06. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Ávarp í Iðnó - Læknablaðið 1915-2014

Ágætu kollegar, ritrýnar, rektor og aðrir gestir, velkomin í Iðnó í tilefni af 100 ára samfelldri útgáfu Læknablaðsins. 


Við getum borið höfuðið hátt í dag. Engin önnur stétt hefur gefið út fagtímarit jafnlengi og samfellt á Íslandi. Blaðið er einnig leiðandi meðal fræðitímarita hér á landi í frágangi og kröfum til fræðigreina og er skráð í alla helstu alþjóðlega gagnagrunna á sviði læknisfræði þótt það sé ritað á íslensku. Blaðið er í opnum aðgangi á netinu og fjölmiðlar fylgjast grannt með efni þess. Ritstjórnin ákvað síðastliðið haust að 100. árgangurinn yrði sem afmælisárgangur nýttur til að staldra við, kynna sögu blaðsins og þróun heilbrigðisþjónustu hér á landi í máli og myndum.  


Karl Andersen hjartalæknir sem var í ritstjórn 2000-2007, Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor og Jens
A. Guðmundsson kvensjúkdómalæknir.

Í dag er við hæfi að horfa yfir farinn veg. Við getum fæst sett okkur í spor þeirra frumkvöðla sem ýttu Læknablaðinu úr vör. Guðmundur Hannesson gerði það fyrst tímabundið 1901 til 1904, þegar hann handskrifaði og fjölritaði það sem hann nefndi „fyrirrennara íslensks Læknablaðs“ og sendi kollegum í norðausturamtinu. Guðmundur var 11 árum síðar, í ársbyrjun 1915, kjörinn, ásamt tveimur öðrum læknum, í fyrstu ritstjórn hins eiginlega Læknablaðs og hann hefur jafnan verið talinn aðalhvatamaður að útgáfu blaðsins.

Guðmundur viðrar mikilvægi þess að stofna Læknablað á Íslandi í inngangi í fyrsta tölublaði fyrsta árgangs í janúar 1915 með þessum orðum:  „Erlendis er það margreynt að læknar eru hin félagslyndasta og starfsamasta stétt. Vér erum dreifðir sinn í hverju héraði út um alt þetta stóra land og eigum afar erfitt með að finnast og kynnast. Flestum er nánast ómögulegt að sækja læknafundi og auk þess er það lítt kleyft vegna kostnaðar. Oss eru allar bjargir bannaðar til að bæta úr einangrun vorri og tengja stétt vora saman nema þessi eina: að halda út Læknablaði. Það getum vér ef vér viljum og það getur nægt til að ræða þessi mál vor, nægt til þess að vér gætum hagsmuna læknastéttarinnar, ef þess gerist þörf, og tengt oss saman í félagslynda bróðurlega heild.“ … „Vér erum í engum vafa um að íslenskt læknablað hefur mikið og nauðsynlegt verk að vinna og vér berum það traust til íslensku læknastéttarinnar að hún styðji það, svo það geti orðið oss bæði til gagns og sóma.“


Geir Gunnlaugsson landlæknir, Tómas Guðbjartsson brjóstholsskurðlæknir sem hefur verið í rit-
stjórn frá 2006 og Engilbert Sigurðsson geðlæknir sem hefur setið í ritstjórn frá 2005, ritstjóri og
ábyrgðarmaður frá 2010.


Góðir kollegar. Við skulum skála fyrir því að íslenskir læknar hafi staðið undir  því trausti sem Guðmundur og félagar hans báru til sporgöngumanna sinna úr læknastétt og að við höfum borið gæfu til að gefa blaðið út samfleytt í 100 ár.     

Hin mikla þátttaka lækna í símenntun á Læknadögum í janúar ár hvert sýnir að íslenskir læknar eru nú á dögum upp til hópa félagslyndir og fróðleiksfúsir, ekki síður en hinir erlendu kollegar Guðmundar sem hann horfði til árið 1915.  Guðmundur hafði lært til læknis í Kaupmannahöfn og hafði því samanburð sem margir kollega hans höfðu ekki.

Því verður ekki neitað að mikið hefur reynt á samtakamátt lækna hér á landi á síðasta áratug. Sveiflur og óvissa hafa einkennt efnahagsmál, stjórnmál, fjölmiðlun og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í okkar ágæta landi. Vonandi fara tímar aukins jafnvægis í hönd. Í mínum huga eru Læknablaðið og Læknadagar það lím sem helst heldur stéttinni saman og sýnir styrk hennar, styrk sem stéttin sækir í þekkingu byggða á rannsóknum. Þar fáum við umgjörð til að ræða nýjungar í meðferð og greiningu, rannsóknir, sögu og félagsmál, og þar hafa læknar og læknanemar faglegan vettvang til að kynna ranns  óknir sínar á íslensku.


Þorbjörn Jónsson ónæmislæknir, formaður LÍ frá 2011, Helga Hannesdóttir barna- og unglinga-
geðlæknir, barnabarn Guðmundar Hannessonar, og Engilbert ritstjóri með gjöf Helgu til Læknablaðsins og LÍ.


Ritstjórar Læknablaðsins hafa alla tíð lagt mikið upp úr því að blaðið sé skrifað á móðurmálinu. Hefur sú stefna efalítið stuðlað beint og óbeint að myndun íðorða og nýyrða í íslenskri læknisfræði. Guðmundur Hannesson skilaði þar drjúgu verki að vanda. Svokölluð Orðanefnd lækna var stofnuð árið 1983 og var Örn Bjarnason, sem var ritstjóri blaðsins í alls 17 ár og ábyrgðarmaður þess í 14 ár, fyrsti formaður nefndarinnar. Örn var kallaður til, ásamt fleirum, þegar Læknablaðið stefndi í þrot veturinn 1975-1976. Páll Ásmundsson, Þórður Harðarson og Bjarni Þjóðleifsson komu að ritstjórn blaðsins með Erni á þessum árum, en þá skiptist það í félagslegan og fræðilegan hluta. Fyrir tilstuðlan Tómasar Árna Jónassonar læknis tókst farsælt samstarf við Povl Riis, ritstjóra danska læknablaðsins, sem leiddi til þess að Læknablaðið var prentað um skeið í Danmörku. Örn lýsir þessu ferli í viðtali sem mun birtast í Læknablaðinu í júlí. Það er ljóst að ef ekki væri fyrir framlag Arnar og félaga á þessum árum, þegar hann stóð í stafni lengst af, stæðum við vart hér í dag til að fagna aldarafmæli útgáfu Læknablaðsins.

Mig langar að biðja Örn um að koma upp á svið og þiggja smáþakklætisvott frá mér fyrir allt hans óeigingjarna starf í þágu blaðsins. Hann er enn að grúska og stutt síðan hann leit síðast inn á skrifstofur blaðsins og heilsaði upp á starfsmenn. Örn er mikill áhugamaður um bækur. Ég valdi litla bók um merkan mann handa honum á fornbókasölu hér í bæ, bók sem fjallar um okkar fyrsta landlækni, Bjarna Pálsson. Bókin er skrifuð af lærisveini Bjarna, Sveini Pálssyni lækni og náttúrufræðingi, sem fjallað er um í maíhefti Læknablaðsins. Sigurður Guðmundsson skólameistari á Akureyri ritar kjarnyrtan inngang. Nokkrir okkar mætustu lækna eiga ættir að rekja til Sigurðar eins og margir vita. Njóttu vel Örn.


Harpa Hauksdóttir augnlæknir, Guðrún Svanborg Hauksdóttir meinafræðingur og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hjartalæknir, en hún hefur verið í ritstjórn síðan 2011.

Ég vil einnig nota tækifæri til að þakka öllum þeim læknum sem ég hef setið með í ritstjórn síðastliðin 9 ár fyrir gott samstarf, og ritrýnum fyrir ómetanlegt framlag til fræðihluta blaðsins. Fræðileg umgjörð Læknablaðsins hefur eflst á síðasta áratug. Blaðið hefur þó ekki farið varhluta af efnahagsþrengingum samfélagsins sem hafa hægt tímabundið á viðgangi rannsókna hér á landi. Jóhannes Björnsson prófessor, forveri minn sem ritstjóri og ábyrgðarmaður, átti mestan þátt í skráningu Læknablaðsins á Medline árið 2005 þegar hann sat í ritstjórn í ritstjórnartíð Vilhjálms Rafnssonar. Þar náðist afar merkur áfangi í sögu blaðsins. Tómas Guðbjartsson prófessor hefur birt fleiri fræðigreinar en nokkur annar í Læknablaðinu á síðasta áratug. Ég þakka honum fádæma elju við greinaskrif í blaðið og þeim báðum náið og gott samstarf í ritstjórn.


Ásgeir Haraldsson barnalæknir og Jóhann Heiðar Jóhannsson meinafræðingur, áhugamaður um 
íðorð í læknisfræði sem skrifaði um þau í blaðið frá 1990-2008.

Síðast en ekki síst þakka ég Védísi Skarphéðinsdóttur, ritstjórnarfulltrúa, sem er hjarta blaðsins og heldur því gangandi frá degi til dags, Hávari Sigurjónssyni blaðamanni, Sævari Guðbjörnssyni, sem annast umbrot, og Sigdísi Þóru Sigþórsdóttur, auglýsingastjóra og ritara blaðsins, fyrir gott samstarf og þrautseigju í starfi. Mér þætti vænt um ef starfsmenn blaðsins kæmu upp á svið og tækju á móti viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Það er í raun afrek, og líklega einsdæmi, að fræðirit sem er skráð á alla helstu alþjóðlega gagnagrunna hafi aðeins fjóra starfsmenn í tveimur og hálfu stöðugildi.  



Þetta vefsvæði byggir á Eplica