02. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Fyrsta skurðaðgerð Guðmundar Hannessonar prófessors. Guðmundur Jónsson

Guðmundur Jónsson (1891-1976), höfundur frásagnar þessarar sem birtist í Eimreiðinni 1963; 96: 70-4, var sonur þess er Guðmundur Hannesson gerði á aðgerðina sem lýst er. Aðdáun hans á nafna sínum er auðsæ. Auk þeirrar lækningar sem hér er lýst annaðist Guðmundur Hannesson greinarhöfund sjálfan sem ungan dreng í 11 ár meðan hann var læknir í Skagafirði og á Akureyri. Guðmundur Jónsson var með útvortis berkla, hlaðinn kaunum um allan kroppinn, en varð loks albata fyrir tilstilli læknisins.

Guðmundur Jónsson var lærður garðyrkjumaður en stundaði einnig skriftir. Hann stóð fyrir því að Guðmundi Hannessyni var reistur minnisvarði á Guðlaugsstöðum í Blöndudal 1966 í trjálundi sem garðyrkjumaðurinn hafði útbúið fyrir minnisvarðann. Á hliðstólpa við reitinn eru letraðar hendingar Páls Kolka um Guðmund Hannesson: Leitaði hugur, læknaði mund. Athöfn var helguð, hver ævinnar stund.

Páll Ásmundsson



Myndir með greininni eru frá Héraðsskjalasafninu á Blönduósi. Guðmundur
Hannesson 17 vetra og fullorðinn maður.
Leiðrétting: Í ljós hefur komið að merking seinni myndarinnar frá Héraðs-
skjalasafninu er ekki rétt. Maðurinn á myndinni er ekki Guðmundur Hannesson.


Fyrsta skurðaðgerð Guðmundar Hannessonar prófessors

Eftir Guðmund Jónsson, Blönduósi

Af öllum þeim mönnum sem ég hef kynnzt um ævina, bæði heima og erlendis, er varla nokkur þeirra sem hefur orðið mér eins minnisstæður og Guðmundur Hannesson prófessor og svo hefur sennilega fleirum farið og það þó þeir hafi komizt í kynni við fleiri og meiri menn en ég.

Guðmundur Hannesson var fæddur 9. september 1866 á Guðlaugsstöðum í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Hannes bóndi þar og kona hans Halldóra Pálsdóttir bónda á Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd. Hannes var sonur Guðmundar Arnljótssonar bónda og alþingismanns á Guðlaugsstöðum sem var einn af ágætismönnum húnvetnskrar bændastéttar á síðustu öld og forustumaður um ýmis búnaðar- og menningarmál. T. d. átti hann fyrstur manna hugmyndina að stofnuð yrðu búnaðarfélög og var einn af stofnendum fyrsta búnaðarfélags landsins.

Nokkrum árum eftir að Guðmundur Hannesson fæddist, fluttu foreldrar hans að Eiðsstöðum í sömu sveit og þar ólst Guðmundur upp. Á þessum árum voru þrír litlir Guðmundar, sem allir voru bændasynir, að alast upp í Austur-Húnavatnssýslu. Guðmundur Magnússon að Holti á Ásum, Guðmundur Björnsson að Marðarnúpi í Vatnsdal og Guðmundur Hannesson að Eiðsstöðum í Blöndudal. Allir voru þeir svo að segja jafngamlir, fæddir 1863, 1864 og 1866. Allir urðu þeir læknar og allir forustumenn í heilbrigðismálum þjóðar sinnar hver á sínu sviði. Allir voru þeir afreksmenn sem mörkuðu stærri spor í heilbrigðismálum þjóðarinnar en flestir aðrir hafa gert fyrr eða síðar. Það er mjög merkilegt, að þessir þrír jafnaldrar á þeim miklu harðindatímum, sem þá voru hér á landi og næstum því engir peningar í umferð, skyldu geta lokið námi í læknisfræði við háskólann í Kaupmannahöfn. Vitað er, að Guðmundur Hannesson átti að verða bóndi. Faðir hans var mikill bóndi og vildi að elzti sonur hans yrði bóndi og tæki við jörðinni.

En það kom fljótt í ljós, að Guðmundur hafði mikla löngun til að komast í skóla og læra meira en hann gat lært heima í sveitinni sinni. Bóndinn á Eiðsstöðum anzaði ekki slíkum órum sonar síns. Halldóra húsfreyjan á Eiðsstöðum mun hafa séð betur, hvað í syni hennar bjó, og studdi af alefli ósk hans um að komast í menntaskólann. Fyrir atbeina móður sinnar komst Guðmundur í skóla og taldi sig eiga henni allt sitt gengi að þakka. Það varð kunnugt, að Guðmundi Hannessyni hafði þótt svo vænt um móður sína, að hann bar alla ævi mikla virðingu fyrir kvenþjóðinni og kunni manna bezt að meta hvers virði góð kona er. Oft varð honum tíðrætt um góðar konur, sem hann hefði kynnzt og enginn vafi er á því, að augu hans fyrir gildi góðrar konu hafa opnast við umhugsunina um hverju ástríki móður hans fékk til leiðar komið.

Alkunnugt er, að Guðmund Hannesson langaði mest til að læra verkfræði. En hvort tveggja var, að óvíst var um atvinnumöguleika í þeirri grein hér á landi á þeim tíma og svo hitt, að námið var mjög dýrt, – ennþá dýrara en læknisfræðin. Enginn vafi er á því, að Guðmundur Hannesson hefði getið sér góðan orðstír sem verkfræðingur, því að hann var fæddur smiður og hafði alla ævi mikinn áhuga fyrir húsasmíði, mannvirkjum og hvers kyns framkvæmdum. Hann kynnti sér húsagerð og margt um verkfræði svo sem steinsteypu. Kom þetta þjóð hans að góðu gagni síðar meir, þegar hann fór að beita sér fyrir bættum híbýlaháttum í landinu og skipulagningu kaupstaða.

Guðmundur Hannesson var fátækur á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Þó tókst honum að skreppa heim, þegar hann hafði lokið fyrri hluta embættisprófs í læknisfræði. Kom hann heim til foreldra sinna í júnímánuði og dvaldi hjá þeim þangað til um haustið. En ekki var hann búinn að vera lengi heima í föðurhúsum, þegar virðulegan gest bar að garði, séra Jón Magnússon á Mælifelli í Skagafirði, einn af gáfu- og ágætismönnum prestastéttarinnar. Erindi hans var að leita til Guðmundar sem læknis, þó fjarri væri því að hann hefði lokið námi í læknisfræði. Kom þetta bæði Guðmundi og foreldrum hans á óvart, en hvort um það hefur verið rætt mikið eða lítið, fór Guðmundur með séra Jóni norður í Skagafjörð og bjargaði þar mannslífi með verkfærum, sem ég með allri virðingu fyrir hinum ágætu og vel menntuðu íslenzku læknum nútímans, efast um, að margir þeirra treystu sér til að nota til að gera með þeim samskonar skurðaðgerð, sem Guðmundur Hannesson gerði til þess að bjarga mannslífi, þegar hann var heima á Eiðsstöðum í sumarfríi á námsárum sínum.

Þegar séra Jón Magnússon var prestur á Mælifelli bjuggu foreldrar mínir á einni af jörðum prestakallsins, Stapa í Tungusveit, en þau voru Jón Þorvaldsson, er þar var fæddur og uppalinn og seinni kona hans, Guðrún Jóhannsdóttir, sem talin var laundóttir séra Björns Þorlákssonar á Höskuldsstöðum.

Stuttu eftir að foreldrar mínir giftust fékk faðir minn fótarmein, sem fór versnandi en ekki batnandi, þó hann leitaði ráða hjá fleiri en einum skottulækni eins og þá var siður að gera, þegar sýnilegt var orðið að fólk, sem var veikt, mundi ekki batna af sjálfu sér. Faðir minn leitaði líka árangurslaust til Árna Jónssonar á Glæsibæ, sem var fyrsti héraðslæknir í níunda læknishéraði Skagafjarðarsýslu, þá orðinn nokkuð við aldur og hafði aldrei verið í miklu áliti hjá Skagfirðingum. Eftir þeim upplýsingum að dæma, sem ég hef fengið um Árna lækni í Glæsibæ, hefur hann verið góður meðalalæknir, en ekki mikill skurðlæknir og er alls ekki rétt að áfella hann fyrir það, eins og vitað er að Skagfirðingar gerðu, því hann var einn af fyrstu nemendum Læknaskólans, en þar hefur kennsla í handlækningum þá verið mjög ófullkomin sökum þess, að aðstæður hafa verið slæmar til að kenna þær.

Það liðu nokkrir mánuðir frá því að faðir minn fékk fótarmeinið, þangað til það var orðið svo slæmt, að hann varð að leggjast í rúmið, en ekki hafði hann verið lengi rúmfastur, þegar öllum sem til þekktu var orðið ljóst, að hann myndi ekki komast á fætur aftur. Presturinn á MælifelIi kom öðru hvoru að Stapa til þess að vita, hvernig sjúklingnum liði. Svo kom sá dagur, þegar séra Jón kom í heimsókn og sagði við föður minn strax þegar hann var búinn að heilsa honum:

„Ég er nýbúinn að frétta það, að sonur Hannesar á Eiðsstöðum, sem er að læra læknisfræði í Kaupmannahöfn, sé kominn heim og muni verða heima í sumar. Ég ætla að skreppa vestur til þess að sækja piltinn og láta hann skoða á yður fótinn, Jón minn. Hann er útaf lánsfólki og ætti að geta gert eitthvað, sem vit væri í.“

Séra Jón fór með Guðmund Hannesson heim að Mælifelli þegar þeir komu í Skagafjörðinn og lét hann gista hjá sér um nóttina. Næsta dag kom einn af vinnumönnum prestsins, sem sendur hafði verið í Glæsibæ með Árna lækni að MælifelIi. Séra Jón hafði skriflega beðið lækninn að taka með sér verkfæri og annað, sem nota þarf, þegar gerðir væru uppskurðir. Ekki hafði læknirinn annað með sér en svæfingarmeðul, eina sáratöng og einn skurðarhníf. Þegar Guðmundur Hannesson sá hnífinn, bað hann séra Jón að lofa sér að líta á skurðarhnífa hans. Leizt honum vel á einn þeirra og var hann dreginn á, svo hann varð hárbeittur. Svo var lagt af stað til Stapa en þangað er stutt leið frá Mælifelli. Þegar Guðmundur Hannesson leit á fótinn á föður mínum, sá hann strax, að hann var allur sundurgrafinn af berklum og bæði fótliður og hnéliður orðnir mikið skemmdir. Duldist heldur ekki að faðir minn mundi deyja, ef ekki væri tekinn af honum fóturinn. Sagði hann þetta við Árna lækni í einrúmi og samsinnti hann því. Hinsvegar aftók hann með öllu að leggja út í að taka fótinn af föður mínum. Sagðist hann ekkert hafa til þess nema eina sáratöng, engan nothæfan hníf, enga sög og engar umbúðir. Auk þess hefði hann aldrei framkvæmt slíka aðgerð og neitaði með öllu að leggja út í slíkt fyrirtæki. Þótt Guðmundur Hannesson segði honum, að faðir minn hlyti þá að deyja, þá stoðaði það ekkert. Læknirinn neitaði algjörlega. Sennilega hefur Guðmundur Hannesson þá verið fljótur að ákveða það, að taka fótinn af föður mínum án þess að Árni læknir hefði nokkurn veg eða vanda af því starfi. Faðir minn var búhagur, átti þar af leiðandi dálítið af smíðatólum. Meðal þeirra fann Guðmundur Hannesson bandsög, sem hann notaði við aðgerðina, svo varð að hugsa fyrir skurðarborði, ekki var um annað að ræða en að nota baðstofuhurðina fyrir skurðarborð. Ekki var hægt að láta hana liggja á gólfinu. En Guðmundur Hannesson var þekktur smiður og séra Jón vel lagtækur, hann smíðaði orf, hrífur, ljábakka, hestajárn og fleira fyrir sjálfan sig öll þau ár, sem hann stundaði búskap. Þeim varð því ekki skotaskuld úr því að smíða það sem þurfti undir hurðina. Þegar þeir voru búnir að því, var pottur settur á hlóðir og Guðmundur fór að sjóða þau verkfæri, sem hann hafði. Loks fór hann af stað og gekk þangað sem hann fann dýjamosa og tók talsvert mikið af honum með sér, skar svo af honum ræturnar og þvoði hann vel úr sterku karbólvatni og notaði hann í stað umbúða. Engin eldavél var til í Stapa sem hægt var að dauðhreinsa umbúðir í. Nú vita menn að dýjamosi hindrar gerla- og sýklavöxt, en það vissu menn ekki þá, og er mjög merkilegt, að Guðmundi Hannessyni skyldi detta í hug að nota dýjamosa í stað umbúða.

Séra Jón tók að sér að svæfa sjúklinginn og tókst það ágætlega. Aðgerðin gekk greiðlega hjá Guðmundi án þess að nokkuð bæri út af. Dagurinn varð víst merkisdagur fyrir þá báða. Guðmundur Hannesson hafði unnið sitt fyrsta læknisverk, þó að mikið vantaði á að hann væri fulllærður, og séra Jón hafði í fyrsta sinn verið við handlæknisaðgerð, en hann mun hafa langað mikið til þess að læra læknisfræði, þó það yrði úr, að hann gengi á prestaskólann.

Þetta þótti mikið þrekvirki af ungum læknanema og flaug um alla sveitina, en Hannesi karlinum á Eiðsstöðum þótti lítið til koma og húðskammaði son sinn. Hann hefði engan rétt til að framkvæma neitt læknisverk, hvað þá að ráðast í svo mikla aðgerð, og ef illa færi, mætti refsa honum fyrir það!

Faðir minn komst til fullrar heilsu. Hann vann alla algenga sveitavinnu fram á elliár og reri stundum til fiskjar á árabátum, en aldrei eignaðist hann vandaðan tréfót, en bjargaðist við þann, sem hann smíðaði sér sjálfur.

Guðmundur Hannesson var uppi á því tímabili, sem ávallt mun talið verða mesta framfaratímabil íslenzku þjóðarinnar. Með læknisstarfi sínu, kennslu sinni við háskólann og brautryðjandastarfi sínu í húsagerð átti Guðmundur Hannesson mikinn og veglegan þátt í þessum framförum.

Það sem einkenndi Guðmund Hannesson framar öðru, var það hve vitur og fróður hann var og fullur af góðum vilja til þess að verða þjóð sinni að gagni. Þeir, sem þekktu hann, vita vel, að hann var einhver merkasti Íslendingur, sem uppi var á sínum tíma, að hann kom mörgu góðu til leiðar fyrir þjóð sína, einkum í heilbrigðismálum og húsagerðarlist, en lengi mun líka verða minnzt framlags hans til sjálfstæðisbaráttu vorrar og ekki sízt til skipulagsmála, sem fyrst voru tekin upp að frumkvæði hans.

Nú eru Húnvetningar að vinna að því að Guðmundi Hannessyni verði reistur minnisvarði á fæðingarstað hans, Guðlaugsstöðum í Blöndudal. En hvar er skurðarhnífurinn hans séra Jóns og bandsögin hans föður míns. Auðvitað, því miður, hvorttveggja týnt og tröllum gefið fyrir löngu, um það er reyndar ekkert hægt að segja. En mig dreymir um það, að gamla, fræga Nesstofan úti á Seltjarnarnesi, þar sem fyrsti lærði læknirinn á Íslandi bjó, Bjarni Pálsson landlæknir, verði gerð að sjálfseignarstofnun og þar komið fyrir sögulegu safni, er sýni uppruna og þróun læknamenntarinnar á landi voru.


„Ég er nýbúinn að frétta það, að sonur Hannesar á Eiðsstöðum, sem er að læra læknisfræði í Kaup-
mannahöfn, sé kominn heim og muni verða heima í sumar. Ég ætla að skreppa vestur til þess að
sækja piltinn og láta hann skoða á yður fótinn, Jón minn. Hann er útaf lánsfólki og ætti að geta gert
eitthvað, sem vit væri í. “Myndin er af Eiðsstöðum, tekin um 1940.

 


Guðlaugsstaðir í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu. Hér fæddist Guðmundur Hannesson en hann 
ólst upp á Eiðsstöðum sem er næsti bær fyrir innan, þar sem nú stendur Blönduvirkjun. Myndin er 
tekin 1928 af Guðmundi Ingimarssyni frá Mjóadal á Laxárdal fremri í Bólstaðarhlíðarhreppi. Torf-
bærinn stóð allt til ársins 1980 þegar hann var tekinn niður og er nú varðveittur á Árbæjarsafni fjöl 
fyrir fjöl.


Minnisvarði um Guðmund Hannesson

Í Morgunblaðinu 24. ágúst 1966 er fréttaskeyti frá Blönduósi um að Anna Guðmundsdóttir hafi afhjúpað minnisvarða um föður sinn, Guðmund Hannesson, í trjálundi á fæðingarstað hans, Guðlaugsstöðum í Blöndudal. Í fréttinni er rakin dagskráin við athöfnina: Páll Kolka talar og viðstaddir syngja „Starfið er margt en eitt er bræðrabandið“ og „Ó fögur er vor fósturjörð“. Síðan er farið í Húnaver þar sem Hulda Stefánsdóttir stýrir veislu og minnist eiginkonu Guðmundar. Á stokk stíga sr. Pétur Ingjaldsson, Jón Pálmason fyrrum ráðherra á Akri, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Hannes Pálsson búnaðarmálastjóri fyrir ættmenni Guðmundar, og að lokum þakkar Guðmundur Jónsson þeim sem lögðu honum lið við að koma minnisvarðanum upp: Kaupfélagi Húnvetninga, sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, Húnvetningafélaginu í Reykjavík, og ættingjum Guðmundar Hannessonar. Fréttinni lýkur á þessari rómantísku viðreisnaráralýsingu: „Fjölmenni mikið var við athöfnina, sem öll var hin virðulegasta. Sólskin og blíða var í Blöndudal og Húnaþingi. Höfðu margir viðstaddir á orði að aldrei hefðu þeir séð Blöndudal skarta eins dýrðlega og þennan dag. Átti það vel við þegar minnst var frægasta sonar dalsins.“

 

VS



Þetta vefsvæði byggir á Eplica