04. tbl. 101. árg. 2015

Ritstjórnargrein

Vísindin mikilvæg í samkeppni um hæft starfsfólk til heilbrigðiskerfisins

Birgir Jakobsson barnalæknir‚ landlæknir

doi: 10.17992/lbl.2015.04.27

Starf lækna hefur löngum verið þríþætt: klínísk vinna, menntun heilbrigðisstétta og vísindastörf. Áhersla lækna á þessum sviðum hefur skiljanlega verið breytileg, sumir velja að helga sig mest klínískri vinnu en aðrir leggja meiri áherslu á kennslu eða vísindastörf. Það er enginn vafi á því að þessir þrír þættir læknisstarfsins fara vel saman þar sem þeir auka hæfni lækna til krítískrar hugsunar og að meta hlutlægt eigin störf og annarra.

Svíar hafa lengi gert sér grein fyrir því að fjármagn sem varið er til vísindastarfa skilar sér margfalt til baka til þjóðarbúsins. Í Svíþjóð eru háskólarnir reknir af ríkinu en sýslurnar (landsþingin) reka sjúkrahúsin og aðra heilbrigðisþjónustu. Það má því segja að ríkið (menntamálaráðuneytið) beri ábyrgð á að fjármagna menntun heilbrigðisstétta og vísindastörf en sýslurnar bera ábyrgð á að fjármagna heilbrigðisþjónustuna. Þrátt fyrir þetta ver landsþing Stokkhólms sömu upphæð og ríkið árlega, um það bil  750 milljónum sænskra króna, til rannsóknarstarfa. Heilbrigðiskerfið þar hefur því yfir að ráða um það bil 1,5 milljarði sænskra króna til menntunar og vísinda. Þetta eru ríflega 3% af því fjármagni sem landsþing Stokkhólms ver til heilbrigðismála. Landsþingið, háskólinn og sjúkrahúsin hafa með sér náið samstarf um það hvernig þessum fjármunum er varið. Mestur hluti þeirra fer í fasta innviði sem eru nauðsynlegir til reksturs vísindastarfa, svo sem kaup á tækjum, leigu á húsnæði og laun starfsfólks, bæði kennara, vísindamanna og annarra starfsmanna. Skipting fjármagnsins fer eftir fyrirfram ákveðnum reglum sem byggjast að miklu leyti á því hvaða árangri viðkomandi starfsemi hefur skilað síðustu þrjú ár. Um það bil 90% af þessu fjármagni fer til Karolinska-háskólasjúkrahússins, en þó í samkeppni við aðrar heilbrigðisstofnanir í Stokkhólmi. Þetta er ekki óeðlilegt þar sem stærsti hluti vísindastarfsins hefur þróast á háskólasjúkrahúsinu í samvinnu við háskólann. Karolinska fær því til umráða tæplega 10% af sinni heildarveltu til þess að verja til menntunar og vísindastarfa í náinni samvinnu við háskólann. Auk þess fjármagns, sem kemur frá hinu opinbera, sækja einstakir vísindamenn og hópar þeirra til annarra sjóða og stofnana sem veita styrk til vísindastarfs. Í Stokkhólmi nemur þetta fjármagn ríflega þeirri upphæð sem veitt er frá hinu opinbera.

Íslenskir læknar sækja sína sérmenntun til annarra landa og komast þá í kynni við aðstæður sem gera þeim kleift að sinna vísindastörfum jafnhliða klínísku námi eða starfi. Sífellt fleiri læknar ljúka doktorsnámi meðan á sérnámi stendur og margir halda áfram að reka sjálfstætt vísindastarf í hópi annarra vísindamanna að námi loknu. Þetta gerir það að verkum að íslenskir læknar ílendast erlendis eftir sérnám og líkurnar minnka á því að þeir snúi heim. Stjórnvöld hafa nýlega gert samkomulag við Læknafélag Íslands, þar sem stefnt er að því að færa fjármagn til heilbrigðiskerfisins til jafns við það sem gerist í nágrannalöndunum. Læknafélagið hefur lagt kapp á að hækka laun íslenskra lækna til jafns við það sem gerist á Norðurlöndunum og það eykur eflaust líkurnar á því að fleiri læknar snúi heim. En læknar sem eru skólaðir á háskólasjúkrahúsum erlendis horfa ekki síður til starfsaðstöðu og möguleika á því að stunda vísindastörf. Ef við eigum að tryggja framtíðarmönnun lækna í heilbrigðiskerfinu er viturlegt að verja hluta þess fjármagns sem í framtíðinni mun fara til heilbrigðiskerfisins og menntunar heilbrigðisstétta til að byggja upp innviði sem gera læknum kleift að sinna vísindarannsóknum hér á landi. Það mun gera stúdentum í auknum mæli kleift að hefja rannsóknarvinnu strax í náminu, sem frjóvgar ekki bara námið heldur eykur líkurnar á því að heilbrigðiskerfið njóti starfskrafta þeirra lengur áður en haldið er til sérnáms og jafnframt að þeir snúi heim að sérnámi loknu.

Mörg verkefni bíða úrlausnar í íslensku heilbrigðiskerfi og forgangsröðunar er þörf. Við þurfum ekki að setja markið við  þá sem gera best í þessum efnum heldur byrja í smáum stíl og byggja markvisst upp þá innviði sem þörf er á. Gott starf hefur þrátt fyrir allt verið unnið á síðustu árum eins og velheppnaðir Læknadagar gáfu nýlega vísbendingu um. En betur má ef duga skal. Ef rými er nú að skapast í íslensku efnahagslífi er mikilvægt að stjórnvöld geri sér grein fyrir því að fjármagn sem varið er til vísindastarfa bætir heilbrigðiskerfið og skilar sér, þegar til lengri tíma er litið, margfalt aftur til þjóðarbúsins. Við verðum einnig að átta okkur á því að möguleikar lækna og heilbrigðisstétta til að leggja stund á vísindavinnu verður æ mikilvægari þáttur í því að fá hæft fólk til starfa.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica