10. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Læknablaðið 100 ára. Ekki sjálfsagt að halda úti vísindatímariti í litlu málsamfélagi - Segir Jóhannes Björnsson fyrrverandi ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins

Jóhannes Björnsson tók við ritstjórn Læknablaðsins í kjölfar mikillar deilu sem upp kom haustið 2005. Hann stýrði blaðinu á lygnari sjó, styrkti alþjóðlega stöðu þess með inngöngu í hinn alþjóðlega gagnagrunn PubMed, fjölgaði í ritstjórninni og lagði áherslu á faglega meðhöndlun fræðigreina.

„Það var mikil viðurkenning að komast inn á PubMed árið 2005 og staðfesting þess að birtar greinar
í Læknablaðinu standist alþjóðlegar kröfur um fræðileg vinnubrögð,“ segir Jóhannes Björnsson í
samtali um ritstjórnartíð sína á blaðinu.

Jóhannes kveðst eiga nokkuð óhefðbundinn feril ef mið er tekið af dæmigerðum íslenskum lækni sem lýkur kandídatsprófi frá HÍ, heldur síðan utan til sérfræðináms og snýr heim að því loknu og starfar við sérgrein sína  eftir það.

„Þetta er lýsing á dæmigerðum ferli læknis af minni kynslóð, en ég fór aðra leið og mér sýnist að yngri læknar séu að brjóta upp þetta ferilmynstur með ýmsum hætti,“ segir Jóhannes sem ritstýrði Læknablaðinu um 5 ára skeið, frá árslokum 2005. Hann hafði setið í ritstjórn blaðsins frá 2003.

Óvenjulegur náms- og starfsferill

En hvað er svona óvenjulegt við ferilinn?

„Jú, áður en ég hóf nám í læknisfræði við læknadeild HÍ hafði ég lokið BA-prófi í latínu og grísku frá bandarískum háskóla og var langt kominn í framhaldsnámi í sömu greinum í Þýskalandi þegar ég ákvað að breyta um stefnu og hefja nám í læknisfræði. Ég lauk kandídatsprófi frá HÍ 1977. Sérfræðinámi í líffærameinafræði lauk ég frá Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjunum árið 1983, vann síðan á þeirri stofnun í eitt ár, flutti til Íslands árið eftir og starfaði sem næstráðandi á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði til ársins 1992. Þá bauðst mér  langtímastarf við Mayo Clinic og fluttist þá út aftur, sem var óvenjulegt meðal íslenskra lækna á þeim tíma. Að þessu frágengnu þá gerði ég eiginlega ráð fyrir að ég lyki starfsferlinum á erlendri grund. Það fór þó ekki svo heldur ákvað ég að sækja um stöðu forstöðumanns og prófessors í meinafræði við Landspítalann og læknadeild Háskóla Íslands þegar Jónas Hallgrímsson lét af því starfi og staðan var auglýst. Niðurstaðan varð svo sú að ég fluttist aftur hingað heim og tók við því starfi árið 2001.“

Jóhannes staldrar aðeins við og rifjar upp að hann hafi verið 52 ára þegar ljóst var að hann flyttist heim að nýju. „Þessi aldur er við efri mörkin til að taka við nýrri stjórnunar- og kennslustöðu. Ég tel að við séum hæfust til að taka við forystu sirka hálffimmtug. Læknar eru lengi í sérnámi og þurfa að fá nokkurn reynsluskráp áður en stjórnunarstörf hlaðast upp, en þeir mega heldur ekki bíða of lengi. Þá tel ég einnig heppilegt að sami einstaklingur gegni ekki slíkri lykilstöðu í sérgrein mikið lengur en í 10 ár. Við þekkjum öll dæmi um forystufólk í læknisfræði sem er í frígír eða blindflugi síðari hluta starfsferilsins,“ bætir Jóhannes við en segja má að hann hafi verið trúr þessari sannfæringu sinni með því að hann sagði upp starfi sínu sem forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði og prófessor árið 2011 og réðst yfirlæknir meinafræðideildar sjúkrahússins á Akureyri.

„Það voru þó fyrst og fremst aðrar og flóknari ástæður sem réðu þeirri ákvörðun á þeim tíma,“ segir hann og er tregur til að fara nánar út í þá sálma. „Látum nægja að segja að ég vildi ekki vinna lengur á Landspítala. Ég hafði aðrar hugmyndir en yfirstjórn Landspítala um rekstur spítalans almennt og rekstur Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði sérstaklega. Þessar ólíku hugmyndir lúta meðal annars að þeirri kennisetningu, sem er röng, að skilja megi að faglega og rekstrarlega ábyrgð. Sá einn getur tekið ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna innan sérgreina og milli þeirra, sem þekkir ítarlega fræðilega hlutann. Annað er fráleitt, býður meðal annars heim spillingu. Við bættist síðan að ég þekkti vel til Sjúkrahússins á Akureyri og vissi að þeirri stofnun var vel stjórnað.“

Í ritstjórn Læknablaðsins

Þegar komið var fram á árið 2003 kom Vilhjálmur Rafnsson þáverandi ritstjóri Læknablaðsins að máli við Jóhannes og falaðist eftir setu hans í ritstjórn blaðsins. „Ég sló til og það var upphafið að tengslum mínum við blaðið. Það var svolítið öðruvísi bragur á ritstjórnarfundum og hvernig það var rekið en síðar varð eftir að ég tók við ritstjórninni. Með því er engan veginn öruggt að annað hafi verið betra en hitt, en bragurinn var að einhverju leyti ólíkur.“

Í hverju fólst þessi munur?

„Í stórum dráttum var heildarmyndin svipuð. Við þrískiptum hins vegar fundunum, þannig að ritstjórnarfulltrúi hafði sérlega afmarkaðan tíma til þess að ræða almenn atriði, til dæmis rekstur. Blaðamaður Læknablaðsins hafði sömuleiðis afmarkaðan tíma í upphafi hvers fundar. Þá breytti ég fundartímanum sem hafði um alllangt skeið verið í hádeginu. Það var oft á tíðum erfitt að fullmanna fundina á þeim tíma þar sem þetta var á miðjum vinnudegi, og kannski enn mikilvægara að halda formfestu við fundarstjórn til að nýta tímann. En með því að færa fundina í lok vinnudags gafst bæði rýmri tími en ella og, sérstaklega, aukin viðvera ritstjórnar þó það væri áfram höfuðverkur að finna tíma sem hentaði öllum. Læknar eru störfum hlaðnir, bundnir af vöktum, stofurekstri, nefndar- og stjórnunarstörfum. Það er því ekki eingöngu innantómt formsatriði að halda vel utan um fundina heldur er tíminn mjög dýrmætur.“

Stundum höfuðverkur að finna hæfa ritrýna

Jóhannes segir að skipan ritstjórnarinnar þurfi að endurspegla íslenska læknastétt í heild, enda Læknafélag Íslands félag allra íslenskra lækna og Læknablaðið eign þeirra allra, hvar sem þeir hafa valið sér starfsvettvang.

„Landspítalinn er langstærsti vinnustaður íslenskra lækna og því eðlilegt að ritstjórnin endurspegli þá staðreynd. Þar eru fulltrúar nær allra sérgreina og þeir læknar sem lagt hafa sig hvað mest fram við rannsóknir og fræðistörf. En í ritstjórninni þurfa einnig að vera læknar sem starfa innan heilsugæslunnar og eru sjálfstætt starfandi sérfræðingar. Ritstjórnin þarf að hafa breidd í þekkingu til að leggja mat á allt það efni sem berst blaðinu. Ferlið sem fræðigreinar fara í gegnum áður en fyrir liggur ákvörðun um birtingu er á þann veg að hverri grein er úthlutað umsjónarmanni innan ritstjórnar sem velur ritrýna og fylgir greininni eftir, en þessu fylgir vitaskuld talsverð vinna. Mér þótti alltaf mjög ánægjulegt hvað allir þeir sem leitað var til um setu í ritstjórninni tóku því vel og voru fúsir til að leggja á sig talsverða vinnu fyrir Læknablaðið. Það er sannarlega umtalsverð fórn sem fólk færir með setu í ritstjórninni því hún er með öllu ólaunuð. Starf ritstjóra og ábyrgðarmanns var launað óverulega undir lok starfstíma forvera míns, fyrst og fremst táknræn viðurkenning á verulegu vinnuframlagi, en ég ákvað að þiggja ekki laun. Ég fylgdi einnig þeirri reglu að ritstjóri og ritstjórn öll væru formlega endurráðin á tveggja ára fresti og að fara þyrfti fram formleg endurskoðun með útgáfustjórn blaðsins ef vilji væri til endurráðningar.“

Starfandi læknar á Íslandi eru líklega innan við 1000 og fáein hundruð til viðbótar eru starfandi erlendis.

„Það getur því verið talsverður höfuðverkur að finna hæfa ritrýna á fræðigreinar, ekki síst þegar um er að ræða fámennar sérgreinar og höfundar tiltekinnar fræðigreinar margir, hugsanlega meirihluti starfandi lækna í sérgreininni. Þessi staða er ekki óþekkt og þá vandi úr að ráða. Við búum ekki við þann sama munað og norska og danska læknablaðið að skiptast á ritrýnum. Þeim finnst það nauðsynlegt þótt fólksfjöldi hvorrar þjóðar sé tuttugufaldur á við okkur. Þetta hefur þó alltaf leyst með einum eða öðrum hætti á viðunandi máta; íslenskir sérfræðingar starfandi erlendis taka að sér ritrýni í ákveðnum tilvikum og ég hafði mjög góða reynslu af því.“

Stærsti áfanginn að ná inn á PubMed

Þrátt fyrir augljósa annmarka tungumáls og fólksfæðar kom það ekki í veg fyrir að íslenska læknablaðið væri samþykkt inn á PubMed, fremstan alþjóðlegra gagnagrunna líf- og læknisfræðilegra vísindarita.

„Það var mikil viðurkenning fyrir Læknablaðið að komast þar inn og staðfesting þess að birtar greinar í blaðinu standast alþjóðlegar kröfur um fræðileg vinnubrögð. Þetta átti sér nokkurn aðdraganda, hafði reyndar verið reynt nokkrum sinnum næstu 10-15 ár á undan, en blaðið fór endanlega inn á PubMed árið 2005 og hefur verið þar síðan. Fleiri gagnagrunnar hafa síðan bæst við undanfarin fjögur ár. Kröfurnar sem við hétum að uppfylla eru strangar og þeim er síðan fylgt eftir þannig að ekki má slaka á þótt komið sé inn á gagnagrunninn. Þetta skerpti því á okkar vinnubrögðum og til að mynda er það regla PubMed að ritrýnar séu aldrei færri en tveir um hverja grein. Kröfur um gott vísindalegt siðferði við vinnubrögð eru bæði mjög strangar og skýrar. Það er allt í lagi að halda því á lofti að þetta er eftirtektarverður árangur því hann er langt frá því sjálfsagður fyrir svo örsmátt samfélag, bæði hvað varðar tungumál og fólksfjölda. Mér er ekki kunnugt um neitt læknablað með svo lítið málsamfélag sem hefur komist inn á þennan gagnagrunn. Til gamans má geta þess að ritstjórar finnska læknablaðsins ráðfærðu sig nokkrum sinnum við mig varðandi inngöngu á PubMed og eru Finnar þó talsvert fleiri en við.“

Þessi árangur ætti einnig að virka hvetjandi á íslenska lækna og lífvísindamenn  að birta rannsóknarniðurstöður sínar í íslenska læknablaðinu. „Það hefur kannski ekki fjölgað birtum greinum í Læknablaðinu en það á sér ýmsar skýringar. Það er í fyrsta lagi skiljanlegt að menn vilji ná til stærri hóps með birtingu í erlendum læknablöðum, í því felst viðurkenning, en oft eru aðstandendur rannsókna af fleiri en einu þjóðerni og þá er líka eðlilegt að niðurstöður séu birtar á tungumáli sem allir skilja. Enska verður nánast alltaf fyrir valinu. En gæði þeirra greina sem birtast í Læknablaðinu standast alþjóðlegar kröfur, á PubMed er birtur útdráttur á ensku svo meginniðurstöður eru aðgengilegar hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Þetta vita íslenskir læknar og því hefur ekki verið hörgull á fræðigreinum til birtingar í blaðinu.“

Litla þúfan og stóra hlassið

Við víkjum nú talinu stuttlega að þeim átökum sem áttu sér stað innan ritstjórnar og útgáfustjórnar Læknablaðsins haustið 2005 og urðu til þess að Vilhjálmur Rafnsson lét af störfum sem ritstjóri og við tók ný ritstjórn undir forystu Jóhannesar.

„Ég tel ekki ástæðu til að rifja þetta mál upp nú svo mörgum árum seinna en þarna var tekist á um birtingu aðsends bréfs í blaðinu og ábyrgð og aðkomu ritstjóra og ritstjórnar að því atviki. Málið var svo sannarlega þrautreifað á þeim tíma, innan læknasamtaka og utan. Lyktirnar urðu að ritstjórnin sagði af sér og ritstjórinn lét af störfum. Áður en til þess kom höfðu verið gerðar umtalsverðar tilraunir til að ljúka málinu á annan hátt en það tókst ekki. Ég var í ritstjórninni sem sagði af sér og gerði ekki ráð fyrir því að koma nálægt Læknablaðinu aftur. Það fór þó þannig að útgáfustjórnin hafði samband fáum vikum síðar og fór þess á leit við mig að ég tæki að mér ritstjórn Læknablaðsins. Ég féllst á það og í kjölfarið var skipuð ný ritstjórn sem tók til starfa í árslok 2005. Þetta tiltekna mál var aldrei til umræðu á vettvangi nýrrar ritstjórnar enda henni óviðkomandi. Þetta atvik var í mínum huga býsna lítilfjörlegt í upphafi en vatt verulega upp á sig og olli ýmsum sem í hlut áttu talsverðum sárindum. Þarna velti lítil þúfa hlassi sem stækkaði hratt og menn geta síðar meir tekið sér hlutverk þúfu eða hlass, allt eftir því sem þeir telja að fari sér betur.“

Tvíþætt hlutverk

Okkur hefur orðið tíðrætt um hið fræðilega hlutverk Læknablaðsins en því má ekki gleyma að blaðið er einnig félagsblað, þar eru birt viðtöl við lækna, greinar um kjara- og félagsmál og annað er brennur á læknastéttinni. Jóhannes segir að þetta skapi blaðinu nokkra sérstöðu en hvorttveggja gegni mikilvægu hlutverki.

„Þessi efnissamsetning veldur ekki togstreitu í ritstjórn blaðsins og með þessu endurspeglar blaðið mjög vel það umhverfi sem íslenskir læknar lifa og hrærast í. Mér finnst hins vegar athyglisvert að skoða þróun norrænu læknablaðanna hvað þetta varðar. Danska og sænska læknablaðið hafa um nokkurra ára skeið fylgt þeirri stefnu að aðalritstjórinn kemur úr fjölmiðlageiranum, áherslan er á fréttaflutning úr heimi læknisfræðinnar, kjaramál og fagleg málefni. Fræðilegi hlutinn í þessum blöðum gegnir minna hlutverki en áður. Þetta á sérstaklega við um Läkartidningen, sem fram undir lok 20. aldar var eitt virtasta fræðitímarit læknisfræðinnar. Bæði eru þau með nokkuð stórar ritstjórnir blaðamanna og öfluga útgáfu, koma út vikulega eða því sem næst. Ritstjóri norska læknablaðsins er læknir, og þar er áherslan fræðilegri en hjá Svíum og Dönum, líkari okkar áherslum. Mér hugnast nálgun Norðmanna og tók nokkurt mið af því í ritstjórnartíð minni. Ég held að það sé í rauninni mjög góð sátt um hvernig efnisþáttum Læknablaðsins er fléttað saman og hef ekki orðið var við að læknar vildu sjá róttækar breytingar á því. Sjálfum finnst mér blaðið í heild til fyrirmyndar, til þess vandað og íslensk tunga virt eins og vera ber,“ segir Jóhannes Björnsson í lok þessa spjalls okkar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica