11. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Lífsgæði í boði náttúrunnar

„Það eru nú aðrir þekktari og öflugri veiðimenn í læknastétt heldur en ég,” var það fyrsta sem Felix Valsson svæfinga- og gjörgæslulæknir sagði þegar ég falaðist eftir spjalli við hann um áhugamál hans, skotveiðar. Hann féllst þó á samtal þegar ljóst var að það snerist ekki um magn heldur gæði.


Orka stendur sannarlega undir nafni þar sem hún „flýgur“ af stað.

Spjall okkar Felix snerist svo um ýmislegt fleira en skotveiðarnar eingöngu, ánægjuna af að njóta íslenskrar náttúru og gefandi félagsskap við hunda og menn sem ástunda skemmtilegt áhugamál.

Við erum sammála um að veiðitúrinn sjálfur, þar sem bráðin er felld, sé hápunktur á löngu ferli þar sem ýmis önnur „undiráhugamál“ koma við sögu sem ekki er síður mikilvægt að njóta og stunda.

Felix segir veiðiáhugann hafa kviknað snemma en lengi framan af einskorðast við stangveiði. „Ég hafði reyndar mikinn áhuga á fuglum þegar ég var strákur og safnaði eggjum í sveitinni og lærði að þekkja flestar fuglategundir. Ég taldi þó lengi vel að skotveiðar væru ekki fyrir mig, enda er ég týpan sem hleypir flugum og köngulóm útum dyrnar frekar en að drepa þær. Eftir læknanámið hér heima fór ég til Svíþjóðar í sérnám og bjó þar í 12 ár. Það var því ekki fyrr en ég fluttist heim og hóf störf á Landspítalanum að ég kynntist miklum skotveiðimönnum, Gísla Vigfússyni og Hirti Sigurðssyni. Það var eiginlega í gegnum þá sem ég byrjaði á skotveiðum og þá eingöngu rjúpnaveiðum fyrstu árin. Mér fannst það gríðarlega sterk upplifun að ganga til fjalla að vetri til, kynnast íslenskri náttúru í öðrum búningi en ég hafði í rauninni áður séð í slíku návígi. Veiðarnar sjálfar voru einnig miklu meira spennandi en ég hafði ímyndað mér. Gísli og Hjörtur kynntu mig einnig fyrir gæsaveiðum og svo endaði það með því að ég fór með þeim á hreindýraveiðar og hef síðan farið 5 sinnum á hreindýraveiðar austur á land og einn hreindýraveiðitúr fórum við til Grænlands. Það var óskaplega skemmtilegt og mikil upplifun.”


„Ég er rétt að byrja að átta mig á því hvað svona hundur getur lært mikið,” segir Felix um Kolkuós Orku,
efnilega labradortík og framtíðarveiðifélaga.


Heiðagæsaveiðar skemmtilegur veiðiskapur

Í eyrum sumra hljómar það eins og mótsögn að skotveiðar efli virðingu veiðimannsins fyrir náttúrunni. „Áhugi minn fyrir íslenskri náttúru og harðri lífsbaráttu lífvera hennar hefur aukist mjög eftir að ég fór að stunda veiðar. Ég er því alfarið á móti magnveiðum, þær eru tímaskekkja í nútímasamfélagi, en tel að hóflegar veiðar og góð nýting og  meðferð á villibráð séu hluti þeirra lífsgæða sem þetta land býður upp á.”

Gæsaveiðar á Íslandi eru í grófum dráttum tvenns konar. Annars vegar fyrirsát að morgni við tún eða akra og þá er bráðin yfirleitt grágæs. Hins vegar halda menn til fjalla og setjast fyrir heiðagæs við tjarnir og ár í ljósaskiptunum að kvöldi. „Mér finnst það skemmtilegri veiðiskapur og á afskaplega ánægjulegar minningar úr slíkum veiðiferðum. Sú fyrsta var sérstaklega eftirminnileg en þá fórum við þrír svæfingalæknar, Helga Magnúsdóttir, Hildur Tómasdóttir og ég ásamt mökum okkar Þorleifi Stefánssyni, Valdimar Jörgensen og Sigurveigu Björgólfsdóttur í vikulanga veiðiferð austur á Fljótsdalsheiði. Þar komum við okkur upp bækistöð í heiðinni og leituðum á daginn að líklegum náttstöðum heiðagæsanna og settumst svo í fyrirsát undir kvöld. Svo var eldaður veislumatur úr villibráð á hverjum degi. Þetta var alveg einstakt.”

Hann bætir því við að Sigurveig kona hans sé ekki síður áhugasöm um skotveiðarnar og þau veiði nánast alltaf saman. „Hún er alin upp við veiðiskap með föður sínum og bræðrum á Vopnafirði og er afbragðs skytta enda æfir hún skotfimi með haglabyssu (leirdúfur) og hefur unnið til verðlauna í því.”

Hann sýnir mér mynd sem tekin var fyrr í haust í lok vel heppnaðrar veiðiferðar upp á Víðidalsheiði. „Við fórum þrír saman, Stefán Gissurarson og Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur með tvo hunda, en annan hundinn á ég, Orku, unga tík sem var að fara í sinn fyrsta veiðitúr og stóð sig ljómandi vel.“

Og þá komum við að einni helstu undirgrein skotveiðanna sem er þjálfun og félagskapur við góðan veiðihund. Það er reyndar algengur misskilningur að fólk heldur að veiðihundar séu þjálfaðir til  að elta uppi og drepa bráðina. Það er fjarri sanni. Hið rétta er að veiðihundar sækja fallna bráð og leita uppi særða fugla og eru hundarnir hreinlega ómissandi við slíkt og margir á þeirri skoðun að siðlaust sé með öllu að stunda skotveiðar á fuglum án sækjandi veiðihunda.  

„Ég er alveg sammála því,” segir Felix enda eru aðstæður við heiðagæsaveiðar að kvöldlagi á haustin yfirleitt þannig að engin leið er fyrir veiðimanninn að finna sjálfur fugla sem fallið hafa á rökkvaða jörðina. „Hundarnir þefa þá uppi og sérstaklega koma þeir að góðu gagni við að finna særða fugla sem skriðið hafa í felur. Oftar en ekki lenda fuglarnir í vötnum eða tjörnum þangað sem aðeins hundur getur þá.“


    Felix með myndarlegan tarf sem hann felldi í sumar uppaf Fossárdal við Berufjörð.

Góður hundur er ómissandi

Felix kveðst lengst af hafa notið þess að veiðifélagar hans hafi átt góða hunda en nú er hann búinn að koma sér upp eigin hundi, tíkinni Orku af Kolkuósræktun en hundar af þeirri ræktun hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir frábæra hæfileika og mikinn vinnuvilja. Kolkuóshundarnir eru labradorhundar af svokallaðri vinnuhundalínu (field trial)en ræktun labradorhunda hefur með tímanum þróast í tvær nokkuð vel aðskildar greinar, vinnuhunda og sýningarhunda.

„Ég hefði ekki trúað því að óreyndu hversu öflugir og vinnusamir þessir hundar eru og er rétt að byrja að átta mig á því hvað svona hundur getur lært mikið. Ég var búinn að eiga tvo hunda áður, golden retriever og labrador sem hvorugur var veiðihundur og þeir lifðu reyndar ekki lengi, annar varð fyrir bíl og hinn var hjartveikur. Svo fyrir einu og hálfu ári fékk ég Orku frá Sigurmoni Hreinssyni á Akranesi sem ræktar undir nafninu Kolkuós. Orka er einfaldlega ótrúleg og ég hlakka til þess að mæta vikulega á veiðiþjálfunarnámskeið til Sigurmons. Það er svo gaman að þjálfa svona hund og maður getur nánast talið sér trú um að vera mikill hundaþjálfari því áhuginn og vinnuviljinn er svo mikill að hún gerir þetta nánast allt upp á eigin spýtur.”

Felix er ekki einn um að uppgötva ánægjuna sem fylgir því að þjálfa áhugasaman veiðihund og hann tekur heilshugar undir að þarna sé áhugamál sem hann hafði ekki hugmynd um að væri svona skemmtilegt. Á vegum retrieverdeildar Hundaræktarfélags Íslands eru haldin á annan tug veiðiprófa frá því snemma vors og fram í haustbyrjun. „Þetta bætir manni upp hversu fáir dagar það eru sem maður kemst til veiða og ég hugsa mér gott til glóðarinnar að taka þátt í veiðiprófum næsta sumar með Orku.”



Þetta vefsvæði byggir á Eplica