06. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Lögfræði 14. pistill. Bólusetningar barna

Þátttaka í bólusetningum barna hér á landi hefur verið mikil. Það skiptir máli því öðruvísi næst ekki svokallað hjarðónæmi gegn hættulegum smitsjúkdómum. Til að slíkt ónæmi náist þurfa bólusetningar að ná til nær allra barna í hverjum fæðingarárgangi. Með hjarðónæminu tekst að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómanna þótt upp komi eitt og eitt tilfelli. Þessi almenna þátttaka í bólusetningum hefur orðið til þess að við höfum talið ástæðulaust að gera bólusetningar að skyldu.1

Blikur eru á lofti í þessum efnum. Þeim virðist fjölga foreldrunum sem telja það skynsamlegan kost að láta ekki bólusetja börn sín.2 Ótta foreldra við bólusetningar má að einhverju leyti rekja til greinar eftir breskan lækni, Andrew J. Wakefield, sem birtist árið 1998 í The Lancet. Í greininni var því haldið fram að svonefnt MMR-bóluefni (sem er bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum) gæti valdið heilaskaða í börnum og leitt til einhverfu. Síðar kom í ljós að Wakefield lét þess ekki getið að bandarískur lögmaður í málaferlum við framleiðendur MMR-bóluefnisins studdi rannsókn hans og að í húfi voru miklir fjárhagslegir hagsmunir. The Lancet afturkallaði greinina og Wakefield var síðar sviptur lækningaleyfi sínu.3Enn gætir áhrifa þessarar fölsuðu greinar með þeim hætti að fjölmargir foreldrar þora ekki að láta bólusetja börn sín.

Afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Mislingafaraldur gekk í Þýskalandi í lok síðasta árs og byrjun þessa. Fleiri hundruð veiktust og að minnsta kosti eitt 18 mánaða barn lést. Faraldurinn kveikti umræðu í Þýskalandi um nauðsyn þess að gera bólusetningar að skyldu.4Fleiri þúsund tilfelli kíghósta komu upp í Kaliforníu á síðasta ári. Hundruð sjúklinga voru lögð inn á spítala, flest börn, og nokkrir tugir lentu á gjörgæsludeild. Ástæðan er lág tíðni bólusetninga.2 Á mbl.isvar frétt hinn 23. maí síðastliðinn um það að lítill hettusóttarfaraldur væri í uppsiglingu hér á landi og að bólusetning væri eina öryggið gegn sjúkdómnum.5

Smitsjúkdómafaraldrar, þótt litlir séu, virðast því nýr raunveruleiki sem við, líkt og mörg nágrannalönd, stöndum frammi fyrir, algerlega að óþörfu. Ef foreldrar létu bólusetja börn sín kæmi ekki til þeirra.

Allnokkur umræða var fyrr á þessu ári í fjölmiðlum um bólusetningar barna. Hún varð stjórn Læknafélags Íslands tilefni til að álykta hinn 16. mars síðastliðinn um málefnið. Í ályktuninni minnti stjórn LÍ á þá staðreynd að fáar framfarir í læknisfræði hafi bjargað jafnmörgum mannslífum og bólusetningar um leið og stjórnin hvatti foreldra og forráðamenn barna til að láta bólusetja börn sín samkvæmt þeim ráðleggingum sem í gildi eru hverju sinni hjá Embætti landlæknis.7

Ráðleggingar Embættis landlæknis um bólusetningar barna byggjast á reglugerð um bólusetningar á Íslandi nr. 221/2001. Reglugerðin styðst við sóttvarnalög nr. 19/1997. Samkvæmt sóttvarnalögum er yfirstjórn sóttvarna hjá Embætti landlæknis og þar skal starfa sóttvarnalæknir sem meðal annars sér um að skipuleggja ónæmisaðgerðir um land allt. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um bólusetningar barna. Þar kemur fram að þeim sé ætlað að verja börn gegn alvarlegum smitsjúkdómum og að börnum með lögheimili hér á landi skuli boðin bólusetning gegn nánar tilgreindum sjúkdómum, þeim að kostnaðarlausu. Þeir smitsjúkdómar sem tilgreindir eru í 2. gr. reglugerðarinnar eru meðal annars barnaveiki, hettusótt, kíghósti, mænusótt, mislingar, rauðir hundar og stífkrampi.

Fyrr í vor var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um skipan starfshóps er kanni tilhögun bólusetninga barna.8Tillagan sýnist eiga rætur að rekja til þeirrar almennu umræðu sem áður er getið um auk þess sem hún vísaði til fyrirspurnar til heilbrigðisráðherra um bólusetningar barna.9 Í tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem kanni tilhögun bólusetninga barna, leggi mat á þörf fyrir úrbætur og geri tillögur um framkvæmd þeirra. Lagt er til að sérstaklega verði hugað að gerð fræðsluefnis um bólusetningar og dreifingu þess.

Óvíst er um afdrif þessarar tillögu, því þetta er þingmannatillaga, og jafnvel líklegra en ekki að hana dagi uppi. En vinna af þessu tagi er löngu tímabær. Til viðbótar sýnist full ástæða til að hefja umræðu hér á landi af fullri alvöru um það hvort ástæða sé til að gera bólusetningar að skyldu. Skyldan gæti verið almenn eða afmörkuð með þeim hætti til dæmis að börn fengju ekki pláss í daggæslu nema bólusett. Slíkar reglur hafa verið settar víða erlendis, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Sjálfsagt munu ýmsir telja reglur brot á friðhelgi einkalífs sem er varið af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hafa þarf þá hugfast að friðhelgi einkalífs má takmarka ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Skylda til bólusetninga virðist geta fallið undir þá undanþágu. Það er varla boðlegt á 21. öld að upp komi á ný faraldrar smitsjúkdóma af þeirri ástæðu einni að foreldrar láta ekki bólusetja börnin sín.

 

Heimildir

  1. landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/bolusetningar/  
  2. Offit PA. The Anti-Vaccination Epidemic. Whooping cough, mumps and measles are making an alarming comeback, thanks to seriously misguided parents. Wall Str J 2014; 24 sept.
  3. Wakefield Aj, Murch SH, Anthony A, Linnell J, Casson DM, Malik M, et al. Ileal-lymphoid-nodular hyperplasia, non-specific colitis, and pervasive developmental disorder in children. Lancet 1998; 351: 637-41. RETRACTET.
  4. Germany measles: Toddlers death fuels compulsory vaccination debate: http://www.bbc.com/news/world-europe-31585047 – maí 2015.
  5. Bólusetning eina öryggið gegn hettusótt. mbl.is/frettir/innlent/2015/05/23/bolusetning_eina_oryggid/ - maí 2015.
  6. Ályktun stjórnar LÍ um bólusetningar barna frá 16. mars 2015. lis.is/lis/Frettir/nanar/8327/alyktun-stjornar-laeknafelags-islands-um-bolusetningar-barna- maí 2015.
  7. Tillaga til þingsályktunar um skipan starfshóps er kanni tilhögun bólusetninga barna: althingi.is/altext/144/s/1046.html. - maí 2015.
  8. Svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um bólusetningar barna: althingi.is/altext/pdf/144/s/0944.pdf. - maí 2015.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica