07/08. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Læknablaðið komið inn á timarit.is - rætt við fulltrúa Landsbókasafnsins

Það er gaman að rölta inn í musteri íslenskrar menningar, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn eins og það heitir fullu nafni en Þjóbó í munni yngri kynslóða. Þar eru til húsa gagnagrunnarnir þrír sem eru risavaxin framlenging á þjónustu bókasafnsins og skref langt inn í nútímann: handrit.is, baekur.is og timarit.is. Það merkilega í þessu samhengi er að afnot og skoðun alls efnis þarna inni er ókeypis og mun vera einsdæmi í okkar litla heimi að þjóðarsafn hafi með þessum hætti opnað sitt safn uppá gátt fyrir lærða og leika jafnt.


Örn Hrafnkelsson í bókasafni Jóns Steffensens sem varðveitt er í Þjóðarbókhlöðunni, þar er
skrifborð Jóns, stóll og ýmsir smá munir auk vel innbundinna bóka og blaða, - þar er náttúrlega
Læknablaðið í öndvegi.

Læknafélag Íslands færði Læknablaðinu þá gjöf á afmælisári að fá blaðið skannað inn á timarit.is – og nú er það í höfn: 85 árgangar (1915-1999), 662 tölublöð, 35.000 blaðsíður,  – 2354 greinar hafa verið skráðar úr timarit.is og er nú að finna í Gegni og á leitir.is þannig að bókasafnsskráningarkerfið og timarit.is tengjast. Frá árinu 2008 hefur verið opið fyrir Google að tengjast textum á timarit.is og þar með liggur allt efni þar opið fyrir áhugasama lesendur.

Það er Örn Hrafnkelsson sem leiðir mig í allan sannleik um þetta. Hann hefur starfað á bókasafninu síðan 1993, þá var hann gómaður glóðvolgur á tröppum gamla Landsbókasafnsins á Hverfisgötunni og hefur ekki sloppið út síðan. Rósa Bjarnadóttir verkefnisstjóri hefur séð um innfærslu blaðsins á netið hjá safninu.


Hér sér ofan í gamla spjaldskrá.

Að sögn Arnar eru nærri öll tímarit fram til 1940 komin inn, þó ekki eitt hið veigamesta, Tímarit Máls og menningar. Alls eru 900 titlar (af um 1600) á vefnum (4,5 milljónir blaðsíðna), stór og smá tímarit, dagblöð, vikurit, héraðsblöð og margt fleira. Áhugi fyrir efni vefsins eykst stöðugt og nú nota um 2500 manns vefinn daglega. Í kjallara safnsins er skanni sem tekur myndir af öllu þessu efni og á myndastofunni starfa þrír og bókaverðirnir sem koma að skráningu efnisins eru þrír. Efnið springur út í allar áttir, það jafnast á við gróðursetningu í mörgu tilliti, æ fleiri skoða efnið og tengja það út á aðrar síður einsog feisbúkk, – þegar nýtt efni einsog Læknablaðið kemur inn kallar umhverfið og notendur á að fyllt verði í önnur skörð svo sem að læknablað Guðmundar Hannessonar verði innskannað og þá fleiri rit af sama toga. Smám saman þéttist þessi skógur og þá þarf ný augu og nýtt vit til að útbúa leiðarvísa og ganga frá efni þannig að hægt sé að tengjast því frá öllum hliðum og aðkomuleiðum. Hin stafræna endurgerð opnar allar hliðar nýs og gamals efnis, allt í einu er í einu vetfangi hægt að sjá inn á spjöld gamalla blaða og tímarita sem fyrir löngu eru gleymd og týnd. Þetta bókasafn er komið langt í burtu frá því sem kallað var kartótek í gamla daga, kerfi skráningarseðla fyrir hverja bók og blað. Þar svalaði einn seðill forvitninni, og talsverða elju og tíma þurfti til að láta seðlana tala einsog timarit.is getur gert núna. Það var Jón Ólafsson ritstjóri sem fyrstur fékk það starf árið 1901 að skrá seðla fyrir Landsbókasafnið og hefur ekki órað fyrir því að einn góðan veðurdag væru langflest tímarit og blöð þessa lands komin saman á einum stað og héti veraldarvefurinn! timarit.is býður æ fleiri lausnir og samsplæsingu við aðra gagnagrunna og verður liprari í notkun með degi hverjum.

Læknablaðið er ritrýnt tímarit einsog áskrifendum þess er fullkunnugt um, á landinu eru um 40 slík rit, og í deiglu er hjá timarit.is að þeim verði lyft sérstaklega og hægt að flokka þau saman til frekari leitar.




Rósa Bjarnadóttir og Örn fletta í skránni.

Allt okkar vit og strit er vistað í Landsbókasafninu og tímans þungi niður heyrist þar á hverri hæð hússins. Það er magnað að vera leiddur um gangana í kjallara safnsins og vera einsog í heimsókn í öryggisfangelsi bóka og blaða. Í ærandi júníbirtunni, 18 stiga hita og sunnanþey er samt langskemmtilegast að koma út á hlaðið á Þjóðarbókhlöðunni aftur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica