.

„Læknasamtökunum hefur verið boðið til kaups húsið Aðalstræti 14, Gudmanns Minde, af eiganda þess, Eiði Baldvinssyni. Í húsi þessu var fyrsti spítali á Akureyri hýstur á árunum 1873 – 1901 …

Þótt stjórn LAk renni blóðið til skyldunnar, hefur félagið ekki bolmagn til að ráðast í nein húsakaup. Læknafélag Íslands hefur vísað málinu frá sér. Það er því eindregin áskorun stjórnar Læknafélag Akureyrar, að FSA hafi forgöngu um kaup á þessu húsi og varðveizlu þess. Enda var það í upphafi gefið af einkaaðila og síðar selt, þegar sjúkrahúsið við Spítalastíg tók til starfa, og söluverðmætið nýtt af Sjúkrahúsinu á Akureyri, forvera FSA.

LAk er hins vegar reiðubúið til hvers konar samráðs og ráðgjafar varðandi nýtingu hússins í framtíðinni.“


Samstarfssamningur

Fljótlega komst góður skriður á málið. Læknar og hjúkrunarfræðingar funduðu með fulltrúum Akureyrarbæjar, Fjórðungssjúkrahússins og Minjasafnsins á Akureyri, fyrst um hugmyndir, síðan um uppkast að rekstrarsamningi. Varð öllum aðilum æ ljósara mikilvægi þess að varðveita Gudmanns Minde, sögu hússins og þjónustunnar sem þar var veitt. Samningsdrög voru svo endanlega samþykkt á fundi Læknafélags Akureyrar í júní 1994.

Þessu lauk með undirritun samstarfssamnings 1994 um kaup, endurbyggingu og rekstur Gudmanns Minde. Þar segir í fyrstu grein: „Aðilar að samningi þessum eru Húsfriðunarsjóður Akureyrarbæjar, Læknafélag Akureyrar, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Norð-Austurlandsdeild, Minjasafnið á Akureyri og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að vinna að kaupum og endurbyggingu á Gamla spítalanum og sjá um rekstur hans skv. nánari skilgreiningum.

Bjartsýnin var mikil eins og fram kemur í grein 4.1. Verkefnið var þetta: „Gamli spítalinn verður rekinn í þremur megineiningum, sem safn, félagsaðstaða fyrir félög rekstraraðila og húsvarðaríbúð. Safnið er minjasafn um sögu sjúkrahúss, lækninga og hjúkrunar á Akureyri og skal rekið í samráði við Minjasafnið á Akureyri, sem veitir faglega ráðgjöf og umsjón samkvæmt sérstöku samkomulagi við safnstjóra þess.“

Í grein 4.3. var farið nánar yfir áætlun um endurbætur: „Rekstraraðilar hússins hafa umsjón með framkvæmdum við endurbyggingu hússins í samráði við Húsfriðunarnefnd ríkisins og í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Endurbótum verður skipt í eftirfarandi áfanga: endurbætur á safnhluta hússins og félagslegri aðstöðu og endurbætur á húsvarðaríbúð. Samfara endurbótum fyrsta áfanga verða þó gerðar minniháttar lagfæringar á öðrum hlutum hússins.

Fjármögnun endurbóta verður þannig háttað að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Húsfriðunarsjóður Akureyrarbæjar leggja fram ákveðna fjárhæð í upphafi. Rekstraraðilar hússins munu síðan fjármagna framhaldsendurbæturnar með framlögum úr Húsfriðunarsjóði ríkisins, Húsfriðunarsjóði Akureyrarbæjar og sérstökum fjáröflunum. Rekstraraðilar skulu sækja um styrki til umræddra sjóða í samráði við eigandann, Húsfriðunarsjóð Akureyrarbæjar. Gera skal kostnaðaráætlun um framkvæmdir við endurbæturnar sem lagðar skulu fyrir eigendur til samþykktar.

Unnin skal verklýsing um þessar framkvæmdir, ásamt reikningum og skýrslu allt samkvæmt reglum Húsfriðunarnefndar ríkisins.“

Fyrst eftir undirskrift og glæsilegar yfirlýsingar var mikill hugur í læknum og hjúkrunarfræðingum. Hanna Rósa Sveinsdóttir í Minjasafninu lagði mikið af mörkum á þessum undirbúningstímum. Af hálfu lækna er rétt að nefna Ingvar Þóroddsson, Girish Hirlekar, Björn Sigurðsson, og frá hjúkrunarfræðingum komu Hallfríður Alfreðsdóttir, Anna Lísa Baldursdóttir og Hólmfríður Kristjánsdóttir. Fleiri lögðu hönd á plóg, til dæmis Ólafur H. Oddsson, Pedro Riba, Loftur Magnússon, Brynjólfur Ingvarsson. Væri vert að fara rækilega í gegnum alla þá vinnu sem fór í fjáröflun, fundahöld, samráð við fagaðila í Reykjavík og á Akureyri, hugmyndavinnu með handverkssnillingunum sem endurbyggðu húsið, Sverri Hermannssyni, Kristjáni Péturssyni og Snorra Guðvarðarsyni. Ég gleymi einhverjum og biðst velvirðingar á því.

Sem dæmi um einhug og áhuga lækna má nefna fundargerð frá 1994, þar sem formaður Læknafélags Akureyrar gerir grein fyrir óvæntum verkefnum við húsið strax í byrjun og spyr „hvort einhverjir félagar vildu ekki með eigin hendi hjálpa til við endurbætur á því.“ Læknar brugðust vel við og lögðu til dæmis talsverða vinnu í að útvega hleðslusteina í undirstöður hússins og einhverjir sýndu jafnvel tilþrif við hleðslustörfin sjálf. Einnig kom fram á sama fundi að fólk hafði þegar sett sig í samband við LAk og spurst fyrir um hvort félagið vildi ekki taka að sér varðveislu muna sem þá voru í einkaeign.  

Eftir mikla þolinmæðisvinnu var loks komið að uppskeru: Viljayfirlýsing um framtíðarstarfsemi Gamla spítalans Gudmanns Minde á Akureyri var undirrituð 2009, sjá fylgiskjal í rafrænni útgáfu greinarinnar.




Valur Þór Marteinsson frá Læknafélagi Akureyrar, Haraldur Egilsson frá Minjasafninu á Akureyri,
Þórgnýr Dýrfjörð frá Akureyrarstofu og Anna Lísa Baldursdóttir frá Norðausturlandsdeild Félags
íslenskra hjúkrunarfræðinga takast í hendur eftir að viljayfirlýsingin var undirrituð.

Við opnunarathöfnina 2009 var vel fagnað og fjölmiðlar gerðu deginum góð skil.

Hanna Rósa Sveinsdóttir var einn af ræðumönnum dagsins og rakti 15 ára byggingarsögu í stórum dráttum. Þar kom vel fram hve margt varð miklu flóknara og dýrara í reynd en upphaflega var áætlað. Fjármagn þurfti að sækja með ærinni fyrirhöfn þar til tímamót urðu 2005 „með samstilltu átaki og árlegum framlögum frá fjárlaganefnd (í gegnum húsfriðunarnefnd) og frá Akureyrarbæ. Hússtjórn Gamla spítala gerði samning við Fasteignir Akureyrar árið 2006, um að Fasteignir héldu utan um viðgerðir á húsinu en hússtjórnin sæi um að útvega fjárveitingar til viðgerðanna. Sú skipan mála hefur reynst farsæl og hafa Fasteignir Akureyrar sinnt þessu verkefni af alúð sem ber að þakka” eins og segir í Vikudegi 2009.

Eftir opnunina hafa læknar og hjúkrunarfræðingar notað húsið til fundahalda á hverju ári, en sýningahald bíður enn betri tíðar með blóm í haga. Það er spurning hvert ætti að sækja hugmyndir eða fyrirmyndir að þjónustu staðarins við ferðamenn með svipuðu sniði og tíðkast á fjöldamörgum stöðum erlendis. Eða erum við Íslendingar orðnir svo uppteknir af dægurmenningunni, að fortíðin og sagan séu komin áleiðis á ruslahauginn? Kannski fer þá eins fyrir Gudmanns Minde og Nonnahúsi, að útlendingar hafi framar öðrum áhuga á að líta þar inn og anda að sér sögunni.


Hanna Rósa Sveinsdóttir afhenti Guðrúnu Heiðu, dóttur Kristjáns Péturssonar, mynd af þeim Kristjáni og Sverri Hermannssyni fyrir framan Gamla spítala. Með myndinni fylgir áletrun þar sem segir að framlag þeirra Kristjáns og Sverris sé ómetanlegt og verði aldrei fullþakkað.

 

Haustþing Læknafélags Akureyrar og Norðausturlandsdeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

1988: Geðlækningar

1989: Brjóstakrabbamein

1990: Kvensjúkdómar

1991: Barnasjúkdómar

1992: Endurhæfingar

1993: Mjóbaksverkur

1994: Afmælis- og hátíðarfundur

1995: Heimilislækningar

1996: Öldrunarlækningar

1997: Giktsjúkdómar

1998: Sjúkdómar í blöðruhálskirtli

1999: Geðraskanir

2000: Kvensjúkdómar

2001: Barnasjúkdómar

2002: Hjarta- og æðasjúkdómar

2003: Meltingarfærasjúkdómar

2004: Lungnasjúkdómar

2005: Endurhæfing

2006: Verkjameðferð

2007: Sýkingar og sóttvarnir

2008: Bráðaþjónusta á landsbyggðinni

2009: Heilbrigðisþjónusta aldraðra

2010: Kynheilbrigði

2011: Sykursýki, offita o.fl.

2012: Heilbrigðisþjónusta í dreifbýli

2013: Sjúkdómar í kviðarholi

2014: Geðheilbrigði

2015: Slitgikt



Þetta vefsvæði byggir á Eplica