04. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Átaks er þörf - Líflegur fundur LR um stöðu heilsugæslunnar og framtíðarhorfur

Læknafélag Reykjavíkur efndi til umræðufundar þann 17. mars undir yfirskriftinni 
Heilsugæslan, staða og framtíðarsýn.

Framsögumenn voru Oddur Steinarsson framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Þórarinn Ingólfsson formaður Félags íslenskra heimilislækna. Arna Guðmundsdóttir formaður LR stýrði fundinum.


Fyrrverandi og núverandi formaður Félags íslenskra heimilislækna, Elínborg Bárðardóttir og Þórarinn
Ingólfsson. Lengst til vinstri er Gunnar Ingi Gunnarsson sem um árabil var formaður samninganefndar
Læknafélags Íslands.

Í erindi Odds kom fram að það eru að verða töluverðar breytingar á viðfangsefnum heilsugæslunnar. „Viðfangsefni heilsugæslunnar er að auknum hluta orsakað af lífstílssjúkdómum. Hlutfall Íslendinga með offitu er með því hæsta í Evrópu og vex fjöldi sykursjúkra samhliða því. Í Svíþjóð hefur verið gert sérstakt átak til að taka við þeim sem eru með sykursýki 2 í heilsugæslunni.“

Þá nefndi Oddur mikla notkun þunglyndislyfja hérlendis og skort á öðrum úrræðum. „Við þurfum að geta boðið upp á samtalsmeðferð fyrir fólk með kvíða og þunglyndi og þar vildi ég sjá aukna teymisvinnu með aðkomu sálfræðinga og sérmenntaðra hjúkrunarfræðinga, auk læknanna.“

Skortur á heimilislæknum er viðvarandi vandamál og sagði Oddur að ráðast þyrfti að kjarna vandans. „Það þarf að auka hlutfall sérfræðinga í heimilislækningum. Það er ekki samræmi á milli þess hversu stór hluti heilsugæslan er af heilbrigðiskerfinu og þess hversu miklum tíma er varið í kennslu heimilislækninga í læknanáminu. Þá eru fjölbreyttari rekstrarform í heilsugæslunni sjálfri mikilvægur þáttur í að gera heimilislækningarnar meira aðlaðandi fyrir unga lækna. Sjálfstæður rekstur er ekki eina lausnin á vandanum, en sannarlega hluti af lausninni. Skjólstæðingar okkar eiga að geta valið hvert þeir sækja þjónustuna og fjármagnið fylgi þeim þannig að þeir sem standa sig vel í þjónustunni uppskera í samræmi við það.“


Frummælendur á fundinum voru þeir Þórarinn Ingólfsson og Oddur Steinarsson.

Þórarinn fjallaði um vandamál heimilislækninga, bæði að kennslu í heimilislækningum væri ekki gert nægilega hátt undir höfði í læknadeild og að ekki væri boðið upp á að sérfræðingar í heimilislækningum gætu rekið stofur. Heilsugæslan hafi verið undirfjármögnuð í mörg ár sérstaklega læknisþjónustan og nú væri komið í óefni í breyttu umhverfi heilbrigðisþjónustu og þörfin á heilsugæslu orðin meiri en nokkru sinni áður.

Þórarinn ræddi læknaskortinn sem hrjáð hefur heilsugæsluna mörg undanfarin ár og lagði áherslu á breytt og fjölbreyttari rekstrarform til að laða fleiri unga lækna í heimilislækningar. Hann rifjaði upp að í júní árið 2008 hafi þáverandi heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson skrifaði undir samning við heimilislækna um að þeir gætu starfað sjálfstætt. „Við töldum okkur hafa gert þarna tímamótasamning sem jafnvel myndi vekja athygli víða um heim. Í kjölfar hrunsins var þessum samningi stungið undir stól og hann hefur aldrei komið til framkvæmda. Núverandi heilbrigðisráðherra og flokksbróðir Guðlaugs hefur ekki ljáð máls á því að taka þennan samning í gagnið. Í rauninni hefur ekkert gerst í málefnum heimilslækna undanfarna tvo áratugi annað en að staðan í dag er þannig að heimilislæknar eru of fáir og margir yngri heimilislæknar hafa þegar hætt störfum og flust búferlum og þeir sem eldri eru nálgast eftirlaun eða íhuga að draga sig í hlé eða fara í önnur verkefni. Ekki fást hæfir umsækjendur í stöður sem eru auglýstar.“

Í kjölfar framsöguerinda þeirra Odds og Þórarins fóru fram líflegar umræður og meðal annars kvaddi Magnús Karl Magnússon forseti læknadeildar HÍ sér hljóðs og hvatti til þess að heimilislæknar fylktu sér um aukna menntun læknanema, kandídata og ungra lækna í heimilislækningum.

„Það þarf að auka áhuga ungra lækna og læknanema á þessari grundvallarsérgrein í læknisfræði. Öflug heilsugæsla er án vafa grunnur þess að hér verði öflug, hagkvæm og mannvænleg heilbrigðisþjónusta. Sameiginlegt átak þarf og ég veit að læknadeild mun taka þátt í slíku. Ég hvet því heimilislækna, bæði forystumenn og grasrót til að fylkja sér um menntun læknanema, kandídata og ungra lækna,“ sagði Magnús Karl Magnússon.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica