04. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Mynd frá árinu 1967

u08-fig1
Á myndinni er Sigurður Samúelsson að tala við Þóri Helgason sérfræðing,
Þorsteinn Svörfuður Stefánsson deildarlæknir hlýðir á.


Sigurður varð prófessor í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands árið 1954 og yfirlæknir á lyflækningadeild Landspítala. Á efri árum skrifaði hann um sjúkdóma fornmanna í Íslendingasögum.

Þórir stofnaði göngudeild sykursjúkra við Landspítala árið 1974. Hann þótti afburða kennari í klínískri skoðun. Hann var kröfuharður við sjúklinga sem mátu hann mikils. Hann notaði 1000 hitaeiningalista við megrun og sagt var að sjúklingar hans á göngudeild hefðu lést um meira en eitt og hálft tonn (óstaðfest).

Þorsteinn Svörfuður varð yfirlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans árið 1991. Hann öðlaðist alþjóðleg dómararéttindi á golfmótum og stundar nú nám í latínu og grísku við HÍ.

Sigurður Samúelsson innleiddi áherslur á forvarnir við kransæðasjúkdóma. Ég sá hann (1963-64) uppljómaðan í kennslustund í lyflæknisfræði, nýkominn frá þingi hjartalækna í Bandaríkjunum. Þar var fjallað um nýjar uppgötvanir um kransæðakölkun fallinna hermanna í Kóreu og skorin var upp herör til að draga úr fituneyslu, reykingum og háþrýstingi.

Sigurður kvaddi saman ákveðinn og framtaksaman hóp manna sem stofnuðu samtök og öfluðu fjár um land allt. Hann uppskar mikla andstöðu, einkum frá talsmönnum landbúnaðarins. Þessi nýja þekking varð Sigurði sá hvati, sem leiddi til stofnunar Hjartaverndar og þótt margir legðu hönd á plóg skipti framganga Sigurðar ótvírætt mestu máli.

Sigurður var ekki góður ræðumaður og þótti einstrengingslegur. Kollegar sumir höfðu í flimtingum svör hans og viðbrögð. Hann var vel kynntur og var valinn í heiðurssæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Á mínum aldri er oft hægt að sjá menn og málefni skýrar en áður. Við mér blasir nú ótrúlega kröftugur áhugi Sigurðar á forvörnum við kransæðasjúkdómum byggðum á vísindalegum grunni. Árangurinn varð Hjartavernd.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica