02. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Kjarasamningar í höfn

Varla hefur farið framhjá neinum að nýir kjarasamningar Læknafélags Íslands ogSkurðlæknafélags Íslands við ríkið voru undirritaðir 7. og 8. janúar. Ánægja með nýju samningana virtist almenn í báðum félögunum og var það enn frekar staðfest í atkvæðagreiðslu en ríflega 91% greiddra atkvæða féllu samningnum í vil í kosningu LÍ og rúm 85% sögðu já í atkvæðagreiðslu Skurðlæknafélagsins. Skýrara getur það varla verið.


Kynningarfundur LÍ á nýgerðum kjarasamningi sem haldinn var á Hótel Natura föstudaginn
9. 
janúar er langfjölmennasti fundur í sögu læknafélaganna á Íslandi.

Samninganefnd LÍ átti sinn fyrsta fund með samninganefnd ríkisins í maí 2014 og lagði þar fram ítarlega kröfugerð sem mikil undirbúningsvinna hafði verið lögð í. Er skemmst frá því að segja að samninganefnd ríkisins leit varla á kröfugerðina en bauð strax 2,8% hækkun launa og við það sat allar götur þar til 27. október að verkfall lækna á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum var orðin staðreynd. Þegar rennt er til baka yfir atburðarás síðustu mánuða má glöggt sjá að ýmis met voru slegin og skref stigin er ekki höfðu verið tekin fyrr. 

Verkfallið var hið fyrsta í sögu  LÍ og SKÍ og hið fyrsta í sögu íslenskra lækna. Yfir 95% þeirra lækna er greiddu atkvæði um verkfallsboðunina sögðu já. Fjölmennasti fundur í sögu Læknafélagsins var haldinn.

Í minnisblaði Landlæknisembættisins frá 20. janúar 2015 eru tölulegar upplýsingar um áhrif verkfallsins. Páll Matthíasson forstjóri Landspítala hefur sagt að það muni taka spítalann góðan part úr árinu að vinda ofan af þeim biðlistum sem verkfallið skapaði. Eflaust, en varla datt nokkrum manni í hug að verkfallið hefði ekki áhrif. Þá hefði verið til lítils unnið.  

Verkfallið og kjarabaráttan snérist um launakjör lækna en í stærra samhengi snérist það um að bjarga heilbrigðiskerfinu íslenska frá hruni. Landflótti og ekki síður landótti íslenskra lækna vegna bágra launa- og starfskjara er löngu þekkt staðreynd og þjóðin gerði sér grein fyrir að heilbrigðiskerfið var undir í kjarasamningunum. Um þetta eru forystumenn lækna sammála og segja ennfremur að samstaða læknastéttarinnar í baráttunni allri hafi verið algjört skilyrði þess að svo vel tókst til og að forysta félaganna hvikaði hvergi frá settu marki. 

Þegar hillti undir að nýr samningur væri að fæðast, færðist líf í ríkisstjórnina sem fram að því hafði að því er virtist haldið sig til hlés en óskaði nú eftir því að læknafélögin skrifuðu undir sameiginlega yfirlýsingu um endurreisn heilbrigðiskerfisins í kjölfar nýs kjarasamnnings. Þessi yfirlýsing var svo undirrituð samhliða kjarasamningi læknafélaganna við ríkið ogverður ekki annað sagt en að hún lofi góðu; ef staðið verður við allt sem þar er sett niður á blað ætti ekki að þurfa að örvænta um íslenska heilbrigðiskerfið í framtíðinni. Yfirlýsingin er undirrituð afforsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og starfandi fjármálaráðherra, auk formanna Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélagsins. Hún tekur af öll tvímæli um góðan vilja stjórnvalda til að efla heilbrigðiskerfið, bæta launa- og starfskjör lækna svo þau verði samkeppnisfær við nágrannalöndin, byggja nýjan Landspítala, koma rafrænni sjúkraskrá í gagnið og koma heilbrigðiskerfinu í það horf sem þjóðin vill að það eigi að vera. Nú er baraað standa við stóru orðin.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica