06. tbl. 98. árg. 2012

Fræðigrein

Innæða krabbameinslyfjameðferð með slagæðastíflun: Árangur staðbundinnar krabbameinsmeðferðar á Íslandi

Loco-regional therapy of liver malignancy in Iceland

doi: 10.17992/lbl.2012.06.437

Ágrip

Inngangur: Innæðakrabbameinslyfjameðferð með slagæðastíflun er staðbundin krabbameinsmeðferð til að meðhöndla krabbamein í lifur. Meðferðin er líknandi en getur einnig nýst með skurðaðgerð og/eða rafbrennslu. Hún getur einnig nýst til að halda sjúklingum á lifrarígræðslulista eða niðurstiga sjúkdóminn svo þeir komist á slíkan lista. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur staðbundinnar krabbameinsmeðferðar og tíðni fylgikvilla á Íslandi.

Efni og aðferðir: Gerð var afturskyggn klínísk rannsókn sem náði til allra sem fengu innæðakrabbameinslyfjameðferð með slagæðastíflun, slagæðastíflanir og innæðakrabbameinslyfjagjafir á Íslandi frá 1. maí 2007 til 1. mars 2011. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrárkerfi og myndgeymslukerfi Landspítala.

Niðurstöður: Það hafa verið framkvæmdar 18 innæðakrabbameinslyfjameðferðir með slagæðastíflun, 6 slagæðastíflanir og tvær svæðisbundnar krabbameinslyfjameðferðir til að meðhöndla 9 sjúklinga með lifrarfrumukrabbamein og þrjá með meinvörp frá krabbalíki. Meðallifun sjúklinga með lifrarfrumukrabbamein var 15,2 mánuðir og hjá sjúklingum með krabbalíkismeinvörp 61 til 180 mánuðir. Alger svörun varð tvisvar og hlutasvörun fjórum sinnum. Sjúkdómurinn hélst stöðugur í 11 skipti en versnaði í þremur tilvikum. Minniháttar fylgikvillar greindust eftir 6 af 26 inngripum. Einu sinni kom upp meiriháttar fylgikvilli. Enginn fékk lifrarbilun sem rekja má til inngripsins. Einn sjúklingur með lifrarfrumukrabbamein var á lifrarígræðslulista fyrir meðferð og tókst að halda honum á lista fram að ígræðslu. Þá tókst að niðurstiga þrjá svo þeir komust á listann.

Ályktun: Árangur staðbundinnar krabbameinsmeðferðar er viðunandi hér á landi og eru fylgikvillar í kjölfar inngripsins innan marka.

Inngangur

Innæðakrabbameinslyfjameðferð með slagæðastíflun, IKSS (Transcatheter arterial chemoembolization, TACE), er ein tegund staðbundinnar krabbameinsmeðferðar (logo-regional therapy) og er meðferðarmöguleiki við krabbamein í lifur. Inngripið felur í sér að æðaleggur er þræddur um náraslagæð og þaðan um lifrarslagæð að þeirri slagæðagrein sem nærir æxlið. Þá er blöndu af krabbameinslyfjum, með eða án joðs í olíufasa (ethiodized oil), og æðastíflandi efnum gefið í slagæðina sem nærir krabbameinið.1 Í IKSS á Íslandi er gefið doxurubicin og mitomycin ásamt joði í olíufasa og pólývinýl-alkóhólagnir. Til eru aðrar tegundir staðbundinnar krabbameinsmeðferðar eins og innæðakrabbameinslyfjagjöf (trans-arterial chemotherapy) og slagæðastíflun (bland embolization).

Markmið IKSS er að ná háum styrk frumudrepandi krabbameinslyfja í krabbameininu og stuðla að blóðþurrð í æxlinu. Á sama tíma er magni krabbameinslyfja sem fer út í almennu blóðrásina haldið í lágmarki (mynd 1).2 IKSS er líknandi meðferð sem hefur að mark-miði að meðhöndla óskurðtæk krabbamein og meinvörp í lifur, einkum lifrarfrumukrabbamein (hepatocellular carcinoma, HCC) og meinvörp frá krabbalíki (carcinoid).3, 4 Inngripið getur einnig nýst með skurðaðgerð og rafbrennslu (radiofrequency ablation) og stuðlað að niðurstigun krabbameinsins og þar af leiðandi gert lifrarígræðslu að möguleika fyrir þessa sjúklinga.5 Þá hafa rannsóknir bent til þess að IKSS geti gagnast sjúklingum með gallgangakrabbamein (cholangiocarcinoma) og meinvörp í lifur frá briseyjaæxlum og stoðvefjaæxlum.6, 7

Ekki geta allir sjúklingar með óskurðtæk krabbamein í lifur gengist undir IKSS. Helstu frábendingar við IKSS eru léleg lifrarstarfemi (Child´s-flokkur C) með lélegu blóðflæði til lifrarinnar, illvíg sýking og ef hægt er að fjarlægja æxlið með skurðaðgerð. Einnig verður að sýna sérstaka varúð ef sjúklingur er með bilirúbín hærra en 40 mg/L, þrengsli í portæðinni, galla í blóðstorkukerfi, slag- og bláæða-æðatengingu (arteriovenous shunt) um æxlið og lifrarheilakvilla.

IKSS var fyrst lýst 1977 en um síðustu aldamót komu fram rannsóknir sem sýndu fram á betri lifun sjúklinga með lifrarfrumukrabbamein sem meðhöndlaðir voru með IKSS miðað við sjúklinga sem gengust undir hefðbundna meðferð.3, 8 Síðastliðin 15 ár hefur IKSS verið helsta meðferð við óskurðtækum krabbameinum í lifur. Í maí 2007 var gerð fyrsta slagæðastíflunin á Íslandi til að meðhöndla lifraræxli og fyrsta IKSS var gerð í október 2009. Núna gangast allir sjúklingar sem fara í staðbundna krabbameinsmeðferð til meðhöndlunar á krabbameini í lifur, undir IKSS.

Árangur IKSS og annarra staðbundinna krabbameinsmeðferða til að meðhöndla æxli í lifrinni hefur ekki verið skoðaður á Íslandi. Megintilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur staðbundinna krabbameinsmeðferða á Íslandi og skoða tíðni fylgikvilla sem koma upp í kjölfar inngripanna.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var gerð á röntgendeild Landspítala í Fossvogi og náði til allra IKSS, slagæðastíflna og innæðakrabbameinslyfjagjafa sem gerðar voru á Íslandi frá 1. maí 2007 til 1. mars 2011. Rannsóknin var afturskyggn klínísk rannsókn og voru upplýsingar fengnar úr sjúkraskrárkerfi og myndgeymslukerfi Landspítala. Rannsóknin var samþykkt af vísindasiðanefnd og Persónuvernd.

Safnað var saman upplýsingum um aldur sjúklinga, kyn, lengd innlagnar eftir inngrip og um hugsanlega lifrarsjúkdóma og áhættuþætti fyrir lifrarfrumukrabbamein. Skoðuð var stærð stærsta æxlisins í lifrinni, fjöldi æxla og samanlagt þvermál æxlisvefjar og kannað hvort kominn væri ífarandi vöxtur í æðar, eitilmeinvörp eða fjarmeinvörp. Lifun sjúklinga og tími án versnunar sjúkdóms (progession free survival) voru skilgreind frá greiningu til andláts eða frá greiningu til 1. mars 2011, þegar rannsóknartímabilinu lauk. Sjúklingunum var skipt í tvo hópa, þá sem voru með lifrarfrumukrabbamein og þá sem höfðu meinvörp í lifur frá krabbalíki. Þessi aðgreining var viðhöfð þar sem mikill munur er á hegðun þessara krabbameina, horfum sjúklinga og klínískum ábendingum. 

Sjúklingar með lifrarfrumukrabbamein voru stigaðir samkvæmt CLIP-stigunarkerfinu fyrir fyrsta inngrip sem spáir fyrir horfum sjúklinga með lifrarfrumukrabbamein.9 Lifrarstarfemi sjúklinga var metin fyrir fyrsta inngrip og svo fjórum vikum eftir hvert inngrip samkvæmt ChildPugh-skori (Child´s) og MELD- skori (Model of End-stage Liver Disease) sem spáir fyrir horfum sjúklinga með skorpulifur.10, 11 Svörun æxlisins við inngripinu var metin með segulómun (MRI) eða tölvusneiðmynd (CT) fjórum vikum eftir hvert inngrip með hliðsjón af mRECIST (tafla I).12 Til að meta árangur niðurstigunar á krabbameininu til lifrarígræðslu var miðað við hvort sjúklingar kæmust á lifrarígræðslulistann á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð (sem framkvæmir þessar aðgerðir fyrir Íslendinga) en hjá þeirri stofnun er miðað við San Francisco-viðmiðin (tafla II) til að velja sjúklinga í lifrarígræðslu.13

Fylgikvillum var skipt í meiriháttar og minniháttar fylgikvilla. Ef sjúklingur lá inni lengur en tvær nætur í kjölfar inngrips eða þurfti að leggjast aftur inn eftir útskrift voru ástæður þess skoðaðar. Ef ástæðan fyrir lengdri innlögn var æðastíflunarheilkenni (post-embolization syndrome), blæðingar á stungustað eða annað minniháttar vandamál tengt inngripinu, var það skilgreint sem minniháttar fylgikvilli. Hins vegar ef ástæðan var lifrarkýli, gallblöðrubólga, blóðsýking, varanleg lifrarbilun, lifrarnýrna-heilkenni (hepatorenal syndrome), æðastíflun í lungum eða heila eða annað sem krafðist skurðaðgerðar vegna inngripsins, var það skilgreint sem meiriháttar fylgikvilli. Jafnframt var andlát innan 30 daga frá inngripi skilgreint sem meiriháttar fylgikvilli, án tillits til orsaka.

Niðurstöður

Lifrarfrumukrabbamein

Gerðar hafa verið 16 IKSS, tvær slagæðastíflanir og tvær innæða- krabbameinslyfjagjafir til að meðhöndla 9 sjúklinga, þar af 7 karla, með lifrarfrumukrabbamein. Af þeim var einn sjúklingur með sambland af lifrarfrumu- og gallvegakrabbameini (tafla III, sjúklingur nr. 7). Sjúklingarnir voru á aldrinum 49-86 ára við greiningu og meðalaldur 66 ár. Af 9 sjúklingum voru 5 með skorpulifur. Tveir sjúklingar höfðu sögu um ofnotkun áfengis, tveir voru með langvinna lifrarbólgu C sýkingu, einn var með járngeymdarkvilla og einn með frumkominn gallskorpukvilla (primary biliary cirrhosis, PBC). Þrír sjúklinganna höfðu ekki sögu um áhættuþætti fyrir lifrarfrumukrabbameini. Heildarstærð krabbameinsæxlisins var á bilinu 5,3-20 cm í þvermál. Að meðaltali var heildarstærð æxla 9,6 cm í þvermál og miðgildi var 8,5 cm í þvermál. Meðalfjöldi æxla voru þrjú og miðgildi tvö (tafla IV). Einn sjúklingur var með svo mörg æxli að ekki var unnt að telja þau. Í því tilviki var fjöldi æxla skilgreindur sem fleiri en 10.

Lifun sjúklinga var á bilinu 5-28 mánuðir og var meðallifun 15,2 mánuðir og miðgildi lifunar 15 mánuðir. Á rannsóknartímabilinu létust tveir sjúklingar. Annar sjúklingurinn hafði gengist undir eina IKSS en hinn undir eina slagæðarstíflun. Þannig voru 7 sjúklingar með lifrarfrumukrabbamein, sem gengist hafa undir inngripin, á lífi 1. mars 2011. Tími án versnunar sjúkdóms var á bilinu 0-28 mánuðir og að meðaltali 11,4 mánuðir og miðgildi 10 mánuðir. Af 7 sjúklingum hafa tveir sýnt merki um versnun á sjúkdómnum.

Tvisvar varð alger svörun samkvæmt mRECIST og fjórum sinnum varð svörun að hluta til. Sjúkdómurinn hélst stöðugur í 9 tilvikum en í tveimur tilvikum hélt sjúkdómurinn áfram að versna eftir inngrip (tafla V). Sumir sjúklingar eru taldir tvisvar í þessum gögnum þar sem þeir fengu bæði svörun eftir meðferð og síðar meir átti sér stað versnun á sjúkdómnun. Að meðaltali minnkaði þvermál æxlanna um 1,2 cm.

Child´s-flokkunin hélst óbreytt, annaðhvort sem A eða B, í 15 tilfellum. Í eitt skipti mældist lifrarstarfsemi betri þegar sjúklingur fór úr Child´s-flokki B í flokk A í kjölfar IKSS. Í einu tilviki versnaði lifrarstarfsemin úr Child´s-flokki A í flokk B í kjölfar IKSS og rafbrennslu. Óvíst er hvort um var að ræða varanlega versnun á lifrarstarfsemi þar sem sjúklingurinn fór í lifrarígræðslu tveimur vikum eftir blóðsýnatöku. Child´s-skorið var óþekkt í þremur tilvikum. MELD-skorið breyttist lítið og var meðaltal og miðgildi þess 8 eftir inngripin. Það var á bilinu 6-9 eftir 11 inngrip og í kjölfar 6 inngripa var MELD-skorið á bilinu 10-13. MELD-skorið var óþekkt í þremur tilvikum.


Meinvörp frá krabbalíki

Á rannsóknartímabilinu voru gerðar tvær IKSS og fjórar slagæðar-stíflanir til að meðhöndla þrjá sjúklinga með meinvörp í lifur frá krabbalíki, þar af tvo karla (tafla III, sjúklingar nr. 10-12). Aldur sjúklinga var 54, 58 og 62 ár. Lifun sjúklinganna sem undirgengust IKSS var 61, 156 og 180 mánuðir. Í töflu VI er yfirlit yfir æxlissvörun krabbalíkismeinvarpanna. Einn sjúklingur með krabbalíki lést á rannsóknartímabilinu vegna hjartabilunar. Allir sjúklingar með meinvörp í lifur frá krabbalíki voru á sómatóstatín-hliðstæðu til að meðhöndla einkenni vegna krabbalíkisheilkennis. Einn sjúklingur hafði áður verið meðhöndlaður í Svíþjóð með geislavirkri sómatóstatín-hliðstæðu. Helsta markmið inngripanna var að draga úr krabbalíkisheilkenni. Samkvæmt sjúkraskrám dró úr einkennum krabbalíkisheilkennis í kjölfar 5 af 6 inngripum.


Fylgikvillar

Miðgildi innlagnartíma voru tvær nætur. Í 6 tilvikum lá sjúklingur lengur en tvær nætur inni á Landspítala. Í einu tilviki var það vegna tímabundinnar versnunar á krabbalíkisheilkenni og í 5 tilvikum vegna æðastíflunarheilkennis. Að auki var í einu tilviki valhjartaþræðing ástæða fyrir lengdri innlögn og það er ekki skilgreint sem fylgikvilli. Auk þess lagðist einn sjúklingur aftur inn vegna æðastíflunarheilkennis eftir að hafa verið útskrifaður. Af 26 inngripum hafa minniháttar fylgikvillar átt sér stað í 6 tilvikum, þar af varð einn sjúklingur tvisvar fyrir minniháttar fylgikvilla. Einn sjúklingur lést 15 dögum eftir að hafa gengist undir slagæðastíflun. Þessi sjúklingur var með lokastigs hjartabilun og dreifðan krabbalíkissjúkdóm. Samkvæmt sjúkraskrám var dánarorsök hjartabilun og ekki talin vera bein afleiðing inngripsins. Þrátt fyrir það er þetta tilvik skilgreint sem meiriháttar fylgikvilli.

Umræða

Eldri rannsóknir hafa gefið til kynna að íslenskir áfengissjúklingar og aðrir sjúklingar með lifrarsjúkdóma greinist á fyrri stigum en þekkist hjá svipuðum hópum erlendis.14, 15 Því er hugsanlegt að hlutfallslega fleiri sjúklingar á Íslandi hafi nógu góða lifrarstarfsemi við greiningu til að gangast undir IKSS en sjúklingar erlendis. Ekkert bendir til að verið sé að ofmeðhöndla þessa sjúklinga. Allir sjúklingarnir voru með nokkuð góða lifrarstarfsemi (Child´s-flokkur A eða B) og enginn var stigaður hærra en á 2. stigi CLIP-stigunarkerfisins. Hjá tveimur sjúklingum var sjúkdómurinn langt genginn þegar þeir gengust undir inngripin. Annar var kominn með meinvörp í eitla og íferð í æðar, hinn var með fleiri en 10 æxlishnúta í lifur og samtals með 20 cm æxlisvef í þvermál þegar hann gekkst undir slagæðastíflun. Í þessum tilvikum virðist óljóst hvort ávinningur sjúklinganna vegi þyngra en áhættan sem felst í inngripunum. Hins vegar voru báðir sjúklingarnir með viðunandi lifrarstarfsemi samkvæmt Child´s- og MELD-skori og inngripin því talin vera besti kostur sjúklinganna. Lifrarstarfsemi hélst óbreytt í kjölfar inngripanna og ekkert bendir til þess að þeir hafi orðið fyrir skaða sem rekja má til inngripanna. Ljóst er að sjúklingur með útbreiddan sjúkdóm hefur minni ávinning af IKSS en sjúklingur með staðbundnari sjúkdóm. Hins vegar er erfitt að meta hvenær áhættan fer að vega meira en ávinningurinn. Í raun þarf að skoða hvert tilfelli fyrir sig og hafa sjúklinginn með í ráðum.

Horfur sjúklinga með óskurðtæk lifrarfrumukrabbamein eru um 8 mánuðir án meðferðar.16 Í lok rannsóknartímabilsins var meðallifun sjúklinganna 15,2 mánuðir, en þá voru tveir af 9 sjúklingum látnir. Því er augljóst að meðallifun á eftir að batna með tímanum. Meðaltími án versnunar sjúkdóms var 11,4 mánuðir og af þeim 7 sjúklingum sem eru enn á lífi hafa 5 engin merki um versnun sjúkdómsins. Þetta bendir til þess að inngripin séu að bæta lifun þessara sjúklinga. 

Einn sjúklingur með lifrarfrumukrabbamein var á lifrarígræðslulistanum fyrir inngrip. Þá niðurstiguðust þrír af 8 sjúklingum sem ekki voru á lifrarígræðslulista fyrir inngrip (38%). Mjög mismunandi er hversu hátt hlutfall sjúklinga tekst að niðurstiga þegar rýnt er í erlendar niðurstöður og var tíðni niðurstigunar allt að 70,5%.17 En hafa ber í huga að sjúklingar voru sérvaldir inn í þá rannsókn og því ólíku saman að jafna. Þó má segja að árangurinn á Íslandi sé góður, þar sem enginn sjúklinganna sem niðurstiguðust hefðu verið valdir inn í þá rannsókn. Einn sjúklingur sem hafði niðurstigast greindist með vaxandi sjúkdóm og féll af listanum þar sem fjöldi æxla í lifrinni jókst. Alls hafa því þrír sjúklingar með lifrarfrumukrabbamein farið í lifrarígræðslu eftir að hafa gengist undir inngrip. Hjá einum þeirra greindist endurkoma á æxli í lifrinni 19 mánuðum eftir lifrarígræðsluna. Tíðni endurkomu lifrarfrumukrabbameins eftir lifrarígræðslu er breytileg eftir rannsóknum en jafnvel þegar notast er við ströngustu skilyrði í vali á sjúklingum í ígræðslu er tíðni endurkomu 10% eftir 5 ár.18

Alger svörun varð tvisvar og hlutasvörun fjórum sinnum í kjölfar inngripanna hjá sjúklingum með lifrarfrumukrabbamein. Sjúkdómurinn hélst stöðugur í 9 tilvikum en tvisvar versnaði sjúkdómurinn eftir inngripin. Alger svörun eða hlutasvörun varð því í 35% tilvika og er það í samræmi við árangur sem birst hefur í erlendum rannsóknum.19

Lifrarstarfsemin hélst óbreytt í flestum tilvikum. Í einu tilviki versnaði lifrarstarfsemin þannig að sjúklingurinn fór úr Child´s- flokki A í flokk B í kjölfar IKSS og rafbrennslu. Sjúklingurinn var kominn á lifrarígræðslulistann og þess vegna ákveðið að gera meðferðina ágengari en ella svo að hann myndi ekki falla af listanum. Rúmum einum og hálfum mánuði eftir IKSS og rafbrennsluna fór sjúklingurinn í lifrarígræðslu. Í sumum tilvikum tekur meira en fjórar vikur fyrir lifrina að jafna sig eftir inngrip og því óvíst hvort um varanlega versnun á lifrarstarfsemi var að ræða. Ekki er talið að sjúklingar sem gengist hafa undir inngripin hafi orðið fyrir varanlegri skerðingu á lifrarstarfsemi eða farið í lifrarbilun sem rekja má til inngripanna.

Í flestum tilvikum dró úr krabbalíkisheilkennum hjá sjúklingum með meinvörp í lifur frá krabbalíki í kjölfar inngripanna. Hins vegar er ekki vitað hversu mikið dró úr einkennunum eða hversu lengi áhrif inngripanna vöruðu. Í erlendum rannsóknum dregur úr  krabbalíkisheilkennum í allt að 60% til 95% tilvika í kjölfar IKSS og slagæðastíflana. Þá sést bætt lifun hjá sjúklingum sem gangast undir IKSS.20 Lifun sjúklinga með meinvörp frá krabbalíki var 61, 156 og 180 mánuðir frá greiningu. Krabbalíki vaxa mun hægar en lifrarfrumukrabbamein og horfur sjúklingsins almennt mun betri. Sjúklingarnir voru búnir að lifa með sjúkdóminn í nokkur ár áður en þeir gengust undir inngripin og því óljóst hvaða áhrif inngripin hafa átt í lifun þeirra.

Við 26 inngrip komu upp minniháttar fylgikvillar í 6 tilvikum (27%). Í einu tilviki var það vegna tímabundinnar versnunar á krabbalíkisheilkenni en vegna æðastíflunarheilkennis í 5 tilvikum. Erfitt er að bera saman tíðni fylgikvilla á Íslandi og erlendis þar sem ekki eru til margar rannsóknir yfir tíðni fylgikvilla. Í ítalskri rannsókn var tíðni fylgikvilla 9,1%.21 Í rannsókninni var æðastíflunarheilkenni ekki skilgreint sem fylgikvilli en tekið fram að 75% sjúklinga hefðu fengið æðastíflunarheilkenni eftir inngrip.  Skráning einkenna var oftast ekki nákvæm í sjúkraskrám Landspítala í kjölfar inngripanna. Æðastíflunarheilkenni gengur yfirleitt yfir á einum til tveim dögum. Af þessum sökum var ákveðið að miða fylgikvilla við lengda innlögn og endurinnlögn og ástæður í hverju tilfelli skoðaðar. Með þessari aðferð næst raunsæ sýn á tíðni klínískt mikilvægra fylgikvilla í kjölfar inngripanna. Í einu tilviki kom upp meiriháttar fylgikvilli þegar sjúklingur með meinvörp frá krabbalíki lést 15 dögum eftir slagæðastíflun. Dánarorsök var talin vera hjartabilun og ekki rakin til inngripsins en sjúklingurinn hafði sögu um hjartasjúkdóm.

Helstu vankantar þessarar rannsóknar eru fáir sjúklingar með stuttan eftirfylgnitíma. Hins vegar væri forvitnilegt að sjá hvernig þessum sjúklingum reiðir af með tímanum og hver árangur IKSS verður þegar fleiri hafa gengist undir inngripin. Þess vegna væri forvitnilegt að endurtaka rannsóknina að nokkrum tíma liðnum. Helstu kostir rannsóknarinnar er að vitað er um afdrif allra sjúklinganna og eftirfylgni 100%. Að auki eru til myndgreiningarannsóknir eftir flest inngripin.

Lokaorð

Árangur staðbundinnar krabbameinsmeðferðar á Íslandi var viðunandi og var tíðni minniháttar og meiriháttar fylgikvilla innan ásættanlegra marka. Meðallifun sjúklinga með lifrarfrumukrabbamein var 15,2 mánuðir og þrír af 8 niðurstiguðust og komust á lifrarígræðslulistann. Inngripin virtust ekki hafa valdið varanlegri skerðingu á lifrarstarfsemi eða valdið sjúklingnum skaða að öðru leyti. Hugsanlega væri hægt að rekja góðan árangur staðbundinnar krabbameinsmeðferðar á Íslandi til betri lifrarstarfsemi hjá íslenskum sjúklingum með lifrarfrumukrabbamein miðað við það sem sést í erlendum rannsóknum. Þessi rannsókn bendir til þess að öruggt sé að gera IKSS á Landspítala, sem sparar fjármuni og minnkar óhagræði fyrir sjúklinga sem ella þyrftu að fara í þessa sérhæfðu meðferð erlendis.


Heimildir

  1. Brown DB, Gould JE, Gervais DA, Goldberg SN, Murthy R, Millward SF, et al. Transcatheter therapy for hepatic malignancy: standardization of terminology and reporting criteria. J Vasc Interv Radiol 2007; 18: 1469-78.
  2. Stuart K. Chemoembolization in the management of liver tumors. Oncologist 2003; 8: 425-37.
  3. Llovet JM, Real MI, Montana X, Planas R, Coll S, Aponte J, et al. Arterial embolisation or chemoembolisation versus symptomatic treatment in patients with unresectable hepatocellular carcinoma: a randomised controlled trial. Lancet 2002; 359: 1734-9.
  4. Liapi E, Geschwind JF, Vossen JA, Buijs M, Georgiades CS, Bluemke DA, et al. Functional MRI evaluation of tumor response in patients with neuroendocrine hepatic metastasis treated with transcatheter arterial chemoembolization. AJR Am J Roentgenol 2008; 190: 67-73.
  5. Llovet JM, Burroughs A, Bruix J. Hepatocellular carcinoma. Lancet 2003; 362: 1907-17.
  6. Burger I, Hong K, Schulick R, Georgiades C, Thuluvath P, Choti M, et al. Transcatheter arterial chemoembolization in unresectable cholangiocarcinoma: initial experience in a single institution. J Vasc Interv Radiol 2005; 16: 353-61.
  7. Sullivan KL. Hepatic artery chemoembolization. Semin Oncol 2002; 29: 145-51.
  8. Yamada R, Sato M, Kawabata M, Nakatsuka H, Nakamura K, Takashima S. Hepatic artery embolization in 120 patients with unresectable hepatoma. Radiology 1983; 148: 397-401.
  9. A new prognostic system for hepatocellular carcinoma: a retrospective study of 435 patients: the Cancer of the Liver Italian Program (CLIP) investigators. Hepatology 1998; 28: 751-5.
  10. Kamath PS, Kim WR. The model for end-stage liver disease (MELD). Hepatology 2007; 45: 797-805.
  11. Pugh RN, Murray-Lyon IM, Dawson JL, Pietroni MC, Williams R. Transection of the oesophagus for bleeding oesophageal varices. Br J Surg 1973; 60: 646-9.
  12. Lencioni R, Llovet JM. Modified RECIST (mRECIST) assessment for hepatocellular carcinoma. Semin Liver Dis 2010; 30: 52-60.
  13. Bruix J, Sherman M. Management of hepatocellular carcinoma: An update. Hepatology 2011; 53: 1020-2.
  14. Palsson PS, Jonasson JG, Olafsson S. Lifrarbólga C: Rannsókn á vefjameinafræði og tengslum við klíníska þætti. Læknablaðið 2008; 94: 13-7.
  15. Ludviksdottir D, Skulason H, Jakobsson F, Thorisdottir A, Cariglia N, Magnusson B, et al. Skorpulifur á Íslandi. Faraldsfræðileg rannsókn. Læknablaðið 1996; 82: 836-44.
  16. Schafer DF, Sorrell MF. Hepatocellular carcinoma. Lancet 1999; 353: 1253-7.
  17. Yao FY, Kerlan RK, Jr., Hirose R, Davern TJ, 3rd, Bass NM, Feng S, et al. Excellent outcome following down-staging of hepatocellular carcinoma prior to liver transplantation: an intention-to-treat analysis. Hepatology 2008; 48: 819-27.
  18. Bruix J, Sherman M. Management of hepatocellular carcinoma. Hepatology 2005; 42: 1208-36.
  19. Llovet JM, Bruix J. Systematic review of randomized trials for unresectable hepatocellular carcinoma: Chemoembolization improves survival. Hepatology 2003; 37: 429-42.
  20. Vogl TJ, Naguib NN, Zangos S, Eichler K, Hedayati A, Nour-Eldin NE. Liver metastases of neuroendocrine carcinomas: interventional treatment via transarterial embolization, chemoembolization and thermal ablation. Eur J Radiol 2009; 72: 517-28.
  21. Poggi G, Pozzi E, Riccardi A, Tonini S, Montagna B, Quaretti P, et al. Complications of image-guided transcatheter hepatic chemoembolization of primary and secondary tumours of the liver. Anticancer Res 2010; 30: 5159-64.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica