10. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Læknafélag Íslands - launamunur kynja

Síðastliðið vor birti Landspítalinn jafnréttisáætlun fyrir árið 2014 ásamt upplýsingakorti jafnréttisnefndar með ýmsum súluritum um launamun milli kynja sem byggðust á gögnum frá 2012. Þetta voru nokkuð gróf gögn um heilar stéttir og þar með án tillits til starfsaldurs eða ólíkra starfsheita innan stétta. Í samanburði á fastri yfirvinnu voru að auki birtar tölur sem ekki voru leiðréttar fyrir mismunandi starfshlutfalli. Í kjölfarið fór af stað umræða, meðal annars hjá Læknafélagi Íslands, en niðurstöðurnar virtust gefa til kynna að talsverður kynbundinn launamunur væri innan læknastéttarinnar. Hagdeild spítalans var í framhaldinu falið að vinna nánari úttekt á launamun lækna í Læknafélagi Íslands* á Landspítala eftir kynjum þar sem tekið væri tillit til eftirfarandi þátta sem skekkt höfðu fyrri niðurstöður:

Sleppt var fámennum starfshópum, svo sem yfirstjórnendum. Þau starfsheiti sem tekin voru með í nýjum samanburði eru kandídatar, læknar með lækningaleyfi, sérfræðilæknar og yfirlæknar, starfandi á öllum sviðum spítalans.

Leiðrétt var fyrir mismunandi starfshlutfalli þar sem um fasta yfirvinnutíma var að ræða. Föst yfirvinna var því reiknuð niður á hvert stöðugildi í stað hvers starfsmanns.

Starfsheiti voru skoðuð hvert fyrir sig þar sem hlutfall kvenna og karla er mjög misjafnt innan þeirra, auk þess sem þau hafa áhrif á til dæmis fjölda fastra yfirvinnutíma.

Gögnunum var skipt í 10 ára aldursbil þar sem vitað er að starfsaldur hefur áhrif á laun og konur eru margfalt fjölmennari í yngri aldurshópunum en þeim eldri.

Ekki er talið raunhæft að líta á vegið meðaltal allra lækna sem niðurstöðutölu vegna hins mikla munar á hlutfalli kynja milli starfsheita og aldursbila og þess að konur eru í meirihluta í yngri aldurshópunum þar sem launin eru lægri en í miklum minnihluta í elstu aldurshópunum þar sem launin eru hæst.

Greiningin tók til grunnlauna, fastrar yfirvinnu og viðbótarþátta lækna.** Um leið og hún var endurunnin var hún einnig gerð fyrir árið 2013 og reyndist ekki teljandi munur á milli ára. Niðurstaðan er í megindráttum sú að enginn kynbundinn munur sé á grunnlaunum lækna og gildir sama fyrir bæði árin.

Munurinn á fastri yfirvinnu er fyrst og fremst háður starfsheitum en innan þeirra skiptir aldur einnig máli. Munurinn er konum í hag meðal lækna með lækningaleyfi en í hópi yfirlækna eru karlar hærri sem skýrist trúlega af miklum mun í fjölda og starfsaldri. Séu skoðaðir einstakir aldursflokkar má til dæmis sjá að meðal lækna með lækningaleyfi eru konur á aldrinum 30-39 ára með 25% fleiri fasta yfirvinnutíma en í næsta aldursflokki fyrir ofan eru þær með 12% færri tíma en karlar. Árið 2013 er dreifingin hins vegar almennt mun jafnari en þar eru konur meðal sérfræðilækna til dæmis komnar 7% yfir karlana og eru það yngri aldurshóparnir sem vega mest. Meðal yfirlækna eru konur enn með lægri fasta yfirvinnu, en hlutfallið þar hefur þó hækkað í 80,4% í 83,5%, og í heildina hafa þær hækkað úr því að vera með 91,3% í 93,3% af fastri yfirvinnu karla.

Viðbótarþættir eru þess eðlis að ekki er raunhæft að deila þeim niður á öll stöðugildi eins og föstu yfirvinnunni þar sem þeir eru greiðsla fyrir helgun eða sérstök skilgreind viðbótarstörf og ábyrgð einstakra starfsmanna. Viðbótarþáttunum var því einungis deilt á stöðugildi þeirra starfsmanna sem gegna þessum viðbótarstörfum. Niðurstaðan leiddi í ljós að konur höfðu 5% fleiri viðbótarþætti en karlar árið 2012 en árið 2013 dreifðust þeir hins vegar nánast jafnt milli kynja.

Niðurstaða

Af þessari úttekt hagdeildar er ekki að sjá að um mikinn kynbundinn launamun sé að ræða hjá læknum Landspítala. Þar sem helst var unnt að greina mun virtist hann tengjast lífaldri og starfstíma en það er greinilegt að konum er að fjölga innan læknastéttarinnar og að enn hallar á konur innan raða yfirlækna. Samanburður með gögnum frá 2013 sýndi minni mun milli kynja sem er vísbending um að verið sé að vinna að því að samræma laun þar sem einhvers mismunar hefur gætt. Innan Landspítala verður áfram unnið ötullega að greiningu á launamun kynja innan allra stétta og verður jafnréttisnefnd veittur aukinn stuðningur við úrvinnslu og greiningu slíkra gagna í framtíðinni. Launamunur kynja er aldrei ásættanlegur og gegn honum verður unnið með öllum tiltækum ráðum.

* Hagdeild greindi félaga í Skurðlæknafélagi Íslands og sýndi nánast sömu niðurstöðu.

** Viðbótarþættir eru samkvæmt kjarasamningum lækna prósentuálag vegna sérstakra skilgreindra stjórnunarstarfa eða helgunar og teljast ekki til grunnlauna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica