09. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Engir læknar um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar? Þorbjörn Jónsson

Fyrir stuttu ritaði yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, Viðar Magnússon, opið bréf til ráðherra heilbrigðismála, landlæknis og yfirmanna Landspítalans. Þar lýsti hann áhyggjum yfir því að ekki skuli vera tiltækur læknir sem sinnt getur sérstökumbráðaútköllum utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2008 var í sparnaðarskyni hætt að manna neyðarbílinn í Reykjavík með lækni enda þótti sýnt að bráðatæknar gætu sinnt flestum þeim verkum sem læknirinn hafði sinnt fram að því. Ísérstökum bráðatilvikum átti þó áfram að vera hægt að flytja lækni frá Landspítalanum á vettvang með bíl sem keyptur hafði verið til þess verks. Þegar á þetta fyrirkomulag reyndi var hins vegar hvorki bílstjóri né læknir tiltækur. Læknarnir voru bundnir í öðrum verkum sem erfitt var fara fyrirvaralaust frá, og með tímanum varð þjálfun þeirra ekki fullnægjandi. Þetta fyrirkomulag virkaði sem sé ekki þegar til átti að taka og lagðist af.

Í bréfi sínu vekur Viðar athygli á því að sama staða kunni að koma upp á þyrlum Landhelgisgæslunnar ef hætt verður að hafa lækna reglubundið um borð í vélunum. Ef sú verður niðurstaðan verður gefinn óviðunandi afsláttur af öryggi þessarar þjónustu sem oft á tíðum er lífsnauðsynleg.

Fyrr í sumar var skýrt frá því í fjölmiðlum að búið væri að segja upp öllum þyrlulæknunum og áttu uppsagnirnar að taka gildi 1. ágúst síðastliðinn. Eftir töluverða fjölmiðlaumfjöllun var þessum uppsögnum slegið á frest, en þær taka að óbreyttu gildi um næstu áramót. Þetta er óskiljanleg ákvörðun og algerlega óásættanleg fyrir sjúka og slasaða – sjómenn á hafi úti, fólk í dreifbýli og ferðamenn, íslenska sem erlenda. Ýmsir læknar á landsbyggðinni líta á það sem nauðsynlegan öryggisþátt að geta á neyðarstundu ræst út þyrlu sem mönnuð er sérþjálfuðum lækni. Ef breyting verður á þessu er hætt við að enn erfiðara verði að fá lækna til vinnu á landsbyggðinni. Viljum við það?

Undanfarin ár hefur alltof mikið verið skorið niður í heilbrigðiskerfinu og hefur það oftar en ekki bitnað illa á starfseminni. Niðurskurðurinn hefur leitt til þess að þjónusta hefur versnað, biðlistar hafa lengst, álag á starfsfólk aukist og víða er erfitt að fá lækna til starfa. Mörgum breytingum hefur verið hrint í framkvæmd með skömmum fyrirvara og án nægilegrar fyrirhyggju. Um það getur starfsfólk heilbrigðiskerfisins vitnað. Við viljum ekki að slíkt endurtaki sig þegar kemur að læknisþjónustu í þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Frá árinu 2006 hafa Íslendingar axlað alla ábyrgð á sjúkra- og björgunarflugi með þyrlum á Íslandi. Lagt hefur verið í milljarða fjárfestingar til að kaupa eða leigja þyrlur til að halda þjónustunni úti allan sólarhringinn alla daga ársins. Árlega fara þyrlurnar í um það bil 130 björgunar- og sjúkraflug og í ákveðnum tilvikum bjargar það lífi að læknir skuli vera með í för. Árlegur rekstrarkostnaður við þyrlur gæslunnar er um 1,5 milljarðar króna. Kostnaður við að manna þyrlurnar með lækni er einungis um 30 milljónir króna á ári, eða um 2% af heildarrekstrarkostnaði, við það bætast svo rúmar 12 milljónir vegna lyfja og búnaðar. Það er vel sloppið miðað við ávinninginn og öryggið sem er af því. Það er fráleitt að ætla sér að spara þessar lágu upphæðir með því að taka læknana úr þyrlunum og fá öðrum þeirra hlutverk. Þetta er hins vegar til athugunar í heilbrigðis- og innanríkisráðuneytinu. Stundum þarf að framkvæma flókin læknisverk í sjúkra- og björgunarflugi, sem einungis er á færi sérþjálfaðra lækna að framkvæma. Aðrir hlaupa ekki í þau störf.

Þetta mál líkist því miður of mörgum málum frá liðnum árum. Það er byrjað á röngum enda. Þyrlulæknunum var sagt upp án þess að vitað væri hvað tæki við og málið þar með sett í uppnám. Farsælast er að greina vandamálin fyrst – ef um vandamál er að ræða, en það má í þessu tilviki draga í efa – og finna síðan á þeim lausn áður en órói og ótti skapast. Skorað er á ráðherra heilbrigðismála og innanríkismála að leysa þetta mál áður en frekari vandræði og skaði hlýst af. Landsmenn allir eiga það svo sannarlega skilið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica