10. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Brautryðjandi í sykursýkisrannsóknum fær Jahre-verðlaunin

Ákveðið hefur verið að sænski prófessorinn Leif Groop hljóti Anders Jahre-verðlaunin í líf- og læknisfræði árið 2012. Hann starfar við háskólann í Lundi. Leif fær verðlaunin fyrir brautryðjandi rannsóknir á tilurð og framvindu sykursýki, og sérstaklega fyrir uppgötvanir á áður óþekktum erfðaþáttum sem auka áhættuna á þessum sjúkdómaflokki.

u05-fig1
Leif Groop

Með ítarlegum faraldsfræðilegum rannsóknum hafa Leif og samstarfsfólk hans sýnt fram á að sykursýki er mun flóknari sjúkdómur en áður var talið. Hefðbundið er að flokka sykursýki í tvær gerðir, en rannsóknir Leifs hafa sýnt að um frekari undirtegundir er að ræða. Ennfremur hefur hann lýst allmörgum erfðabreytum sem nota má til að gera greiningarpróf til að kanna erfðafræðilega áhættu einstaklinga fyrir mismunandi gerðum sykursýki og veita þannig möguleika á markvissum forvörnum og meðferðarúrræðum. Uppgötvanir hans hafa vakið heimsathygli á fræðasviðinu og aukið skilning á eðli sjúkdómsins. 

Leif leiðir rannsóknasamstarf sykursýkisseturs háskólans í Lundi sem hefur fengið sérstaka styrki frá sænsku rannsóknamiðstöðinni. Nánar um rannsóknirnar: ludc.med.lu.se/.

Anders Jahre-verðlaunin til yngri vísindamanna árið 2012 hljóta prófessorarnir Tibor Harkani við Karolinsku stofnunina og Kristian Pietras við Háskólann í Lundi. Tibor fær verðlaunin fyrir rannsóknir á ákveðnum sameindum sem taka þátt í starfsemi miðtaugakerfisins og Kristian fyrir rannsóknir á stjórnunarferli blóðflæðis til æxla.

Norðmaðurinn Anders Jahre stofnaði sjóð árið 1960 sem ætlað er að efla rannsóknir í líf- og læknisfræði á Norðurlöndunum og eru verðlaunin þau stærstu í rannsóknum á þessu sviði. Háskólinn í Ósló veitir verðlaunin og er upphæðin ein milljón norskra króna. Einnig eru veitt aukaverðlaun úr sjóðnum til yngri vísindamanna. Valnefnd 5 manna með fulltrúum læknadeilda háskóla Norðurlandanna vinnur úr tilnefningum og ákveður verðlaunahafa. Læknadeild Háskóla Íslands á fulltrúa í valnefndinni. Prófessorar við læknadeildir háskólanna á Norðurlöndunum geta sent tilnefningar til formanns valnefndar sem er Harald A. Stenmark á Radiumhospitalet í Osló, sjá nánar: uio.no/english/about/facts/anders-jahre/nomination/

Jahre (1891-1982) var löglærður auðkýfingur og útgerðarmaður, þekktur fyrir hvalveiðiútgerð frá Sandefjord og vinnslu á hvalaafurðum. Hann var útnefndur heiðursdoktor fyrir stuðning sinn við vísindastörf og uppbyggingu við Óslóarháskóla.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica