05. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Síðustu kennarar Læknaskólans í Reykjavík. Páll Ásmundsson


Fremri röð frá vinstri: Sæmundur Bjarnhéðinsson: lyfjafræði og námskeið um holdsveiki, Guðmundur Björnsson landlæknir: lyflæknisfræði og fæðingarhjálp, Guðmundur Magnússon: handlæknisfræði, lífeðlisfræði og meinafræði. Aftari röð: Þórður Sveinsson: réttarlæknisfræði og námskeið um geðveiki, Andrés Fjeldsted: augnlækningar, Guðmundur Hannesson: líffærafræði og heilbrigðisfræði, Vilhelm Bernhöft: námskeið í tannlækningum, Ásgeir Torfason: efnafræði. Ljósmyndara er ekki getið en Inga Lára Baldvinsdóttir safnvörður Ljósmyndasafns Íslands giskar á Ólaf Magnússon (1889-1955).

 

Meðfylgjandi mynd fann ég í fórum tengdaföður míns, Sigurðar heitins Sigurðssonar fyrrum landlæknis. Myndin olli mér nokkrum heilabrotum, einkum varðandi tilefni hennar. Allnokkra á myndinni bar ég kennsl á og enn fleiri með aðstoð Védísar Skarphéðinsdóttur og Ingu Láru Baldvinsdóttur safnvarðar Ljósmyndasafns Íslands. Tilgáta var um að þetta væru kennarar læknadeildar Háskóla Íslands. Væri svo, fannst mér skjóta skökku við að Guðmundur Björnsson landlæknir sæti fremst fyrir miðju því ég vissi að hann kenndi fremur lítið eftir að læknadeildin tók til starfa en vissi einnig að Guðmundur Magnússon sem ég taldi líklega sitja nafna sínum til vinstri handar var fyrsti forseti læknadeildar.

Sjúkrahús Reykjavíkur hið eldra (1866-1884) stóð þar sem nú er hús Hjálpræðishersins. Sjúkrahúsið var
á efri hæð en niðri var greiðasala og samkomusalur. Hér var Læknaskólinn til húsa til ársins 1884.
Teikning: Aa. E. Nielsen

 

Þá flaug mér í hug hvort hér sætu kennarar Læknaskólans í Reykjavík en hann starfaði frá 1876 til 1911 er hann var lagður niður við stofnun Háskólans. Ég fann grein eftir Árna Árnason lækni sem hann skrifaði rétt fyrir andlát sitt. Birtist greinin í Læknablaðinu 1973 og nefnist Læknaskólinn í Reykjavík.

Í grein Árna eru taldir þeir 8 kennarar er síðast kenndu við Læknaskólann.  Áður voru borin örugg kennsl á 6 þeirra á myndinni og Guðmund Magnússon með nokkurri vissu. Með samanburði við myndir fundnar á timarit.is varð því slegið föstu að Guðmundur og Vilhelm Bernhöft tannlæknir væru einnig á myndinni. Hér voru því á mynd allir síðustu kennarar Læknaskólans í Reykjavík. Allir héldu þeir reyndar áfram kennslu við HÍ en seta Guðmundar Björnssonar fyrir miðri mynd staðfestir stöðu hans sem forstöðumanns Læknaskólans. Kennslugreinar þessara manna eru birtar í myndatexta.


Sjúkrahús Reykjavíkur hið yngra (1884-1903) stóð við Þingholtsstræti 25. Það tók við af hinu gamla
og var af vanefnum gert. Læknaskólinn og síðan læknadeildin var hér til húsa til ársins 1913. Húsið
stendur enn, þekkt sem „Farsóttarhúsið“. Teikning: Aa. E. Nielsen

Námið í Læknaskólanum

Árni Árnason nefnir 19 síðustu nemendur skólans. Af þeim lauk einn námi við lok skólans. Hinir luku allir námi við læknadeild HÍ nema þrír sem ekki finnast í Læknatali.  

Í grein sinni lýsir Árni námi við skólann allítarlega. Af 12 kennslubókum sem hann telur upp voru 8 á þýsku, þrjár á dönsku og ein á ensku. Verklegt nám var frekar fábrotið. Nefnir Árni meðal annars beinaskoðun og krufningar í anatómíunámi. Liður í lyflæknis- og  handlæknisfræðinámi var vinna við „frílækningu á póliklíník“ sem rekin var í skólahúsinu. Skrifuðu nemar sjúkraskrár, framkvæmdu rannsóknir og spreyttu sig á sjúkdómsgreiningu undir handleiðslu kennara. Tæki til klínískra rannsókna sem nú eru sjálfsögð, svo sem röntgenskoðanir, hjartarafrit, jafnvel blóðþrýstingsmælar, voru enn ekki komin fram. Helsta tækið var hlustpípan og flestir nemarnir áttu smásjá og opthalmoskóp. Efnarannsóknir á líkamsvökvum voru allþróaðar. Lögð var áhersla á hinar sígildu skoðunaraðferðir: inspectio, palpatio, percussio og auscultatio.

Árni ber kennurum skólans góðan vitnisburð. Auðsæ er aðdáun á Guðmundi Magnússyni sem jafnan var kallaður „magister“ og lýsir Árni hnitmiðaðri rökvísi Guðmundar við sjúkdómsgreiningu.

Fyrsta læknakennsla

Fyrstu landlæknarnir, Bjarni Pálsson og Jón Sveinsson, kenndu læknisfræði og luku fjórir námi frá Bjarna en tveir frá Jóni. Næstu landlæknar höfðu nema en enginn lauk námi fyrr en kom að Jóni Hjaltalín sem hóf skipulega kennslu 1861 og hlaut hún viðurkenningu og styrk frá yfirvöldum. Fram til 1871 voru menn útskrifaðir með fullum réttindum til læknisstarfa hérlendis en eftir það var þess krafist að menn störfuðu um tíma á Fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn og hlutu menn til þess siglingastyrk og dvalarstyrk. Jón sá í fyrstu einn um kennsluna en frá 1868 var Jónas Þ. Jónassen aðstoðarkennari hans og fengu þeir kennsluaðstöðu í Sjúkrahúsi Reykjavíkur er þá tók til starfa. Alls útskrifaði Jón 13 nemendur á þessu 25 ára tímabili. Á sama tíma útskrifuðust 7 íslenskir læknar frá Hafnarháskóla.

 

 

 

Læknaskóli Reykjavíkur

Skólinn var stofnaður 1876 og tók við af þeirri kennslu er Jón Hjaltalín hafði annast. Veitti Jón Læknaskólanum forstöðu til 1881 og síðan þrír landlæknar er eftir hann komu: Jónas Þ. Jónassen (settur) 1881-1882, Hans J. G. Schierbeck 1882-1895, Jónas Þ. Jónassen 1895-1906 og Guðmundur Björnsson frá 1906.

Við stofnun skólans voru kennarar þrír. Auk þeirra Hjaltalíns og Jónassen hóf Tómas Hallgrímsson kennslu við skólann. Smám saman bættust við fleiri kennarar og voru þeir 8 er hann var lagður niður. Læknaskólinn í Reykjavík útskrifaði 62 nemendur. Á sama tíma útskrifaði Hafnarháskóli 32 íslenska lækna. Við stofnun skólans var, auk vinnu á fæðingarstofnun í Kaupmannahöfn eftir útskrift, krafist misserislangrar vinnu á sjúkrahúsi. Þessar kvaðir héldust lengi eftir stofnun læknadeildar.

Læknaskólinn hóf starfsemi í Sjúkrahúsi Reykjavíkur hinu fyrra er stóð fyrir suðurenda Aðalstrætis þar sem Herkastalinn stendur nú en haustið 1884 flutti hann í nýbyggt sjúkrahús við Þingholtsstræti 25 en það var aðalsjúkrahús Reykjavíkur þar til Landakotsspítali var vígður 1902. Þetta hús stendur enn, kallað Farsóttarhúsið eftir því hlutverki er það gegndi um árabil.

Mörgum þótti frá upphafi lítt til hússins í Þingholtsstræti koma. Þótti það bæði lítið og aðbúnaður lélegur. Oft fóru fram aðgerðir í annarri kennslustofu hússins en þar var hvorki rennandi vatn né skólpfrárennsli. Í Árbók háskólans 1913 er sagt frá því að skólinn hafi sagt upp húsnæðinu í Þingholtsstræti og því lýst svo að kennslustofur séu litlar kytrur og lágt undir loft. Borð og bekkir eru sagðir óboðlegir í lélegasta barnaskóla. Fluttist læknakennslan þá í Alþingishúsið.

Með kennslu Jóns Hjaltalíns 1861-1876 og Læknaskólans í Reykjavík 1876-1911 var stórt skref stigið í læknisvæðingu landsins. Þrátt fyrir lélegan aðbúnað skólans má telja að hann hafi lagt drjúgan skerf til þróunar heilbrigðismála á Íslandi í lok 19. aldar og upphafi hinnar 20.

(Myndirnar eru fengnar úr bókinni Lækningar og saga eftir Vilmund Jónsson.)

Heimildir

  1. Árnason Á. Læknaskólinn í Reykjavík. Læknablaðið 1973; 59: 8-10.
  2. Blöndal LB, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Sögufélagið, Reykjavík 1944: 42-51
  3. Jónsson V. Lækningar og saga. Tíu ritgerðir. I. Menningarsjóður, Reykjavík 1969.
  4. Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005: 70-1.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica