07/08. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Mikilvægt að viðhalda þekkingunni - segja öldungar um hækkuð aldursmörk í nýjum heilbrigðislögum

Þann 1. júlí gengu í gildi lög um breytingar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Þau heimila meðal annars læknum og tannlæknum að starfa áfram eftir 75 ára aldur að uppfylltum skilyrðum. Þessar breytingar voru samþykktar á lokadögum alþingis síðastliðið vor, mótatkvæðalaust. Í þeim segir meðal annars: ,,Heilbrigðisstarfsmanni samkvæmt lögum þessum er óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann nær 75 ára aldri. Landlækni er þó heimilt, að fenginni umsókn viðkomandi, að veita undanþágu frá þessu ákvæði, enda séu skilyrði reglugerðar ... uppfyllt. Í fyrsta sinn er heimilt að veita undanþágu til allt að þriggja ára, og eftir það til eins árs í senn.“


Þeir Tryggvi og Sigurður hafa unnið ötullega að því að læknar fái að vinna eftir 75 ára aldur og
eru sáttir við niðurstöðuna.

Reglugerðin setur tvö skilyrði fyrir því að veita megi slíkt leyfi: Að viðkomandi sé andlega og líkamlega fær um að starfrækja þá starfsemi sem sótt er um undanþágu til og hafi viðhaldið þekkingu sinni, faglegri færni og tileinkað sér nýjungar. Fyrra skilyrðinu skal fullnægja með því að leggja fram læknisvottorð og hinu síðara með því að ,,leggja fram yfirlit og gögn um endurmenntun, námskeið eða annað til staðfestingar á því með hvaða hætti hann hefur viðhaldið þekkingu sinni, faglegri færni og tileinkað sér nýjungar síðastliðin fimm ár.“

Læknablaðið hitti þá Sigurð E. Þorvaldsson lýtalækni, fyrrverandi formann Öldungadeildar Læknafélags Íslands, og Tryggva Ásmundsson lungnalækni og fyrrum stjórnarmann í Öldungadeildinni fyrir skemmstu til að spjalla um þessi tímamót.

Aðdragandi þessarar lagasetningar er í sjálfu sér merkilega stuttur, þótt umræðan um þetta efni eigi sér lengri sögu hér á landi. Það sem ýtti á eftir lagasetningunni var að þann 1. janúar 2013 tóku gildi lög sem bundu starfslok lækna við 76 ára aldur. Áður hafði verið möguleiki fyrir landlækni að framlengja lækningaleyfi einstakra lækna að fullnægðum ákveðnum skilyrðum en þessi lög festu þær reglur í sessi að einungis væri hægt að framlengja leyfið í tvö ár í senn eftir sjötugt og mest þrisvar. ,,Ekki hafði verið brugðist við þessari breytingu og það var ekki fyrr en við Tryggvi vöktum athygli á málinu í Læknablaðinu og Morgunblaðinu að þessi umræða fór af stað,” segir Sigurður. Í kjölfarið fylgdu nokkur blaðaviðtöl um þetta efni og þeir höfðu samband við ráðamenn og fengu liðsinni ýmissa þeirra til að gera þær breytingar sem nú hafa verið samþykktar. ,,Sigurður sá alfarið um allan áróður í viðtölum við ráðamenn,” segir Tryggvi. ,,Mitt eina framlag er í raun greinin sem við sendum saman til birtingar í Morgunblaðið. Það eina sem ég gæti stært mig af er að hafa verið ,,ráðgjafi” Sigurðar.”

Þeir fóru að rýna í þá umræðu sem hafði farið fram samhliða og í kjölfar lagasetningarinnar og komust að raun um að Eygló Harðardóttir núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra og Sif Friðleifsdóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra höfðu lýst miklum efasemdum vegna þessara nýju, takmarkandi reglna. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður heilbrigðisnefndar og síðar velferðarnefndar bar fram fyrirspurn á alþingi til Kristjáns Þórs Júlíussonar um hvort til stæði að breyta lögunum og hann var ekkert að tvínóna við það og hóf mál sitt á því að segja að stutta svarið væri ,,Já.” Ekkert af þessu gerðist af sjálfu sér. Sigurður, með fulltingi Tryggva, vann ötullega að því að kynna röksemdir þeirra og segja það Kristjáni til hróss að hann hafi hlustað vel á rök þeirra. Þannig óx skilningur ráðamanna á málinu. 

,,Meðallíftími fólks, jafnt lækna sem annarra, og heilsufar þess er allt annað en það var,” segir Sigurður. Annað, ekki lítilvægara, er aldurssamsetning læknastéttarinnar en stéttin eldist hratt. Aldurinn er ekki það sem skiptir mestu máli svo lengi sem heilsan er góð og til þess eru ákvæðin um læknisskoðun að ganga úr skugga um heilsufarsþáttinn. En það er mat þeirra að ekki skipti minna máli að fylgjast með því hvernig menn hafa viðhaldið þekkingu sinni, sótt ráðstefnur og þing, skrifað fræðigreinar og fylgst með nýjungum í sérgrein sinni. Þeir benda á athyglisverð dæmi um harðfullorðna lækna sem hafa verið framarlega í flokki hvað þetta varðar. Kristján Sveinsson læknir birti á sínum tíma grein um sjúkling sem hann hafði fylgt eftir í marga áratugi og að minnsta kosti tvær greinar í ritrýndu, erlendu tímariti eftir sjötugt. Úlfar Þórðarson augnlæknir var lengst allra í heiminum ráðgefandi læknir fyrir bandaríska herinn og heiðraður fyrir það. ,,En það getur verið munur milli sérgreina því þær gera mismiklar kröfur um líkamlegt atgervi og skurðlæknar til dæmis þurfa að standa mikið við sín störf. Það getur tekið á marga þeirra sem eldri eru, og reyndar eru dæmi um það líka að menn hafi ekki valið sér skurðlækningar sem sérgrein vegna þess líkamlega álags sem fylgir starfinu,” segir Sigurður.

Í hinum nýju lögum er tekið vel á því að gera kröfur um að læknar uppfylli skilyrði um að halda sér við í starfi. Þeir benda á að víða hafi verið pottur brotinn í þeim efnum hjá læknum á öllum aldri og sé jafnvel enn. Læknaráð Landspítala reyndi fyrir mörgum árum að fá lækna til að skrá hjá sér það sem þeir gerðu til viðhaldsmenntunar og skila til ráðsins árlega. Sú tilraun mistókst, sennilega fyrst og fremst vegna þess að það voru engin viðurlög þótt menn leiddu þetta hjá sér.

Þeir rifja það upp að á Landakoti settu læknar sér sjálfir reglur um viðhaldsmenntun sem gat verið í formi kynningarferða á erlenda spítala, greinaskrifa, fyrirlestrahalds eða þátttöku í námskeiðum. Þetta var tekið alvarlega og fylgt eftir.

Á Landakoti voru haldnir fræðslufundir á laugardögum sem ætlast var til að læknar mættu á og Dr. Bjarni, sem þá var yfirlæknir spítalans, gerði mönnum það ljóst að gerðu þeir það ekki liti hann svo á að þeir ætluðu að hætta störfum.

Þeir Sigurður og Tryggvi benda á alla þá möguleika sem læknar hafa til að halda við menntun sinni og hæfni, fara á fyrirlestra innan lands og erlendis, skrifa greinar og þar sem læknar hafi það í starfskjörum sínum að sækja ráðstefnur erlendis og kostnað greiddan verði þeir að nýta slík tækifæri til endurmenntunar. Séu þeir læknar sem vilja starfa áfram meðvitaðir um þetta og skili tilskildum árangri á þessu sviði, sé ekkert því til fyrirstöðu að þeir haldi áfram störfum meðan heilsa og vilji leyfi.

Þeir hafa áhyggjur af nýliðun í læknastéttinni og aldurssamsetningu. Tryggvi rekur dæmi um mjög krítíska stöðu í sumum sérgreinum. ,,Það verður pressa á lækna sem margir hverjir eru að verða sjötugir, að halda áfram til þess að þjóna þeim sjúklingum sem sárlega þurfa á þeim að halda. Þetta er oft og tíðum þannig að fólk þarf að bíða svo mánuðum skiptir eftir að komast að hjá lækni í einstökum sérgreinum. Í rauninni er það tvennt sem ræður minni afstöðu, annars vegar eru það ákveðin mannréttindi að fá að halda áfram að starfa við sitt fag meðan heilsa og þekking leyfa. Ólafur Ólafsson fyrrum landlæknir hefur verið ötull talsmaður þessara sjónarmiða og gengið á undan með góðu fordæmi. Hitt er ekki minna um vert að sjúklingar hafi aðgang að sérmenntuðum læknum. Í sumum sérgreinum er sérhæfingin mjög mikil, til dæmis getur tekið óratíma að komast að hjá taugasérfræðingum og sé sérhæfingin meiri, eins og til dæmis við meðhöndlun á MS-sjúkdómnum, er ekki sjálfgefið að aðrir læknar geti tekið við sjúklingum þegar læknirinn er kominn á aldur.”

Og hvernig er það svo, ætla þeir Tryggvi og Sigurður ekki að nýta sér þessi ákvæði og taka upp þráðinn sem starfandi læknar? ,,Nei, nei,” segir Sigurður. ,,Við erum báðir sáttir við okkar stöðu. Það voru ekki okkar hagsmunir sem við vorum að gæta og við ætlum ekki að hefja læknisstörf á nýjan leik.“ En líta þeir svo á að þeir hafi unnið fullan sigur? Þeir eru á einu máli um það, já þessi lagabreyting er góð niðurstaða. ,,Það ber að þakka hvernig Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður velferðarnefndar hafa tekið á þessu máli og af hve miklum krafti og hraða unnið hefur verið.”

Um ferli málsins má lesa á vef velferðarráðuneytisins:
velferdarraduneyti.is /frettir-vel/nr/34636
 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica