01. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Eru breytingar framundan á landslagi sjálfstætt starfandi lækna? Magnús Baldvinsson

Í gegnum árin hafa sjálfstætt starfandi læknar í Læknafélagi Reykjavíkur gert samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) eða forvera þeirrar stofnunar. Þetta hefur byggst á því að hver einstakur læknir hefur haft samning uppá ákveðin læknisverk sem tilheyra hans sérgrein. Hin síðustu ár hefur þetta þróast þannig að margir læknar hafa safnast saman, oft eftir nokkurs konar sérgreinaskiptingu í stærri stöðvar eins og Læknastöðina Glæsibæ, Læknasetrið og Orkuhúsið. Þó svo að þetta hafi gert læknum kleift að ráðfæra sig hvor við annan, innan og utan sinnar sérgreinar, og samnýta dýran tækjabúnað má segja að það sé að fullu ríkjandi einyrkjafyrirkomulag. Þetta fyrirkomulag er ekki frekar en flest önnur gallalaust.

Til dæmis má hugsa sér sjúkling sem kemur í aðgerð sem krefst svæfingar. Hann fær þá í raun rukkun frá tveimur læknum sem vinna hvor eftir sinni gjaldskrá. Reyndar getur sú staða komið upp að annar vinni eftir samningi en hinn ekki. Er þá sjúklingurinn sjúkratryggður að hluta? Við þessar aðstæður getur slík læknastöð orði hálf óvirk þegar hagsmunir læknanna, sjúklinganna og stöðvarinnar fara ekki saman. Einnig má segja að þegar SÍ gerir samning við marga einyrkja er ekki hægt að krefjast mikilla skyldna til dæmis um opnunartíma, staðsetningu og kannski nákvæmlega hvaða læknisverk er greitt fyrir.

Til eru samningar SÍ við nokkur fyrirtæki eins og Salastöðina, Röntgen Domus og fleiri. Í nýgerðum samningum SÍ við LR er opnað fyrir að fara í fleiri slíka samninga. Það verður ekki túlkað öðruvísi en að það sé vilji SÍ að gera slíkt.

Aukin þjónusta og/eða lægri kostnaður hljóta að vera hvati SÍ fyrir þessari áherslu.

Nýlega var í fréttum kynning á metnaðarfullri áætlun um uppbyggingu stærstu lækna- og heilsumiðstöðvar Íslands í fyrrum húsakynnum skemmtistaðarins Broadway. Það ber að fagna því framtaki sem er áhugavert og getur aukið möguleika lækna á að vinna utan stóru sjúkrahúsanna og hafa hugsanlega aðgengi að legudeild.

Í nágrannalöndunum er algengt að aðilar sem ekki eru læknar komi að rekstri og fjármagni einkarekna heilbrigðisþjónustu en það er nýlunda hér. Reynsla mín af því að vinna hjá slíkum fyrirtækjum í Noregi er að læknar hafa lítil áhrif og krafan um mikil afköst er rík.

Það vaknar upp sú spurning að ef ætlun SÍ er að ná hagkvæmari samningum um læknisverk hvort ekki sé hætta á að kjör lækna skerðist ef á milli þeirra og SÍ kemur þriðji aðili?



Þetta vefsvæði byggir á Eplica